Lesbók Morgunblaðsins - 11.10.2003, Blaðsíða 11

Lesbók Morgunblaðsins - 11.10.2003, Blaðsíða 11
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 11. OKTÓBER 2003 11 Eru kynþættir ekki til? SVAR: Rannsóknir hafa sýnt að meðal- munur á erfðaefni manna er 0,075%. Ef tveir einstaklingar eru valdir af handahófi úr mannkyninu þýðir það að 99,925% af erfðaefni þeirra er að meðaltali eins. Sam- anborið við flestar aðrar spendýrategundir er maðurinn (Homo sapiens) óvenjulega einsleitur í skilningi erfðafræðinnar. Með- almunur á erfðaefni simpansa er til dæmis fjórum sinnum meiri, þótt þeir séu mun færri og lifi eingöngu á afmörkuðum svæð- um í regnskógum Afríku. Þrátt fyrir erfðafræðilega einsleitni virð- ast menn almennt telja að útlitsmunur á mannfólki sé mikill, sérstaklega hvað varðar húðlit, háralit, andlitslag og líkamslögun. Þetta er þó augljóslega háð því að við erum vön að taka eftir þessum mun en tökum til dæmis síður eftir mun á einstaklingum af annarri dýrategund. Tilhneiging okkar til að gera mikið úr þessum mun vex líka af því að hann tengist oft öðrum mun sem stafar af mismunandi umhverfi og menningu án þess að um neinar líffræðilegar erfðir sé að ræða. Í huga margra er útlitsmunur á mönnum ranglega talinn endurspegla djúpstæðan erfðafræðilegan mun. Sú staðreynd að ein- staklingar hafa tilhneigingu til að vera líkir í útliti innan hópa, en ólíkir á milli hópa, hef- ur síðan ýtt undir þá hugmynd að hægt sé að skipta mannkyninu upp í nokkra erfða- fræðilega sundurleita kynþætti. Flokkun manna í kynþætti var fyrst og fremst stunduð af fræðimönnum á fyrri hluta 20. aldar. Yfirleitt þótti þá nægilegt að hópar sýndu mismunandi tíðni í einhverju útlitseinkenni sem talið var arfgengt til að réttlæta skiptingu í ólíka kynþætti. Sumir gerðu ráð fyrir að til væru þrír kynþættir sem samsvöruðu íbúum Afríku, Asíu og Evr- ópu. Aðrir töldu slíkt flokkunarkerfi ekki ná utan um allan fjölbreytileika í útliti mann- hópa og bættu við sérstökum kynþáttum fyrir frumbyggja Ameríku, Ástralíu, Mel- anesíu og fleiri hópa. Eftir á að hyggja má segja að að- ferðafræði þessara manna hafi verið illa ígrunduð og skilgreiningar þeirra á kyn- þáttahugtakinu loðnar. Niðurstaðan varð sú að búin voru til mörg ólík flokkunarkerfi þar sem heildarfjöldi kynþátta taldist allt frá 3 og upp í 64 eftir því hvaða fræðimaður átti í hlut. Þrátt fyrir augljósa galla náði kynþátta- hugtakið, og sérstaklega hin þríþætta flokk- un í „svarta“, „hvíta“ og „gula“ kynþætti, sterkri fótfestu í huga almennings og stjórn- valda. Þannig hefur hún haft og heldur áfram að hafa úrslitaáhrif á lífsgæði og af- komumöguleika einstaklinga um allan heim. Sömuleiðis er flokkun af þessu tagi alloft notuð í opinberum gögnum um fólk. Á undanförnum áratugum hefur gagnrýn- isröddum hins vegar fjölgað mjög og nú orð- ið vita margir að skipting mannkynsins í kynþætti er ekki lengur talin vísindalega gild, þótt færri geti ef til vill útskýrt hvers vegna svo sé. Líklegt er að spurningin sem hér er svarað sé sprottin af eðlilegri óvissu um þetta rótgróna flokkunarkerfi sem erfða- vísindin hafa kollvarpað. Í líffræðilegum skilningi ættu kynþættir að jafngilda deilitegundum eða undirteg- undum (e. sub-species), en með því er átt við hópa innan tegundar sem hafa verið ein- angraðir hver frá öðrum nógu lengi til að merkjanlegur erfðafræðilegan munur komi fram. Eitt gleggsta dæmið um slíkt er und- irtegundir hunda sem talsvert hefur verið fjallað um á Vísindavefnum. Í þróunarfræði er gert ráð fyrir því að slík kvíslun innan tegundar sé forleikur að því að ný tegund myndast þegar einn hópur sker sig nægilega úr til þess að ein- staklingar úr honum geta ekki lengur átt frjó afkvæmi með einstaklingum úr öðrum hópum. Tegundum er þó ekki öllum skipt upp í undirtegundir. Slík skipting er bara talin eiga við þegar erfðafræðilegur munur á hóp- um er meiri en 25–30% af samanlögðum erfðabreytileika tegundar. Þegar litið er nánar á fyrrnefndan breytileika meðal manna (0,075% samtals), þá kemur í ljós að 85% af honum eru milli einstaklinga innan sömu hópa, um 6% eru á milli hópa innan sömu álfu og aðeins um 9% eru á milli íbúa ólíkra álfa. Engir hópar manna frekar en annarra tegunda eru hins vegar nákvæm- lega eins í erfðafræðilegum skilningi. Í stuttu máli þýðir þetta að erfðafræðileg- ur munur á hópum manna er hvergi nógu mikill til að réttlæta það að líffræðingar mundu skipta slíkri tegund í undirtegundir eins og gert er með ýmsar aðrar tegundir. Niðurstaðan er þá sú að kynþáttahugtakið er ekki nothæft til að lýsa hópaskiptingu mannkyns. Frá sjónarhorni vísinda er rétt- ara að notast við hugtakið stofn (e. popula- tion) í þessu samhengi, en það er hópur ein- staklinga, sem vegna nálægðar eða annarra skilyrða, eru líklegir til að eignast saman af- kvæmi. Stór kostur við þetta hugtak er sveigjanleiki, sem endurspeglar vel veru- leika lífheimsins. Þannig væri til dæmis hægt að líta á íbúa Akureyrar sem stofn, en einnig mætti líta á íbúa Norðausturlands sem sérstakan stofn, eða íbúa Íslands, eða íbúa Evrópu, en tegundin sjálf er stærsti stofninn. Stofnar þurfa ekki endilega að vera af- markaðir vegna landfræðilegrar legu, heldur geta trúarbrögð til dæmis orðið til þess að einangra sérstaka stofna í samfélagi manna, samanber til dæmis mormóna eða amish- menn. Ljóst er einnig af þessum dæmum að stofnar eru mjög misjafnlega afmarkaðir. Í dag nota nánast allir mannfræðingar, líffræðingar og læknar hugtakið stofn í rannsóknum sem fela í sér að flokka mann- fólk í líffræðilega merkingarbæra hópa. Með tímanum munu fjölmiðlar, stjórnmálamenn og almenningur vonandi átta sig á því að búið er að gefa hugtakinu kynþáttur vís- indalegt dánarvottorð. Agnar Helgason, líffræðilegur mannfræðingur hjá ÍE. ERU KYN- ÞÆTTIR EKKI TIL? Hvar finnst kvikasilfur í náttúrunni, hvaðan kem- ur orðið róni yfir drykkjumann, hvernig myndast prótín í líkamanum, hvaða orð er hægt að lesa bæði aftur á bak og áfram og hvert er vitrasta dýr í heiminum fyrir utan manninn? Þessum spurningum og fjölmörgum öðrum hefur verið svarað að undanförnu á Vísindavefnum og hægt er að lesa svörin á slóðinni www.visindavef- ur.hi.is. VÍSINDI Yfir mér hangir kristallinn klasar af tárum í kyrru lofti speglarnir kljúfa hold mitt dökknar bíð í forsalnum sé mig í glerinu endurspeglast sé mig í glerinu yfirgefna geng fram og til baka í draumi skipti hvorki um föt né skoðun ég er blind hef starað of lengi á sólina Konungsilmurinn er enn í hári mínu SÚ SEM ÁÐUR VAR Sú sem áður var gekk um þessa sali starði í þessa spegla leitaði lýta á lærum sér opnaði skápinn hans hellti úr þessari karöfflu hugur hennar lagði úr höfn í leit að landslagi þar sem þú gætir stansað og valið henni gjöf vetrargosa pressaðan milli blaðsíðna frosna fugla í búri stundirnar liðu við varðveislu holdsins hárgreiðslunnar, andlitsins, vöðvanna þar til hún lagði frá sér burstann og fannst hún heyra fjarveru þína einsog þú hefðir ekki kinkað kolli þegar þú mættir henni í garðinum eða tekið frá sæti næst þér við borðið nú geng ég um þessa sali og skoða speglana hlusta á strengjaslátt kliðandi gosbrunna þessi lýti í glerinu andlit hennar lærin þakin silfri vofan fylgir mér til rekkju þinnar JANE URQUHART ÞÝÐANDI INGIBJÖRG HARALDSDÓTTIR Jane Urquhart er kanadískur rithöfundur. Hún á að baki fjórar ljóðabækur og jafnmargar skáldsögur, auk fjölda greina um bókmenntir og menningu. Hún les úr ljóðum sínum í Máli og menningu á Lauga- veginum á morgun kl. 16.30. SPEGLASALUR

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.