Þjóðviljinn - 23.01.1986, Blaðsíða 12

Þjóðviljinn - 23.01.1986, Blaðsíða 12
ili hans á Kjærstrupvej fyrir ríf- lega ári. Eins og alltaf áöur var Jón mér mildur og hlýr í viðmóti og spjallað var sem fyrr um marg- vísleg efni. Enn lifði með honum frásagnarlistin og sú gamla grá- glettni, sem ég hafði svo oft notið um dagana. Ég innti hann m.a. eftir gömlum gamankvæðum frá fyrri árum, sem hann gerði þó iítið úr og vildi lítt hafa í hámæl- um, kvaðst hafa gleymt þeim, enda átt við á sérstakri stundu og stað. Ég minnti hann á, að hann mundi líklega hafa verið fyrsti ís- lendingurinn, sem ort hafði um bolsann Lenin á sinni tíð, þ.e. um 1920, af því tilefni er Hendrik Ottósson (Siemsen) kom til Hafnar eftir ferð til Rússlands. Síðan langaði mig að gamni að heyra braginn af vörum Jóns sjálfs. Er ég hafði rifjað upp upp- hafið, tók Jón hægt og sígandi við, og flutti fram kvæðið með sinni sérstæðu rödd, sem mér verður í minni: Um Lenin, sem ríkir í rauðustum heim og refsar með blóðugu straffi; ég yrki mitt kvœði af ástæðum þeim að öðlingur sá gaf mér kaffi; og með því var framreitt hið fínasta brauð eins og frumast var kostur að torga. Pað var lagsmaður Siemsen, sem lostætið bauð, en Lenin mun þurft hafa að borga. í austrinu hervæðist harðsnúið lið og hanarnir blóðrauðu gula, því líta menn víða í löndunum við, um Lenin er verið að tala. Mig furðar ekki á þó að frægð þessa manns sé flogin um gjörvallar álfur, fyrst svona er aumasti húskarlinn hans, hvílíkur mun hann þá sjálfur. Þetta var sannarlega ógleym- anleg stund, og ég hafði óljósan grun unt, að brugðið gæti til beggja vona, að fleiri yrðu slíkar. Það var mér mikið ánægjuefni að geta endurgoldið góðvild og gestrisni Jóns Helgasonar að nokkru í minn garð og minna, með því að taka á móti honum og Agnete, þegar hann átti leið til íslands. Þá átti ég þess kost að fara með honum út á landsbyggð- ina. Er mér sérstaklega minnis- stætt, er við eitt sumarið ókum með honum og Agnete austur til Þingvalla og víðar um Arnessýslu og komumst að Haukadal í Bisk- upsstungum, hinu forna fræða- setri, en þangað hafði Jón aldrei komið áður. Ég veit, að það var eftirminnileg stund fyrir hann að standa þar í sporum Ara fróða í fyrsta sinn á langri ævi og fá litið það landslag, sem sagnaritarinn hafði fyrir augum átta öldum fyrr. Kannski hefur hann þá minnzt upphafs ljóðsins sem hann orti til höfundar Hungur- vöku: Hér stíg ég enn mínum fæti á fold og fylli lungun í blænum, en þú ert örlítil ögn af mold undir sverðinum grænum. Á síðasta ári varð Jón Helga- son fyrir áfalli á heilsu sinni, sem á tiltölulega skömmum tíma lagði hann að velli. Skáldið Jón Helga- son hafði heyrt bjöllunnar hreim á hurðinni minni til marks um gestinn, sem hljóður sœkir mig heim í hinzta sinni, svo sem hann hafði ort í ljóði sínu „Elli“. Við fráfall Jóns Helgasonar vil ég og fjölskylda mín senda konu hans Agnete, og börnum Jóns, Solveigu, Helga og Birni og þeirra fjölskyldum okkar innileg- ustu samúðarkveðjur. Á kveðjustund þakka ég Jóni Helgasyni áratuga vinskap og kynni, sem aldrei mun fyrnast