Börn og menning - 2024, Blaðsíða 4
2
b&m
FRÉTTIR AF
ibby
Þessa tímarits hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu. Loksins lítur
dagsins ljós nýtt tímarit með nýjum ritstjóra, Erlu Elíasdóttur Völu-
dóttur. Við vonum að þið, kæru lesendur, handleikið og lesið tímaritið af
sömu ánægju og við í stjórn IBBY og að greinarnar veki jafnt áhuga sem
fróðleiksþorsta. IBBY hlaut styrk frá menningar-, íþrótta- og tómstunda-
ráði Reykjavíkur fyrir útgáfu tímaritsins og erum við ævarandi þakklát
Reykjavíkurborg fyrir stuðninginn. Styrkurinn gerir okkur kleift að gefa
út veglegra tímarit en áður og hefja vinnu við gerð vefsíðu sem mun hýsa
eldri greinar og bókarýni sem hefur birst í tímaritinu í gegnum árin.
Árið 2023 fór ekki blíðum höndum um starf IBBY. Við náðum þó að
gera flest það sem okkur langaði og höfum gert í gegnum árin, en tíma-
ritið Börn og menning kom ekki út það ár vegna skorts á fjármagni. Út-
gáfa tímaritsins er stærsti kostnaðarliður félagsins. Við notuðum tæki-
færið til að endurskipuleggja, breyta og bæta. Tímaritið mun nú koma út
einu sinni á ári en stefnan er að það verði veglegra og meiri áhersla verði
á bókarýni á barna- og unglingabókum en áður.
Þrátt fyrir fjárhagskröggur var starfið engu að síður blómlegt og fjöldi
verkefna leit dagsins ljós árið 2023 eins og önnur ár.
Við byrjuðum starfsárið á að tilnefna íslenskan barnabókahöfund, mynd-
höfund og þýðanda á heiðurslista IBBY. Gunnar Helgason fékk tilnefn-
ingu fyrir bók sína Bannað að eyðileggja, Elías Rúni fékk tilnefningu fyrir
myndlýsingar sínar í Vísindalæsi-bókunum, nánar tiltekið fyrir bókina
Sólkerfið, og Guðrún Hannesdóttir, ljóðskáld og þýðandi, fékk tilnefn-
ingu fyrir þýðingu sína á bókinni Dinna í blíðu og stríðu. Bækurnar munu
ferðast um allan heim á stórri alþjóðlegri sýningu og vekja verðskuldaða
athygli utan landsteinanna.
Í október 2023 fór alþjóðlega barna- og unglingabókmenntahátíðin
Mýrin fram í Norræna húsinu í tíunda sinn. Hátíðin er haldin annað