Lesbók Morgunblaðsins - 17.01.2004, Blaðsíða 13

Lesbók Morgunblaðsins - 17.01.2004, Blaðsíða 13
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 17. JANÚAR 2004 13 Þ egar Elías Hjörleifsson lést eftir erfiða sjúkdómslegu árið 2001, 57 ára að aldri, lét hann eftir sig mikið og fjölbreytilegt úrval myndverka sem flest hafa aldrei ratað fyrir sjónir almennings. Þrátt fyrir að Elías hafi alla tíð unnið daglaunavinnu, síðustu ár- in sem matsveinn á togurum, veittist honum auðvelt að sinna listrænni köllun sinni á sama tíma. „Það er ekki hægt að aðgreina listina og annað í fari Elíasar,“ segir Gunnar Örn mynd- listarmaður og náinn vinur Elíasar, en hann að- stoðaði Ólaf son hans við val verkanna á sýning- unni og uppsetninguna. „Þetta var allt í einni harmóníu. Daglega lífið og starfið var líka hluti af listinni. Þeir togarar sem hann var á hverju sinni voru fljótandi vinnustofur.“ Elías ólst upp í Hafnarfirði en sigldi til Dan- merkur árið 1964 og þar átti hann eftir að búa í 25 ár. Fljótlega eftir að hann kom út tók hann að fást við myndlist, en hann lauk námi sem matreiðslumaður. Elías hélt sína fyrstu sýningu í Kaupmanna- höfn árið 1973 og tók einnig þátt í mörgum sam- sýningum í Danmörku og á Íslandi. Árið 1989 flutti Elías til Íslands og settist að á Hellu. Þar kom hann sér upp vinnustofu og Gunnar Örn segir að í hönd hafi farið frjóasti tími Elíasar í listinni. Flest verkin á minningarsýningunni eru frá síðustu tólf árunum sem Elías lifði. Tengingin við náttúruna er sterk í verkunum, en víða er leitað fanga og tekist á við myndefnin á ólíkan hátt. Togarinn látinn teikna „Elías var alltaf tengdastur því sem hann var að fást við hverju sinni,“ segir Gunnar Örn. „Við fórum í gegnum hundruð verka frá öllum tíma- bilum ferils hans og reyndum að flokka þau. Það kom okkur mjög skemmtilega á óvart að sjá útkomuna, og ýtti enn frekar undir það að sýningin varð þetta stór, eða hátt í 300 verk. Síðasta tímabilið í ævi hans var síðan svo op- ið, maður getur bara ímyndað sér hvert sköp- unargleðin hefði getað leitt hann. Elías var svo heillaður af hinum stafræna heimi og mögu- leikum tölvunnar; ný hugsun í myndmáli heill- aði hann. Þá var samstarf þeirra Ólafs afar frjótt.“ Í grein í sýningarskránni fjallar Ólafur um samstarf þeirra feðga. Hann segir meðal ann- ars: Á síðari árum unnum við faðir minn eins oft saman og við gátum og við þróuðum með okkur ýmsar aðferðir til að halda því samstarfi gang- andi þótt við værum ekki staddir í sama landi. Eitt þeirra verkefna sem við eyddum miklum tíma í að þróa var soðið saman úr áhuga hans á því að leika sér með mismunandi aðferðir við að teikna, og forvitni minni um hvað felst í því að eyða heilum mánuði í senn á sjó … Í gegnum ferli umræðna og tilrauna með mismunandi að- ferðir við að gera teikningar, þar sem við not- uðum velting skipsins sem upptök þeirrar orku er hreyfir penna eða kúlu, þróuðum við kerfi þar sem við gátum gert teikningar af hreyf- ingum skipsins á ókyrru hafinu. Gunnar Örn segir að sum þessara samvinnu- verka feðganna hafi endað á söfnum í Evrópu og Elías hafi verið kíminn þegar hann sagði að líklega væri hann eini íslenski togarasjómað- urinn sem ætti hlutdeild í myndlistarverkum í evrópskum listasöfnum. „Skipsfélagar Elíasar voru allir þátttakendur í listrænni sköpun hans um borð – hann breytti öllu skipinu í vinnustofu. Hann hefur verið sér- stakur skipsfélagi,“ segir Gunnar Örn og brosir – „og svo var hann frábær kokkur í þokkabót! Þegar hann flutti heim árið 1989 er eins og ís- lenska náttúran hafi orðið stökkpallur fyrir sköpunina. Hann fór á kaf í náttúruna, eins og hann hefði hungrað eftir sambandi við hana; það rigndi þá frá honum verkum. Svo tóku aðrir heimar að banka upp á, önnur efnistök, en það er náttúrutenging í þessu öllu – við grjótið, svörðinn og veðrið. Nýr heimur opnaðist fyrir honum þegar hann gat farið að vera með tölvu til sjós. Hann tók ljósmyndir og vídeó – maðurinn var sí- myndandi – og fann alls staðar áhugaverð sjón- arhorn. Sumar myndanna lét Ólafur prenta út fyrir hann á stórar filmur og síðan vann Elías áfram í þær. Áður en hann fór að skrá umhverfi sitt staf- rænt hafði hann alla tíð safnað að sér ólíkleg- ustu hlutum sem hann fann. Þessum hlutum safnaði hann saman á vinnustofunni og úrval þeirra sýnum við hér í Hafnarborg.