Morgunblaðið - 08.10.2009, Blaðsíða 27

Morgunblaðið - 08.10.2009, Blaðsíða 27
Minningar 27 MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 8. OKTÓBER 2009 ✝ Aðalheiður MaríaOddsdóttir fædd- ist á Suðureyri við Súgandafjörð 14. september 1923. Hún lést á Sjúkrahúsi Akraness 1. október sl. Foreldrar hennar voru Oddur V. Hall- björnsson, f. 16. júní 1892, d. 29. ágúst 1975 og Guðbjörg Bjarna- dóttir, f. 5. september 1892, d. 15. október 1974. Guðbjörg og Oddur eignuðust tíu börn, átta þeirra komust til fullorð- insára. Aðalheiður var fimmta í röð- inni. Hin eru í aldursröð: Ólafur Veturliði, Guðrún Valgerður, Þor- gerður Jóna, Hallbjörn Eðvarð, Bjarni, Jón Friðriks, Guðbjörn Valdimar, stúlka (andvana fædd) og G. Valdimar. Þau eru nú öll látin. Hinn 27. nóvember 1948 giftist Aðalheiður Ársæli Ottó Valdimars- syni, f. 2. október 1921, d. 20. desember 2003. Þau eignuðust þrjár dætur: 1) Guðný, f. 5. mars 1949. Börn hennar: Ársæll Már, Áslaug og Alda. 2) Helga Jóna, f. 14. ágúst 1952, maki Þráinn Ólafsson. Dæt- ur þeirra: Aðalheiður María, Berglind og Harpa Sif. 3) Sigþóra, f. 16. apríl 1962, maki Björn Björnsson. Börn þeirra: Heiðar Mar, Ársæll Ottó, Björn Þór og Brynja Rún. Barnabarnabörnin eru 14. Auk húsmóðurstarfa vann Að- alheiður ýmis störf, m.a. á Dval- arheimilinu Höfða frá árinu 1978 þar til starfsævi hennar lauk. Útför Aðalheiðar fer fram frá Akraneskirkju í dag, 8. október og hefst athöfnin kl. 14. Þá hefur amma Heiða loksins fengið hvíldina. Og þó að söknuður- inn sé sár þá getum við ekki annað en verið fegin að hún þjáist ekki frekar. Amma var líka sátt við að fara. Hún átti gott líf sem hún var þakklát fyrir. Við vitum að það var auðvitað engin tilviljun að hún fór daginn fyrir af- mælið hans afa. Gamli maðurinn hef- ur viljað hafa Heiðu sína hjá sér. Þannig vildu þau vera; saman. Allt þeirra líf gekk út á samveru með fjöl- skyldunni og þess njótum við ömmu- börnin ríkulega. Allar sumarbústað- arferðirnar í Borgafjörðinn, laxveiði- túrarnir í Dalina, helgarnar á haustin þegar allir hjálpuðust að í kartöflugarðinum og sláturgerðinni, árlegar gamlárskvöldsveislurnar og jólaboðin. Fasti punkturinn í lífi okk- ar allra voru sunnudagskaffiboðin sem haldin voru svikalaust í hverri viku og allir mættu í, ef kostur var. Þá var nú ekki ónýtt að fá að gista hjá ömmu og afa, vera trakteraður á döðlum, gráfíkjum og suðusúkkulaði, kíkja kannski einn rúnt og fá síðan að sofa á milli þeirra. Fyrir barnabörnin sem stunduðu nám við Grundarskóla var aldeilis gott að eiga hana ömmu á Espigrundinni þar sem alltaf beið hádegismatur og nýsmurt brauð. Amma var alla tíð áhugasöm um íþróttir. Hún stundaði þær af mikl- um krafti sem ung manneskja og áð- ur en gigtin eyðilagði hendurnar átti hún það til að leika listir sínar með boltum fyrir framan agndofa krakka- skarann. Hún hafði gaman af sundi og í mörg ár mætti hún alltaf á fimmtudagskvöldum í laugina. Við krakkarnir fengum líka oft að fylgja með í sund. Vinnustaður ömmu Heiðu í þvotta- húsinu uppi á Höfða var í miklu uppáhaldi hjá okkur krökkunum. Þangað þótti aldeilis flott að fara í heimsókn. Allt það sem amma sagði og gerði í þvottahúsinu þótti okkur spennandi. Áður en amma byrjaði á Höfða vann hún ýmis árstíðabundin störf eins og þá tíðkaðist. Hún vann í gróðrarstöðinni hjá Sigga á Stein- stöðum, í síldarsöltun og fleiru. Það einkenndi öll störf ömmu hversu auð- sótt það var fyrir barnabörnin að fá að fylgja með. Varla hefur það alltaf verið auðvelt að ganga í störfin með barnabörnin hangandi í pilsfaldin- um, en aldrei nokkurn tímann feng- um við vita ef svo var. Til ömmu var maður alltaf velkominn hvenær sem maður leit inn. Lengi vel vonuðumst við til þess að hún fengist til að fara á sinn gamla vinnustað á Dvalarheimilinu Höfða, en amma var nú aldeilis ekki á þeim buxunum. Á Espigrundinni ætlaði hún að vera þar til yfir