Helgarpósturinn - 11.12.1986, Side 44

Helgarpósturinn - 11.12.1986, Side 44
ERLEND YFIRSÝN Upphafið á endalokum þingmeirihluta og ríkisstjórnar sósíalista í Frakklandi á síðasta kjörtímabili, var að menntamálaráðherrann varð að taka aftur frumvarp til laga um aukið vald ríkisins yfir kennaraliði og námstilhög- un einkaskóla fyrir börn. Stjórnarandstöðu hægri manna tókst að virkja í sína þágu út- breiddan ímugust á frumkvæði, sem túlkað var sem atlaga gegn valfrelsi foreldra um menntun barna sinna. Þar að auki blandað- ist í deiluna keimur af fornum fjandskap milli kirkju og leikmannaskóla ríkisins. Úrslitum í þessari rimmu réð afar fjölmenn mótmælaganga í París. Eftir hana skipaði Mitterand forseti flokksbróður sínum í embætti forsætisráðherra að iáta mennta- málaráðherrann taka frumvarpið aftur, og í endurskipulagningu stjórnarinnar skömmu síðar létu báðir ráðherrar af starfi. Þótt skipt hafi um ríkisstjórn í Frakklandi við kosningasigur borgaralegrar flokkafylk- ingar í síðustu þingkosningum, situr Franco- is Mitterand, foringi sósíalista, enn á forseta- stóli. Um síðustu helgi galt hann andstæðing- um sínum rauðan belg fyrir gráan í skólamál- um. Jacques Chirac forsætisráðherra sá sig tilneyddan að taka aftur frumvarp um ný- skipan háskólanáms, þegar árás lögreglu á mótmælandi stúdenta hafði leitt til mann- skaða og forsetinn gert lýðum ljóst að hann teldi ríkisstjórnina bera höfuðábyrgð á að allt skyldi komið í bál og brand á götum Parísar. Deilt var um það í hópi foringja borgara- flokkanna fyrir síðustu þingkosningar, hverja afstöðu skyldi taka til sósíalistans á forsetastóli. Raymond Barre, lengi forsætis- ráðherra á valdatíma Giscards d’Estaing for- seta, vildi að reynt yrði að knýja Mitterand til að segja af sér og efna til nýrra forsetakosn- inga. Chirac, sem skírskotar einkum til þeirra sem halda vilja áfram stefnu de Gaulle, aftók að lýsa með slíkri árás á stöðu forsetaembættisins vantrausti á það forseta- veldi, sem er megineinkenni á stjórnar- skránni sem Frakkar settu sér að vilja hershöfðingjans. í kosningunum var flokkur Chiracs helsti Jacques Chirac forsætis- ráðherra varð að láta í minni pokann þegar á reyndi. Mitterand sýnir hvor hefur húsbóndavaldið í sambúðinni sigurvegari, en Barre og lið hans náði litlum þingstyrk. Mitterand fól Chirac að mynda stjórn, og hófst nú tímabil sem nýi forsætis- ráðherrann skírði sambúð manna með ólíka stjórnmálaafstöðu í tveim æðstu embættum franska lýðveldisins. Þrátt fyrir augljósan ríg undir niðri, hafa báðir kostað kapps að láta sambúðina ganga án stórra skrykkja á ytra borði. En nú hefur komið rækilega á daginn, hver er húsbónd- inn á sambúðarheimilinu. Jafnskjótt og ríkis- stjórnin lendir í erfiðri stöðu gagnvart al- menningsálitinu, verður forsætisráðherrann að láta sér lynda að forsetinn taki af skarið og nánast skipi honum fyrir verkum. Frá því 23. nóvember hafa stúdentar við franska háskóla haft í frammi skipulögð mót- mæli gegn frumvarpi ríkisstjórnar Chiracs um að umturna franskri háskólamenntun. Látið var í veðri vaka