Þjóðviljinn - 17.12.1983, Blaðsíða 4

Þjóðviljinn - 17.12.1983, Blaðsíða 4
4 SIÐA - ÞJOÐVILJINN Helgin 17.-18. desember 1983 bókmenntir Þessi fátæki bóndi norður við heimskautsbaug Arni Sigurjónsson skrifar Þorgils gjallandi: Ritsafn, 2. bindi, Gamalt og nýtt, Upp við fossa. Jóhanna Hauksdóttir og Þórður Helgason sáu um útgáfuna. Skuggsjá 1983. Þorgils gjallandi, sem hét réttu nafni Jón Stefánsson, fæddist árið 1851 í Mývatnssveit og bjó þar því sem næst alla sína tíð sem vinnu- maður og einyrki; hann var og lengi hreppstjóri. Þorgils varð snemma munaðarlaus og komst því lítið í skóla, en meðfram búskap skrifaði hann ákaflega merkilegar bækur. Þorgils tók þátt í grósku- miklu menningarstarfi Þingeyinga á seinni hluta 19. aldar. Hann og þeir Huldufélags- og Þjóðliðsmenn ræddu um stjórnmál og menningu, og þeir keyptu, lásu og krufðu margt erlendra merkisbóka, sem einatt fluttu róttækan boðskap. Þeir voru fríþenkjarar, afneituðu kirkjunni og trúðu á skynsemi og réttlæti. Þessir brautryðjendur kröfðust ekki einasta sjálfstæðis og frelsis handa þjóðinni heidur og handa einstaklingunum. Þorgils gjallandi varð kunnastur fyrir skáldsögu sína Upp við fossa og hinar vinsælu dýrasögur. Nú er komið út 2. bindið af heildarútgáfu á verkum hans, og eru í því sögunar Gamalt og nýtt og Upp við fossa. í fyrsta bindi þessarar útgáfu eru dýrasögur og fleira, ásamt langri ritgerð um skáldið eftir Þórð Helgason bókmenntafræðing. Rit- gerð Þórðar er ákaflega skemmti- leg og fróðleg á allan hátt, og vel til þess fallin að efla skilning á höf- undarverkinu. Er þar gerð grein fyrir raunsæisstefnunni, sem er ein höfuðforsenda verksins, svo og menningarvakning Þingeyinga, ævi Þorgils og stfleinkennum verka hans. Eitt atriði, sem mig langar þó að nefna varðandi rannsókn Þórð- ar, er að ekki er víst að hugtakið impressjónismi hafi þar neina þýð- ingu nema flækja málið. Þetta hugtak virðist vera sótt í rit eftir Sven Möller Kristensen, en eykur tæpast skilning á sögum Þorgils gjallanda. í ritgerð Þórðar er ann- ars sérlega skemmtilegt að lesa um viðtökurnar á verkum skáldsins, og er þetta gott dæmi um hvernig nota má viðtökuheimildir til að gera verk skiljanlegra. Sögur Þorgils voru teknar sem árás á kirkjuna og hjónabandið, og þótti sumum boð- skapur þeirra jafnvel beinast gegn mannfélaginu sjálfu. í þeim er kvenfrelsisboðskapur, en skv. Guðmundi Friðjónssyni voru það einkum húsfreyjurnar sem löstuðu söguna. Matthías Jochumsson kvaðst vera hræddur um að lestr- arfélög Þingeyinga „kaupi vel margt tiltölulega af útlendum óróa- og frekjubókum, neikvæðum (neg- ativ) og niðurrífandi ritum“. Sé hættulegt fyrir íslendinga að sækj- ast eftir slíkum „útlendum óaldar- bókum, þó vel samdar sjeu á sinn hátt“. Sagan Gamalt og nýtt (1892) er stutt skáldsaga eða löng smásaga. Greinir hún frá því að ung og efnuð stúlka, Sigríður að nafni giftist séra Guðna, prestinum í sveitinni. Hann reynist drykkfelldur og held- ur framhjá. Von hennar um að klerkur haldi áfram að vera skemmtilegur eftir að hann er kominn í höfn hjónabandsins reynist tál og sömuleiðis sú von að ástin komi eftir vígsluna úr því hún var ekki komin fyrir hana. Hún hættir því að samrekkja honum, hann drekkur þá enn meira og eignast framhjábarn. Hún fellir hug til ungs og prestlærðs efnis- bónda í grenndinni, en áður en efn- isbóndi og Sigríður nái að eigast verða þau fyrir barðinu á illmælgi sveitunga og hún deyr úr innan- skömm. Upp við fossa (1902) er viðameiri og fjallar um Iík efni; rétt ástarinn- ar, hræsni klerka, sveitalífið, for- dóma almennings, galla hjóna- bandsins. Hinni snauðu Gróu, sem giftist til fjár fyrir sjálfa sig og ætt- menni, finnst hún hafa verið seld. Hún verður skotin í ungum og sæt- um Geirmundi á næsta bæ, og þau kyssast og hafa samræði, að ætla má. Strákur tekur sig svo til og slítur sambandinu en gerist í stað- inn hugfanginn af Þuríði prests- dóttur og sefur