Morgunblaðið - 08.11.2005, Blaðsíða 7

Morgunblaðið - 08.11.2005, Blaðsíða 7
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 8. NÓVEMBER 2005 7 BÆKUR „MÉR hefur alltaf fundist tal um eðli kvenna og eðli karla sem andstæður þreytandi. Ég get ekki séð að það sé svo mikill munur. Við erum framleidd úr sama efni. Bæði kynin hafa sínar hvatir, langanir og þrár, þörf fyrir ást og sam- neyti við aðra og það er félagsmótunin sem hannar þetta svokallaða eðli,“ segir Súsanna Svavarsdóttir rithöfundur sem sent hefur frá sér skáldsöguna Dætur hafsins. Dætur hafsins er spennusaga þar sem segir frá Ragnhildi, 46 ára gamalli fráskilinni blaða- konu sem meira og minna óviljandi flettir ofan af morðingja föðursystur sinnar, Herdísar. Ragnhildur fær í arf eftir frænku sína minn- ingabækur hennar þar sem Herdís hefur skráð samviskusamlega niður öll sín ástarævintýri og kynlífsreynslu sem koma Ragnhildi í opna skjöldu þar sem hún hafði til þessa talið að Herdís hefði aldrei verið við karlmann kennd, ógift og barnlaus alla tíð. En annað kemur á daginn. Saga um þrjár konur Dætur hafsins er saga um þrjár konur, Her- dísi sem talar til okkar í gegnum minningabæk- urnar, Ragnhildi sem þroskast og öðlast dýpri skilning á sjálfri sér og síðan er móðir hennar og samband þeirra mæðgna talsvert í brenni- depli. Þetta er bók um konur. „Herdís er mjög ung þegar hún velur leið sína í lífinu en eins og hún segir sjálf er konum ekki ætlað að vera kynverur, ekki sem ungum konum, ekki sem miðaldra eða þaðan af eldri, ekki giftum eða einhleypum. Konur eru alltaf dæmdar fyrir kynhegðun sína og verða að láta eins og þær hafi engan áhuga á kynlífi. Herdís hefur oft reynt að ræða þessi mál við Ragnhildi en hún hefur vísað slíku tali á bug. Ragnhildur hefur alla tíð lagt áherslu á að líta óaðfinn- anlega út í augum samfélagsins. Ég held að flestar konur upplifi togstreituna sem felst í því að horfast í augu við eigin kyn- hvöt um leið og þær leyna henni og bæla. Ef hægt er að tala um eitthvert eðli hlýtur það að vera kyneðlið – sem fjandakornið fer ekkert þótt við reynum að afneita því. Þegar gerð er krafa um afneitun og bælingu verður kyn- hegðun og tal um kynlíf svo ruddalegt. Þá þekkjum við okkur sjálf ekki og kynorkan brýst út án þess að við höfum stjórn á henni. Þá get- um við ekki rætt kynhvöt og kynhegðun á heil- brigðan hátt, heldur hefur umræðan tilhneig- ingu til þess að verða klúr og dónaleg. Ég hef verið ein í allmörg ár og það er ótrú- lega algengt að ég sé spurð hvernig ég leysi kynlífið. Mér finnst þetta dónaleg spurning. Giftar konur eru aldrei spurðar að því hvernig kynlíf þeirra sé. Hvort þær fái það reglulega, hvort karlinn sé í lagi og hvort þær stundi kyn- líf yfirleitt. Við sem erum einhleypar erum hins vegar sífellt spurðar að þessu. Hvers vegna eig- um við að svara því frekar en aðrar konur?“ Stjórnlaus kynlífsfíkn Karlarnir í bókinni eru af ýmsum sortum. Bæði mjúkir og elskulegir og svo grimmd- arseggir, lygnir og óheiðarlegir. „Já, karlmenn eru lifandi verur rétt eins og konur og fara ekkert varhluta af því að vera mennskir. Að mörgu leyti held ég að það sé erf- iðara að vera einhleypur karl en kona. Alla vega virðist mér að einhleypum konum líði ágætlega í þessu þjónustulausa hlutverki. Rannsóknir hafa sýnt að þeim konum sem líður hvað best eru miðaldra og fráskildar.