af hálfu stjórnvalda, að frumvarpið væri til þess sniðið að gera há- skólanám markvissara og líklegra til að tryggja uppvaxandi kynslóð framtíðarat- vinnu. Bentu ráðherrar á, að sem stendur lýkur ekki nema helmingur innritaðra stúd- enta réttindaprófi í sinni grein. I raun og veru fólst í frumvarpinu tilraun valdagráðugra afla í borgaraflokkunum til að brjóta niður eitt af vígjum vinstri viðhorfa í þjóðlífinu. Bæði meðal háskólakennara og nemenda hafa vinstri viðhorf lengi setið í fyrirrúmi. Þessu hugðist meirihluti núver- andi stjórnar breyta, með því að skerða sjálf- stæði háskólanna og gera ríkisvaldinu fært að deila meðal þeirra og drottna. Það skyldi einkum gert með því að afnema jafngildi prófskírteina, hér eftir skyldi á valdi ráð- herra að ákveða, hvort próf frá tiltekinni há- skóladeild veitti réttindi á landsmælikvarða eða einungis staðbundið. í öðru lagi skyldu tekin upp inntökupróf í háskóla að vild ráð- herra, próf úr almenna framhaldsskólanum tryggði ekki lengur rétt til háskólanáms. Með þessu var opnað fyrir takmörkun aðgangs að háskólanámi að vild stjórnvalda á hverj- um tíma. Loks var ákvæði í frumvarpinu um hækkun skólagjalda að þvi marki, að ekki væri á færi efnalítilla nemenda að reyna há- skólanám, en láta skeika að sköpuðu um hvort því yrði lokið. í síðustu viku var svo komið, að nemendur í 72 háskólum Frakklands höfðu lagt niður nám og flykktust til Parísar til að mótmæla tilraun stjórnarinnar til að brjóta háskólana undir vald sitt. René Monory menntamála- ráðherra bauðst seint og um síðir til að láta vísa frumvarpinu aftur til nefndar og taka þar til endurskoðunar þau þrjú atriði sem stúdentar töldu því mest til foráttu, ákvæðin um skólagjöld, gildi prófskírteina og tak- mörkun aðgangs að háskólanámi. En sam- tök stúdenta vildu ekki á slík boð hlusta. eftir Magnús Torfa Ólafsson Hreyfingin var svo öflug, að forustumenn töldu ekki ástæðu til að sætta sig við annað en frumvarpið væri tekið aftur í heilu lagi og lagt til hliðar. Var nú einnig brestur kominn í stuðning þingliðs ríkisstjórnarinnar. Helsti samstarfs- flokkur Chiracs, Lýðræðisbandalagið, hafði aldrei verið hrifið af atlögunni að háskólun- um, og nú lögðu forustumenn þess að forsæt- isráðherranum að leggja frumvarpið til hlið- ar. Chirac tók í þess stað þann kost að láta Charles Pasqua lögreglumálaráðherra leitast við að bæla mótmælin niður með hörku. Stúdentar höfðu farið með friði og spekt, en á fimmtudag var lögreglusveitum att með barsmíð á mótmælagöngu þeirra af litlu til- efni. Á föstudag var ganga farin til að mót- mæla hrottaskap lögreglunnar, og þá tóku óeirðalögreglumenn úr sveitunum CRS sig til og börðu til bana stúdent af alsírskum ætt- um uppvið múr í Latínuhverfinu. Á laugardagskvöld birtist svo i Latínu- hverfinu grímubúið barsmíðalið, sem tók að kveikja í bílum og ræna verslanir. Lögregla lét ekki sjá sig meðan þessir hópar voru að athafna sig, en kom á vettvang þegar þeir voru farnir, og veittist að stúdentum sem margir höfðu lagt sig í hættu að halda aftur af spellvirkjunum. Á