Tíminn - 23.02.1988, Blaðsíða 9

Tíminn - 23.02.1988, Blaðsíða 9
Þriðjudagur 23. febrúar 1988 Tíminn 9 i ^ VETTVANGUR Greinargerö tannlæknadeildar: Tannlæknadeild og fjöldatakmarkanir Árið 1972 varð tannlæknadeild sjálfstæð deild innan Háskóla ís- lands en var áður hluti af lækna- deild. Aðgangur að tannlæknadeild hefur ávallt verið takmarkaður. í reglugerð Háskóla íslands frá 1973 var svohljóðandi ákvæði: Af þeim stúdentum, sem innrít- ast í tannlæknadeild og standast 1. árs próf, skulu jafnan 6 þeir efstu " á ári hverju öðlast rétt til áfram- haldandi setu í deildinni. Séu 2 eða fleiri með sömu einkunn og gera þarf upp á milli þeirra um rétt til áframhalds gildir stúdentsprófs- einkunn. Á fundi háskólaráðs 28. október 1976 var kjörin 7 manna nefnd til þess að endurskoða og samræma innbyrðis reglugerð Háskóla íslands. Tillögur reglugerðar- nefndar Háskóla íslands um fjölda- takmarkanir í tannlæknadeild voru svohljóðandi: Nú erfjöldi stúdenta, sem stenst 1. árs próf meiri en svo, að veita megi þeim öllum viðunandi fram- haldskennslu við aðstæður á hverj- um tíma, og getur háskólaráð þá eftir tillögu tannlæknadeildar tak- markað fjölda þeirra, sem halda áfram námi. Réttur stúdenta til framhaldsnáms skal miðaður við árangur 1. árs prófa. Ákvörðun háskólaráðs skal tilkynna fyrir upp- haf þess háskólaárs, sem prófin eru haldin. Séu tveir eða fleirí með sömu einkunn á 1. árs prófi oggera þarf upp á milli þeirra um rétt til frekara náms, gildir hæsta stúd- entsprófseinkunnin. Stúdentar, sem öðlast ekki rétt til þess að halda áfram námi mega endurtaka öll prófin næsta ár eða láta fyrri próf gilda og keppa þá við nýja stúdenta á jafnréttisgrund- velli. f breytingartillögum tannlækna- deildar frá 23. nóvember 1978 er lagt til að standist fleiri stúdentar fyrsta árs próf en tannlæknadeild getur veitt viðunandi kennslu við aðstæður hverju sinni, geti deildar- fundur takmarkað fjölda þeirra, sem halda áfram námi. Réttur stúdenta til náms miðist við árangur þeirra á fyrsta árs prófi. Séu tveir eða fleiri stúdentar með sömu einkunn úr því prófi og gera þarf upp á milli þeirra um rétt til frekara náms, skal hlutkesti ráða. í athugasemdum með breyting- artillögum tannlæknadeildar kem- ur fram að deildin telur deildarfund sinn hæfastan, til þess að takmarka þann fjölda stúdenta, er heldur áfram námi eftir samkeppnispróf fyrsta árs. Stungið var upp á að hlutkesti skeri úr um heimild til áframhald- andi náms á öðru ári fái tveir eða fleiri stúdentar sömu einkunn á samkeppnisprófi. Á þessum tíma hafði fjölgað mjög þeim skólum sem öðlast höfðu rétt til að útskrifa stúdenta. Stúdentsprófseinkunnir voru ekki lengur taldar sambæri- legar og því ekki, að mati tann- læknadeildar, nothæfar til að ráða úrslitum við val stúdenta á annað ár. í gildandi reglugerð fyrir Há- skóla íslands með áorðnum breyt- ingum segir svo í 108. grein. Nú er fjöldi stúdenta, sem stenst 1. árs próf meiri en svo, að veita megi þeim öllum viðunandi fram- haldskennslu við aðstæður á hverj- um tíma, og getur háskólaráð þá eftir rökstuddri tillögu tannlækna- deildar takmarkað fjölda þcirra, sem halda áfram námi. Réttur stúdenta til framhaldsnáms skal miðaður við árangur janúarprófa fyrsta árs. Ákvörðun háskólaráðs skal tilkynna fyrir upphaf þess háskólaárs, sem prófin eru haldin. Séu tveir eða fleirí með sömu einkunn á 1. árs prófi og gera þarf upp á milli þeirra um rétt til frekara náms, skal hlutkesti ráða. Stúdent hefur staðist hinn fræði- lega hluta 1. árs prófa hljóti hann meðaleinkunnina 5. Reglugerðarákvæði þetta var í meginatriðum samþykkt á fundi í háskólaráði 29. mars 1979 með 10 atkvæðum gegn einu, atkvæði for- seta tannlæknadeildar. í bókun, sem tveir fulltrúar stúdenta í há- skólaráði óskuðu