Börn og menning - 2024, Page 12
10
b&m
og töfrar fram ný föt á hana með sínum eigin fötum
og efniviði úr umhverfinu. Líkt og í fyrri bókinni,
Júlían er hafmeyja, skín í gegn hvað drengurinn er
frjáls undan viðteknum hugmyndum um það sem
er „rétt“ eða „viðeigandi“.
Hlýja, virðing og töfrar
Í bókinni verða mikilvæg þáttaskil þegar hinar full-
orðnu koma inn í heim barnanna – ömmurnar
stíga bókstaflega inn í ævintýraheiminn sem þau
hafa skapað inni í „álfahúsi“ úr slútandi trjágróðri.
Rétt eins og í fyrri bókinni eru það jákvæð viðbrögð
hinna fullorðnu við uppátækjum og hugmyndaflugi
barnanna sem gæða söguna einstakri hlýju. Amma
Marísólar bendir telpunni á að jú, hún hafi vissulega
óhreinkað fötin sín, en í staðinn hafi hún eignast
vængi. Úrræðasemi Júlíans og Marísólar er hrósað í
stað þess að innræta þeim skömm og börnunum er
sýnd uppbyggileg virðing.
Eins og fram kemur í bókinni er brúðkaup sann-
kölluð ástarveisla og ástin er í þessu tilfelli ekki að-
eins á milli kvennanna tveggja sem eru að ganga í
hjónaband heldur birtist heilt kærleiksríkt samfélag
á síðum sögunnar. Hér er sterk tilfinning fyrir sam-
heldnum hópi þar sem konur og börn eru í for-
grunni þótt einnig séu einhverjir karlar meðal gesta.
Fjölbreytileikinn fær að njóta sín án þess að um
hann sé sérstaklega fjallað – hann er einfaldlega stað-
reynd. Vináttan milli eldri kvennanna endurspeglast
í nýfæddri vináttu barnanna og fullorðinn lesandi
getur jafnvel séð ömmurnar fyrir sér í svipuðum að-
stæðum sem börn – að rannsaka, skapa og leika sér
saman, leggja grunninn að sambandi til framtíðar.
Leikgleði og litadýrð
Í skemmtilegu viðtali Jóhannesar Ólafssonar við
höfundinn á Rás 1 í október 2023 kom fram að
Jessica Love starfaði áður sem leikkona. Vitund leik-
arans um líkamstjáningu sést enda vel í teikningum
hennar; línurnar í líkama persónanna eru dýna-
mískar og í myndunum er mikil hreyfing – sem um-
breytist þó stundum í kraftmikla kyrrð, þegar við á.
Eitt höfuðeinkenni bókarinnar er bakgrunnslit-
urinn á síðunum, sem er brúnn og minnir helst á
umbúðapappír. Þessi grunnur hefur mikil áhrif á
heildar svipinn og hvernig aðrir litir birtast á síð-
unum. Brúni liturinn lyftir til dæmis fjólubláum,
gulum og hvítum, sem eru aðrir áberandi litir í sög-
unni, og heldur fallega utan um heim bókarinnar.
Töfrarnir sem börnin sjá í umhverfinu eru þannig
einnig til staðar í verkinu sjálfu.
Ragnhildur Guðmundsdóttir þýðir bókina á ís-
lensku. Í henni er lítill texti en Ragnheiður kemur
honum vel til skila. Helst mætti setja spurningar-
merki við þýðinguna á titlinum en greinirinn kemur
dálítið undarlega út á íslensku.
Í bókum Jessicu Love er hjartavermandi fögnuður.
Hún fagnar fjölbreytileika, hugmyndaauðgi og
óhefðbundnum hugsanagangi. Persónulega verð ég
gjarnan þreytt á boðskapskröfunni sem margir gera
til barnabóka en í þessu tilfelli fara saman falleg,
frumleg efnistök og brýnt innihald. Ég las Júlían
í brúðkaupinu fyrir fimm ára son minn sem hafði
gaman af, enda deilir hann áhuga og hæfileika Júlí-
ans til að umbreyta hlutum á skapandi hátt og svið-
setja hið ævintýralega í hversdeginum. Morguninn
eftir var hann sjálfur sestur með bókina og horfinn
inn í hana á eigin spýtur, sem er ávallt til merkis um
einlæga hrifningu. Börn allt frá tveggja ára aldri og
langt upp úr ættu að geta notið þess að halda á vit
töfranna með Júlían og Marísól.
Höfundur er leikskáld og þýðandi.