yfir í huga mínum. Fyrir fræðin og ljóðin hlýtur öll þjóðin að þakka. Einar Laxness Það tel ég sé ekki vinnandi veg- ur að ætla sér að gera Jóni Helga- syni verðug skil í stuttri blaða- grein. En við andlát hans þykir mér þó ekki illa við eiga að ég minnist hans að nokkru, þótt ekki væri nema í þakklætis skyni. Á tímabili reyndist hann mér bet- ur en enginn, óvandabundinn maðurinn. Þegar ég hitti hann fyrst að máli, í Árnasafni skömmu eftir stríðslok, hafði ég það í vegar- nesti af Fróni að hann ætti það til að vera nokkuð viðskotaillur við ókunnuga, jafnvel draga menn sundur og saman í háði, og þá einkum ef þeir hefðu orð á sér fyrir að þykjast vera skáld; auk þess væri honum að sjálfsögðu ekki alltof vel við það að vera ónáðaður við fræðistörf sín. Ég lét þó slag standa; taldi mér trú um að ég ætti við hann dulítið erindi annað en fá að berja augum margumrædd og dýrmæt handrit. Skemmst er frá því að segja, að þegar við kvöddumst hafði hann ekki aðeins leyft mér að sjá ólíkar gerðir frægra safn- gripa, heldur einnig leyst úr því erindi mínu að fá inngengt í bók- menntatíma við einhvern Kaup- mannahafnarskóla, þótt ekki hefði ég neina pappíra uppá próf eða lærdóm yfirleitt. En það skal tekið fram, að ég talaði ekki við hann á reykvísku; ég lét t.d. ógert að biðja hann um að redda mér. Hvað hafði ég vitað um þennan mann? Lítið annað en það, að hann var í fámennu liði beztu fræðimanna íslenzkra; og svo skáld. Ég minntist þess frá bernsku minni að ljóð hans höfðu nokkuð skyndilega og nánast fyrirvaralaust birzt þjóðinni, sem einskonar opinberun; ekki vegna ýkjamikils frumleika í formi eða efnistökum, heldur einmitt vegna þess hvað þau sýndu mikla lífsseiglu í fornum stofni - jafnvel þau ljóð sem fjölluðu um sjálfan forgengileika alls, kannski eink- um þau. Frá þeim vetri sem í hönd fór eru mér minnisstæðir upplestrar Jóns í mannfagnaði Stúdentafé- lagsins, sem jafnan var haldinn með vissu miliibili; þá las hann úr ýmsum perlum íslenzkra bók- mennta og frá ýmsum tímum. Hann var ógleymanlega skýr í framsögn, lestrarlag hans sér- stakt, en þó með þeim hætti að manni fannst að varla yrði betur með texta farið og að einmitt þannig ætti að lesa. Allt varð ofur skiljanlegt, eins þótt um væri að ræða forna texta og framandlega, og hvortheldur voru í heiðríkju- stíl fornsagna eða uppskrúfuðu orðavali kanselísins; ljóð úr eddu eða einföld staka. Hann kom öllu til skila á þann hátt að áheyrand- anum fannst hann skilja það allt, þykja vænt um það allt; líka þeg- ar hann tók upp á því til tilbreyt- ingar að fara með leirburð. Hann var einhver bezti lesari sem ég hef heyrt um mína daga. Hér er vert að geta þess, að þegar þarna var komið sögu hafði Jón verið lífið og sálin í félags- skap Hafnarnámsmanna um langt árabil, ekki hvað sízt í ein- angrun hernámsáranna. Heimili hans var þá mörgum stúdentinum sem hans annað heimili. Ýmsir af þeim, sem hvað bezt hefðu getað greint frá því tímabili, eru nú horfnir til feðra sinna, sumir fyrir aldur fram. í borginni við sundið hafa ís- lenzk örlög oft verið ráðin; það