Morgunblaðið - 04.11.1990, Blaðsíða 15

Morgunblaðið - 04.11.1990, Blaðsíða 15
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 4. NOVEMBER 19909 ---rniT" 1f, 15 'IVd'.i I ;rt-"i/rr ITTTP FTTTTT- bök hinna ríku, og repúblikana, sem vildu lækka skatta. Þegar frumvarpið var samþykkt var haft á orði að hér væri á ferð heiðarleg tilraun til að eiga við fjár- lagavandann. En í raun fer ekki mikið fyrir niðurskurði. Þegar ofan á bætist upphæðin til að bjarga spari- og lánastofnunum ríkisins kemur í ljós að fjárlögin hækka um níu prósent frá fjárlögum þessa árs. Að auki gæti samdráttur í efna- hagsmálum leitt til enn meiri halla á fjárlögum næsta árs en spár þær, sem fjárlögin eru reist á, segja til um. Þetta fjárlagavafstur hefur haft sín áhrif í kosningabaráttunni. Demókratar virðast hafa náð sér í vísi að málstað eftir að hafa eigrað um án svars við skattleysisstefnu repúblikana. I stað kjörorðsins „engir skattar“ kom „réttlátir skattar". í hita kosningabaráttunn- ar segja demókratar að skattleggja skuli þá, sem mest eiga undir sér, til að rétta úr efnahagnum. Fallandi gengi forseta Frá því að Bush sneri bakinu við kosningaloforði sínu hafa vinsældir hans hrapað í skoðanakönnunum. Eftir innrásina í Panama ruku vin- sældir forsetans upp í tæp 80% samkvæmt skoðanakönnunum Gallup-stofnunarinnar, sem stuðst er við hér. í júní kváðust 65% að- spurðra telja að BUsh stæði sig vel í embætti. Sú tala fór upp í 75% eftir að írakar gerðu innrás í Kúvæt og herflutningar Bandaríkjamanna til Saudi-Arabíu hófust. Síðan hefur hins vegar dregið úr ánægju með frammistöðu Bush og í könnun, sem gerð var 25. og 26. október voru aðeins 48% aðspurðra ánægð með störf forsetanss. Reyndar ber að taka fram að aðeins 36% lýstu yfir vanþóknun sinni og aðrir voru óákveðnir. Hins vegar töldu sextíu og fjögrir prósent að Bush væri að glata pólitískum áhrifamætti sínum vegna ófara forsetans í fjárlagafen- inu. Þetta hefur ekki aukið hróður Bush meðal flokksbræðra sinna. Þeir eru uggandi fyrir kosningarn- ar, sem taka til allrar fulltrúadeild- arinnar og þriðjungs sæta í öld- ungadeildinni. Repúblikanaflokkur- inn virðist ætla að tapa kosningum utn sæti í öldungadeildinni í lllin- ois, Michigan og Rhode Island fyrir demókrötum í leit að endurkjöri. í upphafi árs voru repúblikanar tald- ir sigurstranglegir í þessum ríkjum. Og ekki eru nema nokkrar vikur síðan repúblikanar í Massachusetts og Illinois voru við það að bola öld- ungadeildarþingmönnum demó- krata úr sætum sínum. Nú hefur demókrötunum þar tekist að ná forskoti þótt þeir geti ekki bókað sigur enn. Hins vegar eiga öldungadeildar- þingmenn repúblikana í Oregon og Norður-Karólínu í vök að vetjast. Einnig eru sæti um tíu þingmanna repúblikana í fulltrúadeildinni talin í hættu. Því gæti svo farið að demó- kratar bættu við meirihluta sinn í báðum deildum þingsins. Og þá færu þeir langt með að hafa bol- magn til að hnekkja neitunarvaldi forsetans þegar svo ber undir. Bush sniðgenginn Repúblikanar rekja þessar lítt vænlegu horfur til fallvalts gengis Bush undanfarið. Það er ekki langt síðan frambjóðendur flokksins kepptust við að sjást í fylgd með forsetanum á almannafæri og ekki þótti saka í kosningabaráttunni að atburðurinn væri festur á filmu. Nú vilja þeir ekki koma nærri hon- um. Repúblikanar í Arizona aflýstu kosningafundi með Bush til þess að grafa ekki undan kosningaher- ferð sinni gegn sköttum. í New Hampshire lét öldungadeildarfram- bjóðandi repúblikana ekki sjá sig þegar Bush kom til að veita honum stuðning sinn. Peter Smith fulltrúa- deildarþingmaður í Vermont lét sig hafa það að fá forsetann í heim- sókn. En hann notaði tækifærið