LEB blaðið - 01.04.2019, Blaðsíða 39
l a n d s s a m b a n d e l d r i b o r g a r a - a p r í l 2 0 1 9 3 9
E ftir áramót hófst sýning á
auglýsingum sem Grái her-
inn og Landssamband eldri
borgara létu framleiða, fyrir styrk
frá velferðarráðuneytinu. Tilgangur
þeirra er að auka virðingu, sýnileika
og sjálfsvirðingu þeirra Íslendinga
sem eru komnir um og yfir sextugt
og sýna að þeir eru færir um að taka
virkan þátt í samfélaginu. Viðar
Eggertsson leikstjóri sá um gerð
auglýsinganna.
Fólki 60 ára og eldra mun fjölga
um 52% á næstu 20 árum, eða um
37.200 manns. Þessi hópur taldi
rúmlega 70.400 manns í byrjun
þessa árs, en verða rúmlega 107.600
árið 2039, samkvæmt miðgildi
mannfjöldaspár Hagstofu Íslands.
„Það skiptir sköpum fyrir velferð
samfélagsins að virkja þennan
aldurshóp, sem er við betri heilsu
en áður hefur þekkst og hefur meira
starfsþrek. Auk þess fjölgar þeim
í hópnum sem eru vel menntaðir
og búa yfir fjölbreyttri þekkingu
og reynslu sem þjóðfélagið hefur
ekki efni á að fari forgörðum
vegna þekkingarleysis á þessu
æviskeiði. Það er nauðsynlegt
að vekja athygli á þessum hópi
og breyta því viðhorfi að fólk yfir
sextugt sé komið í flókaskó og
göngugrind eins og þessum hópi er
gjarnan lýst í fjölmiðlum,“ sagði í
greinargerðinni með umsókninni til
velferðarráðuneytisins.
Þegar Viðar Eggertsson er
spurður hvernig hann hafi fengið
þessa hugmynd segir hann að
þegar fólk færist nær þriðja ævi-
skeiðinu fari flestir að skoða stöðu
sína og hvað bíði þeirra. Þannig
hafi því alla vega verið farið með
sig. „Og það sem ég sá var ekki
allt fagurt. Aldursfordómar fylgja
sumum aldurshópum, einkum
gagnvart óhörðnuðum unglingum
og eldra fólki. Þegar fólk er komið
til aukins þroska og ber ytri merki
þess að hafa lifað tímana tvenna,
þá er samfélagið tilbúið til að af-
skrifa það; heilt kennitölutímabil
af mannauði. Þessi skammsýni
er afrakstur óbilgjarnrar æsku-
dýrkunar. Þetta eru þeir fordómar
sem margir verða fyrir þegar þeir
eru komnir yfir miðjan aldur. Þá
verður þessi hópur andlitslaus
manngrúi með grátt hár. Það
var út frá þessu sem hugmyndin
kviknaði.“
Viðar telur mikilvægt að fólk
haldi starfsheitum sínum þótt
það fari á eftirlaun, svo sem
þjónustufulltrúi, íþróttakennari,
starfsmaður á leikskóla o.s.frv.
„Ég reyndi að velja fjölbreyttan
hóp, bæði í starfi og aldri,“ segir
hann en sextán manns komu
fram í stiklunum. Yngsti þátttak-
andinn var 62 ára og sá elsti 83
ára. Hann segir að þegar hann
hafi leitað til þeirra um þátttöku
hafi þau öll brugðist við án hiks
um að taka þátt í auglýsingunum.
„Viðbrögðin voru yfirleitt
jákvæð og skilaboðin virtust
skiljast vel. En auðvitað eru
alltaf skiptar skoðanir á öllum
mannanna verkum. Einhverjum
fannst að önnur mál ættu frekar
að vera í brennidepli sem varða
eldra fólk. Hér var engin afstaða
tekin til forgangsröðunar, enda
útilokar þetta verkefni ekki að
aðrar áherslur verði í kastljósinu
næst. Við erum rétt að byrja!“
segir hann.
En telur hann líklegt að það
sé hægt að breyta hefðbundnum
viðhorfum til eldra fólks? „Já,
ekki spurning. Þau hreinlega
verða að breytast. Okkar smáa
samfélag hefur ekki efni á að
hunsa þennan mikla mannauð.“
Hefðbundin viðhorf
verða að breytast
Viðar Eggertsson