Lesbók Morgunblaðsins - 13.05.2006, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 13.05.2006, Blaðsíða 3
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 13. maí 2006 | 3 H úsverndun í Reykjavík er þjökuð af stefnuleysi. Eftir umræður í áratugi um steinbæi, steinhlaðin hús og timburhús, með eða án bárujárns, er verndun í uppnámi, eins og umræðan um framtíð húsa við Laugaveg sýnir. Skortir tilfinnanlega skýra stefnu um hvað skuli fá að standa og hvað víkja og við hvað eigi að miða. Í mikl- um umræðum og skoðanaskiptum und- anfarna áratugi um Torfuna, Grjótaþorp, Hallærisplan og Skuggahverfi, og ýmsa reiti aðra, hafa mörg rök verið viðr- uð en ómarkviss vinnubrögð eru eftir sem áður megineinkenni. Nefnd var þó sett á laggirnar í tengslum við gerð þess að- alskipulags sem gildir fyrir 1996–2016 og skilaði tillögum fyrir um 10 árum um hús- vernd í Reykjavík. Þessi nefnd vann þarft verk undir forystu Guðrúnar Ágústsdóttur og lagði mikla áherslu á að bjarga stein- bæjum og steinhlöðnum húsum. Unnið var úr tillögunum, mótuð almenn stefna og hún samþykkt í borgarráði 26. september 2000. Þar er ekkert um verndun einstakra húsa og húsverndun er eftir sem áður öll á brauð- fótum, gömul og merk hús eru látin víkja vegna sjónarmiða við deiliskipulag sem þykja þungvægari en verndun. Timburhús, steinbæir og steinhlaðin hús voru mest á dagskrá við umrædda stefnu- mörkun og mælt er með að vernda hús út frá því sjónarmiði að þau vitni um stíl fyrri tíðar og byggingaraðferð og eins skal taka mið af húsaröðum og byggðarmynstri. Lítt eða ekki er litið til þess hvort húsin vitni um ákveðin skeið í atvinnusögu Reykjavíkur. Og eins og oftar verður steinsteypuöldin að mestu út undan, orkan hefur einkum farið í að ræða hús úr timbri og hlöðnum steini og hefur þó engin niðurstaða fengist í þá um- ræðu. Mikil umræða varð um 1983–5 um vernd- un húsa í tengslum við atvinnusögu þegar rætt var um niðurrif Skuggahverfis. Margir vildu vernda Völundarhúsið, Kveldúlfshúsin og hús Sláturfélags Suðurlands, sem voru öll í einni röð við Skúlagötu. Um þá umræðu alla ritar Hörður Ágústsson í verki sínu Ís- lensk byggingararfleifð II. Allt voru þetta vandaðar byggingar, reistar eftir teikn- ingum þekktra byggingarmeistara og vitn- uðu um upphaf atvinnubyltingar á Íslandi. Margir risu upp til varnar þessum húsum, ekki síst hinum steinsteyptu Kveldúlfs- húsum frá 1913, þar á meðal fólk sem hafði látið sig verndun steinbæja og timburhúsa litlu skipta en fannst nú nóg um. Meirihluti borgarstjórnar hafnaði öllum rökum vernd- unarsinna og húsin voru eyðilögð. Eftir þennan hvell vegna Skuggahverfis hefði mátt vænta umræðna og tillagna um hvaða húsum yrði helst ætlað að standa sem vitnum um ákveðin skeið í atvinnusögu Reykjavíkur og um upphaf steinsteypualdar. Hafi slík umræða farið fram hefur hún ekki borið árangur, mér vitanlega. Vitnisburðir um merka atvinnusögu hafa horfið jafnt og þétt og nú stendur til að brjóta niður hús Alliance í Ánanaustum. Í Reykjavík hefur löngum verið talað um að skútur hafi breytt bænum en enn meiri breyting varð þegar togarar komu til sög- unnar. Hinn fyrsti togari sem Íslendingar létu smíða fyrir sig, Jón forseti, kom til landsins í upphafi árs 1907 og var í eigu Alliance í Reykjavík. Þetta var nýstofnað fé- lag nokkurra skútuskipstjóra og Thors Jen- sens, kaupmanns. Í mars sama ár kom ann- ar togari til Reykjavíkur, Mars, en ekki nýsmíðaður, og var í eigu Íslandsfélagsins. Togararnir borguðu sig upp á fáum árum og fyrirtækin í kringum þá voru stórgróðafyr- irtæki enda fjölgaði slíkum skipum hratt og Reykjavík varð „trollarabær“. Togararnir afnámu hungur og danskan