eftir, kemur fram að þeir telja notkun stúdentsprófs óréttláta og notkun hlutkestis skárri aðferð ef gera þarf upp á milli manna um rétt til framhald- andi náms í tannlæknadeild. Jafn- framt lýstu þeir sig andvíga beit- ingu fjöldatakmarkana innan há- skólans, en töldu sér skylt að stuðla að því að framkvæmd þeirra yrði ætíð með sem skástum hætti fyrir stúdenta. Á fundi í háskólaráði 26. mars 1987 var samþykkt að heildarfjöldi nemenda sem heimilað verður áframhaldi nám í tannlæknadeild á vormisseri 1988 verði 7 alls. Níu 1. árs nemendur stóðust janúarpróf 1988. Af þeim voru þrír með sömu meðaleinkunn og þurfti því að raða þeim í 6., 7. og 8. sæti. Samkvæmt ofangreindu reglugerð- arákvæði bar að varpa hlutkesti um röðina. Til að forðast tafir var það gert sama dag og endanleg úrslit janúarprófa lágu fyrir, enda kennsla á vormisseri þegar hafin. Samkvæmt úrskurði lögskýringar- nefndar Háskóla íslands frá 18. febrúar s.l. hefur tannlæknadeild í einu og öllu farið eftir reglugerð Háskóla íslands og ákvörðun há- skólaráðs frá 26. mars 1987 í með- ferð þessa máls. Þrátt fyrir ýtarlega umfjöllun, bæði í tannlæknadeild og í há- skólaráði, við síðustu endurskoðun á þessu reglugerðarákvæði fannst þó ekki betri aðferð en hlutkesti til þess að gera upp á milli manna með sömu meðaleinkunn. Komið hefur fram gagnrýni og efasemdir um ágæti þessarar aðferðar í fjöl- miðlum. Ljóst er að fjölmargir geta ekki sætt sig við að hlutkesti sé notað þegar ákvarða þarf rétt stúdenta til framhaldsnáms séu tveir eða fleiri með sömu meðal- einkunn að loknu samkeppnis- prófi. Því hyggst tannlæknadeild taka reglugerðarákvæði um fram- kvæmd fjöldatakmarkana til tafar- lausrar endurskoðunar. Fjöldi tannlæknastóla takmark- ar fyrst og fremst fjölda þeirra nema sem tannlæknadeild treystir sér til að veita viðunandi menntun. Við hönnun á núverandi húsnæði og í upphaflegum áætlunum um tækjakost tannlæknadeildar var gert ráð fyrir 8 nentum á ári. Gert var ráð fyrir 26 tannlæknastólum á tannlækningastofu og 4 stólum fyrir erfiða sjúklinga og minnihátt- ar skurðaðgerðir. f>ar að auki var gert ráð fyrir tveimur skurðstofum. Þegar kom að því að kaupa tæki til deildarinnar tóku stjórnvöld þá ákvörðun að fresta kaupum á 9 tannlæknastólum. Tannlæknastól- ar deildarinnar eru því 21 auk tveggja skurðstofa. Kennt er í tannlækningastofu 5 daga vikunn- ar, 6 tíma á dag eða frá kl. 9-12 og 14-17. Þar sem fyrirlestrar eru ætíð frá kl. 8-9 og 13-14 og nauðsynlegt er að þrífa tannlækn- ingastofuna bæði um miðjan dag- inn og að kvöldi að vinnudegi loknum, þá er tannlækningastofan fullnýtt. Sé kennt í 25 vikur á ári hefur deildin til umráða 15.750 stóltíma á ári. Með stóltíma er átt við fjölda klukkustunda sem nemandi fær til verklegra æfinga á tannlækninga- stofu. Stefnt er að því að þrír árgangar séu að jafnaði á lækninga- stofu samtímis og eru þá 5.250 stóltímar til ráðstöfunar fyrir hvern árgang. Fjöldi nemenda í árgangi hefur því bein áhrif á fjölda stól- tíma sem hver nemi fær. Miðað við að teknir séu árlega 7 nemendur inn í deildina fær hver nemi 750 stóltíma á ári eða 2.250 klukku- stunda þjálfun í tannlækningum fyrir lokapróf. Ef hins vegar 8 nemum er heimilað að halda áfram námi að samkeppnisprófi loknu, fær hver þeirra 13% færri klst. til verklegrar þjálfunar á tannlækn- ingastofu deildarinnar. Samsvar- andi skerðing kennslustunda ef 9. eða 10. neminn bættist við næmi 22% og 30%. Kennsluárið 1986-87 voru 26 nemendur á tannlækningastofu, 5 nemendum fleiri en tannlækna- deild telur æskilegt, og voru því til umráða u.