Morgunblaðið - 06.03.2003, Blaðsíða 26
LISTIR
26 FIMMTUDAGUR 6. MARS 2003 MORGUNBLAÐIÐ
ÍSLENDINGAR státa sig gjarn-
an af því að vera bókaþjóð og sá
arfur sem felst í Íslendingasögun-
um er óneitanlega órjúfanlegur
hluti menningar okkar og sögu.
Vinsældir Brennu-Njálssögu eru
enda óumdeilanlegar og sýna sig
m.a. í því að ár eftir ár hafa Njálu-
námskeið Endurmenntunar-
stofnunar Háskóla Íslands verið
þéttsetin. Handritin sjálf, sem
Njála og aðrar Íslendingasögur
byggjast á, sem og lagabækur á
borð við Grágás, Jónsbók og kristi-
leg handrit líkt og Stjórn hafa hins
vegar ekki verið þjóðinni jafnað-
gengileg. Geymd í læstum hvelf-
ingum Árnastofnunar eru þau sýni-
leg aðeins fáum fræðimönnum,
enda sýningaraðstaða stofnunarinn-
ar takmörkuð svo ekki sé meira
sagt.
Það er því ánægjulegt til þess að
vita að íslensk handrit skuli koma
við sögu á tveimur sýningum sem
nú standa yfir í borginni. Þjóð-
menningarhúsið hýsir sýninguna
Handritin, sem líkt og heitið gefur
til kynna, byggist á nokkrum merk-
ustu handritum okkar og þætti
þeirra í sögu þjóðarinnar, á meðan
sýningin Lýsir í Listasafni Reykja-
víkur – Hafnarhúsi beinir athygl-
inni að myndlýsingum handrita –
þætti sem lengi vel hefur að mestu
verið vanræktur af íslenskum
fræðimönnum.
Þó sýningarnar tvær taki báðar á
handritaarfinum eru þær þó engu
að síður mjög ólíkar. Önnur ítarleg
og mikið lagt upp úr sögulegu sam-
hengi á meðan að hin er hrárri og
nær eingöngu sjónræn.
Þáttur í sögu þjóðar
Það er textinn, handritin okkar,
sem eru miðpunkturinn í
Þjóðmenningarhúsinu. Sú sýning er
vel úr garði gerð og ljóst að mikil
vinna hefur verið lögð í uppsetningu
hennar. Myndmál er til að mynda
ríkulega notað til að gæða sýn-
inguna lífi og handritin sett í sögu-
legt samhengi sem staðsetur þau
betur fyrir sýningargesti í bæði
tíma og rúmi. Þannig er mikilvægi
íslenskra skálda við hirð Noregs-
konunga rifjað upp, húslestur á ís-
lenskum heimilum og hvernig frá-
sagnir lifðu margar hverjar aðeins í
munnlegum mælum manna í milli –
minnið skipti enda gífurlegu máli í
Evrópu miðalda og myndmálið, sem
gjarnan þjónaði þeim tilgangi að
kalla fram sögur og trúarlotningu
hjá þeim ólæsu, ekki síður. Sög-
urnar sem ljósprent af myndum og
steinristum í Þjóðmenningarhúsinu
geyma hefðu þannig vaknað til lífs í
huga þeirra sem þær sáu, þó að í
dag hafi dæmið snúist við og við
þurfum nú að styðjast við eddu-
kvæðin til að merking myndefnisins
glatist okkur ekki. Mikilvægi hins
ritaða orðs var einfaldlega ekki
jafnstór þáttur í daglegu lífi og nú
og má nefna sem dæmi að ritlist var
ekki enn orðin hluti af þjálfum lög-
spekinga á Alþingi Íslendinga á 12.
öld.
Handritin sjálf eru hins vegar
miðpunktur sýningarinnar og ekki
er laust við að sýningargestir fyllist
lotningu við að stíga inn í hálf-
rökkvuð herbergi þar sem Stjórn,
Konungsbók Eddukvæða og Flat-
eyjarbók, svo nokkur handritanna
séu nefnd, hvíla í rammgerðum ör-
yggisbúrum. Sum eru stór og fag-
urlega skreytt og sýna að ekkert
hefur verið til sparað við gerð
þeirra. Stjórn, sem geymir safn
þýðinga úr gamla testamentinu, er
eitt þessara og telst til fegurstu
miðalda handrita í safni Árna
Magnússonar. Önnur eru látlausari,
minni, jafnvel mjög smágerð líkt og
Margrétarsaga. Sum voru þá gerð
af vanefnum og víða hafa hlutar
textans glatast í tímans rás.
