Helgarpósturinn - 15.08.1985, Blaðsíða 13

Helgarpósturinn - 15.08.1985, Blaðsíða 13
Stella er í essinu sínu; fer fimum höndum um litríkar flíkur sem hún dregur fram úr klœda- skápnum, ber þœr við sig í speglinum hverja á fœtur annarri, sýnir mér saumaskapinn þess á milli, og undirspil alls er þýð röddin og þessi undarlegi útlendi hreimur, sem þó kemur hvergi frá. Hafi ég ekki áður haft umtalsverða ánægju afað horfa á aðra máta föt, stend ég nú eins og dáleidd upp við vegg, og hrífst með líkt og gerist hjá fólki í tískuhúsum heimsborganna á vorin og haustin. Samt er Stella eini framleiðandinn og Bangsi, Týra og ég einu áhorfendurnir. Maður er ekki veraldarvanari en svo, að hafa aldrei fæti stigið inn fyrir Tískuhús Stellu Traustadóttur í Hafnarstrætinu. Og nú er það um seinan. Stella er með dyrnar í hálfa gátt að baki sér, í bókstaflegri og óeiginlegri merkingu. Hún hefur selt fyrirtækið eftir þriggja ára amst- ur við hönnun og saumaskap. Henni flaug sem snöggvast í hug að verða fasteignasali, því salan gekk svo greiðlega fyrir sig. Samt á hún eftir að selja íbúðina sína við Kaplasjólsveginn, ásamt því erfiðasta; að smella kossi á vanga fjölskyld- unnar í kveðjuskyni, — og skella hurðinni aftur. Að mánuði liðnum verður því áreiðanlega lok- ið. Þá hefst nýr kafli í lífi Stellu. „Þannig hefur líf mitt alltaf verið; eins og margir kaflar. Ég loka dyrum og held áfram, lít ekki um öxl og sé ekki eftir neinu. Ég byrja bara upp á nýtt, af því ég veit einfaldlega að ég á að gera það.“ Nú ætlar hún að byrja upp á nýtt í Ameríku. Bangsi og Týra, frægustu „Lassíhundar" í Vesturbænum, kúra sitt í hvorum sófanum og lygna aftur brúnum, blíðlegum augum. Stella situr gegnt mér við stofuborðið, dregur bera leggina inn undir sig á stólsetunni, leðurklædd í stuttu pilsi og flegnu vesti. Hún segist sauma öll fötin sín sjálf, — eins og henni líður hverju sinni. „Ég hef aldrei á ævinni keypt mér föt, nema nærbuxur. Ég mundi frekar ganga nakin, því ég sé aldrei neitt í búðum sem mig langar í. Jú ann- ars, ég lýg því. Ég hef örsjaldan farið á flóamark- að, en ekkert keypt nema ég hafi komið auga á eitthvað alveg sérstakt." — Áttu ekki helling affötum, fyrst þú saumar sjálf? „Nei, ég bý ekki til neitt æðislega mikið. Ég er nýtin, á fötin mín lengi. Ég kaupi ódýr efni og reyni að hafa sniðið klassískt. Það er sjálfs- bjargarviðleitnin; að gera mikið úr litlu.“ Svo stendur hún upp til að sækja þetta ómiss- andi kaffi; með kæruleysis- og dálítið letilegu yf- irbragði. Éins og ekkert í heiminum komi henni neitt sérstaklega við. Fjörutíu og eins árs og skrokkurinn stæltur líkt og á stelpu. Göngulagið eins og hún sé meðvituð um það. Andlitsdrættir sem segja að lífið hafi ekki bara kjassað hana. Hún er ögrandi hún Stella; ein þeirra sem fólk lít- ur aftur á. Ég hef orð á kæruleysinu. „Það halda margir að ég sé það,“ segir hún kankvís. „Hún Stella er svo kæruleysisleg", sögðust þau oft hafa hugsað sem unnu hjá mér. Það kemur til af því að ég geri hlutina á síðustu stundu. Sem breytir því ekki að ég stend við öll gefin loforð. Þess vegna er erfitt að fá mig til að lofa einhverju. Ég get ekki einu sinni lofað heim- sókn á morgun, því kannski langar mig ekki, og ég geri ekkert nema