Helgarpósturinn - 01.03.1984, Blaðsíða 17

Helgarpósturinn - 01.03.1984, Blaðsíða 17
Atómstöðin, kvikmynd Þor- steins Jónssonar eftir sögu Laxness, frumsýnd um helgina: Atómstöd Halldórs Laxness hefur verið mönnum hugleikin allt frá því hún kom út fyrir tæpum fjórum áratugum. Saga Uglu, íslensku sveitastúlkunnar sem flyst til höfuðborgarinnar, hefur nú veriö fœrð í kvikmyndabúning. Það er Þorsteinn Jónsson leikstjóri sem hefur unnið að honum síðustu þrjú árin. Búningnum er nú lokið, hann geta menn séð á frumsýn- ingunni í Austurbœjarbíói á laugardag. í helstu hlutverkum myndarinnar eru Tinna Gunnlaugsdóttir sem leikur Uglu og Gunnar Eyjólfsson sem leikur Búa Ar- land. Samtal þeirra um vinnslu myndar- innar, söguefnið og persónurnar sem þau túlka, fer hér á eftir. framtiðarsýn að rætast Fertug — aðalleikendur myndarinnar, Gunnar Eyjólfsson og Tinna Gunnlaugsdóttir rœða saman um verkið eftir Sigmund Erni Rúnarsson myndir Jim Smart Tinna: „Þá er þetta allt að bresta á . . Gunnar: „Þú meinar frumsýn- ingin. Já, veistu, mér finnst svo blessunarlegt hvað við höfum bæði haft mikið að gera fram að þessum tíma, skjálftinn hefur al- veg gleymst í önnunum. Við höf- um verið að taka þátt í hverri upp- færslunni á fætur annarri og svo mikið hefur gengið á að við höfum ekki þurft að hugsa neitt um þessa mynd. Það er í rauninni fáránlegt, en samt finnst mér það mjög gott. Það er aðeins þegar ég sé þig Tinna, við erum jú saman í tveim- ur leikritum núna, að það rifjast upp fyrir mér að við eigum yfir- vofandi frumsýningu á kvikmynd sem við leikum bæði í.. Tinna: ,,Þá rifjast upp öll vinnan í sumar, á bak við vélina ...“ Gunnar: ,,Já, og vitneskjan um að það standi til að við fáum að sjá okkur i því sem við vorum að kafa í þarna um sumarið." Tinna: „Við vitum í rauninni ekkert á hvað við erum að fara að horfa. Þetta eru aðeins stutt minn- ingabrot sem rifjast upp fyrir manni frá tökutímanum, en yfir- sýnin yfir verkið er ennþá jafn fjarlæg og meðan við vorum að fást við þetta. Við sjáum myndina ekki fyrr en á frumsýningu og mér finnst næstum óþægilegt að tala um nokkuð viðkomandi Atóm- stöðina á þessu stigi málsins." Gunnar: „Já, ég skil við hvað þú átt. Við verðum bara að gjöra svo vel að bíða. Og vona . .. Vona það besta. Ég vona það og hef reyndar ekki trú á öðru, því það var beinlínis aðdáunarvert hvað allir lögðu sig heilshugar fram við gerð þessarar kvikmynd- ar. Það var ákaflega jákvæður andi frá upphafi sem ríkti við gerð Atómstöðvarinnar." Tinna: „Enda frábært verk að fást við.“ Gunnar: „Já, ég man hvað mér fannst þetta skemmtileg saga, strax og hún kom út. Hún var svo aktúel á sínum tíma. Efni sögunn- ar var beinlínis mál málanna. Síð- an hafa tæpir fjórir áratugir liðið, og það er svo ótrúlegt að á þeim tíma hefur sannast að þetta er sí- gilt verk. Ég held hreinlega að Atómstöðin höfði meira til mín í dag en hún gerði þegar hún kom fyrst út. Allur hennar boðskapur hefur enda kristallast sem sann- leikur, höfundurinn hefur haft á- kaflega sterka framtíðarsýn sem mér virðist vera að rætast í dag." Tinna: „Sagan