Helgarpósturinn - 26.03.1987, Blaðsíða 2

Helgarpósturinn - 26.03.1987, Blaðsíða 2
ÚR JÖNSBÓK „Á réttri leið“ (brot úr Eddu hinni nýju) eftir Jón Örn Marinósson JÓN ÓSKAR Þá mælti Gangleri: „Ýmsar eru frásagnir af sjálfstæðismönnum og margar opnur í mál- gagni flokksins og mikill er mannfjöidi í Val- höll. Svo njóta trú minnar að allmikill höfð- ingi er Þorsteinn prúði er hann stýrir svo miklum her. Eða hvað er skemmtun sjálf- stæðismanna þá er þeir sitja eigi landsfund?" Hárr segir: „Hvern dag, þá er þeir í morg- unbænum hafa Iofsungið hina frjálsu sam- keppni, þá hervæða þeir sig og ganga út á meðal fólksins og fella hver annan. Það er leikur þeirra. Og er líður að kosningum, þá ríða þeir heim til Vaihallar, sitja landsfund og eru á réttri leið. En satt er það er þú sagðir: Mikill er fyrir sér Þorsteinn prúði og mörg dæmi finnast til þess.“ Þá mælti Gangleri: „Heyrt höfum vér sagt frá þeim atburðum, er oss þykja ótrúlegir að sannir muni vera. Hvað kunnið þér frá slíku að herma?“ Hárr segir: „Auðsýnt er að þú vilt þessi tíð- indi vita þótt oss þyki eigi fagurt að segja. En það er upphaf þessa máls að Þorsteinnprúði byrjaði ferð sína og riðu með honum Olafur formaður minni og Geir harður. Þorsteinn hafði ekki vopna utan veldissporta sinn. Þeir komu í mörk stóra. Þar leituðu þeir sér náttbóls. En er kom að dagan, þá sá Þor- steinn mann hvar lá skammt frá honum í skóginum og var sá eigi lítill. Hann lék að knetti annarri hendi og stóð reykur af vitum hans og mátti illa sjá hvað maður þessi hafð- ist að í kófinu. Þorsteinn spennir sig megin- gjörðum og óx honum flokksmegin. Og í því bili hættir sá maður leiknum og stóð skjótt upp, en þá er sagt að Þorsteini varð bilt einu sinni að slá hann niður með veldissprota sín- um og spurði hann að nafni. En sá nefndist Albert og spurði ef Þor- steinn vildi hafa föruneyti hans, en Þorsteinn játti því. Þá batt Albert hagsmuni þeirra alla i einn bagga og lagði á bak sér. En síð að kveldi leitaði Albert þeim náttstaðar undir eik nokkurri mikilli. Þá mælti Albert til Þorsteins að hann vill ieggjast niður og sofa, — „en þér takið hags- muni vora og leysið mína frá yðrum". Því næst sofnar Albert og hraut fast. En Þorsteinn tók hagsmuni þeirra og skal leysa í sundur, en svo er að segja sem ótrúlegt mun þykja, að engi knút fékk hann leyst og engi áíarendann hreyft svo að þá væri lausari en áður. Og er Þorsteinn sér að þetta verk má eigi nýtast, þá varð hann reiður, greip þá veldissprota sinn tveim höndum og steig fram öðrum fæti þar, er Albert lá, og lýstur í höfuð honum. En Albert vaknar og spyr hvort laufsblað nokkurt féll í höfuð honum. Þorsteinn segir að þeir muni þá sofa ganga og síðan til landsfundar. Ganga þeir þá undir aðra eik. Er það þér satt að segja að ekki var þá óttalaust að sofa. En að miðri nótt, þá heyrir Þorsteinn að Albert hrýtur og sefur fast, svo að dunar í skóginum. Þá stendur hann upp og gengur til hans, reiðir veldissprotann títt og hart og lýstur ofan í miðjan hvirfil honum. Hann kennir að sprotabroddurinn sökkur djúpt í höfuðið. En í sama bili vaknar Albert og mælti: „Hvað er nú? Féll akarn nokkurt í höfuð mér, eða hvað er títt um þig, Þorsteinn?" En Þorsteinn gekk aftur skyndilega og svarar að hann hafði þá nýlesið Helgarpóst- inn, sagði að þá var mið nótt og enn væri mál að sofa. Þá hugsaði Þorsteinn það ef hann kæmi svo í færi að slá hann ið þriðja högg, að aldrei skyldi hann sjá sig síðan, liggur nú og gætir, ef Albert sofnaði enn fast. En litlu fyrir dagan þá heyrir hann að Albert mun sofnað hafa, stendur