Lesbók Morgunblaðsins - 06.03.1999, Blaðsíða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 06.03.1999, Blaðsíða 6
HALLDÓR Guðmundsson var einn skrifara Þorláks Skúlasonar Hólabiskups og skrifaði þess utan margt fyrir sjálfan sig eða aðra, meðal annars bók með margskyns efni; kersknikvæð- um, lögspeki og vísdómi aldanna. Sú bók komst í hendur bróðursonar Halldórs, Jóns Rúg- manns, sem kallaði hana Reisubók og skemmti sér við á útleið 1658, hann var með fleiri ís- lensk handrit í farangrinum og lenti allt hjá Svíum. Jón var prestssonur frá Rúgsstöðum í Eyjafirði og varð fyrstur íslendinga á seinni öldum atvinnuskrifari utanlands, hann starfaði við fornfræðadeild Uppsalaháskóia og samdi, þýddi og gaf út rit. í grein árið 1970 rakti Stefán Karlsson það sem enn er vitað um skrifarann Halldór Guðmundsson, uppruna hans, ætt- menn, bústaði og skrif með hans hendi. Þar segir að Halldór hafi skrifað „smáa, fallega og skýra hönd, en farið heldur frjálslega með texta". Hann bjó lengst af á Sílastöðum í Kræk- lingahlíð, hafði bókagerð að atvinnu, flestar varðveittar bækur hans eru skrifaðar á árunum 1640-1650; að dæmum feðra sinna skrifaði Halldór lög og dóma en einnig sögur, rímur og kveðskap og forðaði ýmsu merkilegu frá algjörri gleymsku. Hér sést bútur úr Njáls sögu í uppskrift Halldórs en einnig er í handritinu óþekktur æviannáll Guðmundar biskups sem hvergi er varðveittur annarstaðar (AM 555 c 4to). Utanmáls skrifar Halldór frá eigin brjósti „málsháttur með kímni“ þegar Bergþóra segir við menn sína „þér eruð kallaðir taðskeggling- ar en bóndi minn karl hinn skegglausi." ÞINGEYRABÓK (AM 279 a 4to) er 13 blaða skinnbók, mestöll skrifuð á seinni hluta 13. aldar með mörgum rithöndum. Að meginhluta varðar textinn reka og aðrar eignir Þingeyraklaust- urs í Húnaþingi. Á grundvelli stafsetningar og stafagerðar hefir Stefán Karlsson sýnt fram á í nýlegri grein að Rekaþáttur Grágásar í þessu handriti er skrifaður með sömu hendi og elsta brot sem til er af Karlamagnús sögu frá því um 1250-1270 (NRA 61). Með því eru leiddar líkur að því að frásagnir af Karlamagnúsi og köppum hans hafi verið þýddar af benediktínamunk- um á Þingeyraklaustri, ef til vill fyrir tilmæli frá Hákoni Hákonarsyni Noregskonungi og þýð- ingin jafnvel gerð handa Noregsmönnum. í grein í norska tímaritinu Maal og minne árið 1979 setti Stefán fram lista með 54 norrænum handritum með frásagnarefni sem líklegt er að hafi verið í Noregi á miðöldum. Skrifarahendur á hluta þeirra bera þess merki að vera nátengdar íslenskum skrifaraskólum þar sem atvinnuskrifarar voru að verki. Með grandvörum athugun- um hefir Stefán lagt grunn að vitneskju um að blómleg bókagerð á íslandi á 14. öld hafi að einhverju leyti veríð stunduð með það fyrir augum að setja handrit á Noregsmarkað. ljósprent á brotum úr stóru biskupa sagna handríti með Jóns sögu Hólabiskups, Þor- láks sögu helga og Guðmundar sögu bisk- ups. I inngangi gerði Stefán rækilega grein fyrir textum þessara brota og auk þess brotum úr sjö öðrum handritum, efni, aldri, ritunarstöðum, stafsetningu, skriftarein- kennum, spássíukroti og skyldleika brot- anna hvers við annað og við önnur íslensk handrit. Biskupa sagna handritið stóra er að áliti Stefáns skrifað um 1370-1380, og var á fyrri öldum á biskupsstólnum á Hólum í Hjaltadal en hefír líkast til ekki verið gert þar á staðnum. Brotin komu í hendur Arna Magnússonar um 1705, flest úr Eyjafirði, og hafði hann spurnir af því að handritið hefði verið rifíð í sundur norður í landi. Brotin eru meðal þeirra handrita sem Olaf- ur Halldórsson og Stefán Karlsson hafa sett saman í dilk ásamt átta öðrum handritum og handritabrotum sem eru svo lík „að skrift og stafsetningu að þau hljóta að vera skrifuð af einum manni ellegar a.m.k. af mönnum sem