Lesbók Morgunblaðsins - 23.06.2001, Blaðsíða 13

Lesbók Morgunblaðsins - 23.06.2001, Blaðsíða 13
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 23. JÚNÍ 2001 13 Í SLENSK kammertónlist á Jónsmessu er yfirskrift tónleika sem haldnir verða í Ými við Skógarhlíð á sunnu- dag kl. 16. Flytjendur á tónleikunum eru Sigurður Ingvi Snorrason klarin- ettuleikari, Sigrún Eðvaldsdóttir fiðluleikari, Bryndís Halla Gylfadóttir sellóleikari og Anna Guðný Guð- mundsdóttir píanóleikari. Fimm verk eru á efnisskránni, Ristur fyrir klarinettu og píanó eftir Jón Nordal, Notturni I–III fyrir klarin- ettu, fiðlu, selló og píanó eftir Pál P. Pálsson, Plutôt blanche qu’ azurée fyrir klarinettu, selló og píanó eftir Atla Heimi Sveinsson, Sónatína fyrir klarinettu og píanó eftir Áskel Másson og Áfangar fyrir klarinettu, fiðlu og píanó eftir Leif Þórarinsson, og er ráðgert að hljóðrita verkin til útgáfu á geisladiski. Sónata úr hálöndum Skotlands Jón Nordal samdi Ristur fyrir Sigurð I. Snorrason og Önnu Guðnýju Guðmundsdótt- ur en þau frumfluttu verkið á tónleikum Musica Nova í Norræna húsinu í maí 1985. Páll P. Pálsson samdi Notturni I og II sum- arið 1999 og voru verkin frumflutt í Aust- urríki skömmu síðar. Notturno III var samið í lok ársins 2000 og tileinkað Sigurði. Verkið er nú flutt í fyrsta sinn á Íslandi, en þriðji þátturinn hefur hvergi heyrst áður. Sónatína Áskels Mássonar er einnig sérstaklega sam- in fyrir þau Sigurð og Önnu Guðnýju. Áskell Másson segir verkið hafa verið rúmt ár í smíðum, „...aðallega á Íslandi og í hálöndum Skotlands, en ég lauk því á Orkneyjum 4. nóvember 1998. Sigurður og Anna Guðný frumfluttu verkið með litlum fyrirvara síðar í þeim mánuði, eða hinn 21. nóvember 1998. Kaflar verksins eru leiknir án hléa og byggj- ast allir á sama tónefni, gamalkunnri laglínu úr Þingeyjarsýslunni.“ Nokkrir ferðalangar í myndum Kristjáns Davíðssonar Áfangar eftir Leif Þórarinsson voru frum- fluttir á Háskólatónleikum í maí 1979. Leifur samdi verkið að tilhlutan Sigurðar I. Snorra- sonar, Marks Reedmans fiðluleikara og Gísla Magnússonar píanóleikara. Flutningur verksins á Jónsmessutónleikunum í Ými er tileinkaður minningu Gísla Magnússonar pí- anóleikara, en hann lést fyrir skömmu. Leif- ur Þórarinsson sagði um þetta verk sitt að kveikjan að því væru líklega „...nokkrir ferðalangar í myndum Kristjáns Davíðsson- ar, enda verkið tileinkað honum.“ Verk Atla Heimis Sveinssonar á tónleikunum heitir Plutôt blanche qu’ azurée, eða Fremur hvítt en himinblátt. Atli samdi verkið árið 1976 í sumarhúsi danska tónskáldsins Pers Nørg- årds. „Verkið lýsir löngum, björtum og heit- um, sólríkum sumardegi á lítilli fjarlægri eyju frá sólarupprás til sólarlags. Súrrealísk rómantík í impressjónískum litum. Merking- arlaus fegurð andtilbrigða; og eins og John Cage var vanur að segja: Happy new ears.“ Áfangarnir minnisstæðir Anna Guðný Guðmundsdóttir segir þessa tónleika nú, eitthvað sem þau Sigurð hafi lengi dreymt um að gera. „Þetta eru verk sem tengjast Sigurði og okkur báðum. Það er sjaldan minnst á Áfanga eftir Leif, en frumflutningur verksins var minnisstæður þeim sem á hlýddu. Nýjasta verkið er Nott- urno III eftir Pál, en við pöntuðum verkið frá Áskeli 1998. Það er gaman að spila þessi verk og koma þeim á geisladisk.“ Það hlýtur að vera sérstakt fyrir hljóðfæraleikara að leika verk, sem hafa verið samin með hann í huga. „Jú, það er mjög gaman, og ekki síst að hafa átt þátt í því að verkið varð til; – tón- skáldið gæti annars hafa farið að semja eitt- hvað annað,“ segir Anna Guðný. „Þegar Ás- kell var á Orkneyjum að semja fyrir okkur komu fyrstu síðurnar heim í gegnum faxið. Ég man líka þegar við æfðum Ristur fyrst, þá vorum við að æfa í Tónlistarskólanum í Skipholtinu, og lékum verkið í fyrsta sinn fyrir Jón Nordal; það var mjög sérstakt. Risturnar tengjast okkur Sigurði mikið og okkur finnst vænt um þær. Við lékum þær inn á plötu á sínum tíma, en fannst sjálfsagt að taka þær aftur núna og leika inn á geisla- disk. Það er mjög gaman að æfa þetta upp aftur.“ Jónsmessutónleikar með íslenskri kammertónlist „GAMAN AÐ HAFA ÁTT ÞÁTT Í ÞVÍ AÐ VERKIN URÐU TIL“ Morgunblaðið/Sverrir Bryndís Halla Gylfadóttir, Sigrún Eðvaldsdóttir, Sigurður I. Snorrason og Anna Guðný Guðmunds- dóttir leika íslensk kammerverk í Ými á Jónsmessu. VERK eftir Sigurð Árna Sigurðsson er á sumarsýningunni „Au- tour de la lumiére“ Kringum birtuna, sem nú stendur yfir í Cava- laire í Suður-Frakklandi. Þetta er í annað sinn sem borgin stendur fyrir sumarsýningu. Á sýningunni eru útiverk sem öll hafa eitt- hvað með ljós, sól, eða birtu að gera. Verkið sem Sigurður Árni sýnir er endurgerð á verkinu Von sem var sýnt í tilefni kristnihátíðar á Þingvöllum í fyrra. Verkið er dúkur, 8 x 10 m að stærð, strekktur lárétt á fimm m hæð yfir jörðu. Í dúkinn hafa verið gerð hringlaga göt sem hleypa sólarljósi í gegn svo ljóspunktur myndast í skuggafleti undir dúknum. Eins konar óáþreifanlegir sólstafir eða geislar sem áhorfandinn gengur inn í. Sýningin stendur til 15. september en formleg opnun verður 30. júní. LJÓSVERK SIGURÐAR ÁRNA Í FRAKKLANDI Verk Sigurðar Árna Sigurðssonar á sumarsýningunni Kringum birtuna í Cavalaire í Frakklandi. HINN virti breski listgagnrýn- andi David Sylvester er látinn, 76 ára að aldri. Sylvester þótti einn áhrifamesti gagnrýnandi á sviði nútímalista í Bretlandi og er hann þekktastur fyrir að draga fram mikilvægi lista- manna á borð við Francis Bacon, Henry Moore og Rachel White- read. Jafnframt þótti Sylvester hafa hæfileika til að miðla fróðleik sínum á sviði lista á aðgengileg- an hátt til almennings. Hann starfaði lengi sem greinahöf- undur, auk þess sem hann stýrði þekktum sjónvarpsþáttum um myndlist hjá BBC-sjónvarpsstöð- inni. Sylvester verður þó fyrst og fremst minnst fyrir starf á sviði sýningarstjórnar, en hann setti upp merkar myndlistarsýningar með verkum listmanna á borð við Soutine, Giacometti og Magritte, í borgum eins og Brussel, París, New York og Chicago. Árið 1993 vann David Sylvester Gulljónið á Feneyjartvíæringnum fyrir starf sitt og var það í fyrsta sinn sem hin virtu verðlaun voru veitt fyr- ir sýningarstjórn. Deilt um verk Bruno Schultz BITRAR deilur hafa komið upp í kjölfar umdeilds brottnáms á þremur hlutum úr veggmynd eftir rithöfundinn og myndlist- armanninn Bruno Schulz. Hann var pólskur gyðingur og féll fyr- ir hendi nasista á tímum helfar- arinnar. Starfsmenn Yad Vash- em, stærsta helfararsafnsins í Ísrael, hjuggu í síðasta mánuði þrjá hluta úr veggmyndinni, sem prýddi barnaherbergi sonar yf- irmanns Gestapólögreglunnar í bænum Drohobycz í Úkraínu, en bærinn heyrði undir Pólland á tímum síðari heimsstyrjald- arinnar. Er þar um að ræða síð- ustu verkin sem vitað er til þess að listamaðurinn hafi gert áður en hann var skotinn til bana af nasistum, en verkin fundust á síðasta ári. Yfirvöld í Póllandi hafa mótmælt brottnámi brot- anna, þar sem þau telja verk Bruno Schulz tilheyra pólskum menningararfi. Forráðamenn Yad Vashem-safnsins, sem hyggjast sýna brotin við opnun nýs sögusafns árið 2004, telja verk Bruno hins vegar heyra undir sögu gyðinga sem urðu fórnarlömb helfararinnar. Að sögn forráðamanna safnsins er unnið að endurbótum á brot- unum, en lausn í deilunni er ekki í sjónmáli. Útlegð fígúratívrar myndlistar STUART Pearson Wright, einn færasti portrettlistamaður Breta, gagnrýndi Nicholas Ser- ota, forráðamann Tate-lista- safnsins í London, í ræðu sem hann hélt við viðtöku virtra myndlistarverðlauna. Pearson Wright ávítaði Serota fyrir að virða að vettugi list þeirra, sem vinna á sviði fígúratívrar mynd- listar. Ítrekaði listamaðurinn sjónarmið sín í viðtali við The Daily Telegraph, þar sem hann sagði forstöðumanninn hampa flatneskjulegri hugmyndalist. Bætti Pearson Wright því við að hefðbundnir málarar, eins og hann sjálfur, neyddust til að starfa og sýna á útjaðri myndlist- arheimsins. Þar væri um að ræða þróun sem portrettlistamaðurinn sagðist mundu gera allt sem í sínu valdi stæði til að snúa við, „fyrsta skrefið í rétta átt væri að reka Serota úr starfi,“ sagði Pearson Wright meðal annars í harðorðri gagnrýni sinni. ERLENDAR BÆKUR David Sylvester látinn

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.