Húnavaka - 01.05.2011, Page 112
H Ú N A V A K A 110
árinnar þar á milli og út í aðalána og hún rann norður með ásnum. Ásinn náði
nokkuð suður fyrir á móts við bæinn og syðst á honum var hár og mjór hóll
sem kallaður var Strýta. Var mér sagt að þegar sólina bæri yfir Strýtu séð frá
Örlygsstaðaseli, væri kominn miðaftann. Þegar ærnar voru komnar í hólmann
fór ég upp í bæinn til að leika við Ragnheiði litlu. Veðrið var gott, glaðasól og
blíða. Sigurjón bóndi var úti við að lagfæra útidyrnar. Bærinn stóð á háum og
löngum hól og utan til á honum voru gamlar fjárhústóftir en bak við hólinn
var djúpur og stór hvammur við ána og fyrir sunnan hólinn var stór og grösug
laut og eftir henni rann lækur. Fyrir neðan hólinn að vestan var breið mýri sem
lá niður að ásnum og út að syðri kvísl við hólmann.
Um klukkan þrjú um daginn sé ég að þrjár ær fara yfir suðurkvíslina og
niður á ásinn. Hleyp ég nú af stað út Selhólinn til að reka ærnar aftur upp í
hólmann og er kominn miðja vegu niður í mýrina þegar ég sé tvö naut og eina
kú fyrir utan ána á milli Selhólsins og hólmans. Fara nautin strax yfir ána
þegar þau sjá mig, draga hausinn bölvandi en horfa þó alltaf á mig. Ég kemst
nú fyrir ærnar og rek þær aftur í hólmann. En þegar ég stefni upp í bæinn aftur
eru nautin komin það langt niður í mýrina að þau eru komin beint í veg fyrir
mig. Tek ég það ráð að hlaupa suður ásinn í von um að Sigurjón sjái bæði mig
og nautin en Selhóllinn skyggði enn á. Þegar ég hleyp suður ásinn beygja
nautin suður mýrina og varna mér enn að komast upp í bæ. Þau voru stöðugt
bölvandi og héldu hausnum niðri við jörð. Þegar ég hef hlaupið langt suður
ásinn eru nautin komin það langt suður mýrina að ég er viss um að Sigurjón
hefur séð bæði mig og nautin koma undan selhólnum. Nú átti ég úr vöndu að
ráða. Annaðhvort að hlaupa alla leið heim í Hvammkot, sem var klukkutíma
gangur, eða stefna beint á nautin og láta ráðast hvað úr yrði. Ég taldi vonlaust
að ætla að hlaupa undan þeim heim í Hvammkot, svo að ég tók seinni kostinn
í trausti þess að Sigurjón sæi mig og nautin. Ég gerði mér ljóst að þarna var
um lífið að tefla og í Selið yrði ég að komast hvað sem það kostaði, bæði voru
nautin blóðmannýg og auk þess alveg ópyntuð.
Ég tek nú stefnu á bæinn og hleyp eins og ég get. Þegar ég nálgast nautin
beygja þau líka í átt að bænum, aðeins til hliðar við mig, og þegar ég kem að
Selhólnum eru þau þar líka komin, um það bil 2-3 metra frá mér. Þau lenda
þar í moldarbörðum og sá ég þau þá ekki fyrir moldarmekki, svo mikill var
atgangurinn. Á meðan þau rótuðust í börðunum skaust ég upp í Selið.
Sigurjón hafði séð nautin niðri í mýrinni en ekki þar sem þau voru núna, í
moldarbörðunum. Hann spurði hvort ég hefði verið hræddur við nautin en
áður en ég gat svarað sáum við þau skyndilega koma upp hólinn. Ég skaust
inn í göngin og sem betur fer var Ragnheiður litla inni í baðstofukofanum.
María gamla var hins vegar ekki heima, hafði farið í kaupstað þennan morgun
og ætlaði að vera burtu tvær nætur. Sigurjón var rétt fyrir utan með hnaus á
skóflu og hendir honum í nautið sem var framar og skýst um leið inn og lokar
hurðinni. Nú hófst atgangurinn kringum kofann fyrir alvöru. Þarna vorum við
lokuð inni og heyrðum lætin úti sem voru ógurleg. Ég held að ekki sé til
viðurstyggilegri sýn en blóðmannýg naut. Nautin áttu auðvelt með að komast
upp á kofann og sá maður stundum í klaufirnar á þeim niður á milli raftanna