numið hafa skrift og jafnvel unnið á sama stað“ og hefir Olafur Hall- dórsson fært að því gild rök „að ritunar- staður handritanna eða aðalaðsetursstaður skrifara hafi verið Helgafellsklaustur“ (Opuscula IV. Kh. 1970, bls. 345; Sagas of Icelandic Bishops. Kh. 1967). Stefán hefir ákvarðað með ofurnákvæmni aldursmun á þeim tveimur skinnhandritum er geyma lagaskrár íslenska þjóðveldisins (Grágás) með tilliti til stafagerðar og staf- setningar á því elsta og besta skinnblaði sem varðveitt er úr Heimskringlu Snon-a Sturlusonar. Þetta blað er að öllum líkum úr þeim hópi konungasagnahandrita sem voru skrifuð á tímabilinu 1260-1380 og ætl- uð til útflutnings til Noregs. Um þetta efni skrifaði Stefán merka grein 1979 og sýndi fram á, að á þessu tímabili hefði verið veru- legur handritaútflutningur frá Islandi til Noregs og að íslenskir skrifarar hefðu stundum starfað í Noregi. Kringlublaðið af- henti Carl XVI. Gustav Svíakonungur Kri- stjáni Eldjárn forseta Islands árið 1975. Það er nú varðveitt á Landsbókasafni og lýsti Stefán því í grein sem kom í árbók safnsins útgefinni árið 1977. Rannsóknir fyrri manna sýndu að Kringlublaðið væri með sömu hendi og meginhluti Staðarhóls- bókar Grágásar. Stefán Karlsson gaum- gæfði hvemig afbrigði hvers bókstafs á Kr- inglublaðinu samsvaraði stafagerð skrifara meginhluta Staðarhólsbókar og það sem meira var - hann komst að því að megin- hluti Konungsbókar Grágásar væri með hendi þessa sama manns. Sá hefir verið þaulæfður atvinnuskrifari, eflaust í þjón- ustu höfðingja, og var að verki á tímabilinu 1250-70. Með aldursgreiningu stafagerðar í handritunum þremur leiddi Stefán í ljós að Konungsbók Grágásar væri fyrr skrifuð en Staðarhólsbók og Kringlublaðið mitt á milli, en á miðju þessu tímaskeiði gengust ís- lenskir höfðingjar undir að játa Noregskon- ungi skatt. Traust tímasetning skriftarinn- ar á þessum merkilegu handritum getur skipt sköpum þegar reynt er að skýra at- burði og áhrif einstakra manna á Islands- söguna á þeim afdrifaríku tímum þegar þau urðu til. Með vandlegri athugun á orðafari og staf- krókum í handritum Fljótsdæla sögu sem hér er ekki rúm til að lýsa hefír Stefán sett fram dugandi rök fyrir því að sagan sé lík- lega frá 14. öld eða hundrað árum eldri en áður var talið. Þá hefir hann fært gild rök að því að Magnús prestur Þórhallsson, ann- ar skrifari og aðallýsandi hinnar glæstu Flateyjarbókar, hafi einnig skrifað Vatns- hymu, stóra sögubók sem brann með Há- skólabókasafninu í Kaupmannhöfn 1728. Rök Stefáns eru þau að stafsetning og bönd í uppskriftum Ama Magnússonar eftir Vatnshymu koma að heita má í hvívetna heim við ritvenjur séra Magnúsar Þórhalls- sonar í Flateyjarbók. Svipuðum aðferðum beitti Stefán í athugunum á uppskriftum eftir fomu íslensku alfræðiriti sem varð eldi að bráð í Kaupmannahöfn haustið 1728, en niðurstaða hans á stafsetningareinkennum afkvæma hins glataða handrits var sú að það kynni að hafa verið skrifað á 13. öld með rithætti sagnarítarans Sturlu Þórðar- sonar. Árið 1983 kom út í Kaupmannahöfn A- gerð sögu Guðmundar hins góða Hólabisk- ups. Stefán sá um þá útgáfu og prentaði sög- una stafrétt eftir skinnbók sem skrifuð var um 1330-1350. Sú bók var ásamt fýrmefndu alfræðiriti meðal þeirra mörgu handrita sem Peder Resen gaf Háskólabókasafninu í Kaupmannahöfn 1685. Guðmundar sagan var til allrar hamingju í láni hjá Árna Magn- ússyni og bjargaðist þegar Kaupmannahöfn brann að stórum hluta og mestallt Háskóla- bókasafnið árið 1728. Stefán skrifaði ítarleg- an inngang og skýringar með útgáfunni þar sem í fyrsta sinn er gerð grein fyrir efniviði sögunnar og tengslum hennar við önnur rit, einkum annála, Sturlunga sögu og Arons sögu, en sú síðastnefnda er ein sannferðug- asta íslenska útlagasagan. í þessu verki kemur fram geysimikill fróðleikui- sem heimfæra má að einhverju leyti á gerð ann- arra sagnarita á miðöldum. Stefán hefír ennfremur unnið lengi að útgáfu á þremur yngri gerðum Guðmundar sagna sem senn munu koma á prent. Stefán hefir ekki alfarið bundið rann- sóknir sínar við miðaldahandrit. Hann hefir einnig gert merkar athuganir á íslenskri ritmenningu síðari alda, til að mynda hefir hann lýst nákvæmlega stafsetningu séra Odds Oddssonar á Reynivöllum sem skrif- aði mikið enda margfróður, þýddi Jobsbók, var söngvinn og læknir góður, sálmaskáld og nafnfræðingur. Hann lést árið 1649. Stefán hefir og kannað rækilega skrifara Þorláks Skúlasonar Hólabiskups (1597- 1656). Þorlákur safnaði að sér handritum og lét uppskrifa fornsögur og skjalabækur beinlínis í þeim tilgangi að halda sögulegum fróðleik á lofti til gagns fyrir eftirkomend- urna. Kunnir eru firnm skrifarar Þorláks biskups, allir norðlenskir menn í bænda- stétt, þó var einn klerklærður. Skrifararnir voru: Björn Jónsson á Skarðsá í Sæmund- arhlíð, Þorleifur Jónsson í Grafarkoti í Hjaltadal, Jón prestur Pálsson, Brynjólfur Jónsson á Efstalandi í Öxnadal og Halldór Guðmundsson á Sílastöðum í Kræklinga- hlíð. Stefán Karlsson segir deili á þessum mönnum og ritstörfum þeirra í nýlegri í'it- gerð, og kemur þar meðal annars fram að Jón prestur Pálsson fékk í skrifaralaun frá Gísla Þorlákssyni biskupi andvirði land- skuldarinnar af ábúðarjörð sinni, Pjalli í Kolbeinsdal, sem var í eigu Hólastóls. Stefán Karlsson er einn margra fræði- manna sem hafa helgað ævistarf sitt því að skilja og skýra íslenska ritlist. Hér hefir verið tæpt á verkum hans sem sýna að þeg- ar vel heppnast má með athugun á staf- krókum og orðfæri finna aldur og heima- hérað hámenningar. Hin smæsta eining eins og hvernig sérhver stafur er dreginn í orðinu „löngun" getur engu síður en heil kirkja kunngert hlutskipti einstakra manna í samfélagi fyrri alda Islandsbyggðar sem eftir afar fornri hefð hélt utanum eignir og stjórnsýslu með skrifuðum orðum. Að vori mun Stofnun Árna Magnússonar á Islandi gefa út bók með úrvali ritgerða Stefáns Karlssonar ásamt skrá yfir öll rit- verk hans, en hér á undan var stuðst við mörg þeirra. Bókin verður nefnd Stafkrók- ar og er enn tími fyrir þá sem vilja heiðra einn virtasta og reyndasta núlifandi rann- sakanda norrænna fræða að skrásetja sig á heillaóskatöflu bókarinnar og gerast um leið áskrifendur að prentaðri fróðleiksnámu um líftaug okkar, íslenska tungu. Höfundur er fræðimaður ó Stofnun Árna Magnússonar. ELÍN EBBA GUNNARSDÓTTIR SÖKNUÐUR STEF VIÐ NÝJU FÖTIN KEISARANS ÉG leitaði að ljóði sem lifði angurvært, sem fært mér gæti fögnuð, en fann þá ljóðið sært, því sál þess hafði sofnað, þess seiður horfínn var; í eigin orðum falinn; ég ekki vissi hvar. Því skáldin höfðu skorið þess sköpulag í smátt og orðin ultu nakin inn í húmið grátt, en ljóðið sjálft var lokað og lyklakippan týnd, bygging þess var brotin og brotin aðeins sýnd. Ég leita enn að ljóði, sem lifíir angurvært; sem segði jafnvel sögu. Sem sálinni yrði kært. Þá gæti ég með því grátið oggleði með því deilt. Það myndi ætíð ylja og aftur standa heilt. Höfundur er rithöfundur í Reykjavik. NGIBJÖRG L. HARÐARDÓTTIR VOR Þessi hlýi andvari er eins og faðmur Eins og dans í öspinni sem syngur Eins og sítt hár fallegrar konu sem lítur við og hlær. SPOR Þú nálgast mig hikandi nýfæddum sporum þennan tæra morgun kallandi brýtur sólstafí á köldu gólfínu brosandi Ég veit ég á þig SÖKNUÐUR Myndin a f þér snertir mig Dimm augu undir hvelfdu enni Bros sem bíður Hönd sem hvílist Ég fínn þig eins og ég ein Höfundurinn er húsmóðir og refabóndi í Aðaldal í Suður-Þingeyjarsýslu. 6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING/LISTIR 6. MARZ 1999

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.