Lögberg-Heimskringla - 11.06.1964, Blaðsíða 6

Lögberg-Heimskringla - 11.06.1964, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG-HEIMSKRINGLA, FIMMTUDAGINN 11. JÚNÍ 1964 /i" ~ » GUÐRÚN FRA LUNDI: Tengdadóttirin Skáldsaga ~ Rétt á eftir kom Hjálmar inn og fór inn í suðurhúsið til konu sinnar og dætra, en skildi hurðina eftir í hálfa gátt, svo að samtal þeirra heyrðist fram fyrir, enda töl- uðu þau hærra en vanalegt var á þessu heimili. „Það var ekki hætt við því að Busla gamla sé ekki sú sama og hún hefur verið, hvað sem ungdómurinn segir um hjátrú og hégiljur“, sagði Hjálmar. „Hvað ertu að segja — hef- ur kannske heyrzt mannslát?“ sagði kona hans hálfsofandi undir yfirsæng. „Guð veri mér náðugur!“ „Hann kom framan af bæj- um, hann Jóhann á Fellsenda, og sagði mannslát. Það er Hallur karlinn Jónasson frá Borgum. Þú hlýtur að kann- ast við hann. Það var engin furða, þó að Busla sendi hon- um kveðju, vesalings gamla manninum", svaraði hann. „Ja, hvað ertu að segja, hvar hefur hann verið allan þennan tíma?“ sagði hún undrandi. „Hann hefur nú verið hérna á stað þessi ár, sem séra Sig- urður er búinn að búa þar. Það var hann, sem var fluttur á kviktrjánum fram eftir. Hún er dóttir hans, prests- konan“. „Er þetta ekki alveg dæma- laust, að enginn skuli hafa nefnt þetta. Þorgerður á Borgum sagði, að hann væri tæringarveikur, þessi tengda- faðir prestsins“, sagði hún. „Ég ímynda mér, að það hafi enginn vitað að hann var þar nema ég“, sagði Hjálmar. „Hann boðaði mig á sinn fund einu sinni. Síðan hef ég litið inn til hans í hvert sinn, sem ég hef komið þangað. Hann hafði þau kynni af mér, að hann vissi, að það rennur ekki allt upp úr mér, sem ég heyri og sé“. Svo var húshurðinni lokað og þögnin og myrkrið lagðist yfir þetta drungalega heimili. Þorgeir lá í ónotalegu svita- baði og hugsaði um þessar óskiljanlegu drunur, sem hann gat ekki skilið hvaðan kæmu eða af hverju þær stöfuðu. Þótt allir í sveitinni væru trúaðir á einhverjar bá- biljur, ætti hann þó að vera utan við þær. Hann reyndi að beina huganum að einhverju öðru en dánarfregninni, en hann gat það ekki. Hallur gamli var sífellt í huga hans — og þá kom það af sjálfu sér að Magga væri þar líka. Hann fór að langa til að heyra eitthvað rrfeira um Hall. Hann þóttist heyra, að hjón- in þekktu hann, enda hafði Hallur sagt honum það, að þeir væru æskufélagar, Hjálmar og hann. Skyldi ekki vera hægt að láta þau tala svolítið, þessar þögulu mann- eskjur? Hann hafði aldrei heyrt þau tala svon mikið saman. Kannske voru þau eitthvað að hressast til sálar- innar eftir þennan skelfing- ardag. Ranka gamla læddist fram og hitaði kaffi. Það gerði hún á hverju kvöldi og veitti þess- um hræðum, sem í baðstof- unni voru, en aldrei bauð hún suðurhúsbúum bolla. Það mátti heita, að það væri eina kaffið, sem drukkið var á heimilinu. Það var margt undarlegt á bænum þeim. Þorgeir reis upp, þegar hann sá ljósglampa með hurð- inni í suðurhúsinu og fór inn fyrir. Hann var nú orðinn svo tengdur húsbændunum, að þau myndu ekki taka til þess, þótt hann gerði sig heima- kominn. Hann hafði aldrei komið inn í þetta hús fyrr. Það var þiljað í hólf og gólf, ekki óvistlegt, ef þrifnaðar hefði gætt betur en gerði. Þrjú rúm voru þar inni. 1 einu þeirra lá Ástríður undir yfir- sæng. Hún brosti kankvíslega til hans og bauð honum að setjast fyrir framan sig. Hann þáði það náttúrlega án nokk- urrar feimni. „Mér heyrðist þú vera að segja lát gamla mannsins á Stað‘, sagði Þorgeir við tengdaföður sinn tilvonandi. „Ojá‘, sagði hann og stundi þungt. „Það fór svo, að Busla vissi hvað hún söng eins og fyrri daginn. Við, sem höfum alizt upp r^tt hjá henni erum farin að þekkja túrana í henni“. „Já, það má heita dálítið einkennilegt“, sagði Þorgeir. „Og þessi gamli maður minnt- ist einmitt á þetta sama við mig einu sinni í sumar“. „Það get ég vel skilið, að hann hafi ekki verið búinn að gleyma söngnum í