Helgarpósturinn - 25.08.1983, Blaðsíða 13

Helgarpósturinn - 25.08.1983, Blaðsíða 13
13 ^posturinn Fimmtuda9ur 25. ágúst 1983 Hjálmar H. Ragnarsson vakti athygli og umrœbu í vetur með nýstárlegum og beinskeitt- um tónverkum. Þá hefur Háskólakórinn undir stjórn Hjálmars verið mikið í sviðsljósinu bœði vegna flutnings á nýrri íslenskri tónlist og vegna hljómleikaferðar um Sovétríkin fyrir skemmstu. Hjálmar var einn þeirra sem hlutu starfslaun listamanna í vor. Lœtur hann því af öðrum störfum á vetri komanda til að helga sig tón- smíðum einvörðungu. Nœgilegt tilefni til spjalls. „Ég er af þingeyskum ættum en fæddur og uppalinn á ísafirði. Fimm ára gamall hóf ég að læra á píanó hjá föður mínum Ragnari H. Ragnar sem þar er skólastjóri Tónlistarskól- ans. Það má því segja að tónlistin sé samgróin mér. Ég fór suður í menntaskóla, var í Menntaskólanum í Reykjavík og stundaði jafnframt nám í Tónlistarskólanum í Reykja- vík hjá Árna Kristjánssyni píanóleikara. Að loknu stúdentsprófi 1972 stóð ég frammi fyrir því að halda utan til að afla mér framhalds- menntunar. Þá bauðst mér góður námsstyrk- ur til að fara á þekktasta gyðingaskóla Banda- ríkjanna sem heitir Brandeis Universityí' — Skammt frá Boston, er þad ekki? „Jú. Þar var ég í hljóðfæranámi og alhliða tónlistarnámi og þar byrjaði ég að fást við tónsmíðar.Aðalkennari minn þar, Seymour Shifrin sameinaði þá kosti að vera frábært tónskáld og frábær kennari, en það fer ekki alltaf saman. Það var einkum hann sem kveikti í mér áhugann á tónsmíðum. Og hann kenndi mér einnig það sem er mjög mikilvægt fyrir tónskáld: að hlusta. Úti á Brandeis kynntist ég raftónlist og það var afdrifaríkt fyrir mig. Fyrsta alvöru hljóðsmíðin sem ég samdi var rafverk, Svartálfadans við ljóð eftir Stefán Hörð Grímsson. Árið 1974 lauk ég BA- prófi og fór heim til ísafjarðar og dvaldi þar næstu tvö árin. Konan mín, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, var að læra mannfræði í London á meðan ég var á Brandeis og fyrra árið á ísafirði. Þar lærði ég að kenna börnum og unglingum tónlist og öðlaðist dýrmæta reynslu í kórstjórn, en ég tók við af föður mín- um sem stjórnandi Sunnukórsins. Auk þess var ég í Kammersveit Vestfjarða sem kom víða við á þessum árum.“ — Isafjörbur er vel metinn af Isfirðingum! „Mér líður alltaf vel þarna inn á milli fjall- anna og mér finnst ég í rauninni aldrei almennilega hafa farið frá ísafirði. Og þar á ég best með að smíða tónlist. ísafjörður hefur í gegnum tíðina verið þekktur sem tónlistar- bær, enda hefur þar yfirleitt verið blómlegt tónlistarlíf. Það skýtur hins vegar skökku við að þar skuli ekki vera til neitt hús undir tón- listarstarfsemina og ættu ísfirðingar að sjá sóma sinn í að byggja slíkt hús sem allra fyrst.“ — En þú ílentist ekki? „Nei, leiðin Iá til Hollands. Ég hóf nám við Hljóðfræðirannsóknastofnunina i Utrecht og kynntist þar í fyrsta skipti tölvum í sam- bandi við tónsmíðar. í Hollandi urðu enn- fremur á vegi mínum íslenskir listamenn sem þá bjuggu í Amsterdam. Það voru gömlu Súmmararnir, þeir Sigurður og Kristján Guð- mundssynir og Hreinn Friðfinnsson. Þar var líka Snorri Sigfús Birgisson tónskáld og ýmsir fleiri. Og það var rætt um kúltúr frá morgni til kvölds — já fram á morgun! í Hollandi kom að því að mér fannst ég verða að gera upp við mig hvort ég ætti að snúa mér algerlega að raftónlist og tölvum eða halda mig við hljóð- færatónlistina. Ég hafði aldrei ætlað mér að sérhæfa mig í raftónlist og af þeim sökum hélt ég aftur til Bandaríkjanna, nú á Cornell-há- skóla i New York-ríki. Þar var ég við litla en mjög góða tónlistardeild með hefðbundnu sniði þar sem tónsmíðar og tónfræði voru aðalnámsgreinarnar. Karel Husa, tékkneskur flóttamaður og mjög gott tónskáld, var aðal- kennari minn á Cornell. Þarna vorum við í þrjú ár, konan mín reyndar við mannfræði- nám í Rochester-háskóla sem er ekki ýkja fjarri. Við lukum svo bæði meistaraprófi haustið 1979!