Lesbók Morgunblaðsins - 06.12.2003, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 06.12.2003, Blaðsíða 10
10 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 6. DESEMBER 2003 „Það hló að mér aumingi,“ segir Jón Ara- son biskup á Hólum þegar hann fær að skrifta hjá syni sínum Birni (148). Þeir eru ásamt flokki manna á eftir Daða Guðmunds- syni í Snóksdal sem er hliðhollur lútersmönn- um suður í Skálholti. Það er árið 1548 og Gissur Einarsson biskup er látinn og Jón Arason ætlar að koma „trúvillingum“ undir aga og ná völdum á öllu landinu. Og um það snúast deilurnar sem hafa verið kraumandi síðustu misseri en eiga eftir að verða blóð- ugar þegar baráttan um biskupsstólinn syðra harðnar, deilurnar snúast um völd yfir land- inu og yfir hugarfari þjóðarinnar, þótt aum sé um þessar mundir, og þær snúast um þennan mann sem skriftar hjá syni sínum á meðan hann herjar á lúterskan prest og segir ástæð- una vera þessa: „Það hló að mér aumingi.“ Hann er hégómlegur og of stoltur til þess að geta kyngt sakleysislegri ertni bændaskríls- ins. Hann er vanur að húðstrýkja lýðinn og berja fyrir minnstu sakir. Og hann veit að það er ekki stórmannlegt og hæfir ekki trúar- leiðtoga. „Ég er hatursfullur maður og hefni- gjarn,“ segir hann við son sinn sem hrekkur við og hvíslar: „Herra, þetta get ég ekki hlustað á.“ En Jón Arason þarf syndaaflausn. Og hann þarf svör því hann efast um að hann sé á réttri leið, hann efast um að Drottinn sé með sér: „Er það vilji Drottins að nýr siður komist á í landinu?“ (149) Í skáldsögu sinni Öxinni og jörðinni tekst Ólafi Gunnarssyni ekki aðeins að gera þessa 450 ára gömlu sagnfræði, sem allir þekkja meira og minna, að frábærri skemmtilesningu heldur einnig að hleypa lífi í persónur hennar sem eru löngu orðnar að stirðnuðum goðsögn- um í minni þjóðarinnar, honum tekst að gera þær að fólki af holdi og blóði. Jón Arason er ekki aðeins hinn staðfasti trúmaður sem berst með kross og Biblíu að vopni gegn ofurvaldi erlends konungs, sem vill ræna landsmenn bjargræðinu, heldur er hann samsettur, breyskur maður; yfirgangsmaður, obeldis- maður, valdagírugur hrokagikkur og um leið væminn barnakarl og feimið og hörundsárt skáld; hann er allt í senn klókur stjórnmála- maður, hikandi löðurmenni, hættulegur glæframaður og óhaggandi trúmaður. Í Jóni takast á andstæður heiðni og kristni, sem einkenna tíma hans fyrst og fremst, þess miðaldasamfélags, sem hér varð til á fyrstu öldum byggðar og lýst er í Íslendingasögum, og þess kristna samfélags sem fram eftir öld- um tókst hægt og illa að koma á fót. Lýsing Ólafs á þessu mærasamfélagi, sem virðist á góðri leið með að leysast upp, er breið, sann- færandi og áhugaverð. Og hún hefur aug- ljósar skírskotanir til samtíma okkar í upphafi 21. aldar. Trúarleg sundurþykkja, persónulegur krytur eða heimska stoltsins Ólafur fylgir sögulegum atburðum í öllum megindráttum, en eins og prestur einn kemst að orði í bókinni þá þrífst góð saga „ekki á einni saman smásmygli þótt nákvæmni beri vissulega ekki að forsmá, heldur þeim anda sem sögumaður megnar að leggja til“ (122). Þetta er eina skáldskaparfræðin sem