virkar í fyrstu mjög yfirlætislaus, en hún er fljót að fá á sig aðrar víddir, enda er undirtónninn allan tímann mjög sterkur. Allar persónurnar í verk- inu eru fulltrúar ákveðinna við- horfa, bæði manngerða og hugs- unarháttar. Þá kannski sérstak- lega Ugla, ímynd þess sem við telj- um vera hreint og íslenskt." Gunnar: „Eftir því sem ég les söguna oftar verð ég sannfærðari um hvað hún höfðar sterkt til nú- tímans. Bókin fjallar um þessa miklu ógn, þessa ógeðslegu bombu sem var búið að kasta, og sem var svo ömurleg í hugum þeirra sem upplifðu þessa tíma, að menn þorðu ekki annað en að halda að svona nokkuð yrði aldrei gert aftur. Aldrei nokkurntíma. En nú lifum við aftur á móti í skugga þessarar sprengju, hrein- lega. Þetta er orðin martröð. Heimurinn er orðinn fullur af mörgum sinnum stærri sprengj- um. Þetta er brjálæði, vitfirring." Tinna: „Svo finnst mér ekki síð- ur athyglisvert hvernig Laxness teflir fram pólum sögunnar, ann- arsvegar íslensku þjóðinni og hinsvegar hinu erlenda afli, sem er i þann veginn að setjast að hér á landi, til að vera. Það er niður- staða bókarinnar, og þannig er þetta enn þann dag í dag.“ Gunnar: „Mér finnst þetta ekk- ert endilega vera séríslenskt verk. Mér finnst eins og sama sagan geti hafa gerst hjá hvaða smáþjóð sem er. ..“ Tinna: „Þetta er fyrst og fremst spurning um metnað smáþjóð- ar . . .“ Gunnar: „Já, og þrýsting sem hún fær frá valdamikilli þjóð. Þetta gæti því eins verið saga frá Tékkóslóvakíu, eða skulum við segja Póllandi sem er enn ferskara dæmi. . .“ Tinna: „Þetta er sígilt efni.“ Gunnar: „Já, því miður." Tinna: „En þetta er líka drama- tísk saga, mikið um persónuleg átök . . .” Gunnar: „Einmitt verk sem mér finnst réttlætanlegt að kvik- mynda, og þó fyrr hefði verið, það er svo margt myndrænt í þessari sögu. Og mér finnst Þorsteinn hafa nálgast þetta verk mjög heið- arlega. Og einnig var hann að mínu mati mjög heiðarlegur gagn- vart okkur í túlkun á persónum verksins. Mer fannst hann mjög opinn fyrir þeim möguleikum sem við sáum í hlutverkunum, ekki einstrengingslegur, heldur rétt- sýnn í meira lagi. Hann gaf okkur lausan tauminn þar sem við átti, en hélt hinsvegar aftur af okkur þegar þess þurfti með. Þorsteinn býr yfir mjög mikilli víðsýni í list- sköpun sinni, sem ákaflega gott er að finna fyrir og eiga að.“ Tinna: „Það má eiginlega segja um Þorstein að hann sé mjög góð- ur ,,salur“, þú veist. Fyrir okkur sem erum varla annað en sviðs- leikarar og erum vön að finna fyr- ir viðbrögðum áhorfenda, fá and- svar framan úr sal, er að sama skapi gott að hafa Þorstein hand- an við vélina, þvi maður er ein- hvernveginn öruggur um að and- svar hans við leiktilþrifunum sé heiðarlegt. Það sést svo greinilega á honum hvenær honum líkar." Gunnar: „Einmitt. Leikstjórinn er í rauninni eini áhorfandi manns í kvikmynd. Þessvegna veltur allt á honum um hvort vel tekst til eða ekki. Þeim manni verður maður að treysta algjörlega.” Tinna: „Maður er svo berskjald- aður fyrir framan kvikmyndavél- ina, maður er eitthvað svo óvar- inn, og þessvegna verður þetta traust milli leikstjóra og leikara að vera eins algjört og hugsast get- ur.