Eining-Iðja - 01.06.2001, Blaðsíða 16
16 EINING-IÐJA FÉLAGSBLAÐ
Á aðalfundi þjónustudeildar í mars
sl. tók Erla M. Hilmisdóttir við for-
mennsku í deildinni. Erla er yngsti
deildarformaður Einingar-Iðju,
fædd árið 1975. Mörgum hefur þótt
vanta að ungt fólk fáist til að starfa
að verkalýðsmálum og því þótti til-
valið að heyra í Erlu og forvitnast
um af hverju hún gefur sér tíma til
að starfa innan Einingar-Iðju.
Erla segist hafa verið farin að starfa
að verkalýðsmálum fljótlega eftir að
hún kom inn á vinnumarkaðinn. „Ég
var kosin trúnaðarmaður 1997 og vara-
formaður ferðaþjónustudeildar á aðal-
fundi 1998. Af hverju ég varð fyrir val-
inu veit ég svo sem ekki en ég var dug-
leg að mæta á fundi enda hef ég lengi
haft áhuga á þessum málum.”
Hvaða mál eru það helst þú vilt beita
þér fyrir?
„Þau eru nú svo mörg en mikilvæg-
ast er sennilega að öllum réttindamál-
um sé fylgt eftir. Mín skoðun er sú að
það þurfi að eiga sér stað mikil upp-
stokkun á ýmsum sviðum. Ef við horf-
um sérstaklega til þjónustudeildarinnar
þá er ljóst að ákvæði vinnulöggjafar-
innar er nokkuð sem þarf að fylgja eftir
innan ferðaþjónustugeirans. Launamál-
in eru auðvitað sígilt baráttuefni enda
eru kauptaxtarnir til hreinnar skamm-
ar.”
Það „reddar” þessu einhver annar
Hvernig stendur á því að þú gefur
þér tíma til að beita þér á þessum vett-
vangi?
„Mér finnst að þegar starfsfélagarnir
eru búnir að kjósa þig sem trúnaðar-
mann þá þurfir þú að gera eitthvað. Þú
þarft að gangast við þeirri ábyrgð sem
vinnufélagarnir fela þér. Það er allt of
algengt að trúnaðarmenn séu óvirkir og
auðvitað þarf fólk almennt að vera mun
duglegra að fylgjast með réttindum sín-
um. Manni svíður oft það áhugaleysi
sem virðist ríkja og t.d. endurspeglast í
lélegri mætingu á fundi.”
Af hverju heldurðu að svona fátt ungt
fólk fáist til að starfa að verkalýðsmál-
um?
„Þetta er nokkuð sem ég hef velt mik-
ið fyrir mér. Nú er það t.d. þannig með
ferðaþjónustugeirann, þar sem ég
starfa, að þar starfar mikið af ungu
fólki og e.t.v. má segja að það sé ekki
allt farið að skipuleggja framtíðina í
smáatriðum. Það hefur í mörg horn að
líta og hugsar e.t.v. sem svo að eldra
fólkið geti „reddað” þessum verkalýðs-
málum. Reyndar á þetta við almennt.
Það virðist því
miður vera
ríkjandi hugs-
unarháttur hjá
fólki að það
hljóti einhver
annar að geta
séð um þessi
mál, mætt á
fundi og barist
fyrir hagsmun-
um þess. Hins
vegar fer auð-
vitað illa ef all-
ir hugsa
svona.”
Jafnaldrarnir
margir hissa
Hvað segja
jafnaldrar þín-
ir um þetta „verkalýðsbrölt” í þér?
„Þeir eru margir hissa á að ég skuli
nenna að standa í þessu. Ég segi hins
vegar að óhjákvæmilega eru mörg af
þeim málum sem verkalýðshreyfingin
þarf að berjast fyrir þess eðlis að þau
henta einkum ungu fólki. Ef unga fólk-
ið er ekki sjálft til staðar innan hreyf-
ingarinnar til að taka á sínum málum
þá getur það ekki ætlast til þess að aðr-
ir taki á þeim fyrir það. Unga fólkið
þarf að láta í sér heyra ef það vill að á
það sé hlustað.”
Hvernig hefur verkalýðshreyfingin
komið þér fyrir sjónir?
„Þetta var svipað og ég bjóst við.
Auðvitað þekkti ég talsvert til þessara
mála því pabbi minn, Hilmir Helgason,
hefur starfað mikið innan Einingar og
seinna Einingar-Iðju. Ég hef því getað
fylgst með af hliðarlínunni í gegnum
hann, ef svo má segja. Ég vil samt
meina að það séu ekki endilega áhrif
frá pabba að ég ákvað að skella mér út í
þetta starf. Ég hef einfaldlega áhuga á
viðfangsefninu. Ég hef einnig kynnst
starf inu á landsvísu, t.d. með setu á
ASÍ-þingi og stofnfundi Starfsgreina-
sambandsins.
Kemur ekki niður á starfinu
Hefurðu orðið vör við að vinnuveit-
endur séu neikvæðir út í þá sem vilja
berjast fyrir betri kjörum?
„Nei. Almennt finnst mér vinnuveit-
endur jákvæðir í garð þeirra sem gefa
sig að verkalýðsmálum og ég hef síður
en svo fundið fyrir því á mínum vinnu-
stað að ég sé litin hornauga fyrir störf
mín á þessum vettvangi. Eflaust eru
margir hræddir við að lenda í stöðu
trúnaðarmanns einmitt af þessum sök-
um, þ.e. þeir óttast að það komi niður á
þeim í vinnunni og ég neita því ekki að
ég hugsaði út í þessi mál þegar ég var
kosin trúnaðarmaður á sínum tíma. Mín
reynsla er hins vegar alls ekki sú að
starfið innan Einingar-Iðju sé þér fjötur
um fót í starfsframa eða slíku. Þvert á
móti held ég að fólk átti sig á því að
þeir sem eru duglegir og áhugasamir á
þessu sviði eru einnig líklegir til að
standa sig vel í vinnunni.”
Er eitthvað sérstakt framundan í
starfi deildarinnar?
„Það verður nú lítið um að vera í
sumar enda erfitt að ná fólki saman á
meðan sumarfrí standa sem hæst og
annað. En starf ið fer á fullt með
haustinu.”
Erla M. Hilmisdóttir segir að ef unga fólkið sé ekki sjálft til staðar innan verka-
lýðshreyfingarinnar til að berjast fyrir sínum málum þá geti það ekki ætlast til
þess að aðrir taki á þeim fyrir það.
Unga fólkið þarf að láta í sér heyra
-segir Erla M. Hilmisdóttir, yngsti deildarformaður Einingar-Iðju