Eining-Iðja - 01.06.2001, Blaðsíða 8
Góðir félagar.
Á síðustu árum hefur verkalýðshreyf-
ingin á Íslandi gengið í gegnum miklar
breytingar. Félög hafa verið sameinuð
og landssambönd sömuleiðis. Allt er
þetta gert til þess að auka slagkraftinn
því fleiri saman erum við sterkari en
hvert í sínu lagi. Nauðsynlegt er fyrir
verkalýðshreyfinguna að þróast í takt
við tíðarandann og einnig á hreyfingin
að sjálfsögðu að vera eitt þeirra afla sem
móta samfélagið og tíðarandann á hverj-
um tíma.
Eins og öllum ætti að vera ljóst snúast
verkalýðsmál um fólk, unga jafnt sem
gamla, karla jafnt sem konur. Hreyfing-
in á og þarf að vera málsvari alls launa-
fólks í landinu. Því eru miklar skyldur
lagðar henni á herðar, skyldur sem for-
ustan á hverjum tíma verður að hafa
þrótt til að rísa undir. En til að svo megi
verða, verða allar raddir að heyrast inn-
an hreyfingarinnar og þar kann að ein-
hverju leyti að vera pottur brotinn. Svo
virðist sem ungt fólk sækist ekki í nógu
miklum mæli eftir því að starfa að verka-
lýðsmálum og er það vissulega miður.
Það er nefnilega lífsnauðsynlegt að radd-
ir unga fólksins heyrist líka því eins og
gjarnan er sagt á hátíðarstundum þá er
framtíðin þess. Sem formaður í einu
stærsta stéttarfélagi landsins og mið-
stjórnarmaður í heildarsamtökum launa-
fólks, ASÍ, hef ég velt þessum hlutum
mikið fyrir mér og hvaða leiðir eru til
úrbóta. Hvernig getum við betur náð til
unga fólksins?
Stundum er sagt að það sé erfitt fyrir
ungt fólk að koma sér á framfæri innan
verkalýðshreyfingarinnar. Þar séu öll
áhrifasæti frátekin fyrir „sama gamla
liðið” ár eftir ár. Þetta held ég að eigi
ekki við rök að styðjast. Dæmin sanna
þvert á móti að þegar ungt fólk sýnir
frumkvæði og áhuga og vilja til þess að
láta gott af sér leiða þá er því tekið opn-
um örmum og það getur haft raunveru-
leg áhrif.
Önnur röksemd er að verkalýðsfélög
séu gamaldags og þunglamalegar stofn-
anir þar sem engu má breyta. Á meðan
svo sé muni ungt fólk ekki hafa vilja til
að starfa þar. Þetta er hins vegar fjarri
öllum sanni. Við þurfum ekki annað en
að líta til allra þeirra breytinga sem orð-
ið hafa á skipulagi verkalýðsmála á síð-
ustu misserum til að sannfærast um hið
gagnstæða. Þessar breytingar hafa hins
vegar ekki verið gerðar bara breyting-
anna vegna. Þær eru gerðar til að stéttar-
félögin séu betur fallin til að sinna því
nauðsynlega hlutverki sem þau sannar-
lega gegna í nútíma samfélagi.
Ef unga fólkinu f innst félagið þess
vera „gamaldags og þunglamalegt” þá
hefur það öll tækifæri til að beita áhrif-
um sínum til breytinga. Uppbygging
Einingar-Iðju sem starfsgreinaskipts fé-
lags gerir það einmitt að verkum að fleiri
koma að skipulagningu og stefnumótun.
Þar með er auðveldara fyrir ungt fólk að
koma sjónarmiðum sínum á framfæri og
hafa áhrif. Talsvert af ungu fólki gegnir
ábyrgðarstöðum hjá Einingu-Iðju, situr í
stjórnum og nefndum og sér til þess að
sjónarmið ungu kynslóarinnar komist á
framfæri. Þessi hópur mætti hins vegar
vera stærri. Ungt fólk má heldur ekki
vera hrætt við að gefa kost á sér til
ábyrgðarstarfa. Dæmin sanna að því
farnast jafnan vel og þeir sem eru eldri
og reyndari eru alltaf boðnir og búnir til
aðstoðar ef á þarf að halda.
Eining-Iðja hefur með ýmsu móti
reynt að styðja við unga fólkið. Dæmi
um það er sú fræðsla sem félagið stend-
ur fyrir á hverju vori til nemenda í 10.
bekk grunnskóla. Þarna er á ferðinni
fólk sem margt er að fara að stíga sín
fyrstu skref á vinnumarkaðnum og því
veitir ekki af leiðsögn fyrstu metrana.
Þessi fræðsla hefur líka mælst afar vel
fyrir í þeirra hópi og gaman að fylgjast
með hvernig heimsókn sem þessi getur
vakið fólk til umhugsunar um réttindi
sín og skyldur. Fræðsla Einingar-Iðju
hefur leitt til þess að fólk hefur farið að
leita sér frekari upplýsinga. Margt ungt
fólk á vinnumarkaði vill líka gjarnan
halda áfram að auka við menntun sína
og með stofnun fræðslusjóðsins Lands-
Menntar hafa þeir möguleikar nú aukist
til mikilla muna. Þar er hægt að fá styrki
til að stunda fjölbreytt nám og er sjálf-
sagt að hvetja fólk til að nýta sér þessa
möguleika.
Góðir félagar. Eins og jafnan áður er
sumarið sá tími sem félagsstarf ið er
einna minnst. En með haustinu verður
allt komið í fullan gang að nýju. Eins og
staðan er í dag eru engir stórir samning-
ar lausir á næstunni og við fáum því smá
tíma til að anda og byggja upp þrek fyrir
næstu lotu. Þar vonast ég til að geta not-
ið krafta enn fleiri af yngri kynslóðinni
en til þessa og að því munum við stefna.
Að endingu bið ég ykkur að njóta sum-
arsins sem allra best.
Björn Snæbjörnsson.
8 EINING-IÐJA FÉLAGSBLAÐ
Björn Snæbjörnsson
Virkjum unga fólkið