hjá henni. Þegar klerki verður Ieynileg trúlofun þeirra Ijós upplýsir hann við Geir- mund prívat að þeir séu feðgar og parið því hálfsystkini. Sambandið rofnar, Geirmundur leggst í brennivín og hatar prestinn föður sinn. í sögulok er Þuríður veik, lík- lega af harmi fremur en þungun, enda birtist sálaráföll jafnan í líkamlegum krankleika hjá Þorgilsi líkt og í íslendingasögum. Þorgils Gjallandi Eins og fram gengur af textanum var Þorgils fróður um samtímabók- menntirnar, og það svo furðu sætir um fátækan bónda uppi við heimsskautsbaug. Reyndar var honum legið á hálsi fyrir að monta sig af fróðleiknum með fleipri um bókatitla í Gamalt og nýtt, en því var svo svarað til að þetta væri að- eins raunsætt, þetta væru nú einu sinni bækur úr lestrarfélaginu nyrðra. En þessi fróðleikur skálds- ins birtist einnig í færni hans við að nota stflbrögð sem lítt voru þekkt á Islandi um þetta leyti. Hann bregð- ur t.d. fyrir sig að skrifa upp hug- renninga persónanna í brengluðu röksamhengi (innra eintal), hann heggur til setningar og tekur m.a. burt frumlagið til að auka hraðann á stílnum, og hann lætur mennta- fólk tala útlenskuskotið mál. Ann- ars er frásagnarhátturinn þannig að söguhöfundur Ies hugsanir þeirra persóna sem hentar hverju sinni. Samfélagið sem sögur Þorgils gjallanda lýsa er hið formfasta bændasamfélag á upplausnarskeiði þess. Erlendar bækur (Strind- berg), flytja inn í sveitina þá hug- mynd að hjónabandið eigi ekki ein- göngu að vera fjárhagsleg stofnun heldur einnig tilfinningaleg. í stað þess að vera ambátt eiginmannsins eigi konan að vera félagi hans og uppbyggilegur viðmælandi. Engu að síður er siðfræði kristninnar fastur grundvöllur Þorgils, einnig í þessu efni; hann leggur aðeins megináherslu á mannúðarsjón- armið hennar, - rétt eins og hann vildi sýna dýrum, ekki síst hestum, mannúð. Hesturinn hjá hpnum hefur reyndar sérstöku hlutverki að gegna sem stöðutákn og jafnvel kyntákn, og fallegir ungir menn ríða feiknalegum gæðingum sem heita Rauður og Blossi. Ástamál fólksins þarna ganga eftir athyglisverðu mynstri. Kirkj- an hefur algerlega virkjað hvata- fullnægingu þess: brúðkaup, erfi- drykkjur, skírnarveislur, jól og páskar - hátíðisdagar kirkjunnar - eru einu tækifærin, að réttum frá- töldurri, sem fólkið hefur til að hitt- ast. Og þá er slett úr klaufunum, drukkið áfengi, dansað, tekið í spil og hlýlegar augnagotur sendar þvers og kruss. Að öðru leyti er lífið þrældómur hjá því. Þegar karl og kona fella hugi saman, gengur það eftir þessari formúlu, að þeirri staðreynd gefinni að konan sé orð- in gjafvaxta og karlinn eygi fjár- hagsgrundvöll búskapar: (1) augnagotur, máttleysi í hjám, dreyrroði, (2) snerting handa, (3) snerting mittis, andardráttur og hjartsláttur hins er skynjaður, (4) koss, (5) samfarir. Augnagoturnar í sögunum eru óteljandi áður en haldið er út í hin alvörumeiri stig tildragelsisins. Reiðin sem sögunar vöktu staf- aði, að ég held, ekki fyrst og fremst af klámfengi höfundarins. Á einum stað í bókinni segir að Geirmundur kyssti brjóst Þuríðar og „tapaði aílri skynsamlegri hyggju og athug- un“. Áð svo búnu kemur þessi fjálglega samfaralýsing: „......“ (bls. 208) og endist heila línu í nýju heildarútgáfunni. Reiði lesend- anna held ég að hafi frekar stafað af því að sagan segir ástlausum hjónaböndum stríð á hendur, en sá boðskapur var efnahagslega og pólitískt viðsjárverður í fátæku og eftir því formföstu samfélagi, þar sem ekki var dugandi aðferð til að tryggja hag lausaleiksbarna. Og mörgum mun hafa þótt súrt í broti að því væri haldið fram í sögu, sem þóttist vera raunsæ, að sveitafólk stundaði svona mikinn lausaleik, þ.e.a.s. fullorðnir lékju lausum hala og börnin látin leika í reiði- leysi. En skyldi Þorgils ekki hafa séð það efni af meiri skarpskyggni en þeir sárreiðu? Hugmyndir þeirra Strindbergs um hjónasamninga til nokkurra ára í senn í stað ævihjónabands eru skemmtileg