Feykir


Feykir - 06.12.2012, Blaðsíða 7

Feykir - 06.12.2012, Blaðsíða 7
46/2012 Feykir 7 Tónlistarskóli Skagafjarðar Stofutónleikar í Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi Stofutónleikar voru haldnir í Heimilisiðnaðarsafninu, sunnudaginn 25. nóvember sl., og var það Rut Ingólfsdóttir fiðluleikari sem flutti þar einleiksverk á fiðlu. Að sögn Elínar Sigurðardóttur safnstjóra Heimilisiðnaðarsafnsins var þakklátur áheyrendahópur samankominn á safninu sem naut þess að hlusta á Rut flytja verk eftir Johann Sebastian Bach, Eugene Ysaÿe og fleiri. Samkvæmt Elínu hefur Rut unnið ötullega að því að kynna klassíska tónlist víða um land og haldið fjölda einleikstónleika víðs vegar innan- lands og utan. Á Stofutónleikunum í Heimilisiðnaðarsafninu kynnti Rut hvert verk fyrir sig og höfunda þeirra á milli þess sem hún lék á fiðluna. „Það var einstök upplifun að hlusta á hinn frábæra leik í svona mikilli nálægð við listamanninn en sérstaða Stofutónleika er einmitt sú að þeir eru haldnir gjarnan í heimahúsum eða í rýmum sem ekki eru sérstaklega hönnuð til tónleikahalds. Skapast því gjarnan ólýsanleg stemmning og snerting á milli tónlistarmanns og tónleikagesta, “ sagði Elín í samtali við Feyki. Þess má geta að Rut er heiðursforseti Kammersveitar Reykjavíkur, sem hún stofnaði árið 1974 ásamt tólf öðrum hljóðfæraleikurum sem flestir áttu það sammerkt að vera nýkomnir heim til Íslands að loknu námi erlendis. Þá hefur hún m.a. verið fastráðin við Sinfóníuhljómsveit Íslands og konsertmeistari í Íslensku óperunni. Sömuleiðis leiðari Reykjavíkurkvartettsins og kennari við Tónlistarskólann í Reykjavík. „Rut hefur einnig leikið inn á fjölda geisladiska sem hlotið hafa frábæra dóma. Má þar nefna Íslensk tónlist fyrir einleiksfiðlu, einnig geisladisk hennar og Richards Simm, Fyrstu íslensku sónöturnar og fyrir ári síðan kom út geisladiskurinn Sónötukvöld með Rut og Richard,“ sagði Elín og bætti við að Rut hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir starf sitt að tónlistarmálum á Íslandi. „Það var því mikill heiður að fá Rut hingað til okkar,“ sagði Elín glöð í bragði. Að tónleikunum loknum var gestum Heimilisiðnaðarsafnsins að venju boðið upp á kaffi og bakkelsi og áttu tónleikagestir notalega stund með Rut og eiginmanni hennar, Birni Bjarnasyni. Það var Menningarráð Norðurlands vestra sem styrkti tónleikana. /BÞ Tónlistarskólinn heldur að venju jólatónleika um þessar mundir. Undanfarnar vikur hafa nemendur skólans verið að æfa saman í litlum sem stórum hópum og verður mjög gaman að sjá og heyra afrakstur þess. Við byrjum jólatónleikana á laugardaginn 8. desember í Gunnskólanum að Hólum kl.13 og síðan sama dag verða aðrir tónleikar á Hofsósi í Félagsheimilinu Höfðaborg sem hefjast kl. 14 Á Sauðárkróki verða tónleikarnir í Tónlistarskólanum mánudaginn 10. desember kl. 18 og 20. Í Miðgarði í Varmahlíð verða tónleikar þriðjudaginn 11. desember kl.17 og 20. Og svo endum við tónleikaröðina á tónleikum miðvikudaginn 12. desember í Tónlistarskólanum á Sauðárkróki og hefjast þeir kl.18:00. Þá má nefna aðra viðburði í haust s.s. Landsmót strengjanemenda sem haldið var í Grafavogi 5.-7. október og fóru héðan 17 nemendur sem tóku þátt á mótinu. Lauk mótinu með því að allir strengjanemendur um 350 talsins spiluðu saman lagið Á sprengisandi í Eldborgarsal Hörpu. Tónfundir voru haldnir í byrjun nóvember og komu þar fram um 240 nemendur. Þá voru haldnir fjáröflunartónleikar til styrktar minningarsjóði Jóns Björnssonar frá Hafsteinsstöðum 8. nóvember en sjóðurinn styrkir efnilega nemendur í tónlistarnámi sem eru að ljúka 9. eða 10. bekk grunnskóla. Aðalhvatamaður að þessum sjóði er Eiður Guðvinsson. Hann gaf út geisladisk með lögum Jóns Björnssonar og hefur ágóði af sölu disksins runnið í þennan sjóð. Á fjáröflunartónleikunum komu fram nemendur skólans, auk barna- og unglingakórar Varmahlíðar- og Árskóla og Karlakórsins Heimis en þess má geta að Jón Björnsson stjórnaði Karlakórnum manna lengst til þessa. Safnaðist um 150.000 kr.- á þessum fyrstu fjáröflunartónleikum. Alls stunda 250 nemendur nám í vetur og komast færri að en vilja. Því má búast við biðlistum eftir áramót. Gjaldskráin kemur til með að hækka um áramótin. Sveinn Sigurbjörnsson skólastjóri Tónlistarskóla Skagafjarðar skrifar Ólýsanleg stemning á Stofutónleikum

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.