“ Gunnar Örn leiðir blaðamann um sýningar- salina, þar sem teikningum, málverkum og klippimyndum hefur verið komið fyrir í seríum. Í reisulegum glerskápum er hlutasafnið og smiðir eru að leggja hönd á völundarhús þar sem ýmsum gripum sem tengdust Elíasi, sem og sjálfsmyndum, er komið fyrir. Á neðri hæð- inni er verið að tengja myndvarpa og sjón- varpstæki þar sem vídeóverk Elíasar verða sýnd. Gunnar Örn nemur staðar og tekur upp litla mynd í svörtum ramma. „Þetta er mögnuð mynd,“ segir hann. „Þetta er síðasta sjálfs- mynd Elíasar. Hann gerði hana á tölvuna á spít- alanum og prentaði svo út. Þetta eru svona lita- klipp, eins konar filmutækni, og svo er skuggi af honum sjálfum í hjólastól á bak við. Birtan er svo falleg; það er eins og hann sé að leysast upp. Þetta er síðasta verkið sem hann gerði.“ ÓHEFTUR SKÖPUNARKRAFTUR „Fyrir Elíasi var það sköpunin sjálf sem skipti máli. Það sem iðulega fylgir, að sýna verkin og koma sér á fram- færi, hann tók sér ekki tíma í það,“ segir Gunnar Örn myndlistarmaður. Á morgun verður opnuð í Hafnarborg minningarsýning á verkum Elíasar Hjörleifssonar, en hún er sett saman af syni hans, Ólafi Elíassyni. Morgunblaðið/Einar Falur Ólafur Elíasson og Gunnar Örn velta fyrir sér ólíkum hlutum sem Elías Hjörleifsson, faðir Ólafs, tíndi upp á leið sinni um lífið. Elías Hjörleifsson: Sjálfsmynd, 2001 AUSTRIAN Double Reed Quartet heldur tón- leika í Gerðubergi kl. 17 í dag. Kvartettinn hefur verið á tónleikaferðalagi hér á landi sem lýkur með þessum tónleikum. Hann er skipaður hljóðfæraleikurum á óbó, óbó d’amore, enskt horn og fagott. Hljóðfæra- leikararnir tengjast flestir Íslandi og Austur- ríki sterkum böndum og eru tónleikarnir meðal annars styrktir af Österreichisch- Isländische Gesellschaft. Werner Schulze er hvatamaður ferðarinnar en hann hefur ferðast sautján sinnum til Íslands. Skipulagn- ingu tónleikanna annaðist Virtúós. Óbóleikararnir, Adolf Traar og Gregor Nabl, starfa við Fílharmóníusveitina í Graz, en Katalin Kiss starfar við kennslu og flutn- ing kammertónlistar. Fagottleikarinn, tón- skáldið og Íslandsvinurinn Werner Schulze er prófessor við Universität für Musik und darstellende Kunst í Vínarborg. Félagar úr SÍ slást í hópinn Kvartettinn hefur tónleikana á að leika út- setningu á Kvartett í F-dúr eftir Vínarbúann Johann Baptist Schenk (1753–1836). Þunga- miðja tónleikanna er frumflutningur fjög- urra verka og hafa sum þeirra verið samin sérstaklega fyrir þessa tónleikaferð. Fyrstur er Kvartett byggður á íslenskum lögum eftir Helmut Neumann, en Helmut starfaði sem sellóleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands á árunum 1962–1964. Þá verður leikin Blá- klukka eftir Pál Pampichler Pálsson sem samdi verkið á síðasta ári sérstaklega fyrir hópinn. Tvö verk eru eftir meðlimi Austrian Double Reed Quartet. Sonatina Canonica frá 1990 eftir Werner Schulze verður frumflutt í nýrri útsetningu og ISLpoint sidewise lauk Adolf Traar við að semja í síðastliðnum nóv- ember og er byggt á reynslu hans við að ferðast til allra fjarlægustu staða Íslands á hjóli. Félagar úr Sinfóníuhljómsveit Íslands slást í hóp Austurríkismannanna í tónleika- lok og leika með þeim verk Tryggva M. Bald- vinssonar STÍM fyrir tíu tvíblöðunga sem samið var í tilefni af Degi hljóðfærisins 2003 og frumflutt í Gerðubergi 18. maí síðastlið- inn. Austurrískur blásarakvartett í Gerðubergi Morgunblaðið/Þorkell Austurríski blásarakvartettinn heldur tónleika í Gerðubergi.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.