Helgarpósturinn - 15.11.1984, Blaðsíða 16

Helgarpósturinn - 15.11.1984, Blaðsíða 16
LEIKLIST Tilfinningabúnt í ruddaskráp eftir Hlín Agnarsdóttur og Gunnlaug Ástgeirsson Um síðustu helgi sá ég sýningu Þjóðleik- hússins á leikriti Olafs Hauks Símonarsonar „Milli skinns og hörunds". Leikritið sem nú er í þremur þáttum var fyrst frumsýnt á Listahátíð í vor sem leið, og þá aðeins fyrstu tveir þættir þess. I september var það síðan endurfrumsýnt ásamt lokaþættinum sem hefur hlotið nafnið „Brimlending". Þjóðleik- húsinu tókst aðeins að sýna verkið tvisvar sinnum fyrir verkfall og lágu sýningar á því niðri í 6 vikur, áður en það nú loksins komst á fjalirnar á nýjan leik. Það verður að segjast eins og er að ég skemmti mér ákaflega vel á þessari sýningu, þrátt fyrir bölsýnistóninn og svartsýnina sem einkennir verkið, enda margt ákaflega fyndið, fallega gert og vel leikið. Það er mik- ið talað um kvenna-eitthvað í dag, kvenna- menningu og kvennaleikrit. í þessu tilviki fannst mér einmitt vera á ferðinni karla- eitthvað, eða hreint út sagt eitt stykki dálítið gott karlaleikrit. í fyrsta þætti verksins (Milli skinns og hör- unds) er strax rissuð upp mynd af tilfinninga- lífi og tilfinningadauða karlmanna í hrá- slagalegum íslenskum veruleika. Og í reynd er dregin upp mynd af aðalviðfangsefni verksins að mínu viti, nefnilega sambandi föður og sona. Þessi þáttur bar af hvað varð- ar uppbyggingu og persónusköpun. Textinn er lipur og snarpur og orðaskipti persón- anna hlaðin gálgahúmor og meinhæðni, sem á eftir að fylgja þeim í gegnum allan leikinn. Þó gæti maður í fyrstu haldið að annar „Stundarfriður" væri kominn á fjalirn- ar, þar sem við sjáum nútímafjöiskyldu þeys- ast um óhuggulega sviðsmynd með brostin tjáskipti og á valdi fjölmiðla. En því er öðru nær, eftir því sem líður á þáttinn, verður al- varlegur undirtónn verksins æ ágengari og hlátrasköll áhorfenda því vandræðaiegri. Við kynnumst betur fjölskyldunni sem verk- ið fjaliar um, foreldrum á miðjum aidri, sem aðeins þekkja lögmál stritsins og hringrás nöldurs og nags, svo og sonum þeirra. Þau eru faðirinn Sigurður sjómaður, óheflaður og kjaftfor fýlupoki og Ásta kona hans, ávallt til þjónustu reiðubúin fyrir karlkynið. Synir þeirra eru Haddi, sem hefur fetað í fót- spor föður síns og þrælar — snaggaralegur strákur, sem rífur kjaft við pabba sinn. Og Böðvar sem hefur reynt að ganga mennta- veginn, en kemur heim frá útlöndum með misheppnað nám og hjónaband að baki. Aðreu- persónur sem koma við sögu eru Halla, systir Ástu, einnig til þjónustu reiðubúin eins og flest kvenfólk og svo maður hennar Guð- mundur, sem þjáist af minnimáttarkennd yfir því að geta aldrei keypt rétta tegund af bílum. Þau eru ásamt Ástu og Sigurði dæmi- gerðir fulltrúar foreldrakynslóðar Hadda og Böðvars. Gógó heitir kærasta Hadda, og er barnaleg budda, alveg að verða tilbúin til þess að vera til þjónustu reiðubúin. Og að lokum má telja Jónu, grannkonuna, sem alltaf hefur fylgst náið með uppvexti bræðranna og reynst þeim vel. Annar þáttur verksins (Skakki turninn í Písa) gerist tveimur árum síðar inni á heimili Hadda og Gógóar og segir aðailega frá þró- un Hadda og sambúð hans við konur. Við sjáum þar hvernig Haddi endurtekur föður sinn og er það reyndar mjög vel undirstrikað bæði hvað varðar sviðsetningu og leiktúlk- un. Haddi megnar ekki að brjóta af sér hlekki þeirrar karlímyndar, sem faðir hans hefur haft fyrir honum og er því ekkert ann- að en endurómur af hegðunarmynstri hans og framkomu og sést það ef til vill best í því hvernig hann umgengst Gógó. Þátturinn byrjar eins og sá fyrsti á fullum gálgahúmor. Það eru karlmennirnir sem eru ruddalega fyndnir og slá um sig með nöturlegum