Helgarpósturinn - 22.11.1984, Blaðsíða 7

Helgarpósturinn - 22.11.1984, Blaðsíða 7
NÆRMYND Jón Baldvin Hannibalsson Það er farið mörgum og æði misjöfnum lýsingarorðum um nýkjörinn formann Alþýðuflokksins í Nærmyndinni af honum hér á eftir. Jón Baldvin Hannibalsson er umdeild persóna en þó sýnu umdeildari stjórnmálamaður. Frami hans í ís- lenskri pólitík hefur verið torsóttur, kannski mest vegna þess að hann hefur varið meiri tíma í ferðalög um flokkakerfið en margir aðrir stjórnmálamenn og kynnst þar mismunandi stefnum af eigin raun. eftir Sigmund Erni Rúnarsson teikning Anna Gunnlaugsdóttir Jón Baldvin Hannibalsson er fiskur, fæddur á ísafirði þann 21. febrúar árið 1939, sonur hjónanna Sólveigar Ólafsdóttur frá Strandseljum og Hannibals Valdimarssonar fyrrverandi ráðherra. Fæðingarstaður Jóns var nánar tiltekið Alþýðuhúsið í kaup- staðnum vestra sem þá var enn verið að fullgera. Fjölskyldan hafði aðsetur í húsinu fyrir þær sakir að pabbinn stjórnaði bygg- ingarframkvæmdunum sem voru unnar í sjálfboðavinnu krata á staðnum, og hafði jafnframt þann starfa að bregða Tarsan á tjaldið sem sýningarstjóri í bíói staðarins sem fékk inni í þessu húsi. Fæð- ingin í Alþýðuhúsinu gekk ekki vandræðalaust. Soninn þurfti að taka með keisaraskurði og í heim- inn kominn reyndist hann ekki nema sex merkur. Ljósmóðurinni leist ekki á blikuna, enda sýnt að móðirin væri svo máttfarin eftir aðgerðina að hún gæti ekki sinnt snáðanum næstu vikurnar. Hon- um var því snarað strax inn að Strandseljum í Ögurhreppi til móðursystur sinnar. Þar var dælt í hann lýsi í stað móðurmjólkur og reyndist sá kostadrykkur honum lífsbjörg. Það er hinsvegar af ljós- móðurinni að segja að fjörutíu og fimm árum síðar var hún stödd suður í Reykjavík á flokksþingi Al- þýðuflokksins, og varð þar vitni að því að sex marka jóðið sem hún hafði komið í heiminn náði kosn- ingu til formanns krata með eleg- ans. Jón Baldvin er yngstur fimm barna þeirra Sólveigar og Hanni- bals. Sjö fyrstu ár sín var hann bú- settur á Isafirði ásamt foreldrum sínum og systkinum. Guðríður Hannibalsdóttir kemur næst hon- um að árum og segir frá bernsku þessa bróður síns: „Jón var af- skaplega failegur og glæsilegur drengur, sérstaklega þægur og ijúfur í umgengni. Það var mikið dúllað með hann á heimilinu, enda var hann yngstur og þar af leiðandi í miklu uppáhaldi. Hann var farinn að tala mjög fljótt og eftir að hafa náð nokkru lagi á móðurmálinu, talaði hann mikið og hefur gert síðan. Að vísu þótti þessi mælska hans ekkert tiltöku- mál á heimilinu, því heimilisfólkið var allt mjög skrafhreifið og al- gengt að hver talaði í kapp við annan. Jón æfðist því fljótt í þeirri list að ná athygii fólks.