“ — Þú skrifaðir um Jón Leifs? „Já. Aðalhluti ritgerðarinnar var greining á verkum hans. Það fór heilt ár í þessa vinnu um Jón Leifs. Reyndar finnst mér ég þó alltaf eiga eftir að bæta þar við og með einhverju móti að koma því á prentí* — Valdirðu þetta verkefni af því að Jón Leifs var íslenskt tónskáld? „Faðir minn hafði haft orð á því að Jón Leifs væri vanrækt tónskáld, og ég vildi taka íslenskt efni til meðferðar. Verk hans hafa alltaf hrifið mig. Hann var sérstakt tónskáld og hafnaði áhrifum frá öðrum. Hann skapaði stíl og tungumál sem eiga ekki sinn líka í tón- listinni. Það er ekki fyrr en á síðustu árum þegar menn hafa náð sér eftir tólftónamúsík- ina og þessa flóknu tónlist sem gekk yfir hinn vestræna heim að Jón Leifs fær aftur hljóm- grunn, því að tónlist hans er bæði einföld og- tær, byggð á einföldum prinsippum. Það er íslendingum til mikillar skammar hvernig komið hefur verið fram við Jón Leifs. Mörg verka hans hafa aldrei verið flutt og þau sem flutthafa verið hafa alltof oft fengiðóvandaða meðferð. Verk hans krefjast mikilla æfinga og einbeitni ef þau eiga að hljóma almennilega!' — Hvað tók svo við að loknu námi? „Við fórum heim. Sirrí fór að kenna mann- fræði við Háskólann og ég réðst til Tónlistar- skólans í Reykjavík þar sem ég hef starfað síð- an. Árið eftir tók ég við stjórn Háskólakórs- ins. Þetta hafa verið mín tvö aðalstörf. Ég tel tónsmíðarnar hins vegar lúxusstarf og eiga þær hug minn og hjarta" — En kennirðu ekki tónsmíðar? „Undanfarin tvö ár hefur verið starfrækt tónfræða- og tónsmíðadeild við Tónlistar- skólann. Þar tekst okkur vonandi að hlúa að vaxtarbroddunum í tónfræði, tónvísindum og tónsköpun og undirbúa efnilegt tónlistarfólk fyrir framhaldsnám erlendis!1 — Miklum sögumfer afgróskunni í tónlistar- lífi á íslandi. „Það er a.m.k. mikið af fólki sem leggur stund á tónlist, svo að segja má að það sé gróska að því leyti. Viðmiðun okkar er auðvit- að við það sem áður var, og fyrir tíu til tuttugu árum var svo lítil tónlist á íslandi að öll sú aukning sem orðið hefur telst gróska. En með þessu gróskutali er verið að bjóða hættunni heim, því að orðið gróska felur í sér að allt dafni vel. Tilfellið er að hér rikir mikil meðal- mennska í tónlist og er öll áhersla lögð á magnið en ekki gæðin. Við eigum framúr- skarandi listafólk sem vandar sína vinnu og gerir allt vel, en í skjóli þess dafnar meðal- mennskan og lágkúran. Tónlistarfólk á íslandi vinnur alltof mikið. Við þurfum að vinna minna, setjast niður og gera betur. Þetta á við mig eins og aðra!“ — En tónsmíðar verða alltaf áhugamál og aukastarf nema menn fái starfslaun? „Ríkið veitir þessi laun til þess að menn geti helgað sig kúnstinni einvörðungu. Það þykir nú gott að fá þetta og manni er óskað til hamingju. En það er kaldhæðnislegt að fólki sé óskað til hamingju með að geta unnið að því sem það vill vinna og best fær gert. Það óskar mér enginn til hamingju með að fá að kenna. Það er eins og eitt tónskáld sagði vjð mig: „Það væri nær að óska ríkinu til ham- ingju með að þú skulir vilja vinna fyrir það!