þá upp og hleypur að honum, reiðir þá veldissportann af öllu afli og lýstur á þunnvangann, þann er upp vissi. Sökkur þá sprotinn upp að krúnunni. En Albert settist upp og strauk vangann og mælti: „Hvort munu fuglar nokkurir sitja í trénu yfir mér? Mig grunaði, er ég vaknaði, að tros nokkurt af kvistunum félli í höfuð mér. Hvort vakir þú, Þorteinn? Mál mun vera upp að standa og klæðast, en ekki eigið þér nú langa leið fram til borgarinnar þar sem byggir hulduher. Heyrt hefi ég að þér hafið kvisað í milli yðar að ég væri ekki lítill mað- ur vexti, en sjá skuluð þér stærri menn, ef þér komið í hulduherinn. Nú mun ég ráða yð- ur heilræði. Látið þér eigi stórlega yfir yður. Ekki munu skotliðar Helenu vel þola þvílík- um kögursveinum köpuryrði. En að öðrum kosti hverfið aftur, og þann ætla ég yður vera betra af að taka. En ef þér viljið fram fara þá stefnið þangað á eigin ábyrgð, en ég á nú upp leið og rétta til vina minna er þér megið nú sjá.“ Tekur Albert hagsmuni sína og kastar á bak sér og snýr þvers á braut í skóginn frá þeim og er þess eigi getið að Þorsteinn bæði þá heila að hittast. Þorsteinn snýr fram á leið og þeir félagar, koma til borgarinnar og í búðir hulduhers, koma fyrir drottninguna Helenu og kvöddu hana, en hún leit seint til þeirra og glotti við tönn og mælti: „Seint er um langan veg að spyrja tíðinda, eða er annan veg en ég hygg, er þessi sveinstauli formaður flokksins? En meiri muntu vera en mér líst þú, eða hvað íþrótta er það er þú þykist vera við búinn?" Þá mælti Þorsteinn að helst vill hann það taka til að drekka vinarskál á móti einhverj- um manni í liði drottningar. Helena segir að það má vel vera og kallar skutilsvein sinn, Ásgeir Hannes, biður að hann komi fram með vinarskálina og fái Þorsteini í hönd. Þá mælti Helena: „Af vinarskál þessari þykir þá vel drukkið, ef í einum drykk geng- ur af, en sumir vinir okkar drekka af í tveim- ur drykkjum, en engi er svo lítill vinur að eigi gangi af í þremur." Þorsteinn lítur á vinarskálina og sýnist ekki mikil og er þó heldur víð, en honum er þörf á vinum, tekur að drekka og svelgur all- stórum og hyggur að eigi skal hann þurfa að lúta oftar í slíkar skálar. Hann drekkur sem ákaflegast má hann og þreytir á drykkjuna sem honum vannst til örendi. Og er hann tók vinarskálina af munni sér og sér í, þá leist honum sem svo að hefði helst nokkur munur á fengist og var þó mikið eftir. Þá býður hann upp vinarskálina og vill eigi drekka meira. Þá mælti Helena: „Auðsætt er nú að langt er bil frá bolla að vör." En er Þorsteinn heyrði þetta, greip hann til veldissprotans og bregður á loft, en er hann skal fram reiða þá sér hann þar hvergi Helenu. Og þá snýst hann að hulduhernum og ætlar að brjóta á bak aftur. Þá sér hann þar landsfundarfulltrúa marga og samhuga en engan hulduher. Snýr hann þá aftur og þeir félagar og fara út í kosningar." Þá mælti Gangleri: „Allmikill er fyrir sér Albert hinn digri að hann á hulduher þann, er mikinn mátt hefur, en hvað hefur alþýða í vesturbænum sagt um þessi tíðindi?" Hárr svarar: „Þótt svo hafi verið að mistök nokkur og yfirsjónir hafi svo verið slæm og til afspurnar ill, að Albert hafi eigi getað af þeim hreinsast, þá er eigi skylt að segja frá, fyrir því að mörg dæmi eru til þess og því eru allir skyldir að trúa að Albert er máttkastur og bestur. Sjálfur veit hann sönn tíðindi af að segja, og munu vinir hans margir því trúa að hann mun eigi ljúga nú ið f yrsta sinn er aldrei laug fyrr.“ AUGALEIÐ 2 HELGARPÓSTURINN

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.