hugvekja. Vekja í dag frekar bros en hneykslan. Líklega eru harla margir þegar búnir að framkvæma þá hugmynd, en sé svo, getur ástæðunnar naumast verið að leita í frekjubókum einum saman. Arni Sigurjónsson. Hinn mannlegi grundvöllur Arni Bergmann skrifar William Heinsen. Ráð við illum öndum. Þorgeir Þorgeirsson þýddi. Mál og menning 1983. Ég hefi stundum tekið það fram áður, en það er rétt að ítreka það, því ekki er allt vont sem komið er í hefð: á hverju hausti er íslenskum lesanda boðið í veislu sem er hon- um holl og góð með nýju bindi af Heinsen í Þorgeirsþýðingu. Verð- ur ekki lengur reynt að finna orð sem hæfi þeirra jákvæðu og upp- byggilegu iðju: að minna okkur á að tilveran er skáldleg - um leið og við fáum grun um að ekkert það sem er nokkurs virði fæst með auðveldum hætti. Sem fyrr erum við í þessum sög- um hér að lesa um ástiria og dauðánn í Þórshöfn og líka um gleðina og það tvöfalda líf sem það fólk lifir sem Heinesen fer höndum um. Og sem fyrr vitum við að Þórs- höfn er nafli heimsins og að þar eru allar þjóðir og allar manngerðir saman komnar til að skála við góða drengi í skáldamiði. En grípum þá niður í síðustu sögu þessarar bókar sem heitir Flugur. Þar segir frá rit- höfundi sem er kominn til Frakk- lands og ætlar að fara að skrifa „skemmtileik í upphöfnum stíl“, einskonar helgisögu sem gerist í senn á miðöldum og í samtíðinni - en lendir í staðinn í hinni undarleg- ustu og skrautlegustu viðureign við flugur Frakklands. En áður en þau ósköp dynja yfir veltir sögumaður vöngum yfir skemmtileik sínum og því ferska og mikilfenglega lífi sem hann vill höndla í honum, talar um líf sem er „barmafullt af eftirvænt- ingu“ um heimsmynd sem er „byggð á stórbrotnu djúpu ein- földu samræmi“. Þetta þráir hann einsog eyðimerkurfari vatn og hann bætir við: „Sannleikurinn er sá að ég er hundleiður á þessum tímum - með sína tætingslegu heimsmynd, öll sín lognu hugmyndakerfi og blinda skemmtana- og tortímingarfýsnina - líklega er þessi barátta mín fyrir dýpra skilningi og hreinni vitund uppá líf og dauða. Þessi leit að ein- hverjum gildum verðmætum (ojú, væmnislega hljómar það, veit ég mætavel). Ekki neinum föstum háspekilega vísindalegum punkti handan veraldarinnar, nei, engu þesslags. Bara mannlegum grund- velli að standa á! Eða jafnvel bara griðastað um stundarsakir, ef hitt væri til of mikils mælst (og ég mætti gerast svo djarfur), andartaks hlé fyrir þessari fávísinnar vemmilegu tækni- og gróðavitfirringu sem lagt hefur jörðina undir sig með bráð- drepandi afleiðingum og vill nú snúa sér að himinhvolfinu líka til að fylla það af eitri.“ Þessi orð tengdu sig ein- hvernveginn við skrýtna umræðu sem virðist vera að fara af stað. Manni skilst, að til sé að verða ný sundurgreiningarárátta: annars- vegar er raunsæið (hefðin, skýrslan og það allt og ojbarasta), hinsvegar hugarflugið, sem ætlar að taka völdin og tengja það saman sem ekki virtist saman gefið af ál- mættinu (og það lengi lifi). Ann- arsvegar „vandamálin" (fussum- svei) hinsvegar „undur veraldar“ (húrra). William Heinsen er reyndar einn þeirra höfunda sem með góðu fordæmi dregur fram fáránleika slíkrar sundurgreiningar. Hugar- flugið er á sínum stað í sögum hans - en það er heldur enginn flótti frá vandamálum. Skýrslan nýtur virð- ingar hjá honum - og líka hin þrótt- mikla gáfa sem tengir saman skýrslubrot. Þetta er alltaf að ger- ast, í flugnasögunni frönsku og í ástarsögunni gömlu af Leónard og Leónóru og í öllum sögum þeirra í milli. Til dæmis í yndislegri „Ark- adískri síðdegisstund" en þar segir hvorki meira né minna en frá því að kýr er haldið í Þórhöfn í júlí árið 1932. Og verða úr þeim tíðindum undur og stórmerki sem varða allar kýr og menn og goðafræðina. Það er svo sannarlega ekki sama hver leiðir kú undir þarfanaut. Eins gott að hann hafi sinn „mannlega grundvöll" að standa á. ÁB.

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.