““ — Ætli hagur tónskálda á Norðurlöndum sé sviþaður og hér? „Nei, því er ekki saman að jafna. Tónskáld þar eru ekki í jafnnánum tengslum við fólk og hér á íslandi. Við vinnum með kórum og hljóðfæraleikurum en þar er þetta meiri fílabeinsturnavinna!1 — Þannig að það hefur sína kosti og galla að hafa þetta að aukastarfi? „Það er hætta fólgin í að hafa þetta að aðal- starfi því að þá getur maður einangrast í sín- um þrönga hugarheimi. En það má heldur ekki verða eins og t.d. hjá mér í vetur þegar ég hef þurft að semja tónverk mín á tveimur til þremur eftirmiðdögum í viku sem ég hef lausa og á laugardagskvöldum eftir klukkan tíu. Og þá á maður að vera fullur af eldmóði og til- finningahita!* — Hvernig nœr tónlistin til almennings? „Tónlistarmót og hátíðir eru alltaf einangr- uð fyrirbæri. Vafasamt að gera of mikið af slíku. Á tónlistarhátíð norrænna ungmenna, sem haldin var hér í fyrra.kynntumst við því sem jafnaldrarnir á Norðurlöndunum eru að fást við, fengum samanburð, aðhald og fund- um hvar við stóðum — sem er bráðnauðsyn- legt. Orðið gróska var mér ekki efst í huga þegar við höfðum lagt okkar skerf fram. Það voru önnur orð sem mér komu í hug. Við skul- um segja að ég hafi frekar fyllst sóknarhug. — Þó held ég að okkur hafi tekist að ná til almennings, en náttúrlega ekki næstum eins mikið og þegar við höldum sérstaka tónleika á veturna, svo sem kórtónleika, eða komumst að hjá Sinfóníunni!* — Er Sinfónían liðleg að taka verk tilflutn- ings? „Nei, alls ekki. Ég sit reyndar sjálfur í verkefnavalsnefnd og veit því að það hefur verið barátta — og fáránlegt að þurfi baráttu til — að fá fluttar nýrri tónsmíðar. Hins vegar keppast kórar og hljóðfæraleikarar við að fá tónsmiði til að semja fyrir sig. Það er þeirra stærsta tromp á tónleikum að frumflytja verk nýskapað fyrir þá. -Þessu er öfugt farið með Sinfóníuna. Hun keppist við að flytja ekki verk sem samin eru fyrir hana. Þetta hefur raunar aðeins breyst í vetur, með nýrri stjórn hljómsveitarinnar, en hingað til hefur þetta verið svona. Þetta er kaldhæðnislegt því alltént er þetta Sinfóníuhljómsveit íslands. Það sem ætti að skapa henni sérstöðu er ekki að fara erlendis og spila franskt verk í Frakk- landi eða þýskt verk fyrir Þjóðverja, heldur ætti hún að fara erlendis og spila íslenska músík. Það eru til miklu betri hljómsveitir erlendis sem geta spilað Tchaikovsky. eða hvað sem vera aksl. En af því að þú talar um áheyrendur þá fer aðsókn á tónleika auðvitað eftir því hvernig þeir eru kynntir í fjölmiðlum. Umfjöllun um listir er tvenns konar. Almenn listumfjöllun er aðallega í höndum fólks sem hefur flest anriað að sérsviði en list. Einu sérfræðingar fjölmiðl- anna eru þeir sem fjalla um poppmúsík og þeir sem fjalla um íþróttir. Vitanlega er skömm að því að stærstu fjölmiðlarnir skuli ekki hafa menn sem eru sérmenntaðir í listum. Það er bagalegt að þurfa að snúa sér til dag- blaðanna og segja frá tónleikum og hlutað- eigandi blaðamaður þekkir hvorki haus né sporð á því sem verið er að tala um. Ég gæti sagt ófáar gamansögur af slíkum viðskiptum en læt það liggja milli hluta hér. Undantekn- ingar eru auðvitað frá þessu eins og t.d. Margrét Heinreksdóttir á Morgunblaðinu. Á hinn bóginn lít ég svo á að gagnrýnin sé lokapunkturinn á þeirri heild sem listviðburð- ur er. Gagnrýni í fjölmiðlum á umfram allt að veita listamönnum aðhald, byggja upp og vera opinská. Ekki skrif út í bláinn. Þess vegna þurfa gagnrýnendur að skilja þær forsendur sem listviðburðurinn byggir á, en ekki skrifa um eitthvað sem kemur ekki málinu við!