Helgarpósturinn - 28.03.1985, Blaðsíða 14

Helgarpósturinn - 28.03.1985, Blaðsíða 14
„Hef aldrei verið Eyþór Gunnarsson i Mezzoforte í HP-viðtali í rúm tvö ár hefur veröldin vitað af Mezzoforte. Það var í ársbyrjun 1983 að liðlega tvítugt ungmenni stóð við borð og seldi hljómplötur á útsölu Steina hf. Hann var ekki líklegur til afreka parsem hann hímdi við kassann og afgreiddi afsláttarpoppið. Þetta var fyrsta borgaralega starfið sem hann hafoi haft með nöndum utan sumarvinnu á æskuárum til dýrðar miólkurfram- leiðslu landsmanna — annars hafði hann reynt að lifa á tónlistinni. Og forlögin voru honum hliðholl — örfáum aögum eftir að útsalan hófst bárust fréttirnar frá Englanai: Garden Party eftir afgreiðslumanninn var farið að klifra upp breska vinsælda- listann og þegar lagið var farið að nálgast þrítugasta sætið var ekki eftir neinu að bíða — drengurinn og félagar hans héldu til Englanas og auðvitað var þetta enginn annar en Eyþór Gunnarsson, sonur Gunnars Eyþórssonar fv. fréttamanns og Ragn- heiðar Ástu Pétursdóttur Péturssonar þuls, fæddur í Reykjavík þann 9. september 1961 og uppalinn í Hlíðunum. eftir Vernharð Linnet mynd Jim Smart „Ég hef alið mesta hluta æfinnar í Hlíðun- um — átti heima á nokkrum stöðum í Eskihlíð, í Barmahlíðinni og Flókagötunni. Gekk í Æf- ingaskóla Kennaraskólans og Hlíðaskóla þar- sem ég var kjörinn formaður Nemendafélagsins þegar ég var í áttunda bekk. Af hverju veit ég ekki! Ég var engin félagsmálahetja og aldrei hef ég verið jafn slæmur á taugum og dagana áður en ég átti að halda ræðu á árshátíð skólans. Ég bögglaði saman nokkrum setningum og flutti þær skjálfandi, titrandi og stamandi. Þetta er fyrsta og síðasta ræðan sem ég hef flutt." Af lýsingu Eyþórs að dæma hefur sú ræða varla verið lengri en þær stórgóðu kynningar er hann flytur nú á tónleikum öruggri tungu og mærir hið ástsæla tónskáld — vin sinn Friðrik Karlsson. Tónlistariðkun er í ættum Eyþórs og ungur var hann settur í tónlistarnám. Aðeins tónlistin komið til greina „Föðurbróðir minn leikur á píanó og lang- afa- og ömmubræður mínir í móðurætt og það- an var píanóið sem ég lærði á og hún mamma hamrar á jólasálmana. Eg byrjaði að læra á melódikku í Tónskóla Emils og á píanó lærði ég hjá Jórunni Normann í nokkra vetur. Ég get ekki sagt að ég hafi verið uppfullur af áhuga en ég býst þó við að eitthvað hafi ég haft gaman af þessu — þegar maður er 12 ára nennir maður ekki að sitja allan daginn við píanóið og æfa sig. Það er svo margt annað sem heillar. Ég vildi vera úti með strákunum.. .“ — I íþróttum. . ? ...Nei, í allskonar strákapörum. Ég hætti píanónáminu og fór að læra á trompet í Tónlist- arskólanum í Reykjavík hjá Jóni Sigurðssyni. Þegar ég var í fjórða bekk í menntaskóla tók ég að nýju til við píanónámið, innritaðist í Tónskóla Sigursveins og þar kenndi mér Brynja Guttorms- dóttir. Þar lærði ég margt, þó tíminn væri af skornum skammti, því ég var bæði í skólanum og ispilamennsku um allan bæ. Ég lék meirað- segja á nemendatónleikum skólans í Norræna húsinu — lék Brúðkaupsdaginn í Trollhaugen eftir Grieg og skalf næstum eins mikið og þegar ég Jlutti ræðuna forðum." — Menntaskóli? „Það var hefð í ættinni að taka stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík. Birna systir var sú fyrsta