mig langi til þess. Ef mér er boðið í veislu og langar ekki, segi ég nei, jafnvel þótt ég eigi á hættu að fólk móðgist. Þess vegna skipulegg ég aldrei frídaga." Svo hellir hún í bollana og kemur sér aftur fyr- ir á stólnum. Kveikir sér ekki í sígarettu, því hún er hætt að reykja. Hún er líka hætt að bragða áfengi. Víðari heimsmynd en í borg „Reyndar líður mér alltaf æðislega vel“, segir hún þegar farið er að grynnka í könnunni. „Eg sé ekki svartar hliðar á tilverunni. Ég lít framhjá þeim. Mér finnst lífið betra eftir því sem ég eldist. Það getur ekki verið leiðinlejgt. Bara það að vera ein með sjálfri mér er gott. Eg losaði mig við sjónvarpið, því ég þoldi ekki að eyða tíma mínum í ekkert. Það er miklu betra að lesa...“ — Hvað ertu að lesa? „Ég les alltaf þrjár bækur í einu, — um allt mögulegt. Núna er ég að lesa „Svo sem maður- inn sáir“ eftir Edgar Cayce. Mér finnst gaman að lesa bækur sem snúast um lífið og tilveruna; hugleiðingar um andlegar hliðar sem maður botnar sáralítið í. Svo finnst mér gott að lesa verulega góð skáldrit, sérstaklega gamlar rúss- neskar bókmenntir. Ég er að lesa „Lygn streymir Don“. Frá því ég var krakki hef ég legið í slíkum bókum. Ég man þegar ég las Tolstoy og Gorkí á þeim árum; maður upplifði bókstaflega um- hverfið, — mér fannst ég finna lyktina...“ — Varstu sem sagt alin upp við þetta? „Við amma lásum saman allar nætur. Ég las aldrei barnabækur. Þær voru ekki til þar sem ég ólst upp í Húnavatnssýslunni. Amma, sem var systir Stefáns frá Hvítadal, bjó hjá okkur. Hún ól mig að mestu upp, að undanskildu því að maður ólst mest upp af sjálfu sér. Amma var litrík fornaldarkona og ofsalega frek. Hún talaði aldrei um fólk á bak, sagði því bara meiningu sína. Hún kaus að eiga samræður við bændurna í sveitinni fremur en konurnar. Þá heyrði ég oft skemmtileg samtöl um bókmenntir og heimsmál, sem birtu mér víðari veraldarmynd en þótt ég hefði alist upp í borg. Svo var amma iðin við að segja mér sögur sem komu í stað kvikmyndasýninga, nema hvað maður bjó til myndina sjálfur." Pabbi giftist konunni ó næsta bæ — Svo þú ert sveitastelpa? „Algjör sveitastelpa í eðlinu. Pabbi var bóndi á býli sem nú er farið í eyði og ég var eina stelp- an innan um sjö bræður. Ég var eins og strákur sjálf, ekkert frábrugðin þeim fyrr en á unglings- árunum. Þá stríddu þeir mér á öðrum strákum. Ég var tólf ára þegar foreldrar mínir skildu. Það var ósköp dramatískt. Einn góðan veðurdag settist pabbi upp í jeppann sinn. Hann skildi mömmu og ömmu eftir með krakkahópinn og allt saman, og ók yfir að næsta bæ þar sem hann giftist húsmóðurinni. Ég var sú eina sem áfelld- ist hann ekki og skildi hegðan hans fullkomlega. Mér fannst hann gera alveg rétt. Mamma hélt búskap áfram með bræðrum mínum, og gekk til allra verka. Nútímakonur mundu deyja við til- hugsunina eina um að gera það sem hún þurfti að gera.