Buslu gömlu“, sagði Hjálmar. „Hann sagði mér, að þú værir eini maðurinn, sem litir inn til sín. Þið hefðuð þekkzt í æsku. Hann sagði mér, að þetta væri sín sveit“, sagði Þorgeir. „Hann var borinn út, þegar veðrið var gott, svo að hann gæti notið þess að sjá umhverfið. Mig langaði mikið til að heyra sögu þessa manns, en það vissi ekkert af heim- ilisfólkinu meira um hann en ég, sem kom þó úr öðrum landsfjórðungi“. Ástríður tók aðra hönd hans og lagði hana undir vanga sinn. Hjálmar horfði á hana með einkennilegt blik í augunum og skeggið blakti fínlega eins og fyrir hægum vindblæ. „Þetta er rétt hjá þér, góða mín“, sagði hann, „vertu góð og hlýlynd við þinn mann og gerðu hann hamingj usaman“. Hún hló ánægjulega. „Heyrðirðu ekki, að hann var að biðja þig að segja sér sögu“, sagði hún. „Hann langar til að heyra eitthvað um þennan nýdauða karl þarna á Stað“. „Jú, ég heyrði það“, sagði þá gamli maðurinn og skeggið hætti allt í einu að blakta, en samt sagði hann ekki neitt meira. „Mig langaði til að heyra eitthvað um hann. Ég talaði stundum við hann í sumar, aumingja gamla manninn. Hann var áreiðanlega bráð- skynsamur“, sagði Þorgeir. „Um það efaðist víst eng- inn, sem þekkti hann. En það sannaðist á honum, að annað er gæfa en gervileiki“, sagði Hjálmar og svo kom löng þögn. Það ætlaði ekki að ganga vel að fá hann til að tala, hugsaði Þorgeir. Líklega yrði hann að fara fram jafn- fáfróður og hann kom. Hrepp- stjórinn horfði fjarsýnum augum út í gluggann. „Já, við vorum vel kunnugir hér á árunum, meðan lífið var bjart og lofaði öllu góðu“, sagði hann frekar við sjálfan sig eða gluggann en þá, sem á hann hlýddu. „Guði sé lof fyrir að framtíðin er manni hulin“, bætti hann við með þungu andvarpi. „Hann var nokkrum árum eldri en þú“, sagði Elín. Hún sat og prjónaði langsokk. „Hann var fallegur maður“, bætti hún við og hlýtt bros myndaðist á skorpnum vörum hennar, „fallegasti maðurinn, sem ég hef séð“. „Var hann fallegur?“ sagði Þorgeir og hugsaði til beina- grindarinnar í stólnum. Margt var undarlegt í lífinu. „Það er von þú spyrjir“, sagði Hjálmar. ,Þær eru tor- ráðnar, gátur lífsins. Það var tæplega hægt að sjá, að það væri sami maðurinn, þetta krossmark, sem hann var orð- inn. En svona var það nú samt — á hádfegi ævinnar vildu allar meyjar með hon- um ganga“. Kona hans tók við, þegar hann þagnaði. „Hann trúlof- aðist líka fljótlega laglegustu stúlkunni, sem var hér í sveitinni. Hún var vinnukona hér á þessu heimili, vesaling- urinn“. Svo þagnaði hún. Þá tók maður hennar við. Það var líkast því, að þau væru að hvíla hvort annað, enda var það óvanalegt að svona miklar samræður heyrðust á þeirra heimili. „Já, hún var vinnukona hjá for- eldrum mínum. Þau voru sí og æ á einhverjum leynifund- um hér á milli bæjanna, en opinbert varð það aldrei, enda voru þau færri, sem settu upp gullhringa þá. En faðir hans vildi láta hann læra, því að gáfurnar voru góðar. Hann átti að læra til prests“. Og nú hvíldi gamli maðurinn sig lengi á eftir þessari ræðu. Þá byrjaði kona hans: „Það er víst vanalegt að þessir skólagengnu menn verða svo brigðlyndir. Hann tók að sér einhverja fína, menntaða maddömu. Hin gleymdist. Svo kom hann með hana heim að Borgum til að sýna foreldr- unum hana. Hann var þá orð- inn fulllærður, að mig minnir, eða fer ég ekki rétt með það, Hjálmar minn?“ „Jú, það var rétt. Þau voru svo ósköp glöð, foreldrarnir. Ég held, að þau hafi ekki séð sólina þann tíma, sem þau voru á heimilinu. En svo komu þessi ósköp fyrir. Ég gl'eymi aldrei látunum í henni Buslu þann dag. Síðan grípur mig þessi óróleiki, þegar ég heyri í henni þessar nádrun- ur“, sagði Hjálmar og skeggið fór að titra og skjálfa ein og strá í vindi. „Já“, sagði kona hans, „ég man hvað hann var fallegur þann dag við Staðarkirkju. Hún var líka langfínust af öll- um, sem við kirkjuna voru, á útlenzkum búningi og með þennan fína hatt. Það var nú ekki orðið eins fínt og það er núna, kirkjufólkið. Nei, ónei, ekki aldeilis“. Og svo þögðu þau bæði. „Hvað var það, sem kom fyrir?