Helgarpósturinn - 28.03.1985, Blaðsíða 6

Helgarpósturinn - 28.03.1985, Blaðsíða 6
INNLEND YFIRSYN w,Flokkurinn er í kreppu. Þetta getur ekki gengið svona lengi. Hvort þetta þýðir uppgjör eða ekki.. .“ segir Ólafur Ragnar. Alþýöubandalagiö: Uppgjör í nánd Alþýðubandalagið er í klemmu. Vandi þess er margþættur. Skoðum aðeins fáeinar yfirlýsingar sem fram komu í viðtölum við HR. Olafur Ragnar Grímsson: „Alþýðubanda- lagið er í kreppu. Það er alveg ljóst. Flokks- forustan þarf að taka rækilega til heima hjá sér ef takast á að snúa vörn í sókn.“ Björn Arnórsson: „Alþýðubandalagið, eða sá hluti þess sem hefur með þingflokkinn að gera, hefur ákaflega litla innsýn í verkalýðs- mál og jafnframt, að því er virðist, takmark- aðan áhuga á þeim. Einar Karl Haraldsson: „Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að kalla Alþýðubandalagið krataflokk. Það er enginn eðlismunur á starfi og stefnu Alþýðubandalagsins og norrænu krataflokkanna. Ekki nokkur." Ónafngreindur stjórnmálafræðingur: „Það sem amar að flokknum um þessar mundir er doði, ráðleysi og viss aumingja- skapur. Hann skortir ferskan tón og mark- vissa stefnu. Alþýðubandalagið hefur ekki „appeal“ í augnablikinu." Þetta segir sína sögu um móralinn innan flokksins og það álit sem hann hefur út á við um þessar mundir. Hver skoðanakönnunin af annarri hefur sýnt fram á það að undan- förnu að fylgi bandafagsins er að minnka verulega. Þá er það ekki síður eftirtektarvert að áhrifamenn innan flokksins eru að segja skilið við hann, innanflokksátökin eru jafn greinileg og stefnufestan er ógreinileg. Og hver er rót þessa máls? Björn Arnórsson hagfræðingur BSRB er nýjasta tilfellið um áhrifamann innan flokks- ins sem segir sig úr honum. Ástæðan? „Þetta var uppgjöf af minni hálfu til að fá flokkinn til að berjast fyrir samstöðu í þjóðfélaginu gegn nýfrjálshyggjunni, þeim mesta vágesti velferðarþjóðfélagsins." Björn bendir á að flokkinn hafi lengi vantað „alhliða efnahags- stefnu" sem hann svo nefnir. „Ég vil ekki taka svo djúpt í árinni að klofningur sé í nánd innan flokksins, en að minnsta kosti stefnir í glundroða, ef ekkert verður að gert á næst- unni. I stjórnarmyndunarviðræðunum 1983 gerðu stjórnir ASÍ og BSRB ályktun þess efn- is að leiðin til raunhæfra kjarabóta fælist í samstarfi sem flestra aðila við þá stjórn sem kæmi, hver sem hún yrði, en þar yrðu kjara- málin rædd á víðum grundvelli í stað þess að einvörðungu væri mænt á kaupið. Á aðal- fundi verkalýðsmálaráðs Alþýðubandalags- ins nú fyrir nokkru var síðan gerð samþykkt á þessum grundvelli. Hún fór mjög fyrir brjóstið á forystumönnum Alþýðubanda- lagsins, sem hvað gleggst kom fram í því að yfirlýsing verkalýðsmálaráðsins var aldrei birt í Þjóðviljanum. Margir líta svo á að þau átök sem orðin eru milli verkalýðsarms Álþýðubandalagsins og forystumanna þess eigi upptök sín í þessari yfirlýsingu og eins því að varaformaður skyldi ekki hafa valist síðast úr röðum verka- lýðsarmsins. Sambandið milli þessara arma hafi dofnað upp frá þessu, svo mjög reyndar, að telja megi um sambandsleysi á síðustu mánuðum. „Það er ekkert launungarmál að Svavar og Ásmundur eiga ekkert gott með að starfa saman, en Ásmundur talar heldur ekki fyrir alla verkalýðsforystuna, heldur aðeins að hluta,“ segir Einar Karl Haralds- son, framkvæmdastjóri Alþýðubandalags- ins. Hann telur hins vegar ágreininginn milli þessara