Goðasteinn - 01.09.2023, Page 134
132
Goðasteinn 2023
ýmsum verkefnum, fundum,
skemmtunum, námskeiðum og hélt
uppi öflugu félagsstarfi. En aðstaða
þess var harla erfið, með því að það
átti ekkert samkomuhús. Reynt var
að notast við lítið og gamalt þinghús
hreppsins uppi á Raufarfelli sem var
óskaplega kalt á vetrum. Þetta hús
hafði verið notað til barnakennslu og
minnist ég þess frá veru minni í skóla
að aldrei héluðu í því gluggarúður,
því að svo vel gustaði inn með þeim.
Í félaginu komu fljótlega upp raddir
um að það yrði að koma sér upp eigin
samkomuhúsi og var brátt ákveðið að
byggja það á grundunum fyrir vestan
Skarðshlíð. Til framkvæmdanna þurfti
mikið fé og það urðu félagsmenn
sjálfir að leggja af mörkum, því að
engin opinber fyrirgreiðsla fékkst til
verksins. Margir tóku frá og lögðu til hússins tíunda hluta af árskaupi sínu, svo
að brátt safnaðist talsvert fé til að kaupa efni, en flutninga og alla vinnu lögðu
menn fram að kostnaðarlausu og af þegnskap. Sement og timbur var keypt í
Vestmannaeyjum og flutt á vélbátum upp undir sand, þar sem því var skipað
upp skammt fyrir austan Eyvindarhóla. Þetta var gert um sumarið 1926 og undir
haust tóku þeir sig til, Ólafur Eiríksson, kennari og Óskar í Hólakoti, og steyptu
þarna suður frá holsteina í veggi væntanlegs húss sem félagsmenn fluttu síðan
á kerrum á byggingarstað. Húsið var síðan hlaðið, múrhúðað að utan og settar
á það sperrur og þak síðla hausts. Þar með var það nægilega vel á veg komið til
þess að óhætt þætti að vígja það og taka í notkun snemma um veturinn. Það var
að vísu eftir að múrhúða það að innan og setja klæðningu á sperrurnar í loftinu,
svo það var nánast eins og hlöðubygging, en það stóð allt til bóta. Vígsluhátíðin
var afar fjölsótt og skemmtileg og ríkti mikil og almenn ánægja með húsið.
Voru þarna fluttar að minnsta kosti átta ræður og þar af var eitthvað í bundnu
máli. Síðan hófst vígsludansleikur sem stóð fram til klukkan sjö næsta morgun.
Unga fólkið í sveitinni fann að þarna hafði það eignast varanlegan samastað
fyrir félagslíf sitt og skemmtanir og gladdist af öllu hjarta. Og þetta afrek hafði
þetta fólk unnið sjálft og enga hjálp til þess fengið að utan. Ég þykist fullviss
Kennararnir Snorri og Albert við laugina
ásamt börnum Snorra.