framburð, eins og sagt var. Væri vert að minnast þessara tímamóta á næsta ári. Thor Jensen sagði skilið við Alliance 1910, vildi vera sjálfstæður og stofnaði sitt eigið fyrirtæki, Kveldúlf, árið 1912 og reisti út- gerðarstöð sína í Skuggahverfi við Skúla- götu. Þrátt fyrir viðskilnaðinn jókst starf- semi Alliance, það eignaðist annan nýsmíðaðan togara 1911. Félagið eignaðist lóðir við Ánanaust á árunum 1911–13 og notaði þær og tún Ívarssels við Vesturgötu sem stakkstæði, saltfiskur var breiddur til þerris eða settur í stakka. Þetta er núna þekkt sem lóð Loftkastalans. Félagið fékk leyfi árið 1911 til að reisa fiskhús við Mýr- argötu að sunnan og fiskþvottahús að norð- anverðu. Leyft var að stækka hið síð- arnefnda árið 1913. Víkjum að húsinu sem á að eyða. Í októ- ber 1924 fékk félagið leyfi til að reisa 288 fm fiskgeymsluhús úr steinsteypu fyrir norðan Mýrargötu. Í október 1925 var sótt um að reisa vélahús og fiskgeymsluhús úr stein- steypu. Í virðingu frá 1925 segir að hið virta hús sé nýtt, tvílyft fiskgeymslu- og þurrk- hús. Á efri hæðinni séu þrír þurrkunarklefar með loftrásum og þar sé skiptispor í gólfinu fyrir fiskgrindur. Þetta er austurálma nú- verandi húsa og áfast fyrir vestan er sagt vera þrílyft vélahús með ketilherbergi. Í desember 1925 var leyft að reisa 443 fm þurrk- og fiskgeymsluhús úr steinsteypu fast við fiskhús á lóðinni við Mýrargötu og er það núverandi vesturálma. Höfundur þessa húss er Guðmundur H. Þorláksson (1887–1958), húsasmiður sem hafði menntast frekar í Kaupmannahöfn og lært húsateiknun. Hörður Ágústsson skrifar að verk hans vitni um „árvökula, hógværa og vandaða listræna útfærslu“. Nokkur hús í Reykjavík bera Guðmundi fagurt vitni, eins og Hörður rekur. Í janúar 2003 var gefin út skýrsla á veg- um Minjasafns Reykjavíkur og ber heitið: Mýrargötusvæði. Húskönnun og forn- leifaskráning. Þar er lagt til að umrædd bygging „njóti verndar byggðamynsturs sem gildir á svæðinu sunnan Mýrargötu“. Í til- lögum frá 2003 frá arkitektum sem fjölluðu um skipulag á Mýrargötusvæðinu er gert ráð fyrir að húsið fái að standa. Árið 2004 mun hins vegar hafa verið ákveðið að leyfa niðurrif þess og þekki ég ekki með hvaða rökum það var gert. Mér er ekki grunlaust um að vanræksla atvinnusögu og stein- steypu í húsverndun ráði þar miklu. Húsið ætti að fá að standa. Á sama tíma og umrætt niðurrif var leyft var tekin ákvörðun um að Sjóminjasafnið í Reykjavík fengi inni í húsi Fiskiðjuvers rík- isins á Grandagarði þar sem BÚR og Grandi voru síðar. Ekki veit ég hvort til umræðu kom að Sjóminjasafnið fengi inni í húsi All- iance í Ánanaustum, örskammt frá, en hefði verið vel til fallið enda er þar hátt til lofts á jarðhæð og miklir salir. Alliance og Kveldúlfur voru kunnust tog- arafélaganna. Sérstakur myndarbragur þótti á starfsemi Alliance, fyrstu togarar þess töldust með hinum bestu og fullkomnustu, breskir togarar gerðust ekki betri. Félagið gerði mest út 4–5 togara samtímis. Hin horfna fiskverkunarstöð félagsins á Þor- móðsstöðum við Skerjafjörð og síldarverk- smiðjan í Djúpavík í Strandasýslu bera vitni um stórhug. Heimir Þorleifsson ritar að rekstur Alliance hafi þótt lýsa reisn, skör- ungsskap og myndarbrag. Hús félagsins í Ánanaustum eru óneitanlega með mynd- arbrag og minna á þá tíma þegar lífið var saltfiskur. Gamlar myndir sýna að Reykja- vík var að miklu leyti hvít af saltfiski á sól- ríkum dögum en Reykvíkingar hafa verið heldur sinnulitlir um þessa sögu og látið öðrum eftir að minnast saltfisksins. Með fullri virðingu fyrir Grindvíkingum hefði átt að standa Reykvíkingum nær að sinna sögu hans. Saltfisksetrið í Grindavík er til fyr- irmyndar. Jón