at- hugasemdum, oft á kostnað kvenfólksins. En til þess að slá á aðra strengi og sýna okk- ur þá kviku og þann kraft sem ólgar undir- niðri í stráknum Hadda þá leiðir höfundur inn í verkið iistakonuna Gunni, sem verður einhverskonar örlagavaldur í lífi hans. Gunnur flytur í sama hús og Haddi og Gógó og hún leitar á náðir þeirra, þegar hún er að mála íbúðina sína og vantar terpentínu. Áð- ur en við vitum af er komið eitthvað sam- band milli hennar og Hadda. Gunnur hrífst af grófri fyndni Hadda, stenst ekki villidýrið í honum og lætur undan trylltri kynhvöt hans stuttu seinna, þrátt fyrir tilraunir sínar til að mótmæla nærgöngulli atlögu hans. Gunnur þótti mér afskaplega óskýr og illa mótuð persóna. Hún átti ef til vill að vera einhver bjargvættur í lífi Hadda, eða hin nýja kona, en kannski fyrst og fremst nýr heimur, öðruvísi vídd. En einhvernveginn tókst Ólafi Hauki ekki að fylgja þessari konu eftir og hún stendur eftir sem holur predik- andi frasi, ótrúverðug og tilgerðarleg í allri sinni viðleitni til að hafa áhrif. Hún verður aldrei andstæða þess iífs og þá væntanlega þeirra kvenna sem karlmennirnir í þessu drama hafa bundið trúss sitt við. Þegar henni tekst ekki að opna tilfinningar Hadda og að- stoða hann við að nýta þá hæfileika og gáfur sem þrátt fyrir allt leynast undir hrjúfu yfir- borðinu, virðist engin útleið önnur fyrir hann en geðveikin. í þriðja þætti kveður svo við nýjan tón. Hin rökræna framvinda leiksins er skyndi- lega brotin upp og höfundur ruglar áhorf- endur sína með því að ramma þáttinn inn í annan tíma, þ.e. tíminn er leystur upp og það sem gerist, gerist bæði fyrr og síðar og er á mörkum draums og veruleika, lífs og dauða. Það er draumur hins rænulausa manns. Texti verksins breytist einnig bæði að formi og innihaldi, verður allur ljóðrænni og skáldlegri, enda fjallar þátturinn aðailega um bróðurinn Böðvar, sem reyndi að gera uppreisn gegn uppeldinu og fara ótroðnar slóðir. Tengingin milli loka 2. þáttar, sem lýkur á sturlun Hadda, og upphafs 3. þáttar fannst mér skýr og listrænt vel úthugsuð. Brimlendingin hefst á skýrt afmarkaðri senu, þar sem foreldrar bræðranna standa sitt hvorum megin við sjúkrarúm Böðvars (sem gæti líka verið sjúkrarúm Hadda) eftir misheppnaða sjálfsmorðstilraun hans. Jafn- vel þótt innihald þessa þáttar hafi verið ein- um of útskýrandi fannst mér honum síður en svo ofaukið. Hann var þvert á móti bráð- nauðsynlegur. I honum finnst mér aðalvið- fangsefni höfundarins birtast í sinni sterk- ustu mynd. Þar kemur ekki aðeins fram til- finningaleg sjálfhelda Böðvars, heldur er einnig fjallað um þrána eftir ástinni og tak- mörk hennar, þrána eftir tilgangi í tilgangs- leysinu og þá fjötra sem fjölskylduböndin hafa lagt á feðgana. Lokasena þessa þáttar sagði reyndar allt, sem segja þarf um verkið: „Pabbi, elskaðu mig.“ Hvernig tókst svo sjálf sýningin á þessu verki? Hún var bæði sterk og áhrifamikil og Þórhalli Sigurðssyni leikstjóra hefur tekist að skapa eina stóra leikræna heild að mín- um dómi ásamt leikurum sínum og öðrum listamönnum, þrátt fyrir einstaka hnökra. Leikmyndin sjálf er kapítuli út af fyrir sig. Ég verð að segja eins og er, að mér fannst hún helst til fyrirferðarmikil og þrengja sér um of upp á sjálft leikverkið. Hversvegna þurfti að gefa svona augljóslega í skyn klofninginn í fjölskyldunni, einstaklingum, eldfjallaeyj- unni Islandi? Mér fannst eins og hinn mikli halli og bratti sviðsgólfsins torveldaði sum- um leikendanna eðlilegan gang. Hinsvegar var leikmyndin brotin upp á frumlegan og skemmtilegan hátt í 2. og 3. þætti og var þá miklu betur við hæfi textans. Smám saman hrundu nefnilega háir varnarmúrar persón- anna af þeim, uns þær lágu á