‘ — Eg hef veitt því eftirtekt að þú leggur ríka áherslu á heildaryfirbragð tónleika. „Þetta er svipað og þegar málari setur upp sýningu. Þá er ekki nóg að einstök málverk séu góð, heldur þarf sýningin öll að mynda listræna heild. Mér finnst sama eiga við um tónleika. Tónsmíðarnar sjálfar, efnisskráin, framkoman á tónleikunum, þögnin á undan flutningi, Iýsing, umhverfið, viðbrögð áheyr- enda og Ioks gagnrýnin — allt skiptir máli. Tónleikar missa oft marks vegna þess að ein- hverjum þætti tónleikahaldsins er ábótavant" — Hvernig fœðist tónverk? „Það hefur náttúrlega hver sína útgáfu á því. Fyrir mér er það ósköp órómantískt að setjast niður og byrja að vinna og hamast kannski dag eftir dag og ekkert gengur. Þetta er sumsé fyrst og fremst vinna — þú verður nefnilega að vera heima þegar listagyðjan ber að dyrum. Þetta er í rauninni einmanaleg, jafnvel leiðinleg vinna. En eflaust er einhvers konar skáldlegur innblástur hluti af þessari vinnu. Og einhvern tíma kemur að því að heimar opnast.“ — Mikilli vinnu er þá lokið þegar hið svokallaða augnablik sköpunarinnar kemur. — En hvað ákveður formið — hvort um verður að rceða kórverk,hljómsveitarverk eða eitthvað annað? „Það fer eftir því hvernig ég heyri verkið innra með mér og hvernig tilfinnirigu ég vil skapa í brjósti þess sem á hlýðir. Því að ég vil hafa áhrif, það má segja að ég sé áhrifasjúkt tónskáld. Ég vil hafa áhrif á þennan heim — ég vil leggjast á sveif með góðu öflunum og vinna gegn hinu vonda. En það geta líka legið fjarska praktískar ástæður að baki forminu. Að semja óperu væri t.a.m. margra ára vinna. En ég vonast til að geta notað þennan tíma sem ég er á starfs- launum til að leggja út í eitthvað slikt. En framar öllu þarf mann að langa til að semja. Mig hefur langað til að semja kórverk, langað til að semja kammerverk. En mig hefur hing- að til ekkert langað til að semja fyrir Sin- fóníuhljómsveitina í Háskólabíói þar sem ekkert heyrist. í tónsköpun er mjög mikilvægt að tefla alltaf á tæpasta vaðið. Og þótt þú tap- ir gerir það ekkert til — en það verður þá að vera grand fíaskó! Öllum á að leyfast að mistakast, en meðalmennskunudd á ekki að vera í hávegum haft. Engum á að leyfast að framleiða eitthvað sem er hvorki — né undir því yfirskini að það sé einhver list!‘ — Þín eigin tónlist? „Tónskáld getur oft minnst sagt um eigin tónlist. En mér hefur fundist tónlist mín hneigjast í átt að skerpa andstæður, tefla sam- an sterku og veiku, mjúku og hörðu, flóknu og einföldu og svo framvegis. Ef til vill hef ég tilhneigingu til að Iíta þannig á heiminn almennt, lífsskoðanir mínar eru á þá lund að fyrir mér skiptast hlutirnir í vonda og góða — líka í músíkinni. Það er athyglisvert að rann- saka hvernig samfélagsleg áhrif skila sér í gegnum tónlistina. Oft er talað um að lis'tin sé aðeins listarinnar vegna. Ég er sammála því að svo miklu leyti að mér finnst sósjaj- realismi versta tegund af listleysi sem til er. Það sjáum við best í þeim löndum þar sem slík list er fyrirskipuð, ríkinu eða einræðisherran- um til vegsömunar. Þegar listaverk er gert beinlínis í þágu ákveðins málsstaðar verður það í rauninni ekki annað en útþynning á fréttum, léleg fréttamennska. Listamaðurinn þarf að sjúga í sig áhrif frá umhverfinu, byggja á þeim, umskapa þau og skila þeim frá sér — ekki sem sósjal-realískum þvættingi heldur sem fullmótaðri, sjálfstæðri smíð, sem er gædd Iífi, sínu eigin lífi. Af þessum sökum tel ég mig vera hápólitískan listamann. Ég afneita með öllu að listamaður geti verið ópólitískur og Iistin sé eingöngu listarinnar vegna. Slíkar skoðanir eru einungis til þess fallnar að slæva vitund fólks!