Helgarpósturinn - 15.08.1985, Blaðsíða 21

Helgarpósturinn - 15.08.1985, Blaðsíða 21
Breiðholtskirkja, í byggingu. Arkítektar: Guðmundur Kr. Kristinsson og Ferdinand Alfreðsson. Hallgrímskirkja, í byggingu. Arkítekt: Guðjón Samúelsson. guð í svona húsi? ---------------------------eftir Egil Helgason myndir Jim Smart hinir söfnuðirnir sex standa allir í viðamiklum og dýrum bygginga- framkvæmdum. Þrír þeirra eru í Breiðholtinu; Breiðholtssöfnuður, Fella- og Hólasöfnuður og Selja- söfnuður. í úthverfunum Árbæ og Seltjarnarnesi er líka verið að reisa kirkjur — og svo má auðvitað ekki gleyma eilífðarfyrirtækinu Hallgrímskirkju, sem hefur verið í smíðum frá því árið 1946. Alls munu þetta vera fimmtán kirkjur sem eru fullbyggðar eða í smíðum í Reykjavíkurprófastsdæmi, en til samanburðar má geta þess að Dómkirkjan var eina kirkjan í Reykjavík allt þar til fyrsta kapella Hallgrímskirkju var tekin í gagnið 1948 og Laugarneskirkja árið 1949. Það er kannski ekki óeðlilegt þótt spurt sé hvort þessi aukning á gólfrými kirkna sé ekki í hróplegu ósamræmi við fólksfjölgun á höf- uðborgarsvæðinu og kannski ekki sjður við trúhneigð og kirkjusókn. Á ráðstefnu sem haldin var um kirkjubyggingar í Bústaðakirkju 16da mars síðastliðinn var sú skoðun mjög ofarlega í hugum frummælenda að helsti geyst hefði verið farið í kirkjubyggingar- málum síðustu áratugina. Séra Ólafur Skúlason dómprófastur ræddi meðal annars kirkjubygg- ingarmál í Breiðholti og taldi mis- ráðið að þrjár kirkjur væru þar í byggingu í senn í stað þess að safn- aðaríólkið sameinaðist um að ljúka einni kirkju, sem mætti þá nota meðan hinar væru í smíðum. Séra Gunnar Kristjánsson lýsti þeirri skoðun sinni að íslenskar kirkjur séu oft langtum of dýrar en að sama skapi óhagkvæmar. Einsog sakir standa er það nær einkamál hvers safnaðar fyrir sig að reisa kirkju. Hann er að mestu leyti einráður um val arkítekta og teikninga — og líka að mestu á eig- in báti hvað varðar útvegun fjár til verksins. Árið 1981 samþykkti Al- þingi að leggja að grunni til upp- hæðina 600 þúsund krónur í Kirkjubyggingasjóð, sem með breyttri byggingavísitölu mun á þessu ári nema 1.9 milljónum. Þessi upphæð er ætluð öllum nýj- um kirkjubyggingum. í Reykjavík starfar líka sérstakur Kirkjubygg- ingasjóður og var framlagið til hans 3 milljónir króna á þessu ári. Að auki má geta þess að ríki og borg hafa veitt fé til byggingar Hallgrímskirkju undanfarin ár. Af þessu má ráða að það eru söfnuðirnir sem reisa sínar kirkjur að mestu leyti sjálfir eftir ýmsum leiðum. Að hluta til eru sóknar- gjöldin notuð í þessu skyni, en þess sem uppá vantar er aflað með frjálsum framlögum, fjársöfnun- um og ýmiss konar sölustarfsemi. Þetta er auðvitað ein meginástæð- an fyrir því hversu kirkjubygging- ar hér á landi ganga oft seint. Ólaf- ur Skúlason: „Það er vissulega sárt, þegar prestur og oddvitar safnaða þurfa að verja svo ti! öll- um tíma sínum til þess að koma fram smíði kirkjunnar og eru þá oft örmagna, þegar hún er loksins komin og hið þýðingarmesta er eftir: að efla starfið, svo hún komi að þeim notum sem til hlýtur að vera ætlast í upphafi." Bergnumdir af járni og steinsteypu Á ráðstefnunni í Bústaðakirkju var mjög rætt um nauðsyn þess að koma á einhverri yfirstjórn kirkju- byggingarmála á íslandi. Séra Gunnar Kristjánsson segir að oft virðist meira um það hugsað að kirkjan sé arkítektinum eins kon- ar minnisvarði en að nafn hans hverfi á bak við verk sem þjóni hlutverki sínu vel og sé í senn hag- kvæmt og ódýrt. Því verður víst ekki neitað að arkítektar hér á landi hafa oft getað gefið hugar- fluginu lausan tauminn í kirkju- byggingum, oft með misjöfnum árangri einsog sést best á mynd- unum hér að ofan. Björn Th Björnsson listfræðingur, sem situr í kirkjulistanefnd, sagði að þeir sem byggðu kirkjur væru oft al- gerlega bergnumdir af járni og steinsteypu, en gleymdu hinum listrænu þáttum. Björn taldi nauð- synlegt að kirkjan eignaðist sér- menntaðan ráðgjafa í kirkjulist, sem söfnuðir, arkítektar og mynd- listarmenn gætu haft með í ráðum við kirkjubyggingar og — skreyt- ingar. Séra Gunnar Kristjánsson vitnaði í reynslu sína af prestskap úti á landi og sagði að þar vildu menn írekar endurbyggja gamlar kirkjur í s'mum hefðbundna stíl en að byggja nýjar. Hann telur að ís- lenskir arkítektar þyrftu að læra svolitla guðfræði áður en þeir hefðust handa við að teikna kirkj- ur; þeir væru ekki nægilega vel heima í kirkjulegri hefð og því vildu íslenskar kirkjur oft verða hálfgerðir bastarðar. Hér verður ekki farið útí þá sálma að fella dóm yfir íslenskum kirkjuarkítektúr eða einstökum kirkjum. Ljósmyndir Jim Smart tala sínu máli og síðan verður hver að dæma fyrir sig um fegurð og ljótleika og það hvort hann vildi ástunda sína trú í slíkum bygging- um. Flestir virðast þó á einu máli um það að stjórnleysi og duttlung- ar hafi um of ráðið ferðinni hingað til, að einhverja yfirstjórn þurfi á bæði verklegum framkvæmdum og byggingarlagi. Við íslendingar reisum okkar kirkjur úr óbrot- gjörnu efni — járnbentri stein- steypu, og yfirleitt ekki í svo smá- um skömmtum — það er bara spurningin hvort við eigum eftir að fórna höndum eftir nokkur ár og óska þess að jörðin gleypti þessa kumbalda... Árbaejarkirkja, I byggingu. Arkltektar: Manfreð Vilhjálmsson og Þorvaldur S. Þorvaldsson. Fella- og Hólakirkja, fyrsti hluti vígður 24. mars 1985. Arkltektar: Gylfi Guðjónsson og Ingimundur Sveinsson. HELGARPÓSTURINN 29

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.