arma flokksins ekki eins mikinn og af hafi verið látið: „Menn verða að átta sig á því að hér er fyrst og fremst á ferðinni ágreiningur í launþegahreyfingunni sjálfri. Það er til dæmis lítil samstaða milli ASÍ og BSRB um það hvernig eigi að bregðast við kjaraskerðingunni. Þetta ástand kemur sér illa fyrir Alþýðubandalagið sem gefur sig út fyrir að vera málsvari verkalýðshreyfingar- innar í heild. Þessi heild er bara ekki fyrir hendi nú. Vandi Alþýðubandalagsins hefur verið sá að það hefur ekki getað aðlagað sig að þeim stjórnleysisblæ sem er á launþega- hreyfingunni. Það hefur svo orsakað vissa tortryggni milli manna.“ Einar Karl bendir ennfremur á að forysta Alþýðubandalagsins þurfi að gera ýmsa hluti upp við sig á næstunni, setja sér skýra og markvissa stefnu, og honum kæmi það ekkert á óvart þó það yrði „svolítið storma- samur tími fyrir flokkinn". En strengina þurfi að stilla upp á nýtt. Björn Arnórsson segir að málið sé bara það að aldrei hafi tekist að samræma þau ólíku sjónarmið sem ráðið hafi innan flokksins. „Inn í þennan flokk hafa menn leitað vegna ólíkra hagsmuna; menn úr launþegahreyfingunni, herstöðva- andstæðingar, rauðsokkur, náttúruverndar- menn, húsfriðunarfólk og menntamenn og hvað þetta nú allt heitir. Þessir hópar hafa aldrei ræðst almennilega við um stefnu- markandi mál, heldur hírst hver í sínu horni.” Ólafur Ragnar veit af þessu: „Það hefur al- mennt skort samkvæmni í vinnubrögðum innan flokksins. Þar af leiðandi stendur flokkurinn frammi fyrir miklum vandamál- eftir Sigmund Erni Rúnorsson um, sem ekki verða leyst nema með breytt- um starfsháttum og stefnuáherslum. Okkur hefur skort skýran stefnufókus. Þetta getur ekki gengið svona lengi. Og hvort þetta þýð- ir uppgjör eða ekki, skal ég ekki segja til um. Það verður bara tíminn að leiða í ljós ef mál- in leysast þá ekki á annan hátt. Ólafur Ragnar tekur síðan undir þá skoðun stjórnmálafræðingsins sem vitnað var í hér að framan, að aldrei hafi það beinlínis verið í tísku hjá Alþýðubandalaginu að stunda sjálfsgagnrýni, en þessi ónafngreindi stjórn- málafræðingur benti meðal annars á svar Guðrúnar Helgadóttur þingmanns sem dæmi þar að lútandi, þegar hún var spurð að því í þættinum „Þriðji maðurinn" nýverið, hvað ylli dalandi fylgi Alþýðubandalagsins. „Það er allt í lagi með flokkinn," sagði hún, „það er bara fólkið sem skiiur hann ekki.“ „Það er algengur kvilli hjá öllum stjórn- málaflokkum að vera margt betur til lista lagt en að stunda sjálfsgagnrýni," segir Ólaf- ur Ragnar og bætir við: „Það er einkenni ís- Ienskrar stjórnmálasiðmenningar að taka efnislega gagnrýni persónulega. Forystu- menn Alþýðubandalagsins eru undir þá sök seldir." Bent er á að eitt af vandamálum Alþýðu- bandalagsins sé að það hafi aldrei gert upp við sig fortíðina, þó augljóslega sé það hægt og sígandi að breytast í krataflokk með svip- aðar þjóðmálaáherslur og krataflokkar Norðurlandanna. Yfirlýsing Einars Karls hér á undan bendir reyndar ótvírætt í þá átt, en hann sagðist ennfremur ætla að framámenn í Alþýðubandalaginu væru mjög opnir fyrir kratískri samvinnu, þó auðvitað væru sumir sem ennþá héldu að þeir væru í einhverjum kommúnistaflokki! „Það sem máli skiptir er framtíðin en ekki fortíðin," segir Ólafur Ragnar og að því er spurninguna um krat- íska samvinnu á alþjóðasviði snertir, tekur hann undir orð Einars Karls hér að framan. „I