Andvari - 01.01.2017, Blaðsíða 53
52 GUNNAR F. GUÐMUNDSSON ANDVARI
Stýrimannaskólans við Öldugötu, tók Knútur Arngrímsson við af
Ágústi H. Bjarnasyni. Undir forystu hins nýja skólastjóra vildu kenn-
ararnir láta á það reyna hvort þeir gætu ekki byrjað kennslu á mennta-
skólastigi og breytt skólanum smám saman í fullgildan menntaskóla.
Að sögn Björns Þorsteinssonar var þá í skólanum mjög traustur og
góður 4. bekkur, rúmlega 30 nemendur, og sömdu kennararnir við
þá um að hlaupast ekki á brott, jafnvel þótt þeir gætu komist inn í
Menntaskólann, heldur vera þarna áfram og fá kennslu til stúdentsprófs.
Þetta gekk eftir, Björn kenndi stúdentsefnum skólans íslensku og sögu,
og allt virtist ætla að fara eftir áætlun. En þá reið áfallið yfir. Knútur
Arngrímsson lést skyndilega á annan dag jóla 1945. Kennarastofan
var sem lömuð, og tilraunin um menntaskóla fór út um þúfur.143 Björn
taldi eins og fleiri fulla þörf á því að stofna nýjan menntaskóla og
skapa þannig mótvægi við hinn „virðulega Menntaskóla“ sem í hans
augum var ein af stofnunum „fámennisveldisins“. Hann fylgdist þess
vegna af áhuga með þeim byltingarkenndu nýjungum sem ruddu sér
til rúms, ekki síst í menntamálum, á sjöunda áratug aldarinnar. Einn
ávöxtur þeirrar umbyltingar var Menntaskólinn við Hamrahlíð sem
tók til starfa haustið 1966.144
Tímamót urðu í sögu framhaldsskóla hér á landi við stofnun hins
nýja skóla. Fyrstu sex árin var kennt í bekkjum, en árið 1972 var tekið
upp svonefnt áfangakerfi þar sem nemendur gátu að nokkru leyti
valið sér áfanga eftir sínu námssviði. Félagsvísindum var gert hærra
undir höfði en áður með það háleita markmið að leiðarljósi að nem-
endur yrðu virkir og víðsýnir þátttakendur í samfélaginu, hvað sem
þeir kynnu síðar að taka sér fyrir hendur. Björn tók þessum nýjungum
opnum örmum: „Með tilkomu Hamrahlíðarskólans var stórum áfanga
náð á þeirri braut að gera stúdentsmenntun á Íslandi almenna en ekki
forréttindi, hve lengi sem það á eftir að standa.“ Hann var einn sex
fastra kennara sem ráðnir voru til skólans.145
Fyrsta veturinn kenndi Björn sögu í fjórum deildum og einungis tólf
stundir á viku. Einar Laxness var sögukennari í tveimur deildum, auk
þess sem hann sá um alla dönskukennsluna. Björn hafði þó nóg á sinni
könnu við fararstjórn, námskeiðahald og fræðistörf, og hann var enn
gagnfræðaskólakennari, á þeim tíma í Laugalækjarskóla, og stofnaði
ásamt samstarfsmönnum sínum þar Kvöldskólann árið 1970.146
Á þessum árum var ekki mikið um nýjungar í sögukennslu, enda
kvartaði Björn sáran yfir þeirri stöðnun sem þar ríkti. Í tilefni af út-