þ.b. 600 stóltímar á nema það ár eða að öllu óbreyttu 1800 stóltímar alls í klínísku námi. Samkvæmt nýjustu tölum sem tannlæknadeild hefur frá tann- læknaskólanum í Osló er heildar- stóltíminn á hvern nema þar 2.246, í Kaupmannahöfn 2.615 og í Bandaríkjunum nálægt 2.300. Klínísk kennsla var því umtalsvert minni kennsluárið 1986-87 í tann- læknadeild Háskóla íslands en í áðurnefndum skólum. í ræðu sinni á háskólahátíð í júní 1986 sagði háskólarektor, Sig- mundur Guðbjarnason að í menntastefnu Háskólans skuli lögð áhersla á að veita breiða og góða undirstöðumenntun í þeim fræði- greinum, sem kenndar eru við Háskóla íslands og veita þekkingu og þjálfun sambærilega við kröfur erlendra háskóla. Slík ummæli hljóta að vera stefnumarkandi fyrir deildir Háskólans. Allt frá því tannlæknadeild hlaut sjálfstæði hefur markvisst verið unnið að því að menntun tann- lækna, sem útskrifast frá tann- læknadeild Háskóla íslands, sé sambærileg við þær menntunar- kröfur sem gerðar eru á hinum Norðurlöndunum. Þeim áfanga er enn ekki náð. Hvað eftir annað hefur háskólaráð heimilað fleiri nemendum en tannlæknadeild mælti með áframhaldandi nám að loknu samkeppnisprófi. Slíkar ákvarðanir gera ekki aðeins að torvelda og seinka viðleitni tann- læknadeildar til að endurskipu- leggja námið, heldur leiða til lakari menntunar. Af því sem á undan er sagt er augljóst að einungis með því að heimila ekki fleiri en 7 nemendum áframhaldandi nám að sam- keppnisprófi loknu getur tann- læknadeild, við óbreyttar aðstæð- ur, veitt íslenskum tannlæknanem- um þá umfangsmiklu verklegu þjálfun sem krafist er á góðum tannlæknaskólum. Ástæðan fyrir fjöldatakmörkunum í tannlækna- deild er sú viðleitni deildarinnar að veita ekki lakari verklega þjálfun en krafist er á góðum erlendum menntastofnunum s.s. á Norður- löndunum. Sú viðleitni er í fullu samræmi við menntastefnu Há- skólans. Á síðasta fundi sínum breytti háskólaráð fyrri ákvörðun sinni frá 26. mars s.l. og heimilaði 8 nemum í stað 7 áframhaldandi nám við tannlæknadeild án þess að forsend- ur fyrri ákvörðunar hafi í raun breyst. Vill Háskólinn breyta mennta- stefnu sinni og slá af kröfum um að veita menntun sambærilega við kröfur erlendra háskóla? Vill íslenska þjóðin að Háskóli íslands útskrifi tannlækna með minni verklega þjálfun að baki en gerist meðal nálægra þjóða? Raunir litla mannsins Frú Emilía, Laugavegi 55B: Kontra- bassinn eftir Patrick Suskind. Þýðing: Hafliöi Arngrímsson og Kjartan Ósk- arsson. Leikstjórn: Guðjón P. Peder- sen. Leikmynd og búningar: Guðný Björk Richards. Uppi á hanabjálka í bakhúsi við Laugaveg hefur Frú Emilía komið sér fyrir. Þetta er leikflokkur sem varð til í fyrra, að ég held, og hefur sýnt að minnsta kosti einu sinni áður. Og það ásannast ennþá einu sinni að alls staðar er hægt að leika. Að vísu eru aðstæður heldur frum- stæðar í þessu leikhúsi, en samt er ekki annað að sjá en þessi einleikur Patricks Súskind njóti sín nokkum veginn. Og það fer vel um áhorfend- ur þótt stólarnir séu nokkuð sinn úr hverri átt. Hið eina sem tilfinnanlegt er reynist lýsingin. Hún er skelfing flöt hér og örðugt að hnitmiða á þessu breiða rými. Til að Iaga þetta þyrfti vafalaust miklar tæknilegar tilfæringar sem fátækt leikhús ræður illa við. Kontrabassinn er skemmtilegt viðfangsefni og haglega samið. Súsk- ind er stórfrægur höfundur orðinn fyrir sögu sína Ilminn sem út kom í íslenskri þýðingu Kristjáns Árna- sonar fyrir jólin. Þessa sögu á ég enn ólesna en kynnin af höfundinum sem þetta litla verk veitir hvetja mann til að verða sér úti um Ilminn. Súskind er greinilega höfundur sem kann að semja texta sem hald er í , einleikur hans um kontrabassa- leikarann, er afhjúpandi mannlýsing og veitir útsýn til þjóðfélagsað- stæðna, hefur sem sé til að bera bæði sálfræðilega og félagslega skírskotun eins og góð bókmenntaverk. Ég hef stundum í umsögnum um verkefni frjálsra leikhópa verið að finna að snautlegum