Skólavarðan - 15.01.2001, Blaðsíða 13

Skólavarðan - 15.01.2001, Blaðsíða 13
Skólaþróun 15 þróun að sögn Hildar. „Það má leiða líkur að því að lág laun hafi haldið framleiðni niðri. Það er auðveldara að ráða einn í við- bót þegar launin eru lág en góð laun verka sem hvati á að leita heillavænlegri leiða til framleiðniaukningar. Íslenskt samfélag er hugsanlega komið í fræðilegt hámark í vinnuframlagi. Við getum ekki stuðlað að auknum hagvexti með því að ráða fleiri eða vinna lengur vegna þess að vinnuaflið er ekki fyrir hendi.“ Ekki mannúð til handa einum hópi Umræða um atvinnulífið tekur sífelldum breytingum en hefur undanfarin ár meðal annars verið sett í jafnréttissamhengi og talað hefur verið um að atvinnulífið þurfi að koma til móts við þarfir kvenna. „Svo var farið að tala um að taka þyrfti tillit til foreldra ungra barna og gera störfin fjölskylduvæn en þá spurðu þeir sem tilheyrðu ekki þessum hópum, hvað með okkur? Í verkefninu er lögð áhersla á að gera þörfum allra jafnhátt undir höfði. Sveigjanleg vinnutilhögun verkar í báðar áttir og gagnast bæði fyrirtækinu og starfsmönnunum. Fólk hefur áhuga á sveigjanleika af mismunandi hvötum, það vill geta sinnt fjölskyldunni í meira mæli, enda oft talað um samlokukynslóð- ina sem ber á sama tíma ábyrgð á ungum börnum og öldruðum for- eldrum. Aðrir vilja til dæmis geta sinnt símenntun. Hugmyndafræð- in að baki þessu verkefni er ekki mannúðarstefna fyrir einn tiltek- inn hóp heldur að allir græði. Kennarastéttin er ein elsta stéttin sem skipulagði sig,“ segir Hildur, „enda þættir í kjarasamningaumhverfi hennar mjög gaml- ir. Ofan á þann grunn hefur síðan verið bætt alls konar sérákvæðum. Þeirri skoðun er haldið á lofti að losa þurfi um ýmsa hluti í skólastarfi, auka teymisvinnu, sérverkefni ýmiss konar og stjórnun. Við sjáum þessi viðhorf endurspeglast í nýjum kjarasamn- ingum framhaldsskóla og grunnskóla. Þetta er hins vegar eldfim umræða og mér finnst mjög áhugavert að framhaldsskóli skuli taka þátt í þessu verkefni. Fagleg starfsmanna- stjórnun er ung á Íslandi og fáir til að bjóða ráðgjöf í innleiðingarferli af þessu tæi. Með verkefninu býðst þannig ráðgjöf og mér finnst ekki ólíklegt að Fjölbrautaskólinn við Ármúla eigi eftir að miðla af brautryðjanda- starfi sínu til annarra skóla, þótt auðvitað sé of snemmt að segja til um það,“ segir Hild- ur að lokum. Sótti um í bríaríi Þegar rætt var við Sölva Sveinsson, skóla- meistara Fjölbrautaskólans við Ármúla, var verkfall framhaldsskólakennara enn yfir- standandi og þátttaka í verkefninu Hinu gullna jafnvægi tæpast hafin. Sölvi tók því hins vegar vel að segja frá hvað hann væri að hugsa með þátttökunni. „Mér fannst þetta gráupplagt þegar ég frétti af því og sótti um í bríaríi einn morg- uninn,“ segir Sölvi og brosir. „Verkefnið Hið gullna jafnvægi miðar að því að auka á- nægju í starfi og skapa sveigjanleika í vinnutíma sem á vel heima með fartölvu- væðingunni sem við hér í skólanum höfum ekki farið varhluta af, enda er skólinn einn af þróunarskólunum í upplýsingatækni, eða UT- skólunum svokölluðu.“ Sölvi segir að eftir því sem nemendum með fartölvur fjölgi aukist möguleikar á sveigjanleika í starfi fyrir kennara. „Þegar menn ná tökum á tækninni breytist allt vinnulag. Múrarnir sem kennslustofan er taka að hrynja. Kennarar losna við þá ríg- bindingu sem felst í að eiga að mæta frískir klukkan átta á hverjum morgni og vera í skólanum allan daginn. Þetta snýst um færni og þegar fólk er búið að tileinka sér hana opnast ýmsir möguleikar, til dæmis að kenna annan tímann í faginu í kennslustof- unni og hinn heima með aðstoð tölvunnar.