sunnudag þótti ljóst, hvað gerst hafði. Lögregluyfirvöld höfðu reynt að egna til al- varlegra óspekta, með því að senda á vett- vang glæpalýð, sem fær að athafna sig í skjóli þeirra gegn upplýsingum og þjónustu af þessu tagi. Mitterand forseti lýsti yfir, að þeir sem egndu til ofbeldis yrðu dregnir til ábyrgðar, og átti þar greinilega við lögreglu- stjórnina. Auk þess heimsótti hann í samúð- arskyni foreldra stúdentsins vegna, Maliks Oussekine. Forsetinn kallaði forsætisráðherrann á sinn fund, og á mánudag tók Chirac frum- varp sitt aftur. í yfirlýsingu í gær kvað Mitte- rand það hafa verið rétta ákvörðun, en hún hefði komið of seint. Jafnframt gaf hann til kynna, að yfirlýsingar Chiracs, um að hann hefði alls ekki látið undan þrýstingi forset- ans, væru ekki sannleikanum samkvæmar. MAL OG MENNING Ar og dagur Orðasambandið ár og dagur er allalgengt í nútímamáli í merking- unni „langur tírni". Þannig segja menn: Þaö er ár og dagur, sídan viö höfum hitzt og Þaö er ár og dagur, síöan sumariö hefur veriö jafngott. Einnig er títt, að sagt sé eftir ár og dag. Samkvæmt orð- anna hljóðan ætti ár og dagur að merkja 365+1 dagur, þ.e. 366 dag- ar. Þessi kann einhvern tíma að hafa verið merking orðasam- bandsins, en er það ekki lengur, eins og áður er sagt. Síðar verður rakið, að orðasam- bandið á uppruna sinn í lagamáli, en svo undarlega vill til, að inn í ís- lenzku kom það ekki fyrst sem lagamál, heldur í þeirri breyttu merkingu, sem áður er rakin. Elzta dæmi Orðabókar Háskólans um það er úr Guöbrandsbiblíu (1584) og hljóðar svo (starfsetning er samræmd): „Davíð. . . hver að nú hefur verið hjá mér ár og dag“. 1. Samúelsbók 29,3. Á samsvarandi stað í Luthers- biblíu stendur Jahr und Tag og i latnesku biblíuþýðingunni Vul- gata multis diebus vel annis, þ.e. „í marga daga og ár“. Vitanlega er ekki hægt að fullyrða, að Guð- brandur biskup hafi lært orðasam- bandið í Luthersbiblíu og þýtt það á íslenzku, en engan veginn er loku fyrir það skotið. Það kemur einnig fyrir í Bréfabók hans, að því er virðist í merkingunni „sífellt". Dæmi OH er á þessa leið (stafsetn- ing samræmd): „þá hef ég þó neyðzt til að gjöra það vegna míns skóla og annars fólks, sem eg ár og dag þarf hér að haldá’ (BréfabGÞ 645 (1619). í nútímaþýzku (háþýzku) er not- að orðasambandið nach Jahr und Tag í merkingunni „eftir langan tímá’. í dönsku kemur fyrir ár og dag „langur tími” (sbr. einnig sænsku pá ár och dag „um langt skeið“). Danska orðasambandið er talið komið úr lágþýzku jar unde dach. Engan veginn treystist ég til að neita því, að orðasambandið hafi komizt inn í íslenzku úr dönsku, þó að þýzka komi einnig til greina, eins og rakið var. Year and day finn ég aðeins sem laga- mál í enskum orðabókum. En víkjum nú að orðasamband- inu ár og dagur í lögfræðilegri merkingu þess. Elzta dæmi Orða- bókar Háskólans um hana er frá árinu 1738 úr Alþingisbókum XII, 448: „býður... nefndur Jón téða jörð með 3 kúgildum til kaups nánustu óðalslausnarmönnum fyrir fullt andvirði, og að þeir gefi sér það til vitundar innan árs og dags”. Helzti