Þ. Ólafsson bendir á að Alliance-húsið var reist af óvenjulegum stórhug á þeim tíma þegar hús fyrir saltfiskverkun voru venjulega úr timbri eða bárujárni á tré- grind. Til marks um það hversu allt var stórt í sniðum fyrir sinn tíma er ketill í véla- húsi en hann var um níu tonn að þyngd eftir frásögn Morgunblaðsins og segir þar líka að snúið hafi verið að draga hann frá höfninni vestur í Ánanaust en þetta var í september 1925. Þrír vörubílar dugðu ekki til samtímis en flutningur tókst þegar yfirvöld bæjarins lánuðu valtarann Bríeti Knútsdóttur til dráttar (Mbl. 1.10.). Var sérstakur útbún- aður í húsunum til að blása um þau heitu lofti og var saltfiskur þurrkaður þannig. Ár- angur af þessari aðferð þótti orðinn allgóður um þessar mundir, eins og lýst er í grein í Óðni 1925 og Jón Þ. Ólafsson bendir á (Æg- ir 84/10 (1990)). Við skoðun Alliance-hússins vekur athygli hversu hátt er til lofts á jarðhæð, allt að sex metrum. Á annarri hæð má enn sjá mörg teinaspor í gólfi og eftir þeim voru fisk- grindur færðar inn í þurrkklefa en á þær hafði saltfiski verið raðað til þurrkunar. Klefarnir eru þarna enn með ummerkjum, að því er virðist, og um þá var blásið heitu lofti. Undir risi eru rör og stokkar og vélar og einhver búnaður sem mun að líkindum hafa tengst lofttúðum sem voru á húsunum og sjást á myndum. Er makalaust að svona mikið skuli enn vera til sem vitnað getur um vinnslu sem lauk líklega fyrir mörgum ára- tugum og enn fremur merkilegt að húsið skuli að mestu óbreytt hið ytra. Þess verður að krefjast að nákvæm athugun fari fram á húsinu áður en það verður brotið niður og þurrktæknin könnuð eftir því sem unnt er. Gömul ummerki af þessu tagi munu hvar- vetna horfin, eftir því sem ég veit best. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Þetta sýna Fjalakötturinn og Upp- salir í Aðalstræti, hús sem margir sakna en ganga að nokkru í endurnýjun lífdaga í nýj- um húsum og er það sárabót. Í Ánanaustum er leyft að reisa sjö hæða hús í stað húss Alliance. Þess er hér með óskað að arkitekt- ar þessa nýja húss minnist Alliance og byggingar þess í einhverju, bæði útgerðar og sjósóknar og saltfisks. Það ætti að verða verðugt verkefni fyrir arftaka Guðmundar H. Þorlákssonar. Óskandi er svo að nýjum meirihluta í borginni lánist að marka skýra stefnu um húsverndun þar sem mið yrði tekið af þátta- skilum í atvinnusögu borgarinnar og stein- steyptum húsum sýndur verðugur sómi. Hörður Ágústsson lagði grunninn að um- fjöllun um þau með verki sínu Íslensk bygg- ingararfleifð I–II sem út kom árið 2000 og ekki er eftir neinu að bíða, varasamt að bíða lengur á öld sem sést lítt fyrir í fram- kvæmdagleði. Alliance í Ánanaustum Húsverndun í Reykjavík er þjökuð af stefnu- leysi, segir í þessari grein en í henni er sjón- um beint að húsi Alliance í Ánanaustum en Alliance var útgerðarfyrirtæki sem Thor Jensen og fleiri stofnuðu í byrjun síðustu ald- ar og létu smíða fyrsta togarann sem Íslend- ingar eignuðust. Hús Alliance er, að mati greinarhöfundar, merkur vitnisburður um atvinnusögu borgarinnar og steinsteypt hús en samþykkt hefur verið að rífa það og byggja sjö hæða blokk í staðinn. Eftir Helga Þorláksson htho@hi.is Fiskgeymslu- og verkunarhús Alliance í Ána- naustum Myndin telst tekin einhvern tíma á bilinu milli 1926 og 1940. Lága húsið langa sem stendur framar á myndinni hefur verið rifið. Hitt er húsið sem um ræðir í greininni og stendur á mótum Mýrargötu og Grandagarðs. Þetta var þurrkhús félagsins; á þakinu eru tvær lofttúður og hár strompur. Myndin er fengin úr ritinu Saltfiskur í sögu þjóðar. Höfundur er prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.