Morgunblaðið - 26.11.2012, Blaðsíða 34

Morgunblaðið - 26.11.2012, Blaðsíða 34
34 MENNING MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 26. NÓVEMBER 2012 VIÐTAL Kolbrún Bergþórsdóttir kolbrun@mbl.is Töfrahöllin er ný skáldsaga Böðvars Guðmundssonar sem Uppheimar gefa út. Böðvar er íslenskum les- endum að góðu kunnur en hann hlaut á sínum tíma Íslensku bók- menntaverðlaunin fyrir skáldsöguna Lífsins tré. Aðalpersónan í nýrri skáldsögu Böðvars er Jósep Malmholms og í verkinu er rakin örlagasaga hans um leið og saga samfélags er rakin. Í tileinkun kemur fram að Böðvari var sögð sagan. Hann er spurður nánar um það. Hann svarar: „Ég bý til sögur úr því sem mér hefur verið sagt, því sem ég hef lesið og því sem ég hef séð. Og margt hefur mér ver- ið sagt – þótt ofsagt væri að segja að mér hefði verið sagt allt.“ Lengi að safna efni Hefur þessi saga verið lengi með þér? „Ætli ég hafi ekki verið að safna efni í þessa sögu í ein 30 ár. Hún gerist á 35 ára tímabili. Þetta er saga sem tengist að miklum hluta ís- lenskri þjóðarsál síðustu 30 árin. Þetta er á vissan hátt þroskasaga manns sem á fráskilda foreldra. Móður hans líkar ekki við hann en hann sækist eftir viðurkenningu hennar alla sína ævi. Hann eignast ákveðna fyrirmynd og velgjörð- armann sem hann tekur mikla trú á. Á vissan hátt er þetta líka ástarsaga um leit manns að staðfestu í lífinu. Ég gekk lengi með hugmyndir að þessari sögu en fór ekki að setja þær saman af alvöru fyrr en í lok síðasta vetrar. Og nú er bókin komin út.“ Þarna eru litríkar persónur, eins og afinn sem er kommúnisti. „Hann er kommúnisti og hefur einfaldar og góðar lausnir á öllum málum, sem er bæði kómískt og sorglegt. Ég kynntist kommúnistum ágætlega á mínum æskudögum og ætti því ekki að eiga í erfiðleikum með að skrifa um þann hug- myndaheim. Þegar bókin hans Hannesar Hólmsteins um Íslenska kommúnista kom út fannst mér ákaflega gaman að lesa hana því ég þekkti þessa karla og kerlingar frá því ég var krakki.“ Hafa þínar stjórnmálaskoðanir breyst mikið með árunum? „Já, þær hafa breyst mikið. Við breytumst öll. Verðum við ekki svo- lítið rólegri með árunum?“ Þetta er mannmörg saga hjá þér, eins og reyndar stundum áður. Hef- urðu mikinn áhuga á fólki? „Já, mér finnst gaman að skapa persónur og skemmtilegt að spek- úlera í þeim.“ Breyttur Borgarfjörður Síðustu 25 árin hefur Böðvar búið í Danmörku þar sem hann helgar sig ritstörfum. „Ég kem heim á hverju ári, stundum oftar en einu sinni. Það er alltaf gaman að koma heim en ég sé yfirleitt alltaf ein- hvern mun og breytingar. Ég get nefnt sem dæmi að þegar ég flutti úr Borgarfirðinum sem ungur maður um tvítugt þá var búið á hverjum bæ, þar voru karlar og kerlingar með búskap, kindur og hross. Nú eru örfáar jarðir eftir í byggð. Það er fínt að búa í Danmörku. Danir eru góðir nágrannar og ágætt fólk að hafa nálægt sér. Hins vegar er orðið nokkuð erfiðara fyrir mig en áður að búa í Danmörku vegna þess að ég vinn lífeyri minn inn á Ís- landi og krónan hefur lækkað mjög mikið. Þar bætist við að Danmörk er dýrasta land í Evrópu, þannig að ég þarf aðeins að minnka við mig grjónagrautinn og ekki setja í hann rúsínur á hverjum degi.“ Pólitíkin í Danmörku berst aðeins í tal og staða innflytjenda en stund- um heyrist að þar í landi sé afstaðan til þeirra afar neikvæð. „Í fréttum heyrir maður frá leiðindaatvikum,“ segir Böðvar. „Það er hins vegar misskilningur að það sé rótgróin andúð í Danmörku á innflytjendum. Ákveðnir hópar innflytjenda eru vandamál. Sérstaklega hafa verið erfiðleikar í kringum drengi sem detta út úr skóla. Þetta er afar mis- jafnt eftir innflytjendum. Tyrkir sem búa í Danmörku eru yfirleitt mjög lítið vandamál, þeir eru vinnu- samt fólk. Flóttafólkið frá araba- heiminum er miklu meira vandamál því það á erfiðara með að aðlaga sig.“ Hvernig gengur þér, búsettum í Danmörku, að fylgjast með því sem er að gerast hér heima? „Það gengur ágætlega. Ég fylgist með á netinu, horfi á íslenskt sjón- varp og hlusta á íslenskt útvarp. Svo sé ég töluvert af íslenskum bókum. Ég kaupi svo að segja allar ljóða- bækur sem koma út á íslensku. Ég held mikið upp á ljóð og það eru mörg góð skáld á Íslandi. Það eru reyndar tvö skáld sem ég held meira upp á en önnur sem eru Gyrðir Elí- asson og Gerður Kristný.“ Nú hefurðu sent frá þér skáld- sögu, hvað er næst á dagskrá? „Í vetur ætla ég að hvíla mig á skáldsagnagerð. Ég er að þýða tvær bækur sem ég ætla að ganga frá fyr- ir vorið. Önnur er eftir nóbels- verðlaunahafann Mo Yan, og er sjálfævisögulegt verk, og hin er eftir kanadískan rithöfund sem er af ís- lensku bergi brotinn og margir kannast við, Bill Valgardson en hann er þekkt nafn í Kanada. Bókin eftir hann er um þjóðsögur frá Nýja-Íslandi. Við getum kallað þetta íslenskar þjóðsögur því það var ekki bara íslenskt fólk sem flutti vestur. Það gerðu einnig Þorgeirsboli og Írafellsmóri.“ Gaman að skapa persónur  Böðvar Guðmundsson sendir frá sér nýja skáldsögu, Töfrahöllina » Þetta er á vissan hátt þroskasaga manns sem áfráskilda foreldra. Móður hans líkar ekki við hann en hann sækist eftir viðurkenningu hennar alla sína ævi. Hann eignast ákveðna fyrirmynd og velgjörðarmann sem hann tekur mikla trú á. Á vissan hátt er þetta líka ástarsaga um leit manns að staðfestu í lífinu. Jólavörurnar eru komnar í Álnabæ JÓLAGARDÍNUR, JÓLADÚKAR OG JÓLAEFNI Álnabær Allt fyrir gluggann… úrval, gæði og þjónusta. Síðumúla 32, Reykjavík ▪ Tjarnargötu 17, Keflavík ▪ Glerárgötu 32, Akureyri alnabaer.is ▪ Opnunartími: mán -fös 11-18 Lítið við og skoðið úrva lið

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.