Vesturbær - 01.06.1987, Blaðsíða 28

Vesturbær - 01.06.1987, Blaðsíða 28
Afrek systranna í Landakoti Engu er líkara en hiö mikla starf systranna í Landakoti, allt frá því að þær stigu hér fyrst á land á íslandi 24. júlí 1896, hafi verið hálfgert feimnis- mál meðal íslendinga. Þær urðu þó fyrstar til að reisa sjúkrahús hér á landi sem fullkomlega var boðlegt samkvæmt kröfum læknavísind- anna. Allt þangað til Landspítalinn var tekinn í notkun 1930 eða í nær 3 áratugi var Landakotsspítalinn eina sjúkrahúsið í Reykjavík sem hægt var að kalla því nafni. Og reglusystur unnu lengst af tvöfaldan vinnudag og spöruðu enga fyrirhöfn við að líkna íslendingum. Stofnunin á Landakots- hæðinni í Vesturbænum er því brautryðjendastarf sem Vesturbæ- ingar og reyndar allir landsmenn geta verið hreyknir af. Fyrir 10 árum flutti dr. Bjarni Jcnsson læknir hátíðarræðu á 75 ára afmæli St. Jósefsspítala í Landakoti, þar sem hann rakti aðdragandann að stofnun hans og sögu hans. Nú á 85 ára afmæli Landakots- spítala er við hæfi að birta kafla úr þessari 'æðu til þess að vekja athygli á hinu mikla orautryðjendaverki kaþólskra í Landa- koti. „Það er upphaf þessa máls, að 1896 komu fjórar reglusystur til Reykjavíkur í þeim tilgangi að sinna sjúkum. Þær lögðu frá Kaupmannahöfn þann 14. júlí og tóku land hér þann 24. sama mánaðar. Stund- uðu þær heimahjúkrun framan af og mun hafa verið ofarlega í huga þeirra að hjálpa holdsveikum. Rennir það stoðum undir þá skoðun, að á sama ári kom pater Jón Sveinsson, S.J., af stað fjársöfnun með ávarpi í frakkneskum blöðum og skyldi fénu varið til byggingar spítala fyrir holds- veika á íslandi. En þó þær byrjuðu á heimahjúkrun gátu þær fljótlega skotið skjólshúsi yfir sjúklinga, en þó aðeins að sumri til. 1859 komu hingað til lands tveir prestar til þess að vera sálnahirðar franskra sjó- manna, sem voru margir hér við land. Keypti kaþólska kirkjan þá Landakots- eignina og árið eftir reisti séra Bernhard þar kapellu. Dvaldist hann stutt en séra Baldvin var hér í 15 ár. Kapellan, lágreist hús, var notuð til tíðahalds fram eftir árið 1897, en þá var byggð stærri kirkja austar í túninu og stóð hún þar þangað til 1929, að steinkirkjan reis, sem nú stendur á Landa- kotshæð. Þá var gamla kapellan rifin, en kirkjan frá 1897 flutt á grunn hennar og er nú æfingahús íþróttafélags Reykjavíkur. Á Antoníusdag 1897 - það gæti verið 13. júní- skrifar séra Johannes Frederiks- en: „En ny Kirke er snart under Tag her i Reykjavík og den gamle Kirke er nödtörf- tigt indrettet til Sommerhospital“. Hafa þá systurnar verið byrjaðar á spítala- rekstri fyrir 80 árum, þó í smáum stíl væri. Áætlanir systranna um smíði holds- veikraspítala urðu að engu, því danskir Oddfellowar urðu fyrri til og gáfu landinu spítala, sem reistur var í Laugarnesi 1898 og stóð þar, þangað til hann brann á stríðsárunum í höndum setuliðsins. Systurnar lögðu ekki hendur í skaut, þó holdsveikir þyrftuekki þeirra hjálp. Spítalamál landsins voru í ólestri og höfðu aldrei komist á neinn rekspöl, þótt læknar hefðu uppi raddir um þörf fyrir spítala og þörfin fyrir kennsluspítala yrðu brýn eftir 