rauninni stöndum við núna uppi með að minnsta kosti þrjá krataflokka á íslandi," seg- ir svo stjórnmálafræðingurinn ónafngreindi að lokum. ERLEND YFIRSÝN Ræða Howe bakaði honum ákúrur bandarísks aðstoðarlandvarna- ráðherra. '• ......................................... Stjörnustríösákefö Bandaríkjastjórnar er ekki aö skapi Vestur-Evrópuríkja Sir Geoffrey Howe, utanríkisráðherra Bret- lands, flutti í fyrri viku ræðu um geimhern- aðaráform Bandaríkjastjórnar, sem vakið hefur ýfingar milli stjórnanna í Washington og London. Enn meiri athygli beinist að um- mælum Sir Geoffrey fyrir þá sök, að hann hefur fram til þessa verið kunnastur fyrir al- gera hollustu og fylgispekt við Margaret Thatcher forsætisráðherra, fyrst sem fjár- málaráðherra og svo í starfi utanríkisráð- herra, eftir að Carrington lávarður sagði af sér til að taka á sig ábyrgð á mistökum bresku stjórnarinnar í aðdraganda Falk- landseyjastríðsins. Á fundi með Reagan forseta í desember í vetur og síðari heimsókn til Washington, hef- ur Thatcher lýst yfir samþykki við geimhern- aðaráform Bandaríkjaforseta, en þó ekki nema að vissu marki. Hún kveðst samþykk rannsóknum á geimvörnum við kjarnorku- eldflaugum, en tekur fram að þar með sé ekki sagt að hægt sé að taka endanlegar á- kvarðanir um smíði og staðsetningu geim- vopna fyrr en niðurstöður af rannsóknum liggi fyrir. Engu að síður hafa Reagan og samstarfs- menn hans óspart slegið um sig, heimafyrir og í Vestur-Evrópu, með stuðningi breska forsætisráðherrans við stjörnustríðsdrauma Bandaríkjaforseta. Ræðan sem breski utanríkisráðherrann flutti í herfræðistofnuninni Royal United Ser- vices Institute í London, verður ekki skilin öðru vísi en sem ráðstöfun bresku stjórnar- innar til að vara Bandaríkjamenn við að vaða í villu og svíma um þetta efni, stuðning- ur við rannsóknaráætlun sé ekki annað og meira en í orðunum felst. Samkvæmt starfs- reglum breskra ríkisstjórna er fullvíst að sir Geoffrey hagaði orðum sínum eins og hann gerði með samþykki frú Thatcher og rikis- stjórnarinnar allrar. Meginefni ræðu utanríkisráðherra Bret- lands var að gera athugasemdir við einfeldn- islega trú á að stjörnustríð sé tæknilega ger- legt og í því sé hernaðarlegt vit. Sir Geoffrey bar fram tuttugu og tvær spurningar, sem hann telur nauðsynlegt að fá óyggjandi svör við, áður en unnt sé að taka afstöðu til hvort rétt sé fyrir vestræn ríki að snúa sér af alefli að vörnum við kjarnorkuhernaði. Fyrst á lista hans um tvísýn athugunarefni, er hvort unnt sé að koma upp varnarkerfi við kjarnorkueldflaugum nema valda um leið hernaðarlegri óvissu. „Engiiin væri bættari við að skapa nýja Maginot-línu 21. aldar, sem væri berskjölduð fyrir hliðarárás frá tiltölu- lega einfaldari og bersýnilega ódýrari gagn- ráðstöfunum," sagði breski utanríkisráðherr- ann. Maginot-Iínunni komu Frakkar upp af ærnum kostnaði en hernaðarlegri skamm- sýni fyrir heimsstyrjöldina síðari, hún kom að engu gagni við leifturstríði þýska hersins, og hugsunarvillan sem að baki bjó var undir- rót að ósigri Frakka. Sir Geoffrey benti næst á, að menn yrðu að vera vissir um, að ekki væri verið að koma upp takmörkuðum vörnum við vopnum búnum skefjalausum eyðingarmætti. Og í beinni ákúru til auglýsingaskrums og sölu- mennskuláta Reagans og manna hans bætti hann við: „Við verðum sérstaklega að gæta okkar á því, að vekja vonir, sem ógerlegt kann að reynast