til að vekja athygli á ágreiningi sínum við Bush um skattamál. Andstaðan við forsetann kom best í IJos í dreifibréfi frá Ed Roll- ins, öðrum formanna þingnefndar Repúblikanaflokksins, til þing- manna repúblikana í fulltrúadeild- inni. „Hikið ekki við að lýsa yfir andstöðu gegn forsetanum eða til- lögum, sem lagðar eru fram á þingi,“ skrifaði Rollins, sem átti stóran þátt í að skipuleggja kosn- ingasigur Reagans 1984. Þessi skrif hafa komið illa við Bush, sem rær nú að því öllum árum að fá Rollins vikið úr starfi. Bush reynir nú að sætta and- stæðinga sína í flokknum. Hann vill ekki valda klofningi milli þess arms flokksins, sem sækir stuðning sinn til íhaldsafla í Mið- og Suð- urríkjunum í anda Barrys Goldwat- ers á sjötta áratugnum og rótgró- inna, auðugra Austurstrandar- repúblikana, sem telja myndu for- setann til sín. Samkvæmt skoðana- könnunum telja nú fimmtíu og níu prósent Bandaríkjamanna að Bush vilji vernda hina ríku. Áður en fjár- lagaflækjan kom upp töldu aðeins tuttugu prósent þjóðarinnar að Bush væri á bandi hinna ríku. Slíkt leggst ekki vel í hina svokölluðu Reagan-demókrata — unga verka- menn sem forveri Bush í forseta- stóli seiddi úr faðmi Demókrata- flokksins. Fyrir rúmri viku beitti Bush neit- unarvaldi sínu til að fella jafnréttis- frumvarp í þinginu í þeim tilgangi að sefa hægri vænginn. Frumvarp- inu var ætlað að efla réttindi minni- hlutahópa og kvenna á vinnustöðum eftir að hæstiréttur hafði grafíð undan þeim með því að úrskurða vinnuveitendum í hag í sex málum, sem komið höfðu fyrir hann. Hóf- samir repúblikanar vildu reyna að komast að málamiðlun um frum- varpið en íhaldsvængurinn hélt því fram að verið væri að koma á fót kvótakerfi,sem myndi halla á vinnu- veitendur. Blásið í herlúðra Nú þegar fjárlögin eru í höfn hefur Bush beint spjótum sínum að demókrötum og reynt að kenna þeim um subbulega afgreiðslu þeirra. Á kosningafúndi á þriðjudag veittist hann að „klaufskum, kald- riljuðum" demókrötum, kallaði þá „hrokafulla meirihlutann“, sem væri „dáðlaus og ábyrgðarlaus". Sama dag endurtók hann gamla tuggu um að tvennt skyldi maður aldrei sjá búið, til, pylsur og lög. „Hvað demókratana á þingi varðar höfum við á þessu ári öll fengið sýningarferð á fyrsta farrými um þulsugerðarverksmiðjuna.“ Slík ummæli hafa vakið reiði demókrata, sem segja að forsetan- um sé ekki fært að hegða sér eins og flokksformaður í kosningabarát- tunni og ætla síðan að láta eins og ekkert hafi í skorist þegar hann þarf að halda áfram að vinna með demókrötum eftir kosningarnar. Bush hefur sagt að meirihluti demó- krata hefti svigrúm sitt, en það gæti auðveldlega komið honum í koll að láta eins og hann ráði engu og andstæðingarnir hafi tögl og hagldir í fjármálum landsins. Ge- orge Mitchell, leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, sagði að Bush myndi einfaldlega líta út eins og uppburðarlítill tapsár veifiskati ef hann héldi áfram að segja „þeir létu mig gera þetta“. Bush hefur einnig reynt að færa sér andúð kjósenda á þaulsætnum stjórnmálamönnum í 'nyt. Hann vill láta setja mörk á hvað lengi þing- menn megi sitja í stóli. Þannig megi „draga úr misnotkun valds og óheftum áhrifum rótskotinna þingmanna og starfsliðs þeirra". Þar talaði Bush eins og utangarðs- maðurinn sem berst gegn spilling- unni í höfuðborginni. Eftir er að sjá hvernig málflutningur af þessu tagi gengur í kjósendur. Hins vegar hefur Bush mestalla sína starfsævi verið innanbúðarmaður í stjórnkerf- inu öndvert vð forvera sína Reagan og Jimmy Carter, og gæti því rétt eins hafa verið að tala um sjálfan sig. Persaflóadeilan dregin inn í kosningarnar? Ofangreind ummæli Bush í