‘ — I verki þínu Canto sem Háskólakórinn frumflutti í desember s.l. notaðirðu texta úr Gamla testamentinu. Ertu trúaður? „Þegar ég var fyrst beðinn um að semja verk við trúarlegan texta þá stóð ég andspænis þeirri spurningu hvort ég væri trúaður eða ekki, og hvort það væri rétt að ég væri að semja verk við trúarlegan texta ef ég væri ekki trúaður. Ég komst að engri niðurstöðu nema þeirri að ég væri efasemdarmaður!1 — Skyldu ekki raunverulegir efasemdarmenn þegar öllu er á botninn hvolft vera sannastir trú- menn? „Að minnsta kosti velta þeir tilverunni fyrir sér. Ég kýs að orða það þannig að ég vildi að ég gæti verið trúaður. Óg þegar ég hlusta á tónlist eftir JohannSebastian Bach finnst mér hún svo spírítúel og hátt hafin að engu er lík- ara en Bach sitji við-hlið sjálfs guðs almátt- ugs!‘ — Svo? Þá er Wagner helsti heiðinnfyrirþinn smekk? „Ég hreifst ákaflega af Wagner þegar ég heyrði og sá verk hans fyrst á sviði, en sam- tímis vildi ég ekki láta hrífast. Hér komum við að móralska sjónarmiðinu, andstæðum góðs og ills. Versta músíkin er sú sem hefur vond áhrif og við vissar aðstæður getur það átt við um tónlist Wagners. Ég er að tala um móralskt gildi en ekki um fagmannlegu hliðina. Vond músík er þvert á móti oft í bestu umbúðunum, búin til í bestu stúdíóunum, flutt af bestu hljóðfæraleikurunum. Einlægasta og þar af leiðandi besta tónlistin er kannski samin af manni eða konu með harmónikku á Langa- nesi eða af þeim sem iðkar trú sína í Eþíópíu. Þessi músík getur verið betri og sannari en glæst tónlist framleidd af iðnfyrirtækjum, iðnaðartónlist. Við skulum ekki gleyma því að erkiengillinn Lúsifer, tákn hins illa í krist- inni trú, var fegurstur allra engla á meðan á himnavist hans stóð!‘ — Þú talar um iðnaðartónlist. Angrar hún þig eitthvað sérstaklega? „Eitt alvarlegasta vandamál vestrænna samfélaga er hljóðmengunin og er hún ovðin irieiri bölvaldur en flestir gera sér grein fyrir. Það er sífellt verið að misþyrma næmi okkar fyrir allri hljómfegurð og er þannig orðið t.d. hérí Reykjavík aðhvergi er friður fyrir hávaða frá útvörpum og alls konar glymskröttum. Hér ríkir slíkt ofbeldi á þessu sviði, að ef beð- ið er um að það sé skrúfað niður í tækjadrasl- inu þá er maður atyrtur fyrir. Maður er bara álitinn eitthvað skrýtinn, og kemur þá upp sú kaldhæðnislega mótsögn, að maður er bein- línis feiminn við að biðja fólk að hætta að kúga sig. Það er alvarleg frelsissvipting að mega ekki hafa þögn!‘ — Konan þín er þingmaðui Kvennalistans. Þarf að fara í grafgótur um skoðun þína á kon- um? „Samfélagið lítur einatt á konur og lista- menn sömu augum. Konur eiga að vera heima í eldhúsi að skrúbba og skúra en eiga ekki að taka þátt í mótun samfélagsins. Karlmenn annast fiskverðshækkanir, gengisfellingar, styrjaldarekstur og vopnaframleiðslu. Um listamenn gildir sama og um konur — þeim leyfist að segja hvað sem þeim þóknast því að það tekur hvort eð er enginn mark á þeim. Að vísu er þetta að breytast og þetta þarf að breyt- ast. Gæti ekki lausnin á vandamálum heims- ins verið fólgin í því að veita konum völd — ekki einungis til að skarta á tyllidögum, held- ur til að taka þátt í stjórn samfélagsins, og að hinu viðkvæma og mjúka verði gefið rúm á kostnað hörku og ofbeldis? Væri ekki tilvinn- andi að hlusta á listamenn á meðan þeir hafa eitthvað að segja en ekki löngu eftir að þeir eru komnir undir græna torfu og list þeirra hætt að bíta?“

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.