er rauf þá hefð. Hún fór í MH og það gekk ekki þegjandi fyrir sig. Fyrst ég var byrjað- ur í MR var eins gott að taka stúdentspróf en ég var með allan hugann við tónlistina og las að hluta til utanskóla. Ég ætlaði aldrei í háskóla- nám — það hefur aldrei komið neitt annað til greina en tónlistin." Vinir kraftlyftinga- félagsins — Hljómsueitarsagan? „Þegar ég var í Hlíðaskóla lékum við Lúðvík Símonar saman á orgel og trommur. Hann er sonur Guðrúnar Á. og er hinn efnilegasti víbra- fónleikari. Síðan bættist gítarleikari í hópinn, Eiríkur Eyvindsson Eiríkssonar íslenskufræð- ings. Pétur afi minn útvegaði okkur æfingapláss hjá Lúðrasveit verkalýðsins í Skúlatúni. Við lék- um aldrei opinberlega og Mezzoforte var fyrsta hljómsveitin sem ég kom fram með. Það var í níunda bekk í Vörðuskóla, sem þá var ósköp venjulegur skóli, að ég kynntist Frissa. Hann var þá að leika með strákum í skól- anum. Hann fór svo að leika með Tívolí og á Rauðhettuhátíðinni 1976 hittum við Frissi Jóa og Jói þekkti Gulla. Við pældum allir í svipaðri tónlist, A1 DiMeola og slíkum köppum, og það lá í hlutarins eðli að við færum að spila saman. Þarmeð varð Mezzoforte til og inná milli Di- Meola-ópusanna læddum við frumsömdum lög- um. Við komum fyrst fram í Jazzkjallaranum að Fríkirkjuvegi 11 sem Jazzvakning rak. Jónatan Garðarsson var þá formaður Jazzvakningar og hann gaf okkur nafnið Vinir kraftlyftingafélags- ins, er við vorum að rogast með níðþung hljóð- færin inná sviðið. Það var kannski ekki heppi- legt nafn til opinberlegs brúks og ég held það hafi verið Frissi sem stakk uppá nafninu Mezzo- forte — þetta er úr tónamálinu, hálfsterkt, og á nokkuð vel við okkur. Við erum oft mitt á milli — hvorki kraftmiklir rokkarar eða kitlandi djassist- ar. Svo var nafnið stórgott er við stefndum á al- heimsmarkaðinn. Við komum fljótlega fram í Þórscafé og á dans- leik i Klúbbnum. Ég var ekki eins taugaóstyrkur þá og er ég hélt ræðuna í Hlíðaskóla, sællar minningar. Ég stóð ekki einn á sviðinu og gat litið undan þegar mér sýndist. Jazzkjallarinn var stórgóður staður og þangað kom fólk til að hlusta. Það er ekki einsog á pöbb- unum núna þarsem helst er spurt hvort ekki sé hægt að lækka tónlistina eða spila Duran Duran lög. Það þarf að koma hér upp djassklúbbi þar- sem fólk kemur til að hlusta. Ég er viss um að margir tónlistarmenn væru til í að vinna að slíku verkefni. Á menntaskólaárunum var ég á kafi í spila- mennskunni. Lék með Tívolí og svo Ljósunum í bænum. Við Mezzódrengir vorum með dans- hljómsveit einn vetur — Norðurljósin nefndist hún og með okkur sungu Guðmundur Torfason og Ellen Kristjánsdóttir." Þess má geta að Ellen Kristjánsdóttir býr nú með Eyþóri og eiga þau eina dóttur, Sigríði. Ellen syngur með hljómsveit Magnúsar Kjart- anssonar á Hótel Sögu og nemur tónlist við FÍH- skólann. Undirritaður hefur ekki heyrt betri djassrödd íslenska síðan Sigrún Jónsdóttir var og hét og vonandi á Ellen eftir að láta að sér kveða á því sviði. Og Eyþór er spurður: Víkur hennar frami fyrir þínum? „Nei. Þaöríkir jafnræði á heimilinu, en því er ekki að leyna að örlögin hafa hagað því þannig að það er ferill Mezzoforte sem allt snýst um. Frá þeirri ábyrgð verður ekki hlaupist." Djassinn síast inn — Og áfram med söguna. „Ég vann alltaf nokkuð