er óhætt um það. Litlu munaði að mín væru það einnig. f snöggri ferð á rithöfundaþing í'Finnlandi, miðsumars 1947, smitaðist ég af taugaveiki, ásamt fleirum er það þing sátu, og lá milli heims og helju í nokkrar vikur, eftir að heim til Hafnar kom. Þá var það sem Jón Helgason stóð við rúm- stokkinn minn einn morguninn, er ég átti skammt í það að útskrif- ast, og bauð mér að dveljast á heimiii sínu á meðan ég væri að jafna mig eftir spítalavistina. Ég átti sízt von á þessu og hélt fyrst í stað að ég væri aftur kominn með óráð. Er þó skemmst frá því að segja að ég þáði að sjálfsögðu þetta ágæta boð og undi á heimili þeirra hjóna í góðu yfirlæti langt fram eftir hausti. Ég þarf varla að taka það fram, að ekki var ætlazt til neinnar greiðslu. Það sem meira var: Rétt áður en ég fór að búa mig undir heimferðina til ís- lands kom Jón að máli við mig og gaf mér í skyn á mjög látlausan og nærfærinn hátt, að ef ég væri skuldugur einhversstaðar eða þyrfti annarra hluta vegna á pen- ingum að halda, þá væri hann reiðubúinn að bjarga því við. Að- stæður mínar voru þó sem betur fer þannig- og það var m.a. hon- um og konu hans að þakka- að ég þurfti ekki á neinni fjárhagshjálp að halda. En þetta vinarbragð Jóns og Þórunnar, sem og öll elskulegheit þeirra hjóna í minn garð síðar, er nokkuð einstæð reynsla ílífi mínu. Égætlaekki að hafa fleiri orð þar um. En sam- fara ævinlegu þakklæti mínu til þeirra er mér í huga nokkur undr- un, því að mér finnst ennþá að ég hafi ekki átt þessa hugulsemi skilið. Viðkynning mín við Jón Helgason var mest og samfelldust á fyrstu tíu árunum eftir stríð, þeim árum sem ég var oftlegur gestur á heimili hans, því að heita mátti að ég væri þá með annan fótinn í Kaupmannahöfn. í flausturslegri samantekt eins og þessari væri sennilega bezt að setja endapunkt þegar hér er komið, vegna þess að ég hef þeg- ar sagt allt það sem máli skiptir um kynni mín af honum. Hitt er annað, að gjarnan má bregða upp örfáum svipmyndum til frekari fyllingar, rétt eins og maður sé að skrifa minningarorð um sjálfan sig; og kannski er maður einmitt að því. Sumarið ’49 dvaldist ég í Hels- inki og skrifaði litla skáldsögu þar se.m ég gerði þann óvinafagnað að frama reykvískt slangurmál og aðra úrkynjun. Mér kom ekki til hugar að leyfa Jóni að sjá það handrit, þótt ég dveldist með það á heimili hans á leiðinni til fslands aftur. Það stafaði af tillitssemi bæði við sjálfan mig og hann, að ég hélt; ég gat jafnvel ímyndað mér, að eftir að önnur eins hörm- ung kæmi á prent myndu þau hjón á Kjærstrupvej 33 ekki bjóða mig velkominn, nema þá af vorkunnsemi og fyrir gustuka- sakir. En þeim mun hissari varð ég, er þau sögðu mér síðar, að þau hefðu byrjað að lesa söguna eitt kvöldið - og ekki hætt fyrr en skammt lifði nætur og Jón hafði lesið hana alla upphátt. Mér hef- ur aldrei þótt eins vænt um neina viðurkenningu sem rithöfundur, líklega vegna þess hversu mjög hún kom mér á óvænt. Ég spyr enn: Hvar var nú sá málfræðilegi íhaldsmaður Jón Helgason? Hafði hann gaman af því að ís- lenzkur rithöfundur falsaði guðs steðja - eða var hann innst inni svona miklu frjálslyndari en öll smámunasemi hans gaf til kynna? Þetta leiðir hugann að því, þeg- ar Þórunn sagði við mig, að hún vissi hvers vegna ég, Reykvíking- urinn, talaði og skrifaði ekki verra mál en ég gerði; hún taldi það vera vegna þess, að ég hefði alizt upp hjá ömmu minni. Ég gerði hvorki að játa né neita. Má vera, að hún hafi haft rétt fyrir sér. Hitt er annað, að ég stillti mig um að segja henni þann sann- leika, að með fullri virðingu fyrir ömmu minni, þá talaði hún nokk- uð dönskuskotið; orð eins og fortó, kokkhús, bíslag, gammósí- ur, paraplý og drossía voru henni eðlileg, svo ekki sé minnst á frönskuslettuna adíu. Við þetta ólst ég upp. En ég ólst líka upp við klassískt íslenzkt mál - úr munni sömu konu. Sjaldan var það, að við Jón sæt- um tveir saman á tali, og kom það m.a. til af því, að ég var í senn ungur að árum og enginn lær- dómsmaður. Einhverju sinni sát- um við þó tveir, svo ég minnist, og ræddum eitthvað um íslenzkar bókmenntir 19. og 20. aldar. Lík- lega væri ég búinn að gleyma þessu atviki, ef ég hefði ekki slys- azt til, eða eigum við að segja freistazt til, að segja honum þau ummæli sem ég hafði þá nýlega heyrt höfð eftir Sigurði Nordal, - að bezta kvæði sem íslendingur hefði ort á 19. öld væri erfiljóðin um Odd Hjaltalín eftir Bjarna Thorarensen, en það bezta á þeirri 20. væri ljóðið „í Árna- safni” eftir Jón IJelgason. Þegar hann heyrði þetta, varð hann nokkuð heimóttarlegur á svip, lyfti brúnum og tautaði í barm sér svo lágt að varla heyrðist: „Sá held ég hafi vit á því!” Fyrir kom, að ég leit inn til hans á safnið, einkum þá til að láta hann vita af mér í bænum þegar ég var í Höfn á leið heim eða að heiman. Einhverju sinni leit ég inn sem oftar, og þá var hann í óvenjulegu skapi. Það var eins og hann væri ekki með sjálf- um sér. Hann sagði að búið væri að finna upp maskínu (notaði þó ekki þetta orð) sem auðveldaði mjög allan lestur á handritum; það væri rannsóknarlögreglan í Kaupmannahöfn sem hefði yfir að ráða þeim töfragrip, sem gerði stækkunargler óþarft, og ekki að- eins það, heldur væri hægt að lesa greinilega áður ólesanlega staði í bókfelli sem liti út eins og auðn eða sorti. Hann greip handrit úr hillu og brá undir kvartslampa og sýndi mér. Ótrúlegt en satt: Staf- irnir virtust lyftast upp af fletin- um bláir eða svartir á ljósum grunni, þar sem ekkert hafði virzt annað en tóm, séð með berum augum. Ég sá Jón Helgason aldrei jafn barnslega glaðan og á þessari stundu. Málfríður Einarsdóttir kallaði hann Síðasta íslendinginn. Þar vona ég að sú gáfaða kona hafi haft rangt fyrir sér. En líklega var hann sá nítjándualdarmaðurinn sem lifði lengst. Og margt af því sem hann gerði mun lifa sjálfan hann um ófyrirsjáanlega framtíð. Það skiptir öllu máli. Elías Mar Við andlát Jóns Helgasonar hrökkva fátækleg orð skammt til að tjá þann harm sem að okkur er kveðinn. Með honum er genginn sá maður sem borið hefur hærra en flesta aðra í íslenskum fræðum á þessari öld og sá þeirra sem síð- astur stundaði norrænunám í Kaupmannahöfn að öllu leyti. Nú