Tíminn - 01.09.1988, Blaðsíða 9

Tíminn - 01.09.1988, Blaðsíða 9
Fimmtudagur 1. september 1988 Tíminn 9 VETTVANGUR il!lllllllll!l!ll!"i !llllllll!l!!!l Jón Torfason: Þankar um Örlygsstaðabardaga Ræöa flutt á ðrlygsstöðum 21. ágúst 1988. Sumardag nokkurn fyrir 750 árum kvaddi höfðinginn Sighvatur Sturluson á Grund Halldóru konu sína, tók öxi sína Stjörnu í hönd, vatt sér á bak hestinum og lagði upp í síðustu herför sína. Sú för endaði hér á Örlygsstöðum. Örlygsstaðabardagi, sem vér minnumst nú, á sér langan aðdrag- anda sem rekja má allt aftur til aldamótanna 1200. Þá var Iandinu í rauninni skipt milli nokkurra voldugra ætta og réð hver sínu héraði nánast óátalið af öðrum. Svínfellingar réðu ríkjum á Aust- urlandi, Oddaverjar á Rangárvöll- um og Haukdæiir í Árnesþingi. Á Vestfjörðum börðust Vatnsfirðing- ar og Seldælir um völd. í Skagafirði voru Ásbirningar. í Eyjafirði og Þingeyjarþingi var goðorðum skipt milli einstakra höfðingja og sömu sögu var að segja um Vesturland. Þá koma til sögu synir Sturlu Þórðarsonar í Hvammi. Hvamms- Sturlu, þeir Þórður, Sighvatur og Snorri. Um 1200 eru þeir farnir að ryðja scr til rúms. Þórður Sturluson eignaðist ríki á Snæfellsnesi og um norðanverða Dali, Snorri nær undir sig Borgar- firði og ítökum í vestanverðu Húnaþingi en Sighvatur dvelst fyrst í Dölum en flytur norður í Eyja- fjörð stuttu eftir 1210 og tekst á næstu tuttugu árum að treysta sig þar í sessi. Um 1230 eða fyrr er hann farinn að seilast til áhrifa í Þingeyjarþingi og nær m.a. Grenj- aðarstöðum til handa Kolbeini syni sínum. Sturla sonur Sighvats stýrir svo ríki í Dölum, frá höfuðbóli sínu á Sauðafelli, en blandar sér í mál manna á Vestfjörðum. Um 1225 kemst hann yfir ríki Seldæla. Næstu ár á hann í grimmilcgum átökurn við Vatnsfirðinga en þeim lýkur með aftöku Þorvaldssona, Þórðar og Snorra, í stakkgarðinum hjá Hundadal árið 1232. Eftir það má hcita að Sturlungar ráði öllu Vesturlandi og Vestfjörðum, svo og Eyjafirði og Þingeyjarþingi. Það fer varla hjá því að aðrir höfðingjar hafi fylgst með upp- gangi Sturlunga með ugg og nokk- urri áhyggju en ekki virðast þeir þó hafa sameinast gegn þeim. Áð vísu áttu Sturlungar oft í illdeilum sín í milli en þó máttu aðrir höfðingjar búast við því að þeim rynni blóðið til skyldunnar og tækju höndum saman. Sú varð líka oft raunin á. Þess ber líka að gæta að Sturlungar voru mægðir eða tengdir flestum höfðingjaættum í landinu og raun- ar voru allar helstu ættirnar tengd- ar innbyrðis meira og minna. Til dæmis er Halldóra, kona Sighvats en móðir Sturlu, Ásbirningur; Sturla Sighvatsson kvænist Sol- veigu Sæmundardóttur frá Odda; Snorri Sturluson mægist líka við Oddaverja og þannig mætti lengi telja. Móthcrjar Sturlunga á Örlygs- stöðum voru Gissur Þorvaldsson af Haukdælaætt og Kolbeinn ungi. Gissur var hinn mesti höfðingi en virðist ekki hafa blandað sér mikið í deilur að fyrra bragði. Þorvaldur Gissurarson, faðir hans, var oft sáttasemjari manna í milli og Giss- ur er oft í fylgd með honum við slík störf á alþingi. Þegar