“ Hvað er miðaldra í dag? Er Ragnhildur mið- aldra? „Nei, en hún er að nálgast. En ég myndi þó skilgreina mig sem miðaldra, rétt komna yfir fimmtugt. Mér finnst ég vera að verða kerling, miðaldra kerling. Það er leiðinlegt hvað „mið- aldra“ og „kerling“ hafa neikvæða merkingu í huga fólks vegna þess að við eigum engin önnur hugtök sem þýða að kona sé þroskuð. Aldur og þroski fer ekki endilega saman. Ragnhildur er óþroskuð að mörgu leyti. Hún lætur t.d. Sigurð leikara spila með sig og situr eftir með sárt ennið.“ En er það ekki allt í lagi? Hún var ánægð meðan á því stóð. Hvers vegna lýsirðu honum sem hreinum skíthæl? „Af því að hann lýgur og er óheiðarlegur. Sama á við um hinn ítalska Giovanni sem fer illa með Herdísi. Hún aftur á móti segir alltaf satt og kemur hreint fram. Það er munurinn. Það er hægt að þola konum og körlum margt en lygi er óviðunandi.“ Svo eru öðruvísi karlar í sögunni. „Já, vegna þess að í heiminum er fullt af mönnum sem eru öðruvisi en þessir tveir. En þótt Herdís sé heiðarleg er hún langt frá því að vera einhver engill. Hún missir smám saman alla stjórn á lífi sínu og hverfur inn í kynlífsfíkn sem hún á erfitt með að snúa til baka úr. Þetta á alls ekki að vera dýrðaróður um kynlífið þótt einhverjum kunni að þykja lýsingar berorðar. Það er miklu frekar að í þessu felist ábending um að við konur þurfum að þekkja okkur sjálf- ar andskoti vel ef við ætlum að lifa kynlífi á okkar eigin forsendum.“ Ertu að segja lesandanum að Herdís hafi misst stjórnina? „Já, og hún er ekki gömul þegar hún dregst inn í aðstæður sem hún ræður ekki við. Hún kemst að því að heimurinn er fullur af fólki sem kann að misnota þá sem halda að þeir hafi stjórn á atburðarásinni.“ Sagan snýst þó ekki nema að hluta til um leitina að morðingja Herdísar heldur ekki síður um uppgjör Ragnhildar við foreldra sína. „Morðið á Herdísi verður til þess að ýta því uppgjöri af stað.“ Sæki konurnar í sjálfa mig Allir höfundar byggja að einhverju leyti á eigin reynslu. Ragnhildur er með svipaðan bak- grunn og þú sjálf. Er það tilviljun? „Ég sæki hana í sjálfa mig og ég sæki Her- dísi líka í sjálfa mig. En það eru persónur þeirra sem ég sæki í sjálfa mig, ekki hegðun þeirra. Sem dæmi get ég nefnt að Ragnhildur á ýmislegt óuppgert við móður sína en mitt sam- band við mína móður hefur alltaf verið mjög gott. En þótt þessar konur séu byggðar á þátt- um sem ég bý sjálf yfir er þessi saga ekki um mig. Persónurnar eru byggðar á ólíkum þáttum sem við búum öll yfir. Ég get ekki sagt að mér hafi þótt sniðugt að átta mig á því að ég væri samsett úr mörgum þáttum; að inni í hausnum á mér væru margar konur sem gætu aldrei orð- ið alveg sammála um neitt. En þannig er það og þá eins gott að gefa þeim sitt sögusvið.“ Kynlífslýsingar Herdísar eru mjög op- inskáar. Vafðist það ekkert fyrir þér? „Nei, mér finnst sagan kalla á það vegna þess að bókin fjallar öðrum þræði um konur sem kynverur og kynhegðun kvenna. Kynhvötin er sá þáttur sem stjórnar hvað mest hegðun okkar og vegferð í lífinu. Hvað við segjum og hvað við gerum og hvernig við lifum, hverjum við gift- umst og hverja við elskum. Þetta er þáttur sem viljum samt ekki viðurkenna. Slíkt leiðir af sér tvöfeldni sem hlýtur alltaf að vera skaðleg.