“ spurði Þorgeir. „Hún hefur þó vænti ég ekki drukknað í ánni, þessi fallega stúlka?“ Hann minntist ang- istarinnar, sem greip gamla manninn, þegar hann minnt- ist á ána. „Það var á heimleiðinni, sem slysið vildi til“, sagði Hjálmar. „Hún vildi endilega fara til kirkju, þessi fyrri kærasta hans. Móðir mín sál- uga taldi það heldur úr. Það var talsverður dráttur í ánni. Við riðum hana rétt í ármót- unum. Það er þrautavað þar á henni. Við vissum ekki fyrr en hún steyptist af hestinum allt í einu. Sjálfsagt hefur hún gert það viljandi, því að hún var alvön að ríða ána og hest- urinn vel traustur. Borgar- fólkið var rétt á undan okkur. Það varð því svo, að Hallur varð áhorfandi og jafnvel reyndi að hjálpa okkur við að reyna að bjarga henni, sem varð árangurslaust. Busla söng ánægjulega yfir henni — ennþá hærra en hún söng í dag“. Ástríður hló eins og hún hefði verið að hlusta á fjörugt danslag. Hjónin þögnuðu. Líklega töluðu þau ekki mik- ið það sem eftir var kvöld- vökunnar. Hann sat með tinandi höfuð. Þetta hlaut að vera ávani hans, en ekki elli- vesöld, því að hann gat ekki heitið gamalmenni. Hún kepptist við að prjóna. Þor- geir stóð upp og bjóst til að fara. „Þau fóru strax suður, kærustupörin", hélt Hjálmar áfram. „Það var sagt, að hann hefði tapað sér rétt þar á eftir. Hún sleit trúlofuninni þegar í stað. Það var svo sem ekki hægt að lá henni það. Hann varð aldrei prestur, en við verzlunarstörf var hann í mörg ár. Þá trúlofaðist hann og eignaðist þessa dóttur með þeirri konu. En ekki gátu þau búið saman. Hann sagðist ekkert hafa haft af þessari dóttur sinni að segja fyrr en hún var gift. Þá var það maður hennar, sem tók hann til sín á heimilið svon far- lama, sem hann var orðinn“. „Það var aðdáunarvert, hvað hann var góður við gamla manninn“, sagði Þor- geir. „Svo kom hann hingað norður og var við barna- kennslu tvo vetur. Hann var hérna að kenna systrunum. Munið þið ekki eftir því?“ sagði Hjálmar og beindi tali sínu til Gunnhildar, sem hafði verið að sauma á skratulega saumavél og aldrei svo mikið sem litið upp, því síður talað orð. „Ég man vel eftir því“, sagði hún. „Hann var ósköp góður við mig“. „Nú er ég hissa“, sagði Ást- ríður. „Er það hann, sem er dauður núna? Alltaf heyrir maður eitthvað nýtt. Svo varð hann bandvitlaus áður en hann gat lokið við kennsluna. Ég ætti að muna eftir því, þegar hann henti blekbytt- unni fram í göng og stökk svo ofan að á á þessum líka litla spretti“. Hún flissaði og hló. „Því í ósköpunum læturðu svona gapalega, stúlka“, sagði faðir hennar ávítandi. „Var ekki nóg að segja, að hann hefði orðið brjálaður. Þú átt ekki að vera svona orðfrek. Það ætlar að ganga seint að þú lagist“. Þorgeir snaraðist fram og skellti hurðinni harkalega á eftir sér. Hann heyrði að Ást- ríður hélt áfram að flissa. Aldrei gat hún hagað sér eins og hver önnur mann- eskja — glaðst með glöðum og sýnt þeim samúð, sem bág- staddir voru. Skyldi honum nokkurn tíma geta þótt vænt um hana? Hann lá upp í rúmi allt kvöldið og sá í huganum atburðina, sem gerzt höfðu fyrir tugum ára, en Hjálmar gamli hafði gætt lífi þetta kvöld. Nú skildi hann angist gamla mannsins í stólnum, þegar minnzt var á ána. Hann skildi líka heilræðin, sem hann hafði gefið honum. öll höfðu þau verið bending um að ganga ekki sömu braut og hann hafði gert og sem reyndist honum svo örlaga- rík. En hvernig hafði hann svo haldið þau heilræði? Breytt þveröfugt við þau. Auðvitað var hann saklaus af því að hafa táldregið Möggu. Augun mín og augun þín, ó, þá fögru steina. Mitt er þitt og þitt er mitt, þú veizt hvað ég meina. Rósa frá Vatnsenda.

x

Lögberg-Heimskringla

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg-Heimskringla
https://timarit.is/publication/160

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.