að uppfylla." Síðan rakti breski utanríkisráðherrann ó- vissuatriðin og umhugsunarefnin, og þau eru hin sömu og andstæðingar stjörnustríðs- áforma í Bandaríkjunum hafa sett fram, en forsetinn og talsmenn hans hafa leitt hjá sér að svara og reynt að eyða með almennu orðagjálfri um hversu æskilegt sé að losna við kjarnorkuvígbúnað í eitt skipti fyrir öll. Vesturveldunum ber að hefta en ekki ýta undir nýtt vígbúnaðarkapphlaup, sagði Sir Geoffrey. Hann ræddi háskann á að stjórn- málamenn missi tökin á atburðarásinni, þeg- ar allt veltur á snurðulausri starfsemi flók- inna, tölvustýrðra kerfa, þar sem gagnsemin veltur á því að viðbrögð eigi sér stað tafar- laust. Hann tók undir með Paui Nitze, að varnarkerfi þurfi ekki aðeins að vera not- hæft heldur einnig öruggt og ódýrara í smíð- um en gagnráðstafanir hugsanlegs andstæð- ings. Hann minnti rækilega á að skrefið frá rannsóknum á varnarkerfi við eldflaugum til framkvæmda væri óheimilt án breytingar á gagneldflaugasamningi Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Loks hnykkti breski utanríkisráðherrann á með því að slá því föstu, að bandamenn Bandaríkjanna í Vestur-Evrópu gætu aðeins stutt þær aðgerðir Bandaríkastjórnar, sem víst væri frá öndverðu að styrktu skuldbind- ingu Bandaríkjamanna að ábyrgjast öryggi þeirra fyrir hverskonar árás. eftir Magnús Törfa Ólafsson Þarna er komið að kjarna málsins. Fræði- legur möguleiki er á að koma megi upp not- hæfu varnarkerfi við árás á Bandaríkin með kjarnorkueldflaugum, sé í engu horft í kostn- að. Samskonar varnir fyrir Vestur-Evrópu koma ekki til greina, því þá eru vegalengdir orðnar svo skammar, að tóm gefst ekki til v- iðbragða sem að gagni mega koma. Stjörnustríðsáformið er því einungis síð- asta dæmið um einangrunarstefnu Reagans og manna hans. Bandamenn eru viður- kenndir í orði, en í verki ríkir þröngsýn, bandarísk þjóðrembingsstefna, þegar á reynir. Hún kom glöggt í ljós tæpri viku eftir ræðu Howe utanríkisráðherra, þegar Rich- ard N. Perle, aðstoðarlandvarnaráðherra Bandaríkjanna, var staddur í London. Hann skútyrti Sir Geoffrey fyrir vanþekkingu og grunnhyggni, en lét spurningar hans og rök- semdir sem vind um eyru þjóta. Samdægurs og Perle var að skeyta skapi sínu í London, tók Helmut Kohl kanslari til máls á þingi Kristilega demókrataflokksins vestur-þýska í Essen. Hann gerði þar stjörnu- stríðsáform Bandaríkjaforseta að umtalsefni, mjög á sömu nótum og breski utanríkisráð- herrann. Sérstaka áherslu lagði Kohl á, að samkomulag kjarnorkuveldanna um að draga nógu mikið úr vopnabúnaði til sóknar, gæti gert geimhernaðaráform óþörf. Þessi afstaða er eitur í beinum Perle og þess arms Bandaríkjastjórnar sem hann er skeleggastur talsmaður fyrir. Sjálfur kveðst Perle kjósa að ekkert sé verið að reyna að hafa fyrir að semja við sovétmenn um tak- mörkun vopnabúnaðar, heldur hagi Banda- ríkin vígbúnaði sínum hömlulaust eins og hentast þykir á hverjum tíma. Weinberger, landvarnaráðherra Banda- ríkjanna, var í fyrradag í Lúxembúrg á fundi kjarnorkunefndar NATÓ. Þar skýrði hann frá boði til bandamanna Bandaríkjanna um þátttöku í rannsóknarverkefnum á sviði eld- flaugavarna. Kohl kanslari og Thatcher hafa ymprað á slíku samstarfi, í því skyni að Evr- ópuríki hafi betri aðstöðu til að hafa áhrif á ákvarðanir um framhaldið. 6 HELGARPÓSTURINN

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.