kosn- ingabaráttunni eru augljóslega ætl- uð til þess að styrkja pólitíska stöðu hans og flokksins. Aukin áhersla á Persaflóadeiluna í upphafi síðustu viku vekur hins vegar alvarlegri spurningu, hvort forsetinn sé að nota ástandið í Mið-Austurlöndum sér til pólitísks framdráttar. Persa- flóinn hefur tekið við af fjárlögum, krepputali og árásum forsetans á demókrata í sjónvarpsfréttum. Á mánudag flutti James Baker ut- anríkisráðherra harðorða ræðu þar sem hann lýsti yfir því að Banda- ríkjamenn myndu ekki hika við að „beita valdi“ ef Saddam Hussein héldi Kúvæt áfram hemumdu. Á miðvikudag bætti Bush um betur og kvaðst hafa „fengið nóg“ af því hvernig írakar færu með bandaríska gísla og stjórnarerind- reka. „Bandaríski fáninn blaktir yfir sendiráðinu í Kúvæt og mis- kunnarlaus einræðisherra er að svelta okkar fólk þar,“ sagði Bush. „Og hvað ætla ég að gera í þessu? Við skulum bara bíða og sjá. Því að ég hef fengið mig fullsaddan af slíkri meðferð á Bandaríkjamönnum og ég veit að aðrir eru sama sinn- is.“ Þótt Sununu, starfsmannastjóri forsetans, hafi sama dag dregið í land og sagt að Bush væri „enn staðráðinn ... í að reyna diplómat- ískar leiðir til að forðast átök“ er ljóst að spennan í Persaflóadeilunni hefur vísvitandi verið aukin. Stjórn- málaskýrendur segja að stefna þessi þjóni þremur markmiðum. í fyrsta lagi eigi að telja Hussein trú um að annaðhvort verði hann áfram í Kúvæt og fái það óþvegið eða hann hafi sig brott og haldi völdum. í öðru lagi sé verið að undirbúa Bandaríkjamenn undir mikil átök, sem kynnu að bijótast út. Og að síðustu þá vilji Bush beina athygli almennings frá fjárlögum og efna- hagsmálum að Persaflóadeilunni. Samkvæmt skoðanakönnun sjón- varpsstöðvarinnar ABC á miðviku- dag kváðust 55% aðspurðra þeirrar hyggju að Bush stæði sig vel í starfi þannig að almenningsálitið virðist vera að snúast forsetanum í hag á ný. Hins vegar segja bæði háttsettir starfsmenn í Hvíta húsinu og repúblikanar og demókratar að ringulreið virðist ríkja í stjórninni, sem viti vart hvaða stefnu hún fylgi í raun. Sununu segir eitt og Bush annað. Ekki bætir úr skák að þingheimur virðist því lítt fylgj- andi að valdi verði beitt. „Hér er það sama upp á teningnum og í fjárlagavitleysunni,“ sagði háttsett- ur embættismaður'. „Yfirlýsingar stangast á og eng- inn veit hvað er að gerast.“ Heimild- armenn í Hvíta húsinu héldu því meira að segja fram að forsetinn hafi látið orð sín falla að samstarfs- mönnum sínum og utanríkisráðu- neytinu forspurðu. Hvort sem þessari auknu áherslu á Persaflóadeilunni er ætlað að vera vopn í kosningabaráttunni eða ekki þá birtist hún jafnhliða ötulum til- raunum Bush til að hjálpa þing- mönnum repúblikana til að halda sætum sínum. Stjórnmálamenn úr röðum bæði demókrata og repúblik- ana hafa tekið ummælum forsetans með fyrirvara og telja tilganginn að baki þeim öðrum þræði pólitísk- an. Franska sjónvarpið tók í sama streng og sagði Bush vilja bæta stöðu sína í skoðanakönnunum. „Það væri hámark kaldlyndisins að ætla að stjórn Bush sé reiðubúin til að blása til orrustu til að bjarga nokkrum þingsætum,“ sagði Brent Bozell, hægri sinnaður stjórnmála- ráðgjafi og athafnamaður. „Ilins vegar tel ég ekki kaldlyndi að segja að hann geri allt, sem í hans valdi stendur, til að draga athyglina frá ógöngum sínúm í Washington. Bush og ráðgjafar hans vilja glaðir ræða eitthvað annað en óreiðuna, sem þeir hafa búið til.