Bjarmi - 01.10.2021, Qupperneq 37
bjarmi | október 2021 | 37
áfram: „Ég er svo spennt yfir að hann skuli
hafa komið. Ég vissi ekki að hann væri
svona. Hvers vegna sögðuð þið mér ekki
frá því?“ Ég áttaði mig á því að hún hafði
lesið það sem bent var á og tekið undir
bænina við allar máltíðirnar.
Svo leit hún á mig og sagði: „Þú sagðir
mér ekki frá eldinum.“ Ég var ekki viss um
hvað ég átti að halda miðað við það sem
hún hafði sagt okkur um nýaldarbakgrunn
sinn og fikt við eiturlyf. „Þið sögðuð mér
ekki að Guð búi yfir eldi og að hann geti
beint þessum eldi að þér svo að þú getir
logað fyrir hann og þegar þú hittir annað
fólk þá getur eldurinn sem hann hefur
tendrað í þér snert við öðru fólki svo það
geti einnig farið að brenna fyrir hann.“
Gott svo langt sem það náði. Þetta
var ekki alveg eins og ég hefði orðað það
en orðin komu frá hjartanu. Hún hafði
einfaldlega mætt Guði sem hafði tendrað
þetta í henni og hún tjáði þetta eins og hún
skildi það.
Daphne og ég þurftum að fara út síðar
en þegar við snérum aftur síðdegis kom
hún þjótandi til að hitta okkur, uppfull af
nýjum fréttum. „Ég er hrædd um að það
hafi gengið dálítið á meðan þið voruð í
burtu og ég veit ekki hvort það er í lagi.“
Aftur brá mér mikið en enn og aftur gufuðu
áhyggjur mínar af andlegum ruglingi upp
eftir því sem leið á frásögn hennar.
Hún hafði ákveðið að ganga til næsta
smábæjar, Newport, sex til sjö km göngu.
Á leiðinni sá hún mann koma gangandi
í áttina til sín. Þegar hún horfði á hann
fannst henni Guð tala til sín og hún sagði
við manninn: „Afsakaðu, ég veit að þú
þekkir mig ekki en Guð hefur sagt að hann
hafi heyrt bænir þínar og þú þurfir ekki
að hafa áhyggjur því hann svarar bænum
þínum.“ Hann horfði á hana og brast í grát.
Þegar hann þurrkaði tárin spurði hann
hana hvort hún væri engill eða mannvera
og hún fullvissaði hann um að hún væri
venjuleg kona. Síðan sagði hann henni að
um morguninn hefði hann hrópað til Guðs
í örvæntingu og beðið hann að sýna að
hann hefði heyrt með því að senda engil til
að segja sér það.
En það var meira. Hún fór síðar inn
í krána í bænum til að fá sér eitthvað að
borða í hádeginu vegna þess að þangað
var henni eðlilegast að leggja leið sína í sinni
menningu. Einn af yngri viðskiptavinunum
þekkti hana. Hann fylgdist með henni um
stund en kom síðan til hennar og sagði:
„Þú ert ekki sú sem ég þekki. Þú hefur
eigast það sem ég hef alltaf viljað öðlast.
Hvað er það? Og hvernig get ég fengið
það?“
Án þess að vita alveg hvað hún átti
að segja, sagði hún honum að hann þyrfti
að fara til FfaldyBrenin og tala við okkur.
Hann var með bíl svo hann ók henni aftur
á kyrrðarsetrið. En af því að við vorum
ekki þar þá fór hún með hann í kapelluna.
Þegar þau fóru þar inn kom Heilagur andi
yfir hann og í nokkrar klukkustundir grét
hann án afláts.
Þegar við Daphne komum aftur var
hann farinn en hann kom aftur nokkrum
dögum síðar. Hann heilsaði mér innilega
með handabandi. Hann hafði misskilið
vinkonu sína dálítið og var sannfærður um
að ég væri faðir Brendan (sbr. sæfarann
mikla á 6. öld). (Stundum nær fólk þessu
ekki rétt og skilur „FfaldyBrenin“ sem
„Faðir Brendan“. Ég kem því venjulega
í réttan skilning með því að kynna konu
mína sem „Móður Brendan!“)
Þegar þessi misskilningur var úr
sögunni hélt hann áfram: „Ég vil þakka
ykkur. Ég vil segja: blessa þig. Ég kom og
dvaldi um tíma í kapellunni ykkar og Guð
kom og gerði eitthvað í lífi mínu. Ég vil bara
þakka ykkur. Ég er ekki sá sami, ég verð
aldrei sá sami, Guð blessi þig.“ Margt fólk
sem Guð snertir vill blessa aðra. Það hefur
fundið kjarna þess sem Guð er að gera á
meðal manna.
Ég lærði brátt heilmikið um sögu
kristninnar hér í Pembrokeskíri.
Snemma á sjöttu öld kom kristinn Íri,
Brynach að nafni, til Milford Haven og
byrjað var að vinna heiðna íbúa svæðisins
til trúar. Hann kom á fót öðru samfélagi
í Haverfordwest áður en hann flutti til
Gwaundals (Cwm Gwaun, mýrdalur) hér
neðan við FfaldyBrenin. Hann spurði
litla samfélagið, sem átti heima við ána
(Afon Gwaun, mýraá) hvort hann mætti fá
landskika og búa á meðal fólksins. Hann
átti ekki sjö dagana sæla vegna fjölkynngi
og heiðindóms sem tilheyrði lífinu í dalnum.
Það eru fimmtán hundruð ár síðan
Brynach gerði sér að venju að klífa hæðina
sem FfaldyBrenin stendur á og allt upp á
klettana á brúninni þar sem hann bað fyrir
byggðinni. Bænir hans voru svo sérstakar
og heitar að fólk í dalnum fór að skynja
þessa hlíð sem „helgan stað“. Því var trúað
að þegar hann bæði þá kæmu englar og
styrktu hann og nærvera Guðs birtist hjá
honum í hlíðinni. Hlíðin varð þekkt sem
Carn Ingli – englahæð. Hér í FfaldyBrenin
erum við arftakar merkilegrar andlegrar
sögu.
Þegar ég ræddi við fólk um Wales,
vakningu og návist Guðs varð ég var við
sérstök velsk tengsl við landið. Hvenær
sem Guð lætur til sín taka í Wales þá
kemur landið einhvern veginn við sögu.
Á okkar dögum er að finna margt fólk
víða í Wales sem talar af mikilli alvöru og
innileika um síðustu þjóðarvakningu á
árunum 1904´05. Það eru dæmi um að
Guð hafi látið til sín taka með öflugum
vakningum á svæðum í Wales síðan þá.
En svo virðist sem vakningin í Wales 1904
´05 hafi verið stöðvuð áður en hún náði að
renna sitt skeið og að söngur til Guðs sé
enn einhvern veginn grafinn í landið og bíði
þess að vera leystur út. Hvað merkir þetta?