Saga - 1964, Blaðsíða 78
Bergsteinn Jónsson:
Fáein orð um upphaf einveldis á Islandi
Sumir finna sögu og sagnaritun það helzt til foráttu,
að sífellt sé verið að breyta mati og dómum á mönnum
og málefnum liðinna tíma. Öðrum finnst þetta sama gera
viðfangsefnið ennþá meira heillandi. En því verður ekki
neitað, að hinar bezt yfirveguðu rannsóknir og fyllsti
heiðarleiki í meðferð heimilda tryggir engum, að honum
auðnist að segja síðasta orðið um neitt það, sem hann
tekur til úrlausnar.
Ekki er umtalsvert, þó að ný gögn, sem koma fram í
dagsljósið, breyti útkomunni verulega; hitt er ef til vill
ískyggilegra, að vandfundnir eru tveir menn, sem eru al-
gerlega sammála um, hvað rétt sé eða rangt í einu og öllu.
Er þó ennþá meiri munur kynslóða en samtíma einstakl-
inga í þessu efni.
Þeir íslendingar, sem mestum tíma og fyrirhöfn vörðu
til þess að kanna stjórnmálasögu sautjándu aldarinnar,
voru þeir hinir sömu, sem stóðu í fremstu línu, þegar öld-
urnar risu hæst í sjálfstæðisbaráttunni við Dani í upphafi
yfirstandandi aldar. Fræðimenn þessara tíma drógu fram
flest gögn, sem okkur eru kunn og sögu þessara atburða
snerta. Voru þau jafnóðum birt almenningi og eiginlega
lögð fram sem málsgögn í deilumálum dagsins. Var hér vel
að verki verið, og hefur ekkert komið í ljós, sem bendi til
þess, að þeir hafi í hita baráttunnar hagað sér öðruvísi
en vönduðum vísindamönnum sæmir, enda voru þetta hinir
sómakærustu menn og þurftu ekki heldur að efast um
réttmæti málstaðar síns. Hitt er svo annað mál, að þeir
hlutu að túlka hvað eina, sem sögu þessa snerti, með hlið-
sjón af áróðurs- eða baráttugildi, og því má vera, að við