“ — Fœrðu heimþrá? „Nei, það er skrítið, ég skildi engar rætur eftir heima. Eg hef hvergi orðið rótföst. Mér fannst ég stundum eins og gestur heima hjá mér. Ég var ólík fólkinu mínu, hugsaði öðruvísi. Stundum held ég að ég sé ekkert skyld minni eigin fjöl- skyldu. Við höfum gott samband, en ég hef aldrei bundist þeim böndum. Þess vegna hef ég ekki verið iðin við fjölskylduboðin. Aður héldu allir að ég væri á fylleríi ef ég mætti ekki! En það breyttist ekki þótt ég færi í meðferð." — Hvernig ólík? „Ég var svo upptekin af því sem mér fannst fallegt. Ég fór ein upp í fjall, eins langt og ég komst, bara til að horfa á útsýnið. Ég var ekki einfari, en ég vildi fara ein, því ég vissi að enginn mundi skynja þetta eins og ég. Það fannst öllum skrítið. Ég var óttaleg draumórastelpa; ímynd- unaraflið var alltaf á fullu. Ég gerði leiðinleg verk skemmtileg með því að búa til sögur í kringum þau. Annars var lífið einfalt í sveitinni. Mér fannst landið autt og hrjóstrugt. Ég saknaði blóma og mér fannst vanta skóg. Samt hafði ég aldrei séð skóg. Þess vegna er ég viss um að ég hef lifað áður.“ 40 ár að finna sjálfa mig — Ertu að tala í alvöru? „Ég er viss um að ég hef lifað oft áður, ein- hvers staðar í Evrópu. Tilfinningin segir mér það. Mig dreymir oft sama staðinn, og sjálfa mig síðklædda, líkast til á 18. öld. Ég mundi þekkja staðinn ef ég sæi hann. Ég hef svo hræðilega sterkt ímyndunarafl." — Heldurðu að lífið sé þá ákveðið fyrirfram? „Ég er sannfærð um það. Ef við gerum það sem okkur langar til, förum við þann farveg sem okkur er ætlaður. Annars verðum við ekki ham- ingjusöm. Ég fer eftir þessari reglu í lífinu." — Ertu þá hamingjusöm? „Ég er mjög hamingjusöm. Það finnst mörg- um skrítið. Fólk á ekki að vera hamingjusamt í dag. Það hefur tekið mig 40 ár að finna sjálfa mig. Ég vissi ekkert um mig áður, en ég þekki sjálfa mig vel í dag. Ég vil fá að vera ég sjálf og gera það sem fyrir mér liggur; að búa til föt. Þar liggur farvegur minn eitthvað frameftir. Maður lærir af eigin lífi.“ — Eru peningar hluti af hamingjunni? „Ég hugsa aldrei um peninga nema til að hafa ofan í mig og á. Þeir eru ágætir til þess. En það hefur gengið á^msu; það er ekki létt verk að reka fyrirtæki. Eg átti ekki aur þegar ég byrjaði. Bankastjórar neituðu mér um lán, af því að ég ætlaði að framleiða fötin sjálf. Þeir vildu að ég ræki þetta á innflutningi. Af tilviljun sá ég nafn útlends framleiðanda í blaði, fór til bankastjóra og laug því að ég ætlaði að flytja inn fatnað frá honum. Þá fékk ég pínulítið lán. Ég hafði gengið með þennan draum í mörg ár, og var viss um að þetta væri rétti tíminn til að gera alvöru úr hon- um.“ Grét í tvo daga — Hvenœr hleyptistelpan þá heimdraganum? „Guðbjörg Stella var 14 ára þegar hún fór í heimavistarskólann á Reykjum í Hrútafirði. Þar með var ég farin að heiman. Ég vann fyrir mér sjálf á sumrin, fyrst á Hótel Blönduósi. Ég var svo græn þegar ég kom þangað, að ég kunni ekki einu sinni að skúra. Ég hætti í skóla að loknu landsprófi, og hef aldrei haft „komplexa" út af því. Ég þurfti að vinna sjálf fyrir náminu, og átti aldrei pening afgangs. Ég var 18 ára þegar ég fór til Reykjavíkur og leigði mér herbergi undir súð. Fór í Glaumbæ um helgar og skemmti mér. Þá kynntist ég ást- inni í fyrsta sinn. Ég varð voðalega ástfangin. En svo var ástin búin og ég grét í tvo daga; labbaði Snorrabrautina hágrátandi í glaðasólskini af því kærastinn sagði mér upp!