lyki og væri önnur skoðun viðruð varð hún úfin og óárennileg eins og vestfirsk brim- alda. Þegar afi dó missti amma ástina í lífi sínu og með honum hvarf líka lífs- neistinn að miklu leyti. Hún eyddi dögunum heimavið með myndina af honum sem hún bar með sér meira að segja milli herbergja. Oftar en ekki logaði á kerti fyrir framan þessa mynd. Nú trúum við því að þau hafi náð saman á ný. Það er góð tilhugs- un. Við viljum þakka hinu frábæra starfsfólki Heimahjúkrunar og Sjúkrahúss Akraness fyrir alla þá hjálp sem það veitti ömmu í veikind- um sínum. Guð blessi ykkur öll. F.h. barnabarna og barnabarna- barna, Ársæll. Látin er á Akranesi móðursystir okkar Aðalheiður María Oddsdóttir. Foreldrar hennar voru þau Oddur Hallbjörnsson frá Bakka í Tálkna- firði og Guðbjörg Bjarnadóttir frá Botni í Súgandafirði. Þau bjuggu þá á Suðureyri við Súgandafjörð og þar fæddist Aðalheiður, fimmta í röð níu systkina sem nú eru öll látin. Árið 1929 tók fjölskyldan sig upp og hélt til Akraness er faðir hennar flutti þangað útgerð sína. Var heimili þeirra lengst af á Arnarstað. Oddur naut umönnunar á heimili Aðalheið- ar og Ársæls síðasta árið sem hann lifði. Aðalheiður giftist Ársæli Ottó Valdimarssyni, er starfaði lengi sem bifreiðastjóri og ökukennari en síðar sem starfsmaður Akraneskaupstað- ar. Hann var lengi bæjarfulltrúi í bæjarstjórn Akraness fyrir Alþýðu- bandalagið. Heiða fór í Héraðsskól- ann á Laugarvatni en hún var mikil íþróttakona og í fimleikaflokki kvenna og handknattleiksliði ÍA á ár- um áður. Hún var enda mikil keppn- iskona. Þau hjónin voru einlægir stuðningsmenn ÍA. Heiða og Ársæll voru samhent í að búa sér og dætrum sínum notalegt og fallegt heimili og nutum við gest- risni þeirra í ríkum mæli. Þegar dæt- urnar voru komnar með börn og buru varð það að venju að allur hóp- urinn hittist á heimili þeirra á sunnu- dögum og þá var kátt í koti og hús- ráðendur léku á alls oddi. Barnabörnin sóttu mikið til Heiðu og var algengara en ekki að hitta eitt- hvert þeirra hjá ömmu eftir að skóla- degi lauk. Hún var líka hress og skemmtileg kona og full áhuga á tómstundastarfi og fyrirætlunum krakkanna. Lifandi áhugi hennar á ættingjum og vinum og reyndar öðru fólki líka var mikill og entist alla tíð. Hún var bókstaflega viskubrunnur ef einhver vildi vita hvar ættingjar og vinir væru niðurkomnir og hvað væri af þeim að frétta. Hún átti víða vini sem þótti sjálfsagt að heilsa upp á hana Heiðu þó þeir væru löngu flognir af Skaganum. Við eigum skemmtilegar minning- ar frá laxveiðitúrum í Dalina, Flekkudalsá og Fáskrúð. Þá gleym- um við ekki fjörinu í eldhúsinu hjá þeim systrum Heiðu, Gunnu og Gerðu, þegar þær stóðu fyrir stór- veislum af ýmsum tilefnum í fjöl- skyldunni. Veikindi settu svip sinn á efri ár Heiðu en hún var illa haldin af liða- gigt. Á móti kom að hún var ákveðin í að láta það ekki hindra sig í að halda sínu striki og stundaði sund og gönguferðir af kappi eins lengi og stætt var. Að leiðarlokum þökkum við kærri frænku okkar samfylgdina og send- um dætrum hennar og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúðar- kveðjur. Guðbjörg Róbertsdóttir. Júlíana Bjarnadóttir. Margs er að minnast nú þegar kemur að kveðjustund við hana Heiðu móðursystur mína. Síðust fell- ur hún frá af systkinunum frá Arn- arstað á Akranesi sem öll utan eitt voru fædd á Suðureyri við Súganda- fjörð. Allar stundirnar á Brekku- brautinni heima hjá henni, Alla og dætrunum eru minnisstæðar. Svo ekki sé minnst á allar rútubíla- og vörubílaferðirnar sem Alli leyfði mér að fara í þegar ég var krakki. Þær ferðir voru hafsjór fróðleiks. Þær mamma og Heiða voru samrýndar. Hún Heiða var ákveðin kona og vissi alltaf hvað hún vildi og ég man ekki eftir styggðaryrði á milli þeirra mömmu þótt oft væru þær ekki sam- mála um allt. Þau stóðu alltaf saman í öllu sem þau tóku sér fyrir hendur, hún og Alli. Nú þegar