réttarsögufræðingur okkar einhver, Ármann Snævarr prófessor, hefir sagt mér, að ár og dagur hafi fyrst komið inn í ís- lenzkan rétt með Norsku lögum Kristjáns V. Norsku lög gengu í gildi árið 1687, en þó aðeins fyrir Noreg, ekki ísland. Réttarfarslög Norsku laga giltu hér frá 2. maí 1732, sbr. Ármann Snævarr, Þœtt- ir úr réttarsögu (Rvk. 1966), bls. 12. En þótt aðeins þessi bálkur Norsku laga hafi gilt frá þessum tíma á íslandi, er greinilegt, að á 18. öld hefir verið höfð hliðsjón af Norsku lögum eða beinlínis farið eftir þeim, sbr. Páll Sigurðsson, Brot úr réttarsögu (Rvk. 1971), bls. 189—193. Norsku lög voru svo þýdd á íslenzku og komu út í Hrappsey 1779 undir heitinu Kongs Christians Þess Fimmta Norsku Lag á Islendsku Utlogd. Þar segir svo: „hafa þeir árs og dags frest, sem er eitt ár og sex vik- ur“ (NL 506 (OH). Stafsetning er samræmd. Mér er ókunnugt um orðasam- bandið ár og dagur í rómverskum rétti. Hins vegar er jar und tach gamalt í þýzkum rétti. Þar táknaði orðasambandið réttarreglu, sem kvað á um frest í eitt ár, sex vikur og þrjá daga, sem urðu að líða til þess að fá óskoraðan eignarrétt yf- ir einhverjum hlut, sem mönnum hafði áskotnazt við erfðir eða kaup. I mjög góðri þýzkri bók, sem ég styðst við, er skýringin á þess- ari viðbót við ársfrestinn, þ.e. sex vikur og þrír dagar, sú, að regluleg dómþing hafi verið haldin á sex vikna fresti og að lögbundinn þingtími hafi verið þrír dagar. Ýmsar aðrar skýringar hefi ég séð, en hér er ekki rúm til að rekja þær. Sumir réttarsögufræðingar telja, að engin viðunandi skýring hafi komið fram á orðasambandinu. í norrænum málum var notað orðið jafnlengö um tíma, sem svaraði til annars í næstu tímaein- ingu á eftir t.d. til jafnlengöar nœsta árs hefði merkt „á ná- kvæmlega sama tíma næsta ár“. En á 13. öld fer að ryðja sér til rúms í józkum lögum aar oc dagh, sbr. setninguna Aar oc dagh thœt œr iamlirigœ oc scex vkœ þ.e. ár og eftir Halldór Halldórsson dagur er jafnlengd og sex vikur. Þá kemur fyrir í fornsænskum lög- um ar ok dagher (í Uppsalalög- um). I Bjareyjarrétti segir, að ef erf- ingi gefi sig ekki fram innan árs og dags eftir andlát, erfi konungur, og bætt er við oc dagher mirkis innán sexwikum, þ.e. dagur merki innan sex vikna. í fornum vesturnorrænum (norskum, íslenzkum) lögum hefi ég ekki fundið, að tímaeiningin ár og dagur komi fyrir. Hins vegar segir í sumum norskum lögum Magnúss lagabætis, að konungur geti eignað sér arf eftir erlenda menn eftir einn dag og XII mán- aör. Vera má, að orðasambandið hafi verið skilið bókstaflega í fyrstu, en síðar tók það að tákna „ár og sex vikur". Eins og alkunna er, var Jónsbók samin á dögum Magnúss lagabæt- is og áreiðanlega undir hans eftir- liti. Því er undarlegt, að ekkert samsvarandi ár og dagur eða einn dagur og tólf mánuöir er að finna í henni. Ekki skal fullyrt, hvort hér kunni að hafa verið einhver and- spyrna af íslendinga hálfu, þ.e. þeir hafi ekki viljað innleiða nýjar tímaeiningar. 44 HELGARPÓSTURINN

x

Helgarpósturinn

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.