Húnavaka - 01.05.2011, Page 9
Ávarp ritstjóra
Ágætu lesendur Húnavökuritsins
Að þessu sinni lítur 51. árgangur ritsins dagsins ljós. Stærð þess og innihald er með
hefðbundnum hætti og efnistök svipuð og áður. Sem fyrr nýtur ritið þess að enn er nóg af fólki
sem getur og vill koma hugverkum sínum á framfæri, hvort sem það er í formi frásagna,
kveðskapar, smásagna, minninga eða frétta. Fyrir það vil ég þakka því úr þessu efni er ritið
gert.
Árið 2010 var okkur Húnvetningum nokkuð hagstætt. Tíðarfar var í betra lagi, hey-
skapartíð góð og afkoma í sjávarútvegi með besta móti. Auðvitað er ennþá verið að glíma við
afleiðingar kreppunnar sem því miður sér ekki enn fyrir endann á en atvinnuleysi hér er þó
tiltölulega lítið og mannlíf gott.
Menningarmál og menningarstarf eru þeim sem þetta ritar mjög hugleikin enda bæði
áhugamál og atvinna hans. Án menningar væri mannlífið mun fábreyttara og fátækara. Orðið
menning hefur svipaða merkingu og orðið menntun, þ.e. að verða að manni. Menning veitir
þeim lífsfyllingu sem hana stunda og njóta. Fjölbreytt menning er líka bráðnauðsynleg því
sem betur fer hafa ekki allir sama smekk, einn vill syngja, annar mála, sá þriðji leika, fjórði
dansa o.s.frv. Menningarstarf er mannbætandi, ræktar huga og hönd, gefur af sér til annarra
og auðgar þar með líf okkar mannanna.
Menningarlíf í A-Hún. er á margan hátt blómlegt. Sönglíf er fjölbreytt þar sem kóra-
starfið ber kannski hæst. Auk almennra tónleika og hefðbundins kirkjustarfs hafa sönghópar
og kórar tekist á við stærri verkefni. Má þar nefna dagskrá um Björn á Löngumýri, söng-
dagskrá með lögum úr Jesúsi Kristi ofurstjörnu og bæði gospel- og hátíðartónleika. Hátt í
helmingur nemenda grunnskólanna í sýslunni stundar tónlistarnám og þar eru stjörnur fram-
tíðarinnar á ferð. Bæjarhátíðir á Blönduósi og Skagaströnd standa í blóma sem menningar-
og skemmtihátíðir og eru fjölsóttar. Ekki má heldur gleyma þorrablótum og öðrum almennum
skemmtunum þar sem margs konar menning er á borð borin.
Á síðasta ári voru gefnar út í A-Hún. a.m.k. 9 bækur um hin fjölbreytilegustu efni. Þar
eru Töfrakonurnar í Blöndudalnum fremstar í flokki en þær gáfu út fimm bækur. Viðleitni
þeirra til að skapa sér atvinnu með bókaútgáfu, skartgripagerð og fleiru er til fyrirmyndar.
Síðastliðið sumar voru þrjú söfn á Íslandi tilnefnd til Íslensku safnaverðlaunanna, þar af
tvö af Norðurlandi vestra. Annað þeirra var Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi. Þótt safnið