“ — Verður þú auðveldlega ástfangin? „Nei. Ég hef aldrei orðið mjög ástfangin. Ég hef séð fólk verða það, og síðan endar allt með óhamingju út af yfirgengilegum kröfum sem það gerir hvort til annars. Ég hitti mann og verð ástfangin í einn dag eða skamman tíma, en af hverju þarf maður að verða ástfanginn fyrir alla ævina?" — Lifa fyrir líðandi stund? „Það er ekki hægt annað.“ — Og láta hverjum degi nœgja sína þjáningu? „Ekki þjáningu, heldur ánægju." — Ertu svona lífsglöð? „Já. Ég reyni að koma til dyranna eins og ég er klædd. Ég er frjáls — tala, brosi, hlæ. Stund- um heyri ég utan að mér að fólk heldur að ég sé drukkin eða dópuð. Það leita svo margir ánægj- unnar í vímugjöfum" Fór til eyja að ná mér í mann „í Reykjavík byr jaði ég að vinna á saumastofu, og verkstjórinn sagði: „Þú getur nú aldrei saumað." Ég saumaði líningar á skyrtur, og það var æðislega leiðinlegt. Ég hætti fljótlega, og réð mig sem matselju fyrir 20 manna vinnuflokk úti á landi. Ég hafði aldrei eldað áður. En allt gekk vel; ég bjó til mat og bakaði, sparaði ein- hver ósköp, og enginn dó. Ég fór í síld á sumrin, til Siglufjarðar og Seyðis- fjarðar og bjó í verbúðum. Það var æðislegt fjör, vinna og meiri vinna, og maður týmdi ekki að sofa — þurfti ekki að sofa. Sú tíð kemur aldrei aftur. Síðan fór ég til Eyja að ná mér í mann! Ég bjó þar í sjö ár fram að gosi. Þar fór ég í Iðnskólann, tók sveinspróf sem klæðskeri og saumaði fyrir Eyjakonur. Maðurinn minn lærði trésmíði til að byrja með, síðan keyptum við okkur bát og ætl- uðum að verða rík. En ég gafst upp, vildi ekki verða rík! Við skildum, en okkur hafði áskotnast einn sonur í hjónabandinu. Fljótlega náði ég mér í annan frá Eyjum. Ég var orðin svo háð karlmanni, að ég gat ekki sofið ein! Þar að auki er ekki hægt að vera fráskilin í Eyjum. Maður fær svo slæmt orð á sig. Það er fylgst grannt með heimsóknum til kvenna. Pósturinn má ekki einu sinni stoppa lengi." — Þú hefur þá ekki fundið hamingjuna í hjónabandinu? „Nei, hamingjan birtist manni ekki í líki ann- arrar manneskju. Ég gifti mig tvisvar, og bæði hjónaböndin vörðu í fjögur ár. Ég var myndarleg húsmóðir í fyrra skiptið, en sannfærðist um að það ætti ekki við mig að lifa slíku lífi. Eftir skiln- aðinn var ég þó ekki þroskaðri en svo, að ég gifti mig aftur. Það var stormasamt samband, en ég lærði lítið af því.“ — Vitleysa? „Nei, eftir á segi ég ekki að hjónaböndin hafi verið vitleysa. Það giftir sig enginn í vitleysu. En þar með er ekki sagt að maður geri það fyrir lífs- tíð. Báðir þessir menn eru hamingjusamir í dag, eiga konur og hús. Mér hefði ekki liðið vel þann- ig. Sá lífsmáti hentar mér einfaldlega ekki.“ Þurfti ekki mikið til að lyfta glasi „Ég get alls staðar verið og leið ágætlega í Eyj- um. Það er líflegur staður. Eg vann í fiski meðal annars og fann fyrir æðaslætti þjóðarinnar. Verkstjórinn sagði samt að ég væri ómöguleg; það fundust alltaf ormar í fiskinum hjá mér, og voru svo bornir á spjaldi til mín aftur. Mér fannst þetta nú ekki skipta öllu!" — Djamm í Eyjum? „Nei, mér fannst ég vera prúð. Það þurfti samt ekki mikið til að glasi væri lyft í Eyjum. Það var alla vega drukkið um helgar og farið á ball.