Sú aðferð að tvinna saman sýn-
ingu á handritunum sjálfum, þeim
efniviði og aðferðum sem gerð
þeirra byggir á, sögunni og stækk-
uðum ljósprentum af myndlýsing-
um úr íslenskum, sem erlendum
handritum, er góð aðferð til að
gæða sýninguna lífi. Hún er þá ekki
síður til þess fallin að vekja fólk til
meðvitundar um þá miklu vinnu og
kostnað sem gerð þessara dýrgripa
fól í sér og þær áhugaverðu mynd-
lýsingar sem handritin okkar
geyma. Að gæðum kunna flestar
þeirra að fölna í samanburði við lýs-
ingar sem finna má í handritasafni
á borð við það sem British Museum
á, en ekki hvað síst í ljósi hinnar
stuttu myndlistarsögu okkar, eru
lýsingarnar engu að síður mark-
verður hluti sögu okkur sem á skilið
að vera rannsakaður nánar.
Kynjahvalir og ókindur
Sú vinna sem sýningin Lýsir í
Hafnarhúsinu byggist á er gerð
gagnagrunns um myndlist í íslensk-
um handritum. Tilgangurinn er að
veita myndlistarfólki og fræðimönn-
um aukinn aðgang að þessum lítt
þekkta þætti íslenskrar listasögu og
er vel að lagt hafi verið í slíka
vinnu. Líkt og áður sagði er það
hinn sjónræni hluti handritanna
sem athyglinni er hér beint að og
textinn alfarið látinn hverfa í
skuggann.
Stór hluti myndlýsinganna er
verk Jóns bónda Bjarnasonar
(1791–1861), sjálfmenntaðs manns
sem lét sér fátt óviðkomandi. Líf-
lega skreytt handrit Jóns taka
þannig á öllu frá stéttum manna,
manngerðum og kynþáttum til
dýrategunda, ókinda og kynjahvala
svo eitthvað sé nefnt. Myndir hans
eru ekki hvað síst áhugaverðar út
frá þjóðfræðilegu gildi sínu, en þau
viðhorf sem þar koma fram end-
urspegla í mörgu viðhorf og áhuga-
mál annarra Evrópubúa. Þannig
fellur ríkt ímyndunarafl Jóns við
gerð fjarlægra kynþátta og dýra-
tegunda vel að evrópskum ferða-
sögum fyrri alda er hinar ævintýra-
legustu skepnur og furðumenni
voru talin byggja heilu álfurnar. Sú
stéttarmynd er sýnir gyðinginn, eða
júðann eins og Jón kallar hann,
reyna að snúa á Dauðann með fé-
greiðslum, fellur einnig að evrópsk-
um fordómum þessa tíma. Myndlýs-
ingar Jóns sækja enda vel flestar í
evrópskar fyrirmyndir – keisari,
páfi, hefðarmeyja og litskrúðugt
fiðrildi eru aðeins nokkur dæmi. En
auk þess bera stöður og stellingar
myndefnisins víða með sér að frjótt
ímyndunarafl listamannsins var
ekki eina uppspretta hugmynda
hans og færa fyrir vikið Ísland 19.
aldar nær Evrópu í huga sýning-
argesta.
Það er þó auðvelt að týna sér í
bráðskemmtilegum myndum Jóns
sem sumar eru grófar að gerð, aðr-
ar vandaðar og enn aðrar byggðar á
augljósum fyrirmyndum. Sú leið að
sýna myndirnar allar í margfaldri
stækkun gerir sýningagestum enn
fremur auðvelt um vik með að virða
fyrir sér smæstu smáatriði lýsing-
anna. Myndirnar verða enda enn
aðgengilegri fyrir vikið og ná þær,
ekki hvað síst fyrir magn mynda
Jóns, að veita gestum innsýn inn í
hugarheim bóndans.
Þó að skortur á textaupplýsing-
um komi lítið að sök er myndlýs-
ingar Jóns eru skoðaðar, verður
hann bagalegur í tengslum við önn-
ur verk á sýningunni. Upphafsstafir
úr handriti þurfa einfaldlega nánari
skýringa við og myndlýsing af Mar-
íu guðsmóður sem aðeins er merkt
myndsíða í handriti, slítur verkið
með öllu úr samhengi. Lágmarks-
upplýsingaskylda felst í að veita
handritaheiti og síðunúmer, sem
hér er ekki gert, og efalítið hefðu
ártöl og aðrar grunnupplýsingar
einnig verið kærkomnar fyrir þorra
sýningargesta.