orðuð er í bókinni og á vel við því það er ekki síst andi frásagnarinnar sem birtir túlkun höfundar og afstöðu til þeirra atburða sem hann fjallar um. Tónninn er sleginn þegar í upphafi. Ung- ur maður kemur sprengríðandi í Skálholt. Hann er á flótta undan Erlendi Þorvarðarsyni lögmanni sunnan og austan á landinu. Í ljós kemur að lögmaðurinn, sem er þekktur of- beldismaður og morðingi, heldur drengnum og sautján ára systur hans í hálfgerðri gísl- ingu á hjáleigubýli á jörð sinni en hann girnist stúlkuna. Gizur biskup lofar drengnum að fá þau laus enda hafi hann tak á lögmanninum sem hann hefur átt í jarðadeilum við um tíma. En áður en Gizur fær nokkuð að gert er Er- lendur búinn að nauðga stúlkunni og drepa þau systkin bæði. Því næst mætir hann til biskups og vill leita sátta í jarðadeilum þeirra. Biskupi virðist hann óvenju sáttfús en kemst að því að lögmaðurinn er kominn til að reyna að svíkja hann og pretta eins og vanalega. Og Erlendur vill í þokkabót fá að skrifta. Biskup samþykkir það en þegar hann heyrir hrotta- leg víg systkinanna og nauðgunina, sem hafði þar að auki farið fram í kirkju, þá neitar hann að veita lögmanninum aflausn og segist setja hann í bann. Erlendur bendir á að Gizur hafi ekkert vald til þess í hinum nýja sið; hann hreytir ókvæðisorðum í biskupinn og segist ekki eiga í vandræðum með að leita annað um aflausn synda sinna. Í fyrstu köflum bók- arinnar fær lesandinn þannig smám saman að vita að samfélag siðskiptatímans er markað af lögleysu, ólifnaði og illdeilum sem virðast miklu fremur snúast um veraldlega hluti en trúarlega. Og frá því öllu er sagt í hlutlægum frásagnarstíl að hætti Íslendingasagna þar sem höfundur gefur aldrei upp skoðun sína beinum orðum þótt hann eigi sínar málpípur sem útskýra og dæma; umfram allt er frá- sögninni sjálfri falið að afhjúpa fáránleikann sem atburðarásin að mörgu leyti lýsir. Jón Arason hafði gert sátt við Gizur Ein- arsson en bíður þess aðeins að hann drepist svo hann geti yfirtekið biskupsstólinn í Skál- holti og sett son sinn Björn í embættið. Jón er hataður af fátækum almúganum enda fer hann ránshendi um hús hans, lemur hann og svívirðir þegar svo ber undir. Hann segist vilja þjóna þessari þjóð og verja hana fyrir er- lendu valdi en afstaða hans til þess valds og eigin stjórnsýsla er geðþóttaleg. Þegar einn af ráðsmönnum hans bendir á að kannski hagi hann seglum eftir vindi í samskiptum við kon- ung þá þvertekur hann fyrir það en segir þá Hólamenn vera slæga sem höggorma og skríða í skjóli þess (113). Konungur telur Jón vera „í fasi eins og þeir menn sem eiga að ráða fyrir þjóðum“ (125) og er fullljóst að honum verði að víkja frá ef Danir eigi að geta nýtt sér auð landsins sem felst í brennisteini og skreið sem seld eru til Evrópu. Og bæði Hólafeðgum og lútersmönnum er það ljóst að deilurnar í landinu snúast ekki um trú heldur fyrst og fremst skreið og frelsi þjóðarinnar til þess að haga sínum málum eftir eigin höfði. Og hvorumtveggju er ljóst að þeir þurfi að sameinast til þess að geta barist fyrir frels- inu. En hvorugir vilja ganga í lið hinna. Ástæðurnar eru trúarlegar, og þó ekki. Fall Jóns Arasonar á upptök sín í Sauðafellsför þar sem hann ásamt sonum sínum tveim, Birni og Ara, ætlar að fara að Daða Guð- mundssyni sem hafði verið falið af konungi að handtaka Jón. Hólafeðgar eru fáliðaðir í ferð- inni og Daði yfirbugar þá. Eins og landsmenn allir óttast lútersmenn og danskir embætt- ismenn Jón svo mikið að þeir hætta ekki á að bíða heilan vetur eftir að Alþingi komi saman til að dæma í sök þeirra feðga og skera svo úr að „öxin og jörðin geymi þá best“, eins og frægt er. Kvöldið fyrir aftökuna hittast þeir feðgar í seinasta sinn og Ari spyr föður sinn hvers vegna þeir hefðu riðið að Sauðafelli, hann hafi aldrei fengið botn í það. Jón út- skýrir að von hefði verið á erlendum her frá Þýskalandi að herja fyrir Hólamenn gegn Dönum og Daði hefði átt skreiðina sem þurfti til þess að kosta þann hernað. Þessu trúir Jón, en synina grunar að það sé blekking; Björn hugsar með sér: „Að erlendur her komi til landsins að herja fyrir Hólamenn var held- ur ósennilegt og líklega hafði förin að Sauða- felli fremur verið sprottin af stolti föður hans sem vildi ná Daða undir sinn aga, heldur en í landsins þágu“ (297). Niðurstaða sögunnar er því engan veginn einhlít. Að einhverju leyti var hin trúarlega sundurþykkja ástæða þess að þjóðin afsalaði sér nær öllum landsréttindum um miðja sext- ándu öld, að einhverju leyti var það persónu- legum kryt að kenna og að einhverju leyti heimsku stoltsins hjá æðstu valdamönnum. Sigraðir sigurvegarar Fjölmargar persónur eru eftirminnilegar úr sögunni. Síra Marteinn Einarsson fylgir henni frá upphafi til enda. Hann kemur fram í byrjun sögu sem málari í Skálholti. Hann er að teikna titilsíðu sem prýtt gæti Biblíuna þegar hún kæmi öll út á íslensku og mynd- irnar eiga að lýsa hetjusögu siðbreytingarinn- ar sunnanlands. En illa gengur að ljúka við teikningarnar með viðunandi hætti. Og það verður saga Marteins. Vonir hans og draum- sýnir rætast ekki. Hann verður biskup í Skál- holti þegar Gizur fellur frá án þess að hafa nokkurn metnað til þess starfs. Hann skortir hörku Gizurar og Jóns, valdafíknina og trúar- hitann en hann vill Íslandi vel, eins og hann segir, og lætur glepjast af draumsýn um að Danir muni tryggja landi og þjóð dýrlega framtíð: „Háreist híbýli, glæsilegt og menntað fólk. Upplýstur almúgi, djarfmannleg þjóð! Hin nýja Evrópa. Ég ætla Íslandi að sitja þar í öndvegi, Ari! Menntasetur við ströndina sem jafnast á við Cambridge. Við hættum að vera afglapar á heimsenda“ (198). Það er Marteinn sem tekur af skarið með að Hólafeðgar eru höggnir en hann gerir það frekar af ótta en sannfæringu. Og það markar fall hans og hrun skýjaborganna. Hann segir af sér emb- ætti biskups þegar í ljós kemur að Danir láta sig ekkert varða um velferð fólksins í landinu. En hann kemur eigi að síður standandi niður, kannski vegna þess að hann segir af sér í hinu háa embætti. Í lok sögu líður honum eins og sigurvegara þegar hann virðist reyna að telja sjálfum sér trú um að hann hafi breytt rétt með því að koma á hreinni trú í landinu. Börn Jóns Arasonar leika stórt hlutverk í sögunni, einkum synirnir Ari, Björn og Sig- urður. Þeir eru líkt og fulltrúar þeirra krafta sem togast á í föður þeirra. Lögmaðurinn Ari er hinn klóki stjórnmálamaður sem lætur sér fátt fyrir brjósti brenna og er raunar efa- semdamaður í trúmálum, huggar sig við heið- inn kveðskap á höggstokknum. Síra Björn er trúmaðurinn og staðfastur fylgismaður föður síns í hinum gamla sið en Síra Sigurður snýst gegn Jóni, sakar hann um blindu á sjálfan sig og stöðu sína í samfélaginu og er sannfærður um að þeir feðgar eigi að ganga til liðs við lút- erstrúarmenn og verjast þannig Danakon- ungi. Kostulegast barna Jóns er þó Þórunn sem hefur erft hörku föður síns og ofbeld- ishneigð. Hún er líka rammheiðin og hefði sómt sér vel sem persóna í Íslendingasögu. Ef til vill er hún fullklisjukennd sem slík. Sterkasta mannlýsingin er auðvitað Jón Arason sjálfur. Ólíkt tveimur öðrum höfund- um sem skrifað hafa sögulega skáldsögu um Jón Arason, Torfhildi Hólm og Gunnar Gunn- arsson, staðfestir Ólafur ekki goðsögnina um hinn sterka og óhvikula baráttumann. Í Jóni Arasyni eftir Gunnar Gunnarsson (1930) deyr trúmaðurinn píslarvættisdauða fyrir baráttu sína gegn kúgun hins veraldlega valds og svipuð saga er sögð í Jóni biskupi Arasyni eft- ir Torfhildi Hólm (1902–1908) þar sem áhersl- an er aðallega á boðun kristilegs siðgæðis. Í sögu Ólafs birtist Hólabiskup í raun ekki sem hinn staðfasti, heili og sterki trúmaður fyrr en morguninn sem hann gengur að högg- stokknum í Skálholti. Líkt og Marteinn er hann einnig í vissum skilningi sigurvegari þegar upp er staðið, en þeir eru sigraðir sig- urvegarar. Ómögulegt að leiðast Eitt eiga allar þessar sögur um Jón Arason þó sameiginlegt, þær fjalla með einum eða öðrum hætti um samtíma höfunda sinna. Gunnar Gunnarsson stefndi bók sinni um trúarstyrk Hólabiskups gegn ofríki gegnd- arlausrar efnishyggju í samtíma sínum, hann boðaði að einstaklingar tækju ábyrgð og leit- uðu svara í trúnni. Ólafur boðar ekkert slíkt. En sagan um viðkvæma stöðu lands og þjóðar þar sem sjálfstæðið hangir á bláþræði og valdsmenn deila sín á milli fastir í kreddum og blindaðir á eigin ábyrgð af heimsku stolti hefur ákveðinn samhljóm með kaldastríðstím- anum og stríðstímum síðustu missera. Einnig hefur hin „nýja Evrópa“, sem Martein dreym- ir um, kunnuglegan blæ. Það er að vísu auð- velt að sleppa sér í slíkum túlkunartilraunum á sögulegum skáldsögum og hugsanlega er best að leyfa hverjum lesanda fyrir sig að njóta þess leiks að finna samsvaranir milli sögu og samtíma. En hvað sem öllum ytri tengingum líður er Öxin og jörðin umfram allt vel sögð saga. Þrátt fyrir langan lestur og kunnuglegt efni er manni ómögulegt að leiðast. BREIÐ, SANNFÆRANDI OG ÁHUGAVERÐ Morgunblaðið/Kristinn „Í skáldsögu sinni Öxinni og jörðinni tekst Ólafi Gunnarssyni ekki aðeins að gera þessa 450 ára gömlu sagnfræði, sem allir þekkja meira og minna, að frábærri skemmtilesningu heldur einnig að hleypa lífi í persónur hennar sem eru löngu orðnar að stirðnuðum goðsögnum í minni þjóðarinnar.“ ÞRÖSTUR HELGASON SKÁLDSAGA Öxin og jörðin JPV-útgáfa. Reykjavík 2003. 366 bls. ÓLAFUR GUNNARSSON

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.