Morgunblaðið - 21.11.1982, Blaðsíða 4

Morgunblaðið - 21.11.1982, Blaðsíða 4
MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 21. NÓVEMBER 1982 í kvöld verður frumsýnt í Þjóðleikhúsinu eitt af þekkt- ustu verkum leikbókmenntanna. Það er „Dagleiðin langa inn í nótt“ eftir bandaríska leikskáldið Eugene O’Neill. Verkið er nú flutt í nýrri þýðingu Thors Vil- hjálmssonar, en leikstjóri er Bandaríkjamaðurinn Kent Paul. Leiktjöld, búningar og lýsing eru hönnuð af Quint- in Thomson. „Dagleiðin langa inn í nótt“ er byggt mjög á eigin reynslu höfundarins og er fjölskylda hans sjálfs fyrir- mynd Tyrone-fjölskyldunnar í leikritinu, en faðir O’Neills var ættaður frá Tyrone-héraði á írlandi. Með hlutverkin í sýningu Þjóðleikhússins fara: Rúrik Haraldsson, sem leikur James Tyrone, Þóra Friðriks- dóttir leikur Mary, konu hans, Arnar Jónsson leikur Jamie, eldri soninn, og Júlíus Hjörleifsson leikur yngri soninn, Edmund. Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir leikur vinnustúlkuna, Cathleen. og Dagleiðin langa inn í nótt Eugene Gladstone O’Neill fæddist á hót- elherbergi á Broadway 16. október 1888. Faðir hans, James, var einhver frægasti leikari þeirra tíma í Bandaríkjunum en móðirin, Ella, var innhverf og tauga- veikluð og varð frá fæðingu Eugenes eiturlyfja- sjúklingur með nokkrum hléum. Eugene átti eldri bróður sem varð drykkjumaður og ónytjungur. Hét sá Jamie. Heimilishald var óreglulegt, enda James á stöð- ugum leikferðum um landið, einkum í hlutverki greifans af Monte Cristo, sem hann lék í fjölda ára. Bústaður fjölskyldunnar milli leikferða var í smábænum New London í Connecticut-ríki við austurströndina norðan við New York. í gegnum bæinn rennur áin Thames sem fellur í Langeyjar- sund og var hafnaraðstaða fyrir stór skip í bænum og mikil umferð skipa um ána. í þessum bæ bjó O’Neill-fjöIskyldan jafnan á sumrum í húsi sínu við ána og þar gerast þrjú af meiri háttar leikverk- um Eugene O’Neills, gamanleikurinn „Ah, Wild- etness!", uppgjörið við eldri bróðurinn „A Moon for the Misbegotten" og uppgjörið við fjölskylduna „Long Day’s Journey into Night". Eugene, Jamie bróðir hans og faðir þeirra í verönd hússins í New London árið 1900. Heimilislífið var ætíð erfitt. Enda þótt fjöl- skyldumeðlimum þætti ofur vænt hverjum um annan, áttu þeir bágt með að tjá það og stolt hvers þeirra um sig varð sí og æ til að koma illindum af stað. Til munu vera þrjár eldri gerðir handritsins að „Dagleiðinni löngu" og eru þær mun grimmi- legri í garð fjölskyldunnar en hin endanlega sem O’Neill skrifaði árið 1941, enda segir höfundurinn í tileinkun verksins að hann hafi frestað því að skrifa það þar til honum væri fært að horfast í augu við hina látnu fjölskyldu „... og skrifa þetta leikrit — skrifa það með djúpri meðaumkun og skilningi og fyrirgefningu fyrir alla fjóra hina kvöldu í Tyrone-fjölskyldunni." Eftir að hafa hætt námi við Princeton-háskóla hélt Eugene O’Neill til sjós með norsku flutn- ingaskipi og hélt til Buenos Aires og þvældist um hafnarhverfi borganna í Suður-Ameríku innan um sjómenn, hafnarverkamenn, skyndikonur og fleira fólk sem síðar átti eftir að nýtast honum sem persónur í leikritum hans ásamt persónum sem hann kynntist við skrifstofustörf og í gullgrafar- leiðangri til Hondúras. Eugene aðstoðaði föður sinn um skeið varðandi bókanir og hóf síðan störf hjá New London Tele- graph-blaðinu. Arið 1912 fékk hann berkla en hlaut bata sama ár og las þá mikið af klassískum leikbókmenntum. A næstu árum starfaði hann nokkuð sem leikari og fór að skrifa fyrir leikhóp nokkurn, skipaðan leikurum sem síðar urðu vel þekktir á Broadway. Árið 1920 var fyrsta leikrit hans í fullri lengd sett á svið og hlaut það Pulitzer-verðlaunin það ár. Verkið var „Beyond the Horizon". Á næstu árum fylgdu mörg mögnuð verk sem báru hróður O’Neills víða og verk hans voru færð upp í Evrópu, „The Emperor Jones", „Anna Christie", „The Hairy Ape“. Hann skrifaði níu leikrit á árunum 1924 til 1931 og voru flest þeirra dramatísk verk með miklum sálfræðilegum flækjum, þ.