Sams konar skortur á upplýsing-
um er einnig helsti galli Handrit-
anna í Þjóðmenningarhúsinu og er
erfitt að ímynda sér að jafnvönduð
sýning hafi verið sett á laggirnar án
sýningarskrár. Íslendingar kunna
að kalla sig bókaþjóð, en það er
engu að síður full ástæða til að
fræða þá þjóð betur um handritin
sem sú arfleifð hennar byggist á.
Arfur þjóðar
MYNDLIST
Þjóðmenningarhús
Sýningin er opin kl. 11–17 alla daga.
Henni lýkur 2007.
HANDRITIN
Morgunblaðið/Sverrir
Jóni bónda Bjarnasyni var fátt óviðkomandi, en alls konar ókindur eru
meðal myndefna hans á sýningunni Lýsir í Hafnarhúsi.
Listasafn Reykjavíkur –
Hafnarhús
Sýningin er opin alla daga kl. 10–17.
Henni lýkur 9. mars.
LÝSIR – JÓN BÓNDI BJARNASON, MANNA-
KYN OG MEIRI FRÆÐI
Anna Sigríður Einarsdóttir
Morgunblaðið/Sverrir
Mörg merkustu handrita þjóðarinnar eru geymd á sýningunni Handritin í Þjóðmenningarhúsinu.
„LJÚFI risinn í rökkrinu“, svo
vitnað sé í gamla fyrirsögn, höfðar
enn minnst allra meðlima fiðlufjöl-
skyldunnar til tónskálda sem sóló-
hljóðfæri, og verður sjálfsagt seint
úr því bætt, enda ástæðurnar auð-
skildar, ekki sízt hinar akústísku.
Samt hefur einleiksverkum töluvert
fjölgað í seinni tíð, einnig hér á landi
eins og nýjast sást á tónleikum Há-
varðs Tryggvasonar sl. mánudag.
Þar hleraði undirr. reyndar í hléi að
von væri á öðru eins fágæti og
íslenzkum konsert fyrir tvo(!)
kontrabassa og hljómsveit, svo enn
má vera að vænkist hag-
ur strympu.
Akústískur eða
„hljómbær“ vandi
kontrabassans sem ein-
leikshljóðfæris er skyld-
ur vanda sellósins en
meiri. Tónninn er of
veikur og kæfist of auð-
veldlega af öðrum hljóð-
færum. Fyrri tíma tón-
skáld mættu þeim
vanda með því að fyrir-
skrifa upphækkun
strengja um hálf- eða
heiltón til að knýja fram
meiri birtu. Í raun
nauðgun á eðli bassa-
tónsins er ætti að vera óþörf í dag
þar sem einfaldlega má rafmagna
hljóðfærið upp. Svo hefur lengi tíðk-
azt í djassbassaleik, það er regla
frekar en undantekning í gítarkons-
ertum, og vafalítið verður eins gert
við óperusöngraddir framtíðar, enda
hefði bel canto-söng-
tæknin aldrei komið til
hefðu hljóðnemar,
magnarar og hátalarar
verið fyrir hendi í óp-
eruhúsum þegar á 18.
öld.
Því er svo miklu
púðri eytt í þetta mál,
að reynslan hefur sýnt
hvað kontrabassinn er
viðkvæmur í kammer-
samleik – sérstaklega
á móti píanói. Jafnvel
mjúkhentur undirleik-
ur Steinunnar Birnu
Ragnarsdóttur fyrir
fullloknu komst ekki
alltaf hjá því að taka of stóra sneið,
og eiginlega fátt við því að segja í
rómantísku verki eins og 2. sónötu
Adolfs Miseks, trúlega með því viða-
mesta sem frumsamið hefur verið
fyrir kontrabassa og slaghörpu í dúr
og moll. Nokkru betur tókst til um
jafnvægið í undangengnu litlu „Sin-
fóníunni“ undir fjórþættu kirkjusón-
ötuformi sem eignuð var Pergolesi
(1710–36) og upphaflega fyrir selló
og fylgibassa (continuo); mun ein-
faldari smíð þar sem kontrabassinn
söng afar fallega í III. þætti með
skýrt mótaðri ekkódýnamík beggja
spilenda.
Eftir hlé frumflutti Hávarður verk
fyrir kontrabassa og rafhljóð eftir
Úlfar Inga Haraldsson er nefndist
„Secret Psalms“. Um var að ræða
131⁄2 mín. langt stykki sem bar svip-
mót kyrrlátrar andlegrar íhugunar
einstaklings á svífandi bakgrunn-
steppi dimmradda hindurvitna og
kosmískra klingihljóða með ógnvæn-
legum undirtóni í ljósi aðsteðjandi
heimsviðburða. Andrúmsrík helgi-
stund án orða, og sem flest annað
þetta kvöld leikið af öruggri natni.
Hinn feneyski Domenico Dragