Helgarpósturinn - 21.02.1985, Blaðsíða 18

Helgarpósturinn - 21.02.1985, Blaðsíða 18
KVIKMYNDIR Saga um ást og vináttu Bíóhöllin: Nickel Mountain Íslensk/bandarísk. Árgerd 1984. Leikstjóri: Drew Denbaum. Kvikmyndun: David Bridges. Handrit: Drew Denbaum upp úr skáldsögu John Gardner. Framleid- andi: Jakob Magnússon. Aðalleikarar: Michael Cole, Heather Langenkamp, Patrick Cassidy, Grace Zabriskie. John Gardner er höfundur skáldsögunnar sem þessi mynd um Nikkelfjallið byggir á. Gardner lést í mótorhjólaslysi í fyrra á með- an á tökum hennar stóð, aðeins 55 ára gam- all, en fyrir löngu hafði hann unnið sér sess meðal eftirtektarverðustu ungu höfunda Ameríku. Þessi saga Gardners er einstaklega falleg, en umfram allt manneskjuleg, enda er uppistaða hennar tilfinningar, örlög og mannleg samskipti eins og þau gerast, en ekki eins og þau ættu að gerast eða gætu gerst. Þemað er ástarþríhyrningurinn, bar- átta tveggja manna af ólíkum toga um hylli sextán ára sjarmerandi stúlku. Annar þeirra er vel stæður pabbadrengur, ungur og gjörvilegur, hinn 36 ára, akfeitur, óframfær- inn og smeykur undirmálsmaður sem rekur matsölustað sem stúlkan ræðst til starfa á. Gardner fer mjög fínlega með þetta efni. . . Og þetta mjúka er það sem leikstjórinn og handritshöfundurinn Dew Denbaum hefur að leiðarljósi við gerð þessarar kvikmynda- útfærslu. Nikkelfjallið er fyrsta kvikmynd Den- baums í fullri lengd, en þessi rétt rúmlega þrítugi Bandaríkjamaður á að baki nokkrar styttri myndir sem niargar hafa hlotið viður- kenningar. Annars hefur Denbaum fyrst og fremst verið handritshöfundur fram að þessu. Sú reynsla nýtist honum vel í þessu viðfangsefni, því handritið að því er mjög sterkt, heilsteypt og fágað. Allt hið smæsta og kannski veigamesta í mannlegum sam- skiptum verður mjög sannferðugt í meðför- um hans, undiraldan er áberandi, yfirborðs- kenndin fjarri. Þetta kemur hvað glæsilegast fram í per- eftir Sigmund Erni Rúnarsson sónusköpuninni og þá einkanlega í stjórn Denbaums á Michael Cole í hlutverki feita veitingahússeigandans. Cole er afbragð í þessari rullu, nær slíkum tökum á þessum volaða manni sem áhorfandinn fær strax samúð með, að sérstakt yndi vekur. Aðrir leikendur falla svolítið í skuggann á fanta- leiktilbrigðum Cole, standa þó fyllilega fyrir sínu, nema ef vera skyldi Patrick Cassidy, sem mér fannst helst til of væminn á köflum í sinni rullu. Sagan um Nikkelfjallið vekur með manni sérstök hughrif. Þetta er falleg og róleg frá- sögn af því hvað ást og vinátta megnar enn í okkar hörðu þjóðfélögum. -SER. LEIKUST Þörf okkar fyrir sjálfsblekkingu Þjódleikhúsid sýnir Rashomon eftir Fay og Michael Kanin. Þýöing: Árni Ibsen. Lýsing: Árni J. Baldvinsson. Leikmynd og búningar: Svein Lund Roland. Leikstjóri. Haukur J. Gunnarsson. Þátttakendur: Bessi Bjarnason, Hákon Waage, Gunnar Eyjólfsson, Gudjón Peder- sen, Arnór Benónýsson, Tinna Gunnlaugs- dóttir, Jón S. Gunnarsson, Þórunn Magnea Magnúsdóttir, Birgitta Heide. Leikritið Rashomon er býsna flókið, þrátt fyrir allan ytri einfaldleika. í stuttu máli er það samblanda af spennandi reyfara, harm- sögu með gamansömu ívafi og heimspeki, sem gengur út frá því að hlutlægur sannleik- ur sé ekki til, að maðurinn geti vart lifað af án þess að ljúga að sjálfum sér. Söguþráður leiksins er steyptur saman úr tveimur japönskum sögum, sem gerast báð- ar á svokölluðu Heian-tímabili japanskrar sögu (794—1184). Leikurinn gerist við Rashomon-hliðið, sem var eitt af borgarhlið- um Kyoto, fornrar höfuðborgar Japans. Ytri rammi þess sýnir okkur 3 menn, sem standa af sér regn við þetta hlið. í tal berst nýafstaðið réttarhald í nauðgunar- og morðmáli, sem tveir þeirra hafa verið viðstaddir. I réttar- haldinu var atburðarás málsins rakin af hverjum málsaðila fyrir sig eins og hún sneri að viðkomandi. Þar á meðal talaði hinn myrti sjálfur í gegnum miðil. Mennirnir þrír við hliðið deila síðan um það sín á milli hver málsaðila segi satt og hver ljúgi. Sú deila leys- ist ekki, jafnvel þótt í ljós komi 4. útgáfa málsins, heldur snýst upp í enn frekari vangaveltur um breyskleika mannskepn- unnar. Rekja má efni þessa bandaríska leikrits til þjóðsagnar um Rashomon-hliðið, sem hefur orðið Japönum uppspretta margra verka á sviðum bókmennta og Iista. Á þessari öld skrifaði rithöfundurinn Akutagawa smásögu sem hann byggði á þessari þjóðsögn og á henni byggist ytri rammi leikritsins. Hann skrifaði einnig smásöguna „í lundinum", sem fjallar um Samurai-kappa og eiginkonu hans á ferð í gegnum skóg nokkurn. Á þau ræðst stigamaðurinn alræmdi, Tajomaru, nauðgar konunni en drepur manninn. Á þessari sögu byggist svo innri rammi leikritsins, þ.e. sjálft réttarhaldið. Sá sem á þó heiðurinn af að hafa steypt þessu öllu saman í eina leikræna heild er Akira Kurosawa, einn þekktasti og virtasti kvikmyndaleikstjóri Japana. Hann bjó til kvikmyndahandrit og kvikmynd, sem leikritið byggir á. Hann bætti einnig 4. út- gáfu sakamálsins við og þannig fékk deila mannanna þriggja við Rashomon-hliðið annað inntak og vakti spurningar um innsta eðli mannsins. Kurosawa hefur sjálfur lýst því í ævisögu sinni hvernig hann varð að út- skýra og túlka innihald Rashomon fyrir að- stoðarfólki sínu og leikurum, sem reyndist erfitt að skilja handrit hans til fulls. Fyrir Kurosawa fjallaði Rashomon fyrst og fremst um syndsamlega þörf mannsins fyrir sjálfs- blekkinguna. Sú þörf er svo sterk að hún gengur jafnvel út yfir gröf og dauða (sbr. hinn myrta og miðilinn). Með því að ljúga að sjálf- um sér, reynir maðurinn stöðugt að fegra eig- in gerðir og telja sjálfum sér trú um að hann sé betri en hann í rauninni er. Kurosawa segir m.a.: „Þið segist ekki skilja Rashomon, en það er einmitt vegna þess að mannlegt hjarta er ófært um oð skilja. Ef þið einblínið á þessa vangetu okkar til að skilja mannssálina til fulls, þá munuð þið eflaust skilja Rashomon betur." (Something like an autobiography eft- ir Akira Kurosawa, bls. 183.) Þessi orð eiga vel við hér, því eins og ég minntist á í upphafi, þá er þetta verk býsna flókið og felur í sér margræðar merkingar, sem ekki er auðvelt að henda reiður á í fyrstu. Það gefur því auga leið, að uppsetning