sjúkrabeði ein- um saman. Það var greinilegt að leikarar voru ekki alveg búnir að ná sér eftir öll áföllin sem þessi sýning hefur orðið fyrir. í fyrsta lagi töl- uðu þeir oft hver ofan í annan, eða hreinlega „Þrátt fyrir bölsýnistóninn og svartsýnina er sýningin skemmtileg, enda margt ákaflega fyndiö, fallega gert og vel leikið," segir Hlln Agnarsdóttir um MILLI SKINNS OG HÖRUNDS eftir Ólaf Hauk Slmonarson sem sýnt er f Þjóðleikhúsinu. mundu ekki textann sinn og í öðru lagi var framsögn oft ótrúlega óskýr og léleg, sér- staklega hjá Sigurði Sigurjónssyni (Haddi). Hann bunaði setningunum út úr sér eins og hríðskotabyssa og lagði áherslur með offorsi. Að öðru leyti náði Sigurður góðum tökum á Hadda, túlkaði vel glettni hans og skapofsa. Gunnar Eyjólfsson náði einnig vel að túlka Sigurð, lokaða föðurinn. Hann sýndi vel hrjúfan ruddaskrápinn á þessum manni, sem er alveg gjörsamlega búinn að gefast upp og á sér engan draum til að nærast á. Það var eiginlega ekki fyrr en alveg í lok 3. þáttar sem örlaði aðeins á kvikunni í honum. £n það skrifast kannski fyrst og fremst á höf- undinn. Þóra Friðriksdóttir var kona hans Ásta, sterk kona, þrátt fyrir eftirgefanlegt yf- irborð og trygglyndi sitt við fýlupokann. Sig- urður Skúlason var Böðvar og fannst mér sláandi hversu vel honum og hinum Sig- urðinum tókst að vera líkir bræður. Það hvarflaði oft að mér að í raun væru Haddi og Böðvar einungis tvær hliðar á sama mannin- um og þá sérstaklega þegar samskipti bræðranna við föðurinn voru annars vegar Margrét Guðmundsdóttir lék Höllu systur Ástu og var á allan hátt miklu aumkunar- verðari en Ásta. Árni Tryggvason var mað- ur hennar Guðmundur og dró upp ansi hreint hnyttna mynd af minnimáttarkennd hans gagnvart Sigurði. Bryndís Pétursdóttir lék Jónu, grannkonuna, sem var tryggða- tröll bræðranna. Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir var Gógó og tókst afar vel að birta okkur ein- feldni hennar og upplýsingaleysi, en jafn- framt þörf hennar fyrir ást og hlýju. Helga Jónsdóttir var ekki öfundsverð í hlutverki Gunnar og tókst ekki að bæta neinu við það enda gaf það ekki tilefni til þess, eins og áður sagði. Annaðhvort er hin nýja kvenímynd ekki til, eða þá að Ólafur Haukur hefur aldrei skil- ið hana, því hann býr til aðra konu í 3. þætti, Guggu, sem við höfum aðeins heyrt minnst á sem kærustu Böðvars. Hún er á vissan hátt brennd sama marki og/Gunnur frá hendi Ólafs. Það er erfitt að átta sig á hverskonar manngerð hún er. Hún er að vísu af öðrum toga, alin upp í öðruvísi umhverfi en bræð- urnir, en hún verður samt engin andstæða við hinar konur verksins, heldur einungis sæt stelpa, sem gaman er að elska og leika sér við, allt þar til hún fer að brjótast út úr kvenhlutverkinu og vilja verða eitthvað sjálf. Edda Heiðrún Backman fór með hlut- verk Guggu. Hún gerði það sem hægt var að gera úr hlutverki hennar og tókst best upp í sakleysislegum og frjáislegum ástarleikjum sínum við Böðvar. Bessi Bjarnason og Sigríður Þorvaldsdóttir fóru með hlutverk foreldra Guggu, og koma aðeins fyrir í lokaþættinum. Þau voru lítið annað en táknmyndir um annarskonar for- eldra, fínna fólk en Sigurð og Ástu. Að lokum vil ég óska öllum aðstandend- um þessarar sýningar til hamingju með ár- angurinn og hvetja fólk og aðallega karl- menn til að sjá þessa sýningu og konur vil ég biðja í guðs bænum að taka ekki nærri sér þá mynd sem þarna er dregin upp af þeim. Eðli Ijóðs og hlutverk skálds Egg-leikhúsib í Nýlistasafninu vib Vatnsstíg: Skjaldbakan kemst þangab líka eftir Árna Ibsen. Leikstjóri: Árni Ibsen. Leikmynd og búningar: Gubrún Erla Geirs- dóttir. Lýsing: Arni Baldvinsson. Leikhljób og tónlist: Lárus H. Grímsson. Leikendur: Vibar