“ Gunnar: „Það er öruggt mál að kvikmyndaleikstjórinn getur skapað leikarann sem listamann að miklu leyti, en á sama hátt get- úr hann líka eyðilagt allt fyrir hon- um. Það er þegar þessa trausts nýtur ekki við.“ Tinna: „Þetta er erfiðara í kvik- mynd en annarsstaðar vegna þess að þar er leikarinn allan tökutím- ann að ganga inn í pínulítil brot í myndinni. Hann hefur litla yfirsýn yfir heildina, og þessvegna verður hann svo mjög að reiða sig á leik- stjórann. Það er ekki um neitt rennsli að ræða í kvikmyndum eins og í leikhúsi þar sem leikar- inn getur áttað sig á heildarbragn- um.“ Gunnar: „Mér finnst kvikmynd- in krefjast mun meiri einbeitingar af hálfu leikarans en leikhúsið. Um leið og hann einbeitir sér að mjög smáu atriði verður hann líka að vera víðsýnn í túlkun sinni, mjög meðvitaður um það sem fer á undan og á eftir. Það verður hver bútur að vera í samræmi við heildina. Leikari í kvikmynd á við mjög svipað verk að stríða og mósaíklistamaður. Hann verður að finna lítinn stein, meitla hann og pússa vandlega, svo hann falli óaðfinnanlega að heildarmynd- inni.“ Tirwa: „Einna erfiðast við kvik- myndaleik finnst mér einmitt vera þessi sífelldu skipti á andrúmslofti sem eru svo breytileg eftir því hvar verið er að kvikmynda í verkinu. Alltaf þarf samt að tjá sömu manneskjuna, alltaf að vera vakandi fyrir því hvernig hún hlýtur að bregðast við hverju sinni. Ugla er öll í grundvallaratr- iðunum, ákaflega heilsteypt og því fátt um breytileg tilbrigði í hátterni hennar. Hún er sterk og óspillt úr sveitinni, hefur sína heil- brigðu réttlætiskennd. Húnbregst við hverju sinni eins og hjartað býður henni. Hún virkar ögrandi á heimili Búa vegna þess að hún skipar fólki ekki í stéttir og lítur ekki á sig sem vinnukonu endi- lega, hún er bara „fólk" eins og hún segir sjálf. Það er erfitt að leika þannig konu." Gunnar: „Ég held aftur á móti að ég hafi vitað það allan tímann hvað það var sem þurfti að koma fram í fari Búa Árlands. Ég vissi mjög vel hvað ég þurfti að túlka, en það er nú svo að ég er ekki enn- þá búinn að sjá myndina, og því get ég ekki ennþá sagt hvort mér hefur tekist það sem ég ætlaði mér með Búa. Ég vildi og vil ennþá geta tjáð Búa Árland, leika allar andstæð- urnar í þessum manni eins rétt og ég skil þessa persónu, en ég vil ekki vera Búi Árland. Mér fannst mjög gaman að fást við hann, leika hann, en ég vildi ekki þurfa að burðast með samvisku hans, samt þykir mér vænt um hann eins og aðrar persónur sem ég hef fengið að leika." Tinna: „Þessu er akkúrat öfugt farið með Uglu. Ég vildi gjarnan vera sú manneskja en það er auð- vitað ekki möguleiki. Ég get alla vega leyft mér að læra af henni og það hef ég líka gert. Reyndar má segja að ég hafi gengið með Uglu í allt sumar og fram á þennan dag en á laugardaginn verður breyt- ing á, þá get ég vonandi sagt skilið við hana og horft á hana eins og óviðkomandi persónu á hvíta tjaldinu. En ég á örugglega eftir að sakna Uglu." HELGARPÓSTURINN 17

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.