þess er einnig vandaverk. Verkið hlýtur að krefjast þess að leikið sé upp á japanskan máta. Við eigum því láni að fagna að eiga japanskmenntaðan leikstjóra, sem er Hauk- ur Gunnarsson. Hann hefur í þessari upp- setningu greinilega lagt rækt við japanskan leikstíl, einkum í vinnu sinni með yngri leik- urunum, sem leika persónurnar í sjálfri morðsögunni. Hinsvegar hefur ekki eins vel tekist til með öldungana framan við Rasho- mon-hliðið. Það er eins og þeim Hákoni Waage, Bessa Bjarnasyni og Gunnari Eyjólfs- syni takist ekki að brjótast út úr sínum persónulega og landsþekkta Þjóðleikhúsleikstíl. Þetta er mest áberandi í hreyfingum og fram- sögn, sem ber allt of sterkan keim af öðrum hlutverkum þeirra. Leikstíll þeirra var á skjön við verkið. Þessvegna var eins og það myndaðist hálfgert kynslóðabil í leiknum. Ungu leikurunum er lagt erfitt verk á herðar. eftir Hl(n Agnarsdóttur Þeir verða að túlka sömu persónurnar á fjóra vegu. Af þeim tókst Tinnu Gunnlaugsdóttur best upp í hlutverki eiginkonunnar. Leikur Tinnu og hreyfingar voru hárnákvæmar, innlifun sérlega góð og raddbeiting sterk og áhrifamikil. Guðjón Pedersen lék stigamann- inn Tajomaru og sýndi góða líkamsbeitingu (sem fyrr) og túlkaði ruddaskap og óskamm- feilni nauðgarans á trúverðugan hátt. Það eina sem lýtti leik hans var léleg framsögn. Arnór Benónýsson leikur hér sitt fyrsta hlut- verk í Þjóðleikhúsinu. Hann sýndi gott út- hald og nákvæmni í hlutverki eiginmanns- ins, Samurai-kappans. Hlutverk hans er að stórum hluta þögult, en krefst mikillar ein- beitingar í leik sökum mikillar kyrrstöðu. Arnóri tókst að mynda andstæðu við stiga- manninn og skapa fíngerðan bardagamann. Bardagasenur hans og Guðjóns voru þeim og höfundum til sóma. Það hefði mátt geta þess í leikskrá hvaðan tónlistin við þær senur svo og önnur tónlist í verkinu var ættuð. Birgitte Heide dansari túlkaði miðilinn og sýndi góða einbeitingu og pottþétt samræmi við rödd hins myrta. Það sem á skorti við frumsýningu var leikhraði. Sýningin var hæg í byrjun og það vantaði töluvert magn og spennu í sjálfa framvinduna. Sýningin var því nokkuð lengi að hefja sig upp. Hinsvegar spillti það ekki fyrir ánægjunni sem hún veitti manni. Það er ekki oft sem við fáum að skyggnast inn í austurlenskan hugsunarhátt og framandi leikhefðir. Rashomon er sýning sem Þjóðleikhúsið þarf ekki að skammast sín fyrir og er því einungis til sóma á þessum tímum „eitthvað létt" faraldurs. JAZZ Sveifla og frjáls spuni Það er dáiítið merkilegt hve erfitt er að fá djassskífur á íslandi. Steinar flytja inn CBS, Fálkinn Verve, Grammið ECM og þá er flest talið. Það var því gaman að Skífan skyldi bætast í þennan hóp og fara að flytja inn djass frá RCA-Victor. Þar er mikið um klass- íska sveiflu með stórsveitum Benny Good- mans, Tommy Dorsey, Glen Millers, Artie Shaw og Buddy Richs. Svo eru tvær stórkost- legar stórsveitarskífur í skífuröðinni: Jazz Special. The Popular Duke Ellington með Ellington-bandinu frá 1967 og Africque með hljómsveit Count Basies frá 1970. Ellington-skífan hefur að geyma 11 klass- ísk