hins vegar Sturla Sighvatsson hefur vakið fjandskap Gissurar í Apavatnsför verður hann hinn ákafasti þar til yfir lýkur á Örlygsstöðum og kem- ur mjög við Islandssöguna eftir það eins og kunnugt er. Ásbirningurinn Arnór Tumason varð ekki langlífur. Hann andaðist í Noregi 1221 og er þá Kolbeinn ungi sonur hans 13 vetra. Kolbeinn kemur út sumarið 1224 og dvelst með Sighvati á Grund í Eyjafirði veturinn eftir. Síðan tekur hann við forráðum í Skagafirði: „Var honunt gert bú í Ási í Hegranesi og gerðist hann skjótt ofsamaður mik- ill og vænn til höfðingja. Sighvatur réð mestu með honum meðan hann var ungur" (296). Kolbeinn biður síðar Hallberu Snorradóttur og treystir þannig enn böndin við Sturlunga. Eftir víg Vatnsfirðinga 1232 virðist framtíð Sturlunga björt. Þeir ráða hálfu landinu og ætla sýnilega að tryggja sér atfylgi Kol- beins unga með góðu en þá yrðu þeir langvoldugasta stjórnmálaafl- ið í landinu og ríki þeirra næði frá Langanesi og suður á Suðurnes. Þetta mistekst þó. Brestir koma upp í samskiptum Kolbeins við Snorra tengdaföður sinn. Hallbera Snorradóttir er heilsuveil og andast áður en þeim Kolbeini auðnast að eignast erfingja. Eftir lát Hallberu bar Snorra arfur eftir hana og hann nær einhverjum formlegum ítök- um í ríki Kolbeins: „Snorri skyldi eiga helming goðorða þeirra er Kolbeinn átti að réttu en Kolbeinn skyldi með fara og veita Snorra á þingum“ (346). Á hina hlið Kol- beins er Sighvatur á Grund og hefur gert flesta stórbændur í Skagafirði vinveitta sér, líklega Jón Torfason. með gjöfum og heimboðum. Það er sýnilegt að Sturlungar ætla að ná tökum á ríki Kolbeins með brögð- um eða þá illu ef hann fylgir þeim ekki að málum. Kolbeinn er því mjög aðkreppt- ur orðinn og á ekki nema tveggja kosta völ, að gefast upp fyrir Sturlungum eða bregðast við af fyllstu hörku. Hann velur síðari kostinn. Hann gerir bandalag við Sunnlendinga, kvænist Helgu Sæmundardóttur í Odda strax og hann fréttir andlát Hallberu, fyrri konu sinnar, og vingast við Hauk- dæli sem reyndar voru nánirfrænd- ur hans. Þegar Haukdælir og Ás- birningar tóku höndum saman gátu þeir nánast skipt landinu í tvo helminga, frá Árnesþingi norður í Skagafjörð. Jafnframt tryggir Kol- beinn stöðu sína heima fyrir og er grannt sagt frá aðferðum hans í Sturlungu. Þegar hann fréttir um vinskap bænda í Skagafirði og Sighvats lætur hann drepa tvo þeirra, Kálf og Guttorm á Mikla- bæ, hrekur aðra úr héraði en sumum heitir hann afarkostum. Þótt tiltekjur hans séu harkalegar þá hrífa þær og Skagfirðingar fylgja honum allir sem einn það sem eftir er. Það verður að hafa í huga að Sturla Þórðarson, höfundur fslend- inga sögu þar sem segir af þessum atburðum, er andstæðingur Kol- beins alla tíð og virðist lítt hafa haldið á loft hinum geðþekkari hliðum á honum. Hér skal á hinn ; A ' * . . .... , . - Halldór Þ. Jónsson, sýslumaður Skagafjarðarsýslu afhjúpar minnisvarð- ann um Örlygsstaðabardaga að Örlygsstöðum í Skagafirði í tilefni þess að 750 ár eru liðin frá bardaganum, sem var ein mannskæðasta