Bjarmi - 01.10.2021, Síða 40
| bjarmi | október 202140
skoðuð sem vandamál en þekkt er frá
meginlandinu.
„Tvöföld klaustur“ voru ekki óalgeng
þ.e. með bæði munkum og nunnum og þá
ekki síður undir stjórn konu. Klaustrafólk
bjó gjarnan í litlum tveggja manna kofum á
svæði klaustursins en með sameiginlegan
matsal. Munkar ferðuðust oft tveir saman
og veittu þá hvor öðrum andlega fylgd og
aðhald á vegi trúarinnar. Út frá andlegri
fylgd (spiritual direction) meðal kelta
(anamcara) þróuðust skriftirnar síðar á
meginlandi Evrópu.
Hér verður látið hjá líða að fjalla nánar um
hinn merka þátt Íra í að endurkristna stór
svæði á meginlandi Evrópu og að varðveita
forna mennta og menningarhefð. Hvernig
þeir gátu auðveldlega stofnað klaustur á
meginlandinu og sinnt þar kirkjulegu starfi
ber því vitni að þeir voru hluti af hinni almennu
kirkju og boðuðu sama fagnaðarerindi og
aðrir þrátt fyrir sín sérkenni.
Það verður einnig látið ógert að fjalla um
merkilega hefð pílagrímaferða, ekki síst
sjóferða. Þar gætti áhrifa frá klaustrafólki
fyrir botni Miðjarðarhafsins sem hélt út í
eyðimörkina í trúarlegum tilgangi. Hliðstæðu
slíkra „eyðimarka“ var leitað á afskekktum
útskögum eða fjarlægum eyjum.
SAMHENGI VIÐ UMHVERFI OG
ELDRI HEFÐIR
Helgi staða og ýmissa náttúrufyrirbæra
og helgun rýma og svæða eru miðlæg í
keltneskum hefðum. Þessu skyld er elskan
að átthögunum og ættfólki. Jafnframt
er virðingin fyrir náttúrunni sem sköpun
Guðs áberandi þáttur keltneskrar hefðar.
Áherslan á heilaga þrenningu féll vel að
þessari hugsun. Sumt af þessu kann að
hafa einhverjar tengingar við eldri trúarhefðir
en um margt má finna hliðstæður víðar í
kristninni. Fyrir tíma háskólaguðfræðinnar
var ekki óalgengt að fjallað væri um að
náttúran hefði sakramentislegt gildi.
Upplýsingin leysti svo manninn undan
ábyrgð gagnvart Guði hvað snerti umgengni
við náttúruna.
Þekkt er hve friðsamlega kristni tók
við af gömlum keltneskum trúarbrögðum.
Sumir helgistaðir, svo sem Tara og
Armagh, bjuggu að fornri helgi sem þá
var túlkuð að einhverju leyti á nýjan hátt.
Árnar á Írlandi voru forðum guðdómar
og fornir helgir brunnar héldu í einhverjum
tilfellum helgi í kristni með nýrri tileinkun
eða túlkun. Í þessu samhengi verður
hugsað til Guðmundar biskups Arasonar
og atorku hans við að helga vatnsból vítt
og breitt um Ísland samkvæmt því sem
sögur og örnefni vitna um.
Því hefur verið haldið fram að kristni
á Írlandi hafi í upphafi að einhverju leyti
tekið við fornum fræðsluhefðum drúída
(fornírska, drui, fleirt. druid) og barda sem
hafi verið fylltar nýju innihaldi og þróaðar
áfram. Heimildir um þessar stéttir eða
hópa eru þó fremur ungar og ótraustar
svo erfitt er að fullyrða nokkuð í þessa
veru.
RÓMVERSKA HEFÐIN SÆKIR Á
Þegar fjallað er um átök við rómversku
hefðina er gjarnan vitnað til samþykktar
kirkjuþingsins í Whitby (nú í Norður
Jórvíkurskíri) í þáverandi konungdæmi
Norðymbralands árið 664. Þá urðu
fulltrúar keltnesku hefðarinnar að beygja
sig undir þá rómversku á meginlandinu
hvað snerti tímasetningu páskanna og
krúnurakstur munka. Þessi samþykkt var
þó fyrst og fremst svæðisbundin (kirkjan
sem tengdist Lindisfarne) og snerti fremur
form en grundvallaratriði kirkjuskipanar og
trúarhátta.
Það sem lesa má um keltneska kristni
í annars nær sígildri kirkjusögu Magnúsar
Jónssonar prófessors verður nú að teljast
úrelt: „Þetta þing var haldið í Whitby árið
664, og var þar samþykkt, að taka kaþólska
trú. […] Í lok aldarinnar gekk írska kirkjan
undir katólsku kirkjuna, og á 8. öld þær
kirkjur, sem eftir voru á Bretlandi.“
Írska kirkjan var frá upphafi hluti hinnar
almennu (kaþólsku) kirkju og það er raunar
ekki fyrr en á 12. öld sem hún gengst
endanlega undir rómverska skipulagið á
kirkjuþinginu í Kells árið 1152.
Árið 664 hafði raunar meira en
helmingur írskra kirkna, þ.e. SuðurÍrland,
þegar fallist á rómverska tímasetningu
páska og krúnurakstur. Síðasta vígi gömlu
páskatímasetningarinnar og keltneska
krúnurakstursins mun hafa verið á Iona
og allt til um 718.
UMSKIPTIN Á ÍRLANDI
Umskiptin í kirkjunni á Írlandi til hátta
meginlandsins voru langt og flókið ferli
sem stjórnaðist ekki aðeins af ytri þrýstingi
heldur einnig innri þróun.
Árið 1074 báðu leiðandi menn
kirkjunnar í Dyflinnarskíri erkibiskupinn
af Kantaraborg að vígja biskupsefni sitt.
Einhver aðdragandi mun hafa verið að
þessum atburði sem opnaði fyrir áhrif
ensku kirkjunnar á þessu norskírska
svæði sem náði suður fyrir Dyflinni.
Kirkjuþing marka áfanga á þessari
vegferð en misjafnlega gekk að koma
samþykktum þeirra í framkvæmd. Þing í
Cashel árið 1101 er talið fyrsta meiri háttar
skrefið í átt til þess að koma kirkjunni á
Írlandi undir reglur meginlandsins. Áhersla
á einlífi presta og að fólk mætti ekki giftast
og skilja án afskipta kirkjunnar fékk þó lítinn
framgang. Meiri árangur virðist hafa náðst
með kröfunni um skírlífi ábóta.
Næsta skref var kirkjuþingið í Ráith
Bressail (Rathbreasail) árið 1111 undir
forsæti framandi manns (AngloNorman)
sem hafði verið skipaður biskup í Limerick.
Þarna var gengið frá því að heildarskipulag
kirkjunnar á Írlandi væri bundið við
afmörkuð landsvæði, tvö erkibiskupsdæmi
með 12 biskupsdæmum hvort.
Lykilmaður í mikilli uppstokkun í
kirkjunni á Írlandi á 12. öld er kallaður
Malachy (10941148). Hann gegndi
ýmsum mikilvægum áhrifastöðum í
kirkjunni og fékk skýrt umboð frá páfanum.
Hann varð góðvinur Bernhards frá
Clairvaux og lést raunar í Clairvaux á leið
til Rómar. Árið 1142 stofnaði Malachy
klaustur í Mellifont af reglu sistersíana en
þar var um að ræða fyrstu kynningu á
Írlandi á klausturreglum meginlandsins.
Þessi regla varð mjög áhrifamikil á Írlandi
en hún var einkar andsnúin allri aðlögun að
írskum hefðum.