Straumar - 01.10.1927, Blaðsíða 4

Straumar - 01.10.1927, Blaðsíða 4
146 STRAUMAR um framkvæmdum, meira valdi yfir náttúrunni og hinu ytra lífi og aukinni þekking. I 2. En þótt menning vor sé glæsileg hið ytra, og þótt hún hafi trygt vestrænum þjóðum allmikið vald um skeið í heiminum, virðast þó þverbrestir hennar ærnir og sú stefna, sem hún hefir lokkað eina þjóð af annari inn á, tvísýn. Samkepnisstefnan hefir aldrei birzt á jafn vitstola hátt sem nú. Alt byggist þar á hinni hlífðarlausu baráttu, þar sem hver reynir af megni að bola bróður sínum frá öllum þeim eldum, er skærast loga, til þess sjálfur að sitja þar einn óskorað að. Á milli þess, sem bræðraþjóðir ber- ast á banaspjótum í tryltasta hildarleik, er sífelt annað stríð háð á jörðu hér, þótt eigi fylgi slíkar þórdunur sem hinu, það er hin eilífa barátta um lífsviðurværið. Yfir bölvun þess stríðs virðast hin svokölluðu kristnu þjóð- félög leggja blessun sína, því þau eru ætíð seinlát að vernda hlut smælingja sinna eða hindra framgang okrar- anna. Það eru einstaka menn, sem á bragðvíslegan hátt raka að sér fjármunum, en hirða eigi um, þótt þeir um leið hrindi fjölda fram á ystu þröm mannlegs lífs, þar sem upp verður skorin eymdin ein og hverskonar böl. Það er þrotlaust kapphlaup um einskisverða hluti, sem sífelt er háð, og renna þar fylkingar manna nærri grunlausar fram af hengiflugi algerrar glötunar þessa lífs, og láta ágirnd og sjálfselsku vera leiðarsteina sína þangað út. Það er efnishyggjan, sem liggur eins og rauður þráð- ur gegn um alt líf vestrænna þjóða. Fingraför hennar eru sýnileg í öllum hugsunarhætti manna og athafnalífi. Hið eina nauðsynlega fyrir flestum er það, sem þægir hversdagslegum þörfum. Efnishyggjan hefir höggvið strandhögg hvarvetna og spent alt helgreipum frá instu afdalakimum á annes út. Hún hefir ráðið í skólum og breiðst þaðan um bygðir út, og ætíð eru verk hennar ill. Hún hefir truflað bænaró manna og lokað fyrir mönnum leyndardómum tilverunnar.

x

Straumar

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Straumar
https://timarit.is/publication/679

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.