hefur honum á háum aldri verið stefnt inn í það „skugganna fjölmenna ríki“ sem hann orti um. Með Jóni er líka farið eitt hið besta skáld þjóðarinnar. Fyrir nærfellt ári bilaði heilsa hans við hjartaáfall, og síðustu mánuðir voru honum erfiðir. Honum rann það til rifja að starfsþrekið þvarr, að hann var orðinn „ónýtur til allra verka“ eins og hann orðaði það í sumar. Æviferill Jóns er flestum kunn- ur. Námsframi hans var skjótur. Hann var kominn til náms í Kaupmannahöfn 17 ára og lauk þar prófi í norrænu 1923. Dokt- orsritgerð um nafna sinn frá Grunnavík, ritara Árna Magnús- sonar, varði hann í Reykjavík 1926. Ævistöðu sína, prófessor við Hafnarháskóla, hlaut hann þrítugur og gegndi henni í 40 ár, og jafnframt var hann forstöðu- maður Árnasafns. Útgáfuverk Jóns, bæði fornrit og rit síðari alda, eru mikil að vöxtum, og með útgáfum sínum og handritarannsóknum lagði hann nýjan grundvöll að þessari vísindagrein, þar sem hann gerði mun strangari fræðilegar kröfur en áður hafði tíðkast. Útgáfur texta með miklum lesháttum voru sérgrein hans, og hann kall- aði það eitt sinn listgrein að setja saman fullkomið lesháttasafn við texta. Að sönnu var Jón lista- maður, ekki aðeins í ljóðagerð sinni. Hann vann öll verk sín eins og sannúr listamaður, af elju og » vandvirkni, sem var samfara mikilli gáfu. Honum var eins og kunnugt er illa við allt hálfkák og fúsk og átti bágt með að þola óvandvirkni, ekki síst landa sinna ýmissa. Vinnulag hans var allt meira í ætt við evrópska fræðilega fagmennsku. Sá sem þetta ritar kynntist Jóni ekki fyrr en hann var hættur emb- ættisstörfum, en þó ekki sestur í helgan stein. Hann lauk miklu verki eftir að hann komst á eftir- launaaldur, hafði betri tíma til fræðistarfa eftir að kennslu- skyldum linnti, og þrekið var þá enn óbilað. Hann hélt áfram að gefa út ritraðir Árnanefndar, búa verk annarra manna undir prent- un jafnt sem sín eigin, leiðbeina öðrum um útgáfur og skrifa greinar. Hann leiðbeindi fólki af natni og sýndi verkum manna áhuga, og til hans var gott að leita. Fáa hef ég reynt betri sem leiðbeinendur um frágang ritaðs máis, þó að í litlu efni væri. Eng- inn held ég að hafi tekið honum fram sem ritstjóri, sem oft fólst í því að endurrita heila kafla í verkum manna og stytta og skerpa orðfærið. Hann hafði stundum á orði að yngri kynslóðir íslendinga kynnu ekki með málið að fara, þeir sem lært hefðu að lesa af Morgunblaðinu. Jón hóf sjálfur ýmis verk sem ekki varð lokið, og um átt- ræðisafmæli sitt taldi hann sig þurfa önnur áttatíu ár til að ljúka því öllu. Eitt af því var útgáfa á bréfum Bjarna Thorarensens, sem hann hóf fyrir rúmum 40 árum, en ætlunin var að ljúka á þessu ári. Þó að vandvirkni Jóns væri við brugðið, lét hann hana yfirleitt ekki hamla því að verk hans kæmu út. Hann lét smáat- riðin aldrei kaffæra sig og hafði einstakt lag á að halda yfirsýn yfir hvaðeina sem hann tók sér fyrir hendur. Það var gjarna viðkvæði hans, að eitthvað yrði að skilja 12 SfÐA - ÞJÓÐVILJINN Flmmtudagur 23. janúar 1986

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.