“ Allt frá fimm ára aldri og fram til táningsaldurs var Jón sendur í sveit á sumr- in, fyrst að Strandseljum en síðar meir í Ögur við Djúp. Þórir Sig- urðsson eðlisfræðikennari við Menntaskólann á Akureyri var á þessum árum vinur Jóns í sveit- inni í Ögri, en óvinur hans á vetr- um í skólanum inni á Isafirði. Ástæðan var sú að þeir voru báðir hörkunámsmenn, ótrúlega metn- aðarfullir og svo miklir keppinaut- ar um hæstu einkunnina í bekkn- um sínum að þeir töluðust ekki við allt frá því að skólabækurnar voru opnaðar að hausti þar til þeim var lokað að vori, en þá beið þeirra beggja sami sveitabærinn í Ögri, hvar þeir féllust í faðma og voru óaðskiljanlegir félagar fram á haust. Litli bróðir Þóris var með þeim Jóni í Ögri síðustu árin sem þeir voru þar í sveit. Hann er nú orðinn forstjóri Þjóðhagsstofnun- ar og heitir Jón Sigurðsson: „Jón Baldvin var geysilega skemmti- legur strákur á þessum Ögurárum sínum, og er enn. Hann var orðinn mjög mælskur á þessum árum og kjörinn málsvari okkar aðkomu- strákanna ef okkur fannst eitt- hvað vanta á aðbúnað okkar á bænum. Hann var miklu baldnari við húsráðendur en við hinir, og langtum uppreisnargjarnari og framtakssamari til leikja og uppá- tækja. Hann var óumdeilanlegur foringi okkar, ekki aðeins í leikj- unum heldur einnig þegar þurfti að taka til hendinni á bænum. Jón hefur alltaf verið dugnaðarfork- ur.“ Uppvöxtur Jóns Baldvins ein- kenndist af nokkru hringli sem fylgdi pólitískum örlögum föður hans. Jón fluttist fyrst suður árið 1946 þegar Hannibal náði kosn- ingu á þing og næstu tvo vetur var hann við nám í barnaskólanum í Laugarnesi, í svokölluðum Skeggjabekk, sem hlaut það nafn af ástkærum kennara barnanna, Skeggja Ásbjarnarsyni er nærfellt gekk nemendum sínum í föður- stað. Bekkjarsystkini Jóns á þess- um vetrum áttu mjög eftir að kom- ast í sviðsljósið síðar meir og næg- ir þar að nefna Styrmi Gunnars- son, ritstjóra Morgunblaðsins, Magnús Jónsson, rithöfund og leikstjóra, Ragnar Stefánsson jarð- skjálftafræðing, Brynju Bene- diktsdóttur leikstjóra, Hallveigu Thorlaciu.s brúðuleikara, Margréti Eggertsdóttur skólameistarafrú á Akureyri og þingmennina Halldór Blöndal og Ragnar Arnalds. Mjög náin tengsl mynduðust með nem- endum í Skeggjabekk og uppá- tækin voru mörg með frumleg- asta móti. Ragnar Arnalds sat við hlið Jóns Baldvins í skóiastofunni hjá Skeggja: „Við vorum þá mestu mátar. Hann var mjög viðkunnan- legur og gáfaður ungur maður og strákslegur í uppátækjum." Arið 1948 flutti Jón aftur til ísafjarðar með fjölskyldu sinni en dvölin vestra var ákaflega stutt, því 1951 var Jón kominn á ný suður tii Reykjavík- ur, 12 ára gamall. Þrátt fyrir þann unga aldur var pólitíkin farin að gera vart við sig í huga stráksins. Olíkt flestum öðrum börnum at- vinnupólitíkusa, fékk Jón ekki óbeit á stjórnmálavafstrinu í kringum sig, heldur einmitt þvert á móti. „Það var strax ljóst að þetta var eitthvað fyrir hann,“ segir Hannibal faðir hans við HP. „En ég hafði þar þó næsta lítil áhrif. Jón hiaut alveg frjálst upp- eldi í pólitík eins og á öðrum svið- um, enda hefur mér alltaf fundist fara best á því að menn fái að þroskast í þessu sjálfir. Andrúms- loftið á heimilinu var vitaskuld mjög kratískt og verkalýðssinnað, en engu að síður fór strákurinn lengra til vinstri en þetta umhverfi bauð upp á. Ég gat vel umborið þennan kommúnisma hans enda var ljóst að þetta var ekki mitt mál heldur hans. Með árunum og meiri þroska færðist hann síðan til og ég verð að segja að mér finnst pólitík hans vera farin að renna eftir réttum farvegi nú upp á síð- kastið." En