“ Bush vísar því á bug að umræð- an um Persaflóa sé kosningabragð. Aðspurður sagði hann að það að ætla að forseti færi í pólitískan hráskinnsleik með „líf bandarískra ungmenna hinum megin á hnettin- um“ væri fráleitt. Sennilega er tíminn til að bæta úr því tjóni sem afgreiðsla Ijárlag- anna olli repúblikönunum of naum- ur. Hins vegar segja stjórnmála- skýrendur að fjárlagadeilan virðist ekki hafa haft áhrif þar sem kosið verður um ríkisstjóra á þriðjudag. Fólk geri sér grein fyrir því að stjórnmálamenn koma ekki allir frá Washington. Demókratar eru ríkis- stjórar í 29 ríkjum, repúblikanar í 21. Kosið verður í 36 ríkjum í vik- unni. Þar af eru 20 ríkisstjórastólar í höndum demókrata, en 16 í hönd- um repúblikana. Fyrir fjórum vikum spáði Ronald H. Brown, formaður Demókrataflokksins, að demó- kratar myndu eiga 35 ríkisstjóra eftir kosningarnar. Nú segir hann að það væri vel af sér vikið ef demó- kratar bættu við sig tveim'ur til þremur ríkisstjórastólum. Demókratar eygja von 1992 Svo virðist sem slæleg frammi- staða Bush í fjárlagamálinu gæti hleypt nýju lífi í demókrata. Bush hefur haft það náðugt frá því hann kom í embætti, en nú virðast hveiti- brauðsdagarnir á enda. Repúblikan- ar óttast að flokkurinn muni verða lengi að jafna sig eftir þann ágrein- ing sem sprottið hefur af skattamál- um. Það virtist aðeins ætla að verða formsatriði fyrir Bush að sækjast eftir endurkjöri eftir tvö ár, en und- anfarnar vikur hefur hann sýnt á sér veikar hliðar. Og skyndilega eygja demókratar von um að steypa honum. „Ég held að það verði hægt að sigra Bush 1992,“ sagði Richard Gephardt, leiðtogi demókrata í full- trúadeildinni, í viðtali við dagblaðið Washington Post fyrir viku. „Und- anfarna tvo mánuði hefur hann orðið, ber að alvarlegum skorti á leiðtogahæfileikum. Hann þurfti að útskýra fyrir þjóðinni hvers vegna verið væri að biðja hana að 'herða beltisólina og hann gerði það ekki.“ Gephardt segir að demókratar séu nú byijaðir að beina umræðunni um skatta í nýjan farveg. Spurningin sé ekki lengur „skattar eða ekki skattar" heldur „hver borgar og eru skattarnir sanngjarnir?“ „Nú eigum við þess kost að endurvinna fylgi stórra hópa Bandaríkjamanna í millistétt, fólks, sem hefur ekki sýnt demókrötum áhuga um langt skeið,“ sagði Gephardt. Ef Bush lítur út fyrir að vera of umhugað um að vernda hina ríku gæti það reynst hans Akkillesar- hæll. En víst er að undanfarnar vikur hefur staða Bush veikst tals- vert. Lykillinn að öðru kjörtímabili í Hvíta húsinu leynist annaðhvort í því hvernig forsetanum tekst að leysa Persaflóadeiluna eða hvort hann getur náð tökum á fjárlaga- vandanum. Hann hefur þegar lýst yfir því að aðflutningsbannið til íraks hafi ekki haft tilætluð áhrif. Stjórnmála- skýrendur eru farnir að tala um að liðið geti ár áður en tilfinnanlega þrengir að Hussein. Ef óþolinmæði Bush leiðir til stríðs verður það að vera stutt því að hann getur ekki treyst því að stuðningur við málstað hans í Persaflóa risti nógu djúpt til að standa undir langvinnum átök- um. Ráðleysi Bush í viðureigninni við fjárlagahallann mun sennilega koma í veg fyrir alla ávinninga flokks hans í kosningunum á þriðju- dag, þvert á þær væntingar sem gerðar voru i upphafi árs. Þegar næstu fjárlög verða afgreidd verður aðeins ár í næstu forsetakosningar. Bush getur hins vegar ekki tekið á fjárlagahallanum nema í samvinnu við meirihluta demókrata á þingi. Því mætti ætla að óvinsælar aðgerð- ir í efnahagsmálum bitni jafnt á hvorum tveggja. Takist aftur á móti vel til gæti hann staðið uppi með pálmann i höndunum. Á þessu kosningahausti hefur hann að minnsta kosti komist að því hvernig á ekki að fara að. Þegar tilkynnt var um samkomulagið um afgreiðslu fjárlaganna stóðu Repúblikarnir fast að baki forseta sínum en þegar kemur að kosningabaráttunni vilja þeir helst ekkert hafa með hann að gera.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.