á m. „Desire Under the EIms“, sem sýnt var í Iðnó fyrir skömmu, „Mourn- ing Becomes Electra" og „Strange Interlude". O’Neill voru veitt Nóbelsverðlaunin árið 1936, tveim árum eftir að hann hafði tekið þá sótt er síðar leiddi hann til dauða. Eftir þetta sendi hann þó frá sér fjögur leikrit og gerði skissur að ellefu leikrita bálki, lauk reyndar við tvö þeirra en eyði- lagði uppköstin að hinum skömmu fyrir dauða sinn árið 1953. Meðan á heimsstyrjöldinni stóð hætti hann um tíma að fást við leikritabálkinn og vann að þremur verkum sem hann sagðist vita að hann gæti klár- að. „The Iceman Cometh" var tilbúið árið 1939, en ekki sett á svið fyrr en 1946. „A Moon for the Misbegotten" var næst í röðinni, en þar fjallaði Eugene O’Neill um bróður sinn, Jamie, undir rós. „Long Day’s Journey Into Night" var frumsýnt á Dramaten í Stokkhólmi árið 1955 að ósk hins látna höfundar, en það leikhús hafði áður sett á svið frábærar sýningar á verkum hans og veitti hann Dramaten frumsýningarrétt á öllum verkum sín- um, sem ekki höfðu verið sýnd er hann lést. „Dagleiðin Ianga" hlaut Pulitzer-verðlaunin árið 1956 og var það í fyrsta sinn sem þau voru veitt látnum höfundi, en í fjórða sinn sem leikrit eftir O’Neill fékk slíka viðurkenningu. Dagleiðin langa inn í nótt“ ger- ist á einum degi í ágúst 1912. Það ár var án efa eitt hið mikilvægasta í lífi O’Neills sjálfs, því það ár ákvað hann að gerast leikritahöfundur og ýmislegt fleira bar til tíðinda þetta ár, sem sér stað í leikritinu, en þar hefur öllu verið safnað saman á einn dag í ágúst. O’Neill sjálfur, hélt því stöðugt á loft, að hann hefði ekki ákveðið að fara að skrifa fyrr en árið eftir, þegar alvarleg veikindi lögðu hann í rúmið, en fólk sem þekkti hann kveðst muna eftir því að árið 1912 hafi hann verið far- inn að punkta hjá sér drög að leik- ritum og persónum. Það minnist þess reyndar einnig að hann hafi um það leyti sagt oftar en einu sinni við föður sinn: „Einhvern tím- ann verður þú þekktur sem faðir Eugene O’Neills." Til að átta sig fyllilega á því hve þung þessi orð hafa hljómað í eyrum James O’NeilIs verður að hafa það hugfast að þegar þau voru sögð var hann einn færasti leikari Bandaríkjanna en Eugene nýbúinn að fá starf sem blaðamaður á smábæjarblaði fyrir orð hans. í leikritinu er samsvörunin við veruleikann mjög skýr. James Tyr- one er fullorðinn frægur leikari sem fest hefur í ákveðnu hlutverki sem hefur gefið mikið af sér fjárhags- lega, en jafnframt komið í veg fyrir að hann nýtti hæfileika sína til fulls. Hann hefur alist upp i fátækt og er talinn sínkur á fé. Hann er bitur gamall maður eða eins og seg- ir á einum stað í leikritinu: „Dapur, yfirbugaður gamall maður, á valdi vonlausrar uppgjafar." Mary Tyrone, kona hans, er morf- ínsjúklingur og þennan dag sem verkið gerist fellur hún enn einu sinni í fen eitursins eftir að hafa vakið með feðgunum nokkrar vonir um að hún hafi náð sér upp úr sjúkleikanum eftir dvöl á meðferð- arheimili. Jamie er um það bil hálffertugur að aldri, auðnuleysingi og drykkju- sjúklingur. Edmund er um tíu árum yngri, eða jafnaldri Eugenes árið 1912. Það kemur fram að hann sé efni í skáld og hafi birt eftir sig efni af því tagi í blaði, ennfremur hefur hann verið í siglingum. í raun má segja að þarna sé Eugene O’Neill lifandi kominn, að öllu leyti nema nafninu. Nafn Eugenes ber reyndar á góma í verkinu og er það notað um þriðja barn þeirra hjóna sem látist hefur kornungt. Staðreyndin er sú að James og Ella O’Neill áttu þriðja soninn og lést hann í bernsku. Sá hét hins vegar Edmund. Hefur höfundurinn hér haft endaskifpi á nöfnunum.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.