það var ekki einasta að andrúmsloftið á æskuheim- ili Jóns væri „kratískt" eins og Hannibal kemst að orði, heldur var lesefnið þar næstum allt af vinstri toga spunnið. Og Jón hefur alltaf verið lestrarhestur. Það fór því ekki hjá því að hann gripi í safn föður síns og meðal bóka þar var að finna Kommúnistaávarp þeirra Marx og Engels. Sagt er að þá bók hafi Jón verið búinn að læra utanbókar aðeins fimmtán ára, og þó Jón samþykki sjálfur að það sé „aðeins ýkt“ felast engu að síður nokkur sannindi í þeirri full- yrðingu. Á þessum aldri var hann orðinn ákafur marxisti og það sem meira var, „innblásinn mann- kynsfrelsari", eins og honum seg- ist sjálfum frá. Þessi stjórnmálaofsi átti eftir að koma vel fram hjá Jóni i landsprófsbekk í Gagnfræða- skóla Vesturbæjar. Þar má segja að Jón hafi reynt marxíska bylt- ingu í minimaldúr. Hann og Átli Heimir Sveinsson, síðar tónskáld, tóku völdin í skólafélaginu upp á sitt eindæmi: „Ég var skipuleggj- andinn," segir Atli, „og starfaði sem einskonar leynilögga í þess- ari valdatöku, á meðan Jón Bald- vin var sannfærandinn uppi á kassa fyrir framan lýðinn." Þeir Atli og Jón gáfu síðan út blað sem þeir nefndu Þjóðólf, til að miðla réttlætinu og þar var að sjálfsögðu vitnað í Marx og Lenín í bak og fyrir og birtir lærðir langhundar eftir Jón sem hann skrifaði að miklum hluta upp úr bréfum frá bróður sínum Arnóri, sem þá var við nám austur í Moskvu. Þessi vinstri klíka í landsprófsbekk skyldaði alla nemendur skólans til að hafa Þjóðólf með sér heim til lestrar, enda væri annars Atla Heimi og leynilöggunni að mæta. Það var af foreldrum margra þess- ara barna að segja, að þeim líkaði fráleitt lesningin sem þau rákust á í úlpuvösum barna sinna. Það var kvartað unnvörpum tii skólastjór- ans og Jón Baldvin fékk rækilegt tiltal og var skipað að stilla póli- tískum áhuga sínum í hóf, ella yrði hann að hverfa frá námi. Atli Heimir segir ennfremur um þessa róttæku tíð í landsprófsbekk: „Það var með ólíkindum hvað Jón var orðinn rammpólití'skur á þess- um árum og óhemjumikið lesinn í stjórnmálunum. Og svo var hann svo hraðmælskur að hægri menn í skólanum kiknuðu undan látun- um. Vinstristefnan bunaði upp úr stráksa og með þvílíkum sannfær- ingarmætti að fylgið sópaðist til okkar. Á mælskufundunum sem oft voru haldnir í skólanum á þess- um vetri, var jafnvel svo komið að enginn þorði í Jón.“ að var á svona málfundi í Gaggó-Vest sem snotur Reykjavíkurmær varð virkilega skotin í fyrsta sinn. Jón Baldvin var náttúrlega í ræðustóli og á meðan sat stúlkan og hlustaði hugfangin. „Það var ekki einvörð- ungu af mælskunni sem ég hreifst, heldur líka þessum bláu og gáfu- legu augum sem voru samt svo viðkvæmnisleg. Hinsvegar gátu vinkonur mínar ekki séð neitt í fari þessa stráks sem þeim fannst aðdáunarvert, og bentu mér til dæmis á að hann væri lægri í loft- inu en ég, en slíkur hæðarmunur herramanninum í óhag var nátt- úrlega agalegur á þessum árum." Þetta segir Bryndís Schram, sem fimm árum seinna gekk að eiga mælskumanninn og byltingarfor- ingjann úr Gaggó-Vest. HELGARPÖSTURINN 7

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.