“ Af um 800 nemendum í skólanum eru 130 með fartölvu. „Fartölvuvæðingin byrj- aði í haust en af 136 nýnemum sem hófu þá nám í dagskólanum er 71 með fartölvu,“ segir Sölvi. „Þetta er 1984 árgangurinn og ég reikna með að hjá næsta árgangi verði hlutfallið komið upp í 60-65%, jafnvel meira. Í Heilbrigðisskólanum eru 250-300 nemendur, þetta er starfsnám og nemendur eru fullorðið fólk sem á iðulega erfitt með að mæta fyrst á morgnana og eftir klukkan tvö á daginn vegna barna. Farkennsla myndi því henta þessum hópi mjög vel, auk þess sem það er gjöfult að kenna fullorðn- um á þennan hátt. Þeir setjast við tölvuna til þess að læra en ekki leika sér.“ Sölvi segir krakkana í skólanum einnig mjög duglega að nota tölvuna í náminu og á margvíslegan hátt. „Stelpurnar eru ekki eftirbátar strákanna og duglegri ef eitthvað er. Krakkarnir nota tölvuna sem glósuvél, til þess að vinna verkefni og skila og auk þess er heilmikið námsefni á netinu, til dæmis allt námsefni í tölvufræði, mikið í stærðfræði og allar glærur í íslensku. Tölv- an er einnig notuð mikið til samskipta, kennarar senda verkefni rafrænt og tölvu- póstur er orðinn stór þáttur í starfinu. Loks er tölvan auðvitað notuð sem leiktæki.“ Fellur eins og flís við rass að verkefninu Sölvi hefur kennt frá árinu 1970 en tók við starfi aðstoðarskólameistara í FÁ árið 1987. Hann er búinn að gegna starfi skóla- meistara í fjögur ár og segir unnt að nálgast starfið úr mörgum áttum. „Mér finnst best að vera í lifandi tengslum við jafnt kennara sem nemendur,“ segir hann. „Kennsla og stjórnun eru hvort tveggja mjög skemmti- leg störf en gerólík. Það sem þau eiga sam- eiginlegt er umgengni við ungt fólk og líflega sam- starfsmenn. Síðan ég tók við skólameistarastarfinu hefur margt breyst. Sjálfstæði skóla eykst jafnt og þétt og sífellt fleiri þættir rekstrarins eru á- kveðnir hér innan dyra. Þetta er mjög gott en tryggja þarf að skólinn fái fé til þessara verkefna, á því hefur verið mikill brestur.“ Að sögn Sölva stendur ekki til að þvinga kennara til að nýta sér tæknina í þágu fjarkennslu. „Ég vil hins vegar gjarn- an að vorið 2002 verði sem allra flestir áfangar orðnir blanda af staðbundnu námi og dreifikennslu. Með því að nýta mögu- leika á þessu sviði vinnst margt. Nemend- um, einkum þeim eldri, er gert kleift að nýta tíma sinn betur. Betri nýting fæst á skólahúsnæði, sem veitir ekki af í okkar til- felli, enda er þessi skóli og Kvennaskólinn minnstu framhaldsskólar á landinu í fer- metrum talið á nemanda. Aðgangur að kennsluefni verður greiðari. Kennarar losna að hluta undan ægivaldi stundaskrárinnar sem er harður húsbóndi. Ekki er nokkur vafi á að ánægja í einkalífi og starfi eykst með því að menn verði sjálfráðari um hvar þeir stunda vinnu sína, hvort það er heima í stofu eða í kennslustofunni. Upplýsinga- tæknin fellur því eins og flís við rass að átaksverkefninu sem hentar okkar vinnustað mjög vel. Ég hefði átt von á að fleiri skólar sæktu um þátttöku, enda í anda þess sem er að gerjast í kennarastéttinni varðandi vænt- ingar til starfsins,“ segir Sölvi að lokum.

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.