í hljómverum og fyrsta skífan er ég lék á var Brottför klukkan 8 með Mannakorni. Fyrsta skífa Mezzoforte kom út 1979 og bar nafn okkar. í gegnum tíðina hafa ýmsir leikið með okkur en kjarninn erum við fjórir: ég á hljómborð, Fridrik Karlsson á gítar, Jóhann Ásmundsson á bassa og Gunnlaugur Briem á trommur. Um tíma lék Jóhann Kristins- son með okkur á hljómborð og þar á eftir Björn Thorarensen. Stefán S. Stefánsson blés í saxafón á fyrstu skífu okkar og seinna Kristinn Svavars- son, sem lék með okkur í þrjú ár. Nú höfum við fengið danskan saxafónleikara, Niels Macholm og brátt byrjar með okkur nýr ásláttarleikari sem syngur einnig og kemur hann í stað Hollendingsins. Breiðskífurnar eru orðnar 7 talsins og allar útgefnar af Steinari Berg ísleifs- syni. Hann hefur verið okkar stoð og stytta og lagt allt í sölurnar til að gengi okkar yrði sem mest og best. Hann er mikill djassfönkari, en sú tónlist hefur nú aldrei notið geypivinsælda, hvorki hér heima né erlendis. Þegar við vorum að byrja stóð hún í hvað mestum blóma: þá voru Chick Corea, Herbie Hancock og George Duke uppá sitt besta.“ — Hlustuðud þið á hinn rafmagnaða Miles Davis? „Nei. Við skildum ekki djassinn. Þú fílar ekki djass ef þú skilur hann ekki. En djassfönkararnir vísuðu okkur veginn. Fyrsta djassplatan sem ég keypti og hlustaði á að gagni var með Cannon- ball Adderley. Ég kom inní plötubúð í Kaup- mannahöfn þarsem verið var að spila plötu. Ég þóttist þekkja píanistann; George Duke. Hann var eitt af mínum uppáhöldum svo ég keypti plötuna. Ég komst svo að því að George Duke var ekki aðalkallinn á plötunni heldur djassblás- arinn Adderley. Þannig tók djassinn að síast inní mann.“ Klikkaði ■ beinni úfsendingu — Stjúpi þinn Jón Múli Árnason sagði mér eitt sinn þá sögu að einhverju sinni er hann kom heim undraðist hann að heyra Fats Waller á fón- inum. Pegar hann kom inní stofu var enginn grammafónn í gangi heldur sat unglingspiltur- inn á heimilinu við píanóið og hamraði Waller. „Ég pikkaði ýmislegt upp og djassinn var mik- ið leikinn heima — en ég pældi ekkert í honum. Ég var rokkari — mikili rokkari bæði í hugsun og útliti. Djassinn var miklu fágaðri — ég bar virð- ingu fyrir honum en það var ekki fyrren seinna að hann varð mín tónlist. Þar liggja ræturnar." — Þú semur mikið, skrifarðu verkin? „Ég hef aldrei verið mikill nótnahestur. Þegar ég byrjaði að Íæra á píanó lék kennarinn minn alltaf heimaverkefnið í lok tímans og ég lærði það utanað og lék það svo eftir eyranu í næsta tíma. Þannig gekk það lengi." Ég skýt inní: Eins og Erroll Garner. Hann fór eins að og úr því öllu varð ein sálarflœkja svo hann gat aldrei lœrt að lesa nótur. „Svo slæmt varð það ekki hjá mér. Ég er vel stautfær á nótur og bókstafshljóma les ég reip- rennandi. Einusinni fór ég flatt á að vera sein- læs. Ég var kallaður uppí sjónvarp til að leika í beinni útsendingu í Sönglagakeppninni. Þetta var úrslitakeppnin og ég hafði ekkert tækifæri til að æfa — var kaliaður samdægurs. Magnús Ingi- marsson útsetti tónlistina og þarna í beinni út- sendingu með myndavélina á mér átti ég að leika skrifaðan sóló — þá klikkaði ég.Þá finnur maður til þess að vera ekki hraðlæs. Ég var um tíma í FÍH-skólanum í tónfræði og draumurinn er að læra meira — en einsog málefnum Mezzo- forte er háttað er enginn tími til slíks og sjálfs- nám krefst mikillar þolinmæði og sjálfsaga. í Mezzoforte vinnum við yfirleitt þannig að ég og Frissi leikum lagstúf og síðan útsetjum við í sam- einingu. Hver sér um sitt hljóðfæri. Við þekkj- um hvern annan út og inn. Svo er pússað og fín- pússað þartil við erum sáttir við verkið. Þó hefur það komið fyrir að þurft hefur að skrifa. Þegar Kiddi hætti lék enski saxistinn Ron Asprey með okkur á Ronnie Scott djassklúbbnum í London. Hann þekkti ekki verk okkar og fyrir hann þurftum við að skrifa. Maður getur þetta sosum þegar í nauðir rekur og svo er Frissi vel mennt- aður í músík.“ Nýtt hótelherbergi á hverjum degi — Það er löng leið úr Jazzkjallaranum við Fri- kirkjuveg í Ronnie Scott klúbbinn við Frith Street. „Við höfum alltaf stefnt að því marki að leika eigin tónlist. Það er langt síðan við hættum í dansbransanum. Við vorum unglingar þegar við ákváðum að segja skilið við dansmúsíkina og það vafasama líferni er þeirri spilamennsku fylgir. En það kostar þrotlausa vinnu að ná settu marki. Það þýðir lítið að sitja með hendur í skauti eða glas í hendi og bíða eftir stóra vinn- ingnum. Dvölin í Englandi var enginn dans á rósum. Það var erfitt að búa þar. Konurnar og krakkarn- ir bjuggu í útborg norðvestur af London þarsem ekkert var um að vera og við á eilífum ferðalög- um eða í stúdíóum. Þær gátu ekki fengið at- vinnuleyfi svo vistin var dauf f jarri ættingjum og vinum. Við ákváðum því að flytja heim og það var svo sannarlega rétt ákvörðun. Það er allt annað líf fyrir þær og notalegt fyrir okkur að hvíla okkur hér heima milli tónleikaferða og plötugerðar. Tónleikaferðirnar eru ekki neitt sældarlíf. Sú fyrsta stóð í sjö vikur og var ævintýri frá upphafi til enda einsog flest er maður upplifir í fyrsta sinn. Svo varð þetta einsog hver önnur vinna. Nýtt hótelherbergi á hverjum degi — eld- snemma upp, dótinu hent niðrí tösku, útí bíl, nýtt hótel, sturta, hljóðprufa í einhverjum tón- leikasal og tónleikar. Nýjabrumið hverfur fljótt! Og það eina sem við sjáum eru tré og hús útum bílglugga! En auðvitað er alltaf gaman að spila og stórkostlegt að fá að leika í Ronnie Scott klúbbnum, Montmartre eða á Montreux djass- festívalinu. Við fórum líka í tíu daga Japansferð og hún var engu lík. Framandi veröld og tónleik- ar og viðtöl alla daga — blöð, útvarp, sjónvarp og allstaðar biðu svartar límosínur. I Japan stendur djasslíf með miklum blóma og djass og fönkskífur eru oft efst á vinsældalistum. Þar þarí ekki sönginn til. Þó við séum ágætlega vinsælir í Evrópu eru móttökurnar þar ekki slíkar, en við höfum losnað við dópsala og annað slíkt er stundum fylgir þessum bransa. Ætli við lítum ekki svona sakleysislega út!“ Llt stundum I Laxness — Vinsœldalistarnir — eruð þið alltaf að reyna að semja nýjan smell í líkingu við Garden Party? „Nei, það fer ekki mikið fyrir því. Eftir að Garden Party náði þessum vinsældum ákváðum við að vera ekki að rembast við að búa til annað slíkt lag. Við höfum orðið vitni að of mörgum misheppnuðum tilraunum í þá átt, t. d. hjá Crusad- ers. Garden Party hefur gert það gott þó útsetn- ingar sem aðrir hafa leikið af því lagi séu ekki uppá marga fiska, ss. hæga útgáfan Herb Al- berts. Við stefnum fyrst og fremst að því að skífur okkar séu heilsteyptar. Tónlistarbransinn í Englandi er furðulegur. Þar skiptir ekki mestu máli að vera góður hljóð- færaleikari heldur að komast á vinsældalistann og þá helgar tilgangurinn meðalið. Flestir eltast við tískuna og þegar hún breytist eru þeir gleymdir. Við yrðum bara asnalegir ef við tækj- um uppá slíku — klæddum okkur t fáránleg föt og máluðum okkur. Bílskúrsband frá íslandi á ekki heima í slíkum sirkus. Við viljum bara spila eins vel og við getum og vera við sjálfir. Annars má segja að við stöndum nú á krossgöt- um. Okkur hefur alltaf fundist að söngur og Mezzoforte ættu ekki samleið, en nú er fyrsta sungna Mezzofortelagið komið út: Take Off orð- ið Taking Off. Það er Chris Cameron sem útsetti sönginn — byggði ofan á hljóðfæraútsetningu okkar. Við komum ekki nálægt því. Það var eins með bakraddirnar í Garden Party. Við komum ekki nálægt þeim. Þar með er ekki sagt að farið hafi verið á bak við okkur, heldur létum við upptökustjórann okkar, Geoff Calver alveg um það mál ásamt Chris Cameron. Upptökurstjórar í poppi gegna sama hlutverki og leikstjórar í kvikmynd, einsog þegar Quincey Jones gerði Thriller með Michael Jackson. Það er nú ekki al- veg þannig hjá okkur að vísu, enda við ekki poppband og við erum upptökustjórar á nýjustu plötu okkar ásamt Calver. Trúlega áttu raddirn- ar sinn þátt í vinsældum Garden Partv og á hljómplötusölunni lifum við. Við viljum gera margt til að auka plötusöluna, en við seljum aldrei sjálfa okkur. Ef söngurinn heldur áfram á plötum okkar verða leiknu lögin þyngri og metnaðarfyllri; eitthvað í líkingu við Blizzard á Rising. Ég held að það sé ekkert verra að hafa nokkur sungin lög sem likleg eru til vinsælda og fá að hljóma oft í útvarpi ef hin lögin verða þyngri og ná- kvæmlega einsog við viljum hafa þau. Það var alltaf dálítil málamiðlun í gangi milli þess sem líklegt var til vinsælda og hins listræna. Allar höfundatekjur sem annað leggjum við í sam- eiginlegan sjóð því við erum að byggja upp hljómsveitina — þar ræður félagshyggjan.“ — Og nú skal huldið út? „Við förum til Englands þann 30. april að æfa nýjan slagverksleikara og þar hittum við Nils Macholm. Það er gott að vinna með Dönum og í fylgdarliði okkar í sumar verða þó nokkrir danskir aðstoðarmenn. Danskur hugsanagang- ur stendur okkur nærri og enga utansveitar- menn veit ég skemmtilegri og það er alltaf gott að koma til Danmerkur. Það var ógleymanlegt að leika þar á mikilli útihátíð í sumar. Weather Report léku þar einnig og hippaandinn sveif yfir vötnunum. Þarna lágu ungmennin og máluðu blóm hvert á annað. í sumar munum við svo leika á jafn ólíkum djasshátíðum og Norðursjáv- arhátíðinni nálægt Amsterdam og Jazz, blús og fólkafestívalinu í Þórshöfn i Færeyjum.“ — Heimurinn utan veggja fjölskyldunnar og Mezzoforte? „Ég fylgist ekki grannt með heimsmálum en ekki er útlitið björgulegt. í næði heima sem ég tónlist, lít stundum í Laxness og lifi í sátt við sjálf- an mig og aðra." Og undirritaður þakkar fyrir sig sáttur við list þeirra félaga og þið sem dáðust að djassfönk- píanistanum Eyþóri Gunnarssyni í sjónvarps- þættinum frá Montreux missið ekki af djasspían- istanum Eyþóri Gunnarssyni, en hann verður á dagskrá útvarpsins á annan í páskum.

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.