Bjarmi

Volume

Bjarmi - 01.10.2021, Page 46

Bjarmi - 01.10.2021, Page 46
| bjarmi | október 202146 Fagnaðarerindið hljómar í Pakistan RAGNAR GUNNARSSON Fyrir um það bil þremur árum fékk Andrew Hart, sem á þeim tíma vann fyrir Sat7, kristilegt gervihnattasjónvarp í Norður­ Afríku og Mið­Austurlöndum, köllun til að gera eitthvað svipað fyrir Pakistan. Sat7 sendir út á fimm rásum og þremur tungumálum, arabísku, farsi og tyrknesku. Sjónvarpsstarfið hefur verið gríðarlegur stuðningur við kirkjur og kristið fólk á svæðinu. En nú kallaði Guð Andrew til að gera eitthvað svipað fyrir Pakistan. Úr varð að hefja kristilega fjölmiðlun undir heitinu Pak7. Ekki var stefnt á gervihnattasjónvarp heldur að nýta netið, efnisveitur þar og samfélagsmiðla, ekki síst með það fyrir augum að ná til unga fólksins í landinu. Starf Pak7 hefur gengið vel og er fjölbreytt dagskrá í boði á ýmsum efnisveitum og samfélagsmiðlum. Kristniboðssambandið hefur tekið þátt í þessu starfi frá byrjun með fjárframlögum sem hjálpa til við að minna á fagnaðarerindið í Pakistan með ýmsum hætti. Vonandi verður hægt að efla þann stuðning enn frekar. Hugsjón Pak7 er m.a. að ná að framleiða sjónvarpsefni fyrir ríkissjónvarpið í Pakistan þar sem jákvæð mynd af kristnu fólki og kristinni trú kemur fram um leið og fólk nýtur góðs efnis. Þannig er dregið úr fordómum og brú byggð á milli mismunandi trúarhópa. Einnig er áhersla á kristilegt efni sem byggir fólk upp í kristinni trú, ekki síst dagskrá fyrir börn og ungmenni og að framleiða stutt myndbönd fyrir samfélagsmiðla sem leiða til samræðna um aðstæður og spurningar lífsins og loks að efla þekkingu og færni í að framleiða dagskrá og þar með hvetja kristið fólk til að nýta sér vettvang fjölmiðlunar til að koma sér á framfæri. FJÖLMIÐLUNARSKÓLI Til að auðvelda framleiðslu var ákveðið að setja á stofn fjölmiðlunarskóla, PAK 7 Media School, og bjóða upp á námskeið í kvikmyndun, myndvinnslu og klippingu, dagskrárgerð, handritsgerð og fleiru tengdu því að setja gott efni á netið sem yrði kristnu fólki til uppörvunar og hvatningar. Þegar hefur nokkur hópur ungs fólks lokið námi og þjálfun og sum þeirra vinna nú fyrir Pak7. Nemendur þessa árs voru 22 talsins, karlar og konur, og luku fyrir stuttu síðan þjálfun sinni m.a. með því að framleiða fjórar kvikmyndir, tvær leiknar og tvær heimildamyndir. Flest í hópnum munu vinna áfram fyrir Pak7 í minni hópum í ýmsum borgum Pakistans og framleiða dagskrá fyrir börn og fyrir ríkissjónvarpið fyrir utan stuttmyndir fyrir samfélagsmiðla. Markmiðið er að miðla kærleika Guðs til íbúa Pakistan með hjálp fjölmiðlunar.

x

Bjarmi

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bjarmi
https://timarit.is/publication/379

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.