“ Ertu að segja með sögu þinni af Herdísi að fólk þurfi að ganga lengra en skynsemin býður til að þekkja sín eigin mörk? „Nei, ég er að segja að fólki sem þekkir ekki sjálft sig hætti til að ganga of langt. Ég kynnt- ist því í þriðja hjónabandi mínu. Maðurinn átti við kynlífsfíkn að stríða og vildi að ég tæki þátt í leiknum. Ég þekkti hins vegar sjálfa mig nægilega vel til að setja mörkin og vissi ná- kvæmlega hvað ég vildi og hvað ég vildi ekki. Þessi reynsla er í einhverjum skilningi fyr- irmynd að sögu Herdísar. Ég hef séð hvernig þetta gerist og veit hvernig góður ásetningur og öll varnarkerfi hrynja þegar fíknin tekur völdin.“ Mörk erótíkur og kláms Veltirðu því fyrir þér hvar mörkin liggja á milli erótíkur og kláms? „Auðvitað geri ég það en það er ómögulegt að draga þau mörk í eitt skipti fyrir öll. Það sem mér finnst ekki klámfengið getur næsta manni fundist svo. Einhverjum öðrum getur fundist þetta grútmáttlaust. Mér finnst ofsalega gaman sjálfri að fást við erótík og kynhegðun vegna þess hvað hún er stór hluti af okkur. Og ég sé ekki hvers vegna ekki á að fjalla um hana.“ Klisjan er að konur skrifi erótík og karlar klám. „Það er klisja, eins og þú segir. Ég held að erótík og klám séu tveir límmiðar á sama fyr- irbæri. Erótík er jákvæður límmiði og okkur konum líður betur með hann. Eitt er víst, að konur geta og hafa skrifað svo svæsið klám að það gefur í engu eftir því sem karlar hafa skrif- að. Skilaboðin frá samfélaginu eru þau að það sé ósæmilegt fyrir konur að örvast af erótísku efni og við erum alltaf að streða við að vera svo vammlausar, betri en þið strákarnir.“ Heldurðu að konur séu svona miklu bældari en karlar? „Já, okkur er ætlað að vera það. Við sjáum það á fleiri sviðum en í kynlífi. Karlar tapa t.d. ekki hæfileikanum til að leika sér þótt komnir séu á fullorðinsaldur. Ég dáist að því hvað þeir eru duglegir að leika sér með bílana sína, byssurnar, veiðistangirnar og golfkylfurnar. Þetta eiga flestar konur erfitt með, en ættu endilega að gera meira af.“ Kynhegðun kvenna, bæling og hlutverk í samfélaginu er að stórum hluta efni sögunnar sem er þó sögð undir merkjum spennusög- unnar, reyfarans. „Já, ég ákvað að klæða söguna í þennan bún- ing vegna þess að ég ætlaði ekki að skrifa fræðilega úttekt um kynhegðun, bælingu, þögn og stjórnleysi. Spennusaga er mjög gott form til að segja þessa hluti. Hún býður upp á mögu- leika á að koma til skila þeim jarðhræringum sem verða þegar bæling brestur og þögn er rof- in.“ Er þetta þá saga um konu sem finnur sjálfa sig í einhverjum skilningi? „Nei, en hún áttar sig kannski á því smám saman að það er einmitt það sem hún þarf að gera. Það er ekki nóg að eldast. Það þarf að þroskast.