Börn og menning - 2024, Blaðsíða 41
39
b&m
BÓKARÝNI
Áhyggjur á aðventunni
Aðalpersónur Jólaljósa eru Blær, sem segir söguna, og
vinkonan Fatíma. Sagan gerist í aðdraganda jólanna
og Blær hefur áhyggjur af því að engin jólaljós séu
komin á svalirnar í húsinu þeirra Fatímu eins og í
svo mörgum húsum í kring. Þegar Blær ber þetta
upp við pabba sinn rifjar hann upp hvernig þetta var
árið áður: „Sumir settu upp ljós og aðrir ekki. Og
sumir voru með marglit ljós og aðrir með hvít. Það
var ekkert sérstaklega fallegt. Ætli það sé ekki þess
vegna sem enginn er neitt að flýta sér núna“ (bls. 8).
Og þar stendur hnífurinn í kúnni. Ekki er bara hægt
að skipa fólki fyrir og segja öðrum að setja upp ljós
eins og Fatíma bendir á. Blæ finnst líka skemmti-
legra að hafa eins ljós á öllum svölunum. Úr verður
því að halda húsfund í stigaganginum og þar er
ákveðið að meirihlutinn ráði lit jólaljósanna. Allir
fengu að greiða atkvæði, líka börnin. Niðurstaðan
varð marglit ljós þótt Blæ langaði mest að hafa þau
blá. Allir ætla að setja upp ljós nema Þormóður
gamli á efstu hæðinni, sem blandar litlu geði við
aðra íbúa og mætti ekki á fundinn.
Eins og í öllum stigagöngum í barnabókum er ein-
hver íbúi erfiður viðfangs og hér er það Guðlaug á
neðstu hæðinni sem oft er pirruð og hávær og hefur
skoðanir á öllu. Hún hefur líka ofnæmi fyrir köttum
og það varð til þess að Þormóður varð að láta frá sér
köttinn Brand, sinn besta vin. Annars er ágæt sam-
staða meðal íbúanna og fullorðna fólkið er ósköp
gott við börnin, gefur þeim kökur og kakó þegar
þau leika sér í snjónum og hjálpar þeim að gera
snjóhús.
Sannur jólaandi í verki
Í barnabókum þurfa að vera skemmtileg ævintýri
sem reyna á persónur. Blær og Fatíma fá hér tækifæri
til að gera góðverk þegar Þormóður gamli dettur í
hálkunni og fótbrotnar. Þau hringja á sjúkrabíl
og aðstoða hann þegar hann kemur heim. Þannig
kynnast þau einfaranum og aðrir í stigaganginum
hjálpa líka til. Einangrun Þormóðs er þar með rofin.
Blær og Fatíma komast að því að Þormóður ólst
upp í sveit og hafði mikinn áhuga á dýrum. Þau sjá
hjá honum margar myndir þar sem hann er með
kött í fanginu og þeim finnst voða sorglegt að hann
skyldi hafa þurft að láta Brand frá sér. Þau taka því
til sinna ráða þegar þau komast að því að Brandur
fór til Valda bróður Þormóðs sem býr enn á gamla
bænum þeirra í sveitinni.
Í ljós kemur að kötturinn Brandur lifir enn þótt
gamall sé og nú þurfa Blær og Fatíma bara að sann-
færa íbúa stigagangsins um að leyfa Brandi að koma
aftur til Þormóðs. Til þess þarf undirskrift allra, líka
Guðlaugar. Undirskriftarsöfnunin gekk greiðlega,
allir vildu Þormóði vel. Svo var bara Guðlaug eftir.
Þótt hún maldi í móinn til að byrja með reynist hún
hin besta manneskja þegar á reynir: „Það eru nú
einu sinni að koma jól“, segir hún (bls. 74).
Allir íbúar taka svo þátt í því að undirbúa komu
Brands og koma Þormóði á óvart á Þorláksmessu
þegar Valdi kemur með Brand í bæinn. Þannig sýnir
jólaandinn sig í verki í þessu húsi og marglit jóla-
ljós loga á öllum svölum hússins þegar jólin ganga
í garð.