Eggertsson og Arnór Ben- ónýsson. I húsnæðishraki frjálsu leiklistarinnar í landinu spretta upp leiksýningar á hinum ólíklegustu stöðum. Nú hefur Egg-leikhúsið hreiðrað um sig í einum sal Nýlistasafnsins og sett þar upp heldur óvenjulega sýningu. Skjaldbakan kemst þangað líka er leikrit sem Árni Ibsen hefur samansett og byggt er á bréfaskriftum vinanna Ezra Pound og William Carlos Williams. Um Ezra Pound er óþarfi að fjölyrða, hans stórbrotna skáld- skap og dapurlegu örlög þekkja menn vel, enda hann fyrir löngu heimsfrægur. Willi- ams er hins vegar ekki eins þekktur, en hann starfaði sem læknir heima í Ameríku í smá- bæ meðan skáidbræður hans af sömu kyn- slóð sigruðu heiminn í útlöndum. Meðan þeir stunduðu sína heimsmennsku dundaði hann seigur við að skapa amerískri ljóðlist eigið tungutak og form og er nú löngu viður- kenndur sem einn helsti frumkvöðull endur- nýjunar amerískrar ljóðlistar á þessari öld, frumkvöðull þess að losa hana úr viðjum enskrar hefðar. Pound og Williams voru einlægir vinir: frá því á skólaárum og stóð svo meðan báðir lifðu. Allan þann tíma skrifuðust þeir á og ræddu þá að sjálfsögðu margt, en þó einkum urn ljóðlistjna, eðli hennar og hlutverk. Á yfirborðinu er því verkið lýsing þessarar miklu vináttu sem mátti þola marga erfið- leika og þeirrar umræðu sem fram fór á milli vinanna. En í þann texta sem lýsir þessu er haganlega undin ákaflega vitsmunaleg um- ræða sem aðallega fjallar um þrennt: 1. um hlutverk og eðli Ijóðsins, 2. um stöðu lista- mannsins í samfélaginu, 3. um stríð og af- leiðingar þess, þá afskræmingu mannanna sem það framkallar. Þessum umræðuefnum er ekki dengt yfir áhorfendur öllum í einu heldur vaxa þau hvað fram úr öðru eftir því sem á leikinn líð- ur og ævi persónanna vindur fram. í flestu tilliti eru þeir andstæður og oftar en ekki andstæðingar. Pound ætlar að höndla heim- inn í sinni ljóðlist en Williams leggur rækt við það sem honum stendur næst, lifir hér og nú og yrkir um það sem hann þekkir af langri nærveru og viðkynningu. Vex og efl- ist í þeim jarðvegi þar sem hann fyrst skaut rótum. Pound frelsast til fasisma og telur hann einan geta skapað réttlæti í heiminum en Williams hafnar öllu valdi og valdbeit- ingu, þó svo hann verði óþyrmiiega fyrir barðinu á því í sínum heimahögum, en veg- samar frelsið til að lifa einföldu og sjálfstæðu lífi. Þannig heldur hin vitsmunalega glíma þeirra vinanna áfram, inntak hennar breytist með tímanum, en þó eru ákveðnir undirtón- ar samir við sig. í einfaldleika þessarar sýningar hefur leik- stjórinn sýnt frumlega útsjónarsemi. Flest samtölin fara fram að öðrum leikaranum fjarverandi en rödd hans ómar gegnum gamaldags útvarpstæki. Þannig verður þessi persóna, Pound, hvorttveggja í senn fjarlæg og nálæg, lifandi en þó um leið svolítið vél- ræn. Viðar Eggertsson leikur Williams og gerir hann það ákaflega vel, skapar eftirminni- lega mannlýsingu, skilar bæði hógværð og mikilleika þessarar fáskiptnu manneskju. Viðar eflist nú við hverja raun og er að verða stólpagóður leikari. Arnór Benónýsson fer með hlutverk Pound og vinnur hann það einnig vel, kemur persónunni ágætlega til skila þó nokkuð þætti mér hann eintóna framan af. Leikmyndin skapar vel brúklegan ramma um sýninguna. Er skemmtilega óvenjulegt hvernig hún er smám saman afhjúpuð fram- an af leiknum. Uppistaða þessa verks er vitsmunaleg orð- ræða um ljóðlistina og stöðu listamannsins í samfélaginu. Flytjendum tekst að gera þessa umræðu lifandi og jafnvel spennandi í átök- um þeirra merkilegu persóna sem bera uppi atburðarás. í sýningunni er vandlega og nostursamlega unnið úr þessu efni. -G.Ást. 16 HELGARPÓSTURINN

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.