“ Þegar bæling brestur Morgunblaðið/Kristinn „Fólki sem þekkir ekki sjálft sig hættir til að ganga of langt,“ segir Súsanna Svavarsdóttir. Eftir Hávar Sigurjónsson havar@mbl.is JPV útgáfa hefur sent frá sér stórvirkið Jörðina – myndrænan leiðarvísi um reikistjörnu okkar. Þessi glæsilegi og myndræni leið- arvísir sýnir okkur jörðina í öllum mik- ilfengleik sínum og fegurð – leiðir les- andann um fáfarna stigu, frá neðansjávar- gljúfrum til gróskumikilla regnskóga, um freraveröld heim- skautanna og alla leið út í geiminn. Jörðin er tímamótaverk þar sem saman fara frábærar ljósmyndir og vandaður texti, unninn af sérfræð- ingum. Hér er því hægt að kynnast mörgum sérkennilegustu og mögn- uðustu stöðum jarðar – allt frá brenn- heitri Atacamaeyðimörkinni til ógn- vænlegra eldgosa Etnu og frá ánni Níl til víðáttu Kyrrahafsins. Einstætt, sjónrænt yfirlit yfir helstu perlur og dásemdir jarðarinnar myndar kjarna bókarinnar. Mikilvægum þátt- um á landi, hafsbotni og í andrúmsloft- inu er lýst í máli og myndum og þeir ná- kvæmlega staðsettir á yfirlitskortum. Í bókinni er enn fremur lögð áhersla á gagnkvæm áhrif manna og umhverfis og tekist á við vandasöm álitamál, svo sem fjölgun mannkyns og eyðingu skóga, með áhrifamiklum hætti. Flókin ferli eru gerð hverjum manni skiljanleg með hjálp kunnáttusamlega tölvuteiknaðra skýringarmynda og að- gengilegum og skýrum texta. Sem dæmi um fjölmargar fræðinýjungar í bókinni má nefna nútímahugmyndir manna um uppruna jarðarinnar, mynd- un kalksteinsrifja neðansjávar úr lif- andi kóröllum og þau kerfi og hring- rásir sem valda loftslagsbreytingum. Þetta mikla verk veitir með skýrum, traustum og afar myndrænum hætti óviðjafnanlega sýn á samspil allra þeirra þátta sem móta okkar sí- breytilegu reikistjörnu. Bókin er samstarfsverkefni Smit- hsonianstofnunarinnar í Bandaríkj- unum og bókaútgáfunnar Dorling Kind- ersley. Ritstjóri íslensku útgáfunnar var Sigríður Harðardóttir og þýðendur eru: Sigurður Steinþórsson, Helga Þór- arinsdóttir, Ágúst H. Bjarnason, Páll Bergþórsson, Jóhann Ísak Pétursson, Guðríður Arnardóttir og Völundur Jóns- son. Yfirlestur annaðist Helgi Guð- mundsson. Guðmundur Þorsteinsson annaðist tölvuvinnslu og umbrot og Jón Torfason gerði atriðisorðaskrá. Jörðin er 520 blaðsíður í stóru broti, prýdd meira en 2.000 myndum. Hún verður boðin á sérstöku kynning- arverði til áramóta, 9.980 kr., en verð frá 1. jan. 2006 er 12.980 kr. Nýjar bækur Sögur útgáfa hefur gefið út Úlfabróð- ur. Þetta er fyrsta verkið í sex bóka seríu með yfirheit- inu Sögur úr myrk- um heimi (Chro- nicles of Ancient Darkness) eftir Michelle Paver í þýðingu Sölku Guðmundsdóttur. Sagan um Úlfa- bróður gerist fyrir sex þúsund árum og sækir höfundurinn meðal annars innblástur til Íslands fyrir söguna. Bókin er 260 bls. og leiðbeinandi verð er 3.490 kr. Stöng útgáfufélag hefur endurútgefið barna- og unglingabókina Æv- intýrafjallið, eftir Enid Blyton. Æv- intýrabækurnar eru trúlega vin- sælustu barna- og unglingabækur, sem út hafa kom- ið á íslensku. Með þessari bók hefst endurútgáfa þessa vinsæla bókaflokks, alls átta bóka sem all- ar fjalla um sömu börnin – að ógleymdum páfagauknum Kíkí. Hvers vegna skalf fjallið? Hvernig stóð á rauða skýinu, sem kom út úr því? Hvað fór fram inni í fjallinu? Hverjir höfðust þar við? Bókin er 200 bls. Verð 2.390 kr.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.