orrusta hér á landi. Mynd: Örn l>. ^bóginn minnt á síðustu ummælin í Sturlungu um Kolbein unga. Þau eru í Þorgils sögu skarða og falla þegar Þorgils er kominn til ríkis í Skagafirði en þá er honum líkt við Kolbein: „Þótti þeim (Skagfirðing- um) nú Kolbeinn aftur kominn og endurborinn og þá langaði æ eftir“ (722). Það má líka minna á að nóttina fyrir Örlygsstaðabardaga safnaði Brandur Kolbeinsson liði í Skagafirði, nánast fyrirframan nef- ið á Sturlu og Sighvati „um Sæ- mundarhlíð og Langaholt og Hegranes og austur yfir vötn og mjög svo neðan að Flugumýri“ (410). Það hefði ekki verið gerlegt nema héraðsmenn væru Kolbeini unga gulltryggir. Sturla Sighvatsson kom út sumarið 1235 eftir Rómarför og vetrardvöl hjá Hákoni konungi gamla í Noregi. Er engu líkara en Sturla hafi tekið skapskipti í utan- landsferðinni, fengið glýju af Ijóma konungsvaldsins ytra. Eftir heirn- komuna kemur hann fram af dæmafáu offorsi, hrekur Snorra föðurbróður sinn úr ríki sínu, lætur limlesta Órækju Snorrason eða gerir að minnsta kosti tilraun til þess og berst við Þorleif úr Görðum og marga aðra frændur sína í Bæjarbardaga. Eftir tvö ár hefur hann lagt Vesturland undir sig og þá fer hann að seilast til áhrifa sunnanlands, gerir meðal annars kröfurum hálfan Oddastað, höfuð- ból Oddaverja. Vorið 1238 reynir hann að stökkva Gissuri Þorvalds- syni utan í Apavatnsför en fylgir ekki nógu vel eftir og sleppir Gissuri. Þeir Gissur og Kolbeinn taka nú höndum saman og fara herför vestur til Dala en Sturla býst fyrir við Kleifar í Gilsfirði. Ekki kemur til verulegra átaka og grið eru sett fram um mitt sumar. Þegar leið á ágústmánuð sendi Sturla menn um allt Vesturland og Vestfirði í liðsafnað og skyldi nú stefnt til Skagafjarðar. Kolbeini unga barst njósn frá Ströndum og svo sem hans var von og vísa skorti ekki skjót viðbrögð. Hann safnaði saman fylgdarmönnum sínum og hafði með sér „hið röskvasta fólk“ og ríður suður á land. Það má sjá að hann hcfur óttast herhlaup Sturlu því hann viðhcfur ummæli þess efnis að hann muni ríða af héraði „fyrst að sinni nær sem honum yrði auðið aftur að koma“ (407). Þegar Kolbeinn kemur suð- ur yfir heiðar fer hann á fund Gissurar og þeir safna liði svo „að allir menn fóru þeir er herfærir þóttu vera“ á Suðurlandi en að auki kemur þeim lið úr Vatnsdal, Vesturhópi og Skagafirði. Kappið í liðsöfnuninni og harkan eftir viðureignina á Örlygsstöðum skýr- ist m.a. af því að þeir Kolbeinn og Gissur hafi ekki talið annað duga en ganga milli bols og höfuðs á Sturlungum í eitt skipti fyrir öll. Meðan þessu fer fram dvelur Sturla í Skagafirði og Sighvatur kemur norðan til móts við hann með á fimmta hundrað manna og reiðir öxina Stjörnu. Ýmsir hafa deilt á herstjórn Sturlu fyrir Ör- lygsstaðabardaga og í honum. Sturla fer sér hægt, fer út til Hóla, yfir í Hegranes og upp á Langaholt. Hvað var hann að gera? Hann hlýtur að hafa verið að reyna að leggja Skagafjörð undir sig þótt ekki sé sagt frá því í íslendinga sögu. Væntanlega hefur hann átt fundi við bændur því