Ellingtonverk ss. Take the „A“ train, Black and tan fantasy, The Mooche og Creole love call í nýjum búningi og að mínu viti er þetta best heppnaða endursköpun Ell- ingtons á eldri verkum. Hodges, Gonsalves, Cootie Williams og Lawrence Brown eru höf- uðeinleikararnir ásamt píanista hljómsveit- arinnar — fimm stjörnu skífa í sérflokki! Africque Count Basies er öðruvísi skífa. Þar eru flestir ópusarnir eftir Oliver Nelson, er stjórnar hljómsveitinni og útsetur. Margar bestu skífur Basies frá seinni árum eru í þeim dúr ss. The Atomic Basie er Neal Hefti útsetti og Kansas City Suite er Benny Carter útsetti. Basie var mjög ánægður með Africque og þótti hún nútímalegust af hljóðritunum sín- um. Auk fimm ópusa eftir Nelson eiga þeir einn ópus hver: Albert Ayler, Pharaoh Sanders og Gabor Szabo. Einleikararnir eru jafn ólíkir og Eddie „Lockjaw" Davis og Hubert Laws. Frábær skífa — öðruvísi Basie- skífa! Ég mun gera grein fyrir nútímadjassinum frá RCA á næstunni, en get ekki lokið þessu spjalli án þess að geta þess að RCA hefur endurútgefið tvær breiðskífur með Jelly Roll Morton — hinum mikla meistara New Orleans djassins. (PS. Mikil SteepleChase sending var að koma í Grammið, m.a. nokkr- ar nýjar Chet Baker skífur.) Jazzhátíd Mikil djasshátíð verður í Félagsstofnun stúdenta um helgina. Það er Grammið sem gengst fyrir herlegheitunum og hefjast fyrri tónleikarnir klukkan níu annað kvöld. Þetta er önnur djasshátíð er haldin er hérlendis, en sú fyrri var í apríl-maí 1981 og léku þá hér Ted Daniel, Chris Woods og hljómsveit Sví- ans Fredrik Noréns ásamt íslenskum. Hátíðin annað kvöld hefst á einleik hol- lenska píanistans Fred Van Hove. Síðan mun kvartett leika; hann skipa Vestur-Þjóðverj- arnir Heinz Becker, trompet, Peter Kowald, bassa, Paul Lovens, trommur svo og svissn- eski píanistinn Irene Schweizer. Hún heim- sótti Island á sínum tíma með The Feminisl Improvising Group. Peter Kowald er okkur líka að góðu kunnur en þetta verður þriðja eftir Vernharð Linnet íslandsheimsókn hans. Fyrra kvöldinu lýkur svo á dúett saxafónleikarans Peter Brötz- mann og trommarans Han Bennink. Brötz- mann lék hér einn fyrir nokkrum árum og er skemmtilegastur þeirra evrópsku spuna- manna er ég hefi heyrt. Bennink er hollensk- ur og var m.a. trommari Eric Golphys á síð- ustu hljómplötu hans. Þeir félagar eru hinir ágætustu húmoristar og fara þá oft á kostum. Síðari tónleikar hátíðarinnar verða í Fé- lagsstofnun á laugardagskvöld. Þeir upphefj- ast á píanóleik Austur-Þjóðverjans Ulrich Gumpert en síðan Ieikur tríó skipað Þjóð- verjunum Alexander von Schlippenbach á píanó og Lovens svoog Englendingnum Evan Parker er blæs í saxafóna, en hann var fyrsti spunameistarinn er heimsótti ísland og er m.a. þekktur fyrir hringöndun sína. Tón- leikunum lýkur svo á einleik Irenu Schweitz- er. Þetta er mikil hátíð fyrir þá er gaman hafa af framúrstefnu og frjálsum spuna. Indælt verður að heyra Brötzmann aftur svoog að fá að kynnast von Schlippenbach, Bennink og Van Hove. 18 HELGARPÖSTURINN

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.