kveðjustundin er runnin upp þakka ég fyrir alla um- hyggjuna og ekki síst að síðast þegar ég heimsótti Heiðu og verulega var dregið af henni í þreki og minni þá var fyrsta spurningin: Hvað er að frétta af krökkunum þínum? og hún nefndi þau með nafni. Ég bið Heiðu frænku alls hins besta í þeim heimi sem hún er nú í. Guðný, Helga Jóna, Sigþóra og fjölskyldur, samúðar- kveðjur til ykkar. Haraldur Bjarnason. Í dag kveðjum við Heiðu frænku hinstu kveðju. Við þökkum henni samfylgdina með þessum erindum úr ljóði eftir Davíð Stefánsson. Nú skil ég stráin, sem fönnin felur og fann þeirra vetrarkvíða. Þeir vita það best, sem vin sinn þrá, hve vorsins er langt að bíða. Að haustnóttum sá ég þig sigla burtu, og svo kom hinn langi vetur. Þótt vald hans sé mikið, veit ég þó, að vorið, það má sín betur. Minningin talar máli hins liðna, og margt hefur hrunið til grunna ... Þeir vita það best, hvað vetur er, sem vorinu heitast unna. Við sendum dætrunum og fjöl- skyldum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Heiðu. Helga, Dóra, Sigríður, Erla og Lilja Hallbjörnsdætur. Hún Heiða, mamma hennar Sig- þóru vinkonu minnar og frænku, er dáin. Ég vissi að það væri ekki langt eftir, en mér brá samt við símtalið frá Sigþóru þegar hún lét mig vita af andláti mömmu sinnar. Við Sigþóra erum aldar upp á sama túnblettinum og heimili hennar var mér alltaf opið. Heiða og Alli frændi tóku uppátækj- um okkar með jafnaðargeði og hafa örugglega nokkrum sinnum þurft á mikilli þolinmæði að halda. Heiða hefur nú sameinast Alla sem lést í desember 2003. Þegar ég tala um Heiðu, finnst mér ég líka vera að tala um Alla, því fyrir mér voru þau sem eitt. Þau hjón eru í mínum huga einstaklingar sem ég lít upp til og er þakklát að hafa fengið að njóta þess að hafa þau í lífi mínu. Sorg og gleði eru systur og þeir sem upplifa gleðina, upplifa söknuðinn sárari, því við vitum hvers er að sakna. En nú er komið að leið- arlokum og ég þakka Heiðu sam- fylgdina. Elsku Sigþóra, Búddi, Guðný, Helga Jóna, Þráinn og fjölskyldur. Ég votta ykkur mína dýpstu samúð, og bið algóðan Guð að gefa ykkur styrk. Ég þakka fyrir allar minning- arnar. Megi þær verða ljós í lífi ykk- ar og milda söknuðinn. Sigrún Ríkharðs. Aðalheiður María Oddsdóttir                          ✝ Ástkær eiginkona mín, móðir, tengdamóðir, systir og amma, SUSIE BACHMANN, Depluhólum 10, Reykjavík, andaðist á hjúkrunarheimilinu Eir sunnudaginn 4. október. Útförin fer fram frá Fossvogskirkju mánudaginn 19. október kl. 13.00. Páll Friðriksson, Stefán Jóhann Pálsson, Kristín Lilliendahl, Regína Gréta Pálsdóttir, Einar Sveinn Hálfdánarson, Páll Heimir Pálsson, Bryndís Skaftadóttir, Gréta Bachmann og barnabörn. ✝ Elskuleg móðir okkar, tengdamóðir, amma og lang- amma, GUÐRÚN SVANLAUG ANDERSEN frá Sandprýði, Vestmannaeyjum, verður jarðsungin frá Landakirkju laugardaginn 10. október kl. 11.00. Börn, tengdabörn, barnabörn og barnabarnabörn. ✝ Ástkær faðir okkar, tengdafaðir og afi, GUNNAR HVAMMDAL SIGURÐSSON veðurfræðingur, er andaðist mánudaginn 5. október, verður jarð- sunginn frá Dómkirkjunni í Reykjavík föstudaginn 9. október kl. 13.00. Guðrún Ingibjörg Gunnarsdóttir, Bill Jenkins, Helga Gunnarsdóttir, Val Bracey, Ásta Kristín Gunnarsdóttir, Oddur Björnsson og barnabörn. ✝ Elskuleg systir okkar, frænka og vinkona, KRISTJANA A. JOHNSEN, lést á hjúkrunarheimilinu Droplaugarstöðum Reykjavík þriðjudaginn 6. október. Útförin verður auglýst síðar. Gerd Inga og Johnny, Anna Lisa og Svein, Unnar, Hrafnhildur og Þorleifur og fjölskyldur. ✝ Faðir okkar, HJALTI GESTSSON frá Hæli, ráðunautur og fyrrv. framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Suðurlands, Reynivöllum 10, Selfossi, lést á hjúkrunarheimilinu Ljósheimum þriðjudaginn 6. október. Margrét Hjaltadóttir, Ólafur Hjaltason, Unnur Hjaltadóttir, Gestur Hjaltason.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.