þess er getið að hann „sendi jafnan bændur úr héraði upp úr byggð eða á Kjöl suður eða annan veg á njósn" (408) en það hefði hann ekki gert ef liann hefði ckki talið þá trúa sér. Njósnarntenn Sturlu voru hins vegar tryggir Kolbeini og gengu í lið með honum þegar þeir mættu honum. Eftir vikudvöl í Skagafirði búast þcir Sturla og Sighvatur til suður- ferðar og draga flokka sína saman og var flokkunum „dreift eftir allri Blönduhlíð mjög en hestar fyrir neðan“ (409). Þetta lýsir andvara- leysi hjá Sturlu því þeir Sturlungar höfðu grun á að óissur og Kol- beinn færu nálægir með lið sitt. Nú voru menn Sturlu svo dreifðir að engin leið var að ná þeim saman í skjótu bragði þegar Gissur og Kol- beinn geystust hér handan yfir úr Tungunni með her sinn. Örlygs- staðabardagi var því tapaður Sturl- ungum áður en hann hófst og þar voru á skömmum tíma brytjaðir niður á sjötta tug manna. Stundum veltir maður því fyrir sér hvað læra megi af sögunni. Saga íslendinga á 13. öld getur kennt okkur að ósamþykki og sundurlyndi leiði til ófarnaðar, ekki síst ef á cina hönd er harðsnú- ið stórveldi. Sturlunga getur gefið okkur mörg tilefni til hugleiðinga og lærdóms. Frásögnin af Örlygs- staðabardaga kcnnir okkur dálítið um herstjórn og forustu, góða hjá Kolbeini og Gissuri en hvikula hjá Sturlu. Þar cr sagt frá mannlegunt örlögum og viðbrögðum manna í stórháska, frá tryggð eins og þegar Sighvatur djákn leggst ofan á Sig- hvat Sturluson þegar vopnin duga ekki lengur til að hlífa honum við spjótalögum óvinanna og er veginn þar. Þar segir frá flótta manna, hvort sem skynsemi eða hugleysi hefur valdið. Tumi yngri er eini sonur Sighvats sem kemst lífs úr bardaganum með því að flýja upp á grjóthallana hér fyrir ofan og síðan lil fjalls ásamt kempunni Gísla á Rauðasandi. En frásögnin um Örlygsstaðabardaga sýnir okk- ur ef til vill einna helst hvernig á að standa beinn í baki í miklum háska. Eitt af því sem bagar okkur flest nútímafólk er að þrátt fyrir allt ríkidæmið og lífsþægindin göngum við oft dálítið bogin í hnjám gagn- vart þeim sem meira mega sín eða kiknum í hnjáliðum þegar við lend- um í vanda. Eitt af því vandasam- asta sem bíður okkar er að deyja. Þeim mönnum sem voru dregnir úr kirkjunni á Miklabæ að loknum Örlygsstaðabardaga og höggnir tókst að deyja standandi: „Þórir (jökull) kvað vísu þessa áður hann lagðist undir höggið: Upp skaltu á kjöl klífa, köld er sjávar drífa. Kostaðu huginn að herða, hér muntu lífið verða. Skafl beygjat þú skalli þó að skúr á þig falli. Ást hafðir þú meyja. Eitt sinn skal hver deyja. Þá var til höggs leiddur Her- mundur Hermundarson. Hann var manna best hærður og mælti að hann vildi kneppa hári sínu svo að það yrði eigi blóðugt og svo gerði hann. Hann horfði í loft upp er Geirmundur þjófur vó liann. Klængur fékk hann til. Allir voru þeir vegnir með öxi Sighvats, Stjörnu“ (423-4). Jón Torfason slarfar á l'jóðskjalasafni. Allar tilvitnanir í Sturlungu cru í útgáfu Svarts og hvítu frá 1988.

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.