leikskrám. Ekki er ástæða til slíks hér, því að Frú Emilía sér mann fyrir verkinu í heilu Iagi í sinni leikskrá, svo að unnt er að skoða textann nákvæmlega. Þetta er til mikillar fyrirmyndar, en það sama mun leikflokkurinn hafa gert áður. Þannig er verið að koma nýjum skáldverkum á framfæri við lesendur um leið og þau eru sett á svið. Kontrabassinn er sem sé einleik- ur. Hann gerist í herbergi kontra- bassaleikara eins sem rekur fyrir áhorfendum, áður en hann fer á tónleika, hver hann er, hvað heftir hann og takmarkar, hvað gefur lífi■ hans gildi, ef það hefur eitthvert, hverjar eru draumsýnir hans. Og hver er þessi maður? Hann leikur á hljóðfæri sem alltaf er á bak við í hljómsveitinni. Enginn tekur eftir honum, hann er bara þarna, lítill hlekkur í keðju, stein- vala í þeirri byggingu sem hljóm- sveitin er. Hann hefur enga mögu- leika á að stíga fram í sviðsljósið, kannski enga hæfileika. Hann veit mikið um tónlist og kann margt að segja af meisturum tónbókmennt- anna. En hvað stoðar það? Hann er fjötraður af sínu ólánlega hljóðfæri: „Getur þú sagt mér hvers vegna hálffertugur maður, nefnilega ég, er í sambýli með hljóðfæri sem stendur honum stöðugt fyrir þrifum? Mann- lega, samfélagslega, umferðarlega, kynferðislega ogmúsfkalskt; Stend- ur honum fyrir þrifum. Merkir hann Kains-merki? Getur þú útskýrt það fyrir mér?“ Auðvitað verður þetta ekki útskýrt. Hefur maðurinn ekki valið sér þetta hlutskipti sjálfur? En staða hans í hljómsveitinni, hið ofur- þrönga svigrúm hans, er birtingar- mynd hins reglufasta, múlbundna þjóðfélags. Og þjóðfélagið er ekki endilega samtímaþjóðfélag, í marg- ar aldir hefur hljómsveitin verið í sínum föstu skorðum, rammlega stéttbundin, patríarkalskt samfélag sem lýtur valdi stjórnandans, en einleikarar og einsöngvarar fá að stíga fram í geislann. Þar er söng- konan Sara sem kontrabasssaleikar- inn elskar, en hefur aldrei árætt að segja hcnni það. Þannig er þetta leikrit, smámynd af litla manninum, sem ekkert fær að glíma við en er gersamlega tryggður: „Stundum hræðir öryggistilfinningin mig svo að ég þori ekki út úr húsi. Öryggistilfinningin er svo rosaleg. Það er kvíði, martröð, ég óttast svo þetta öryggi. Það er eins og innilok- unarkennd, fastráðningarbrjálæði." Gamanleikur, segir höfundurinn. Tragrkómiskt verk öllu heldur. Þannig er það nútímalegt verk þar sem íronían ræður ríkjum, en íronía er eitt þeirra hugtaka sem ekki verða skýrð. Návist hennar er þó það sem helst sker úr um meistaratök höfund: ar á efniviði sínum. Árni Pétur Guðjónsson fer með hlutverk kontrabassaleikarans. Hann og Guðjón leikstjóri hafa unnið leikinn vel og skynsamlega. Árni Pétur er álitlegur leikari og nær töluverðri spennuvídd í túlkun sína: skoplegur, aumkunarverður, tilfinn- ingalega vannærður, draumóramað- ur sem aldrei mun losna úr því fangelsi sem hljóðfærið hefurhneppt hann í og hann er tengdur ástar-hat- urs böndum. Þetta hlutverk er í senn erfitt og þakklátt. Kannski var túlk- unin ekki frábær, en vel unnin og heiðarleg. Um þýðinguna er það eitt að segja að hún fór vel í munni leikarans, hæfilega taimálsleg en málfarið hvergi bragðsterkt. Leikhópar eins og Frú Emilía halda tengslum okkar hér í Reykja- vík við gróandann í leiklistinni. Þeir mega síst af öllu hverfa. En hvers vegna gera þau leikhús sem á fastari grunni standa í fjárhagslegum skiln- ingi ekki meira af því að setja upp svona lítil verk? Maður fer að sakna leikhúskjallarans, hann var stundum notaður fyrir sýningar af þessu tagi. Nú eru þær í kjöllurum og risher- bergjum víðs vegar um borgina. Kontrabassinn er gott framlag, ná- vígisleikhús sem við viljum ekki án vera á tíð hinna stóru og vélvæddu músíkala. Gunnar Stefánsson

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.