1876, þegar læknaskóli var sett- ur á stofn. Má segja, að síðari helming 19. aldar hafi spítalamálin staðið í þófi. Læknar sóttu á, en valdstjórnin sat á höndum sér. Hóflega skulum vér nútímamenn áfell- ast ráðamennþeirrartíðar. Þjóðin var ör- snauð og enginn skilningur á því, að læknisverk gætu skilað arði í beinhörðum peningum með færri veikindadögum, aukinni starfsorku og lengdri æfi vinnandi manna. Árið 1901 var svo komið, að fyrir al- þingi lá frumvarp um landsspítala með 24 rúmum og var áætlaður kostnaður 100 þúsund krónur. Ekki voru þingmenn á eitt sáttir. Pá barst þeim bréf frá St. Jós- efssystrum. Buðust þær til þess að reisa spítala með 35 rúmum. Skyldi öllum lækn- um heimilt að stunda þar sjúklinga. Ættu allir að eiga þar athvarf án tillits til trúar- skoðana og ekkert myndi gert til þess að hafa áhrif á sjúklinga í þeim efnum. En því var þetta sagt skýrum orðum, að margir óttuðust þá pápísku. Skyldi spítal- inn vera að öllum búnaði eftir kröfum tímans og gerður í samráði við kennara læknaskólans, en þeim heimil kennsluað- staða þar. Á móti þyrfti að koma 60 þús- und króna lán frá landssjóðimeð6%vöxt- um á ári til 28 ára og 3000 króna árlegur rekstrarstyrkur til jafnlangs tíma. Felldi nú alþingi landsspítalafrumvarpið. Fjárlaganefnd neðri deildar var þess fýsandi, að lánið yrði veitt og lagði raunar til, að rekstrarstyrkur til St. Jósefssystra yrði hækkaður í 4000 krónur á ári. En Alþingi felldi bæði Ián og styrk. Samt létu systurnar ekki hugfallast. Hefur þá komið í góðar þarfir fjársöfnun paters Jóns Sveinssonar, sem fyrr var nefnd. Þegar Oddfellowar gáfu spítalann í Laugarnesi höfðu safnast 30 þúsund frankar og runnu þeir nú til Landakots- spítala. Hefur Nonni verið þarfur landi sínu um fleira en landkynningu. Á útmánuðum 1902 hófst bygging spítalans. Var hornsteinnlagður 26. apríl, en svo hratt gekk verkið fram, að þann 16. október var sjúkrahúsið vígt.“ Svo segir dr. Bjarni Jónsson í hátíðar- ræðu sinni. í frétt í Þjóðólfi 17. október 1902 segir: „Landakotsspítalinn var vígður á há- degi í gær, og voru margir bæjarbúar staddir við þá athöfn, og skoðuðu spítal- ann á eptir. Er hús þetta hið vandaðasta, og útbúnaður annar eptir því sem tíðkast á sjúkrahúsum erlendis. Hafa nú læknarnir hér loksins fengið spítala, er nokk- urnveginn mun samsvara kröfum tímans. En óneitanlega hefði verið viðkunnan- legra, að landið hefði reist slíkt hús.“ Meðal þess sem hinar kaþólsku systur voru brautryðjendur í hér í Reykjavík var vatnsleiðsla sem þær létu leggja að spítal- anum og lokað holræsi allt til sjávar niður núverandi Ægisgötu. Spítalinn varð fljótt of lítill og árið 1935 var tekin í notkun ný glæsileg viðbygging eftir teikningu Sig- urðar Guðmundssonar. Á árunum 1956 til 1966 var svo enn reist ný álma við spít- alann, að þessu sinni eftir teikningum Einars Sveinssonar og Gunnars Ólafs- sonar. Jafnframt var elsta byggingin frá 1902 rifin. 28 • VESTURBÆR VESTURBÆR • 29

x

Vesturbær

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vesturbær
https://timarit.is/publication/1928

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.