“ — En samt of oft? „Ég veit ekki hvort ég drakk svo mikið. Ég byrjaði að skvetta í mig sem unglingur eins og gengur, en eftir því sem á leið þoldi ég vínið verr. Eftirköstin urðu hræðileg. Ég varð veik og fékk mikinn Jtmóral“. Mér fannst allt svart og ég sjálf skítug. Ég var mjög hörð við sjálfa mig, og missti aldrei úr vinnu út af drykkju. En þegar að því kom að mig langaði í brennivín daginn eftir út af vanlíðan, tók ég ákvörðun upp á eigin spýtur og fór í meðferð. Lifið breyttist mikið þegar ég ákvað að hætta að drekka. Ég var orðin lærður klæðskeri, og vissi að ég gerði aldrei neitt af viti samhliða áfengi. Ég hef svo viðkvæmt tauga- kerfi; ég þoldi varla að reykja eina sígarettu. Ef ég hefði étið dóp, hefði ég farið yfir um. Ég tók ákvörðun um að hætta að drekka upp á eigin spýtur, og það hefur ekki hvarflað að mér að bragða vín síðan." Eina kvensan um borð Eftir að ég skildi við seinni manninn, réð ég mig sem kokk hjá Eimskip. Mig hafði langað á sjó frá því ég var stelpa. Ég átti frænku sem var þerna, og heimsótti okkur stundum í sveitina. Mér fannst hún svo heimsborgaraleg, að það eitt að sjá hana nægði til að kveikja í mér löngunina. Stundum var ég eina kvensan um borð. En einstaka sinnum voru þernur með...“ — Fékk ein kona nokkurn frið um borö? „Já. „Mórallinn" er annar en menn halda. Það var ekkert erfitt að vera eina konan um borð. Heldur verra þegar við vorum fleiri." — I hverju liggur það? „Karlmenn bera meiri virðingu fyrir einni konu en mörgum. Rétt eins og hópur kvenna mundi umgangast einn karlmann með meiri virðingu en ef þeir væru margir." — Var aldrei leitað á þig? „Nei. Það var aldrei leitað á mig til sjós. Það er ekki til siðs. Við vorum eins og ein fjölskylda. Og það var aldrei kvartað, svo maturinn virtist falla mönnum í geð. Ekki meira um það. Svo kom ég í land og opn- aði Tískuhús Stellu Traustadóttur fyrir ná- kvæmlega þremur árum.“ lg er svona lauslát! — Er ekki kona eins og þú hörku kvenrétt- indakona? „Nei, ekki til í því. Slíkar konur eru bældar. Konan hefur sömu tækifæri og karlinn ef hún kærir sig um. Mér tinnst samt að konan eigi allt- af að gæta þess að vera kvenleg." — Hvaða tími hefur verið skemmtilegastur? „Sá tími sem ég lifi hverju sinni. Ég horfi ekki aftur með eftirsjá. Ég hlakka til ellinnar. Það er svo margt sem maður getur gert.“ — Hvernig skemmtirðu þér núna? „Ég gleðst yfir litlu. Ég þarf aldrei að hlaupa langt eftir fegurð. Ég get fundið hana hér í fjör- unni.“ — Efvið höldum okkur viö það veraldlega? „Ég fer á böll, mér finnst gaman að dansa. En aldrei með neinum sérstökum manni. Ég er svona lauslát! Ég get ekki bundið mig. Það er útilokað. Ég hitti einhverja annað slagið, og það er ágætt. Eg get sofið ein!“ — Aldrei óhamingjusöm? „Hafi ég verið það, hef ég gleymt því. Óham- ingja er tilbúin. Ég hef aldrei orðið fyrir slíku óláni, að ég hafi haft ástæðu til að væla. Sumt fólk er alltaf óánægt, en veit ekki af hverju. Mað- ur getur orðið heppinn og lánsamur með því að trúa á sjálfan sig, og það sem maður er að gera. Þá fyllist maður orku.“ — Hvernig verður framtíðin? „Ég hef á tilfinningunni að hún verði góð. Ef ég gæti þess að vera ég sjálf, verður hún góð. Ég fer til Ameríku. Nýr kafíi. Spurningarmerki." — Er þetta ekki voðalegur hetjuskapur? „Ég er engin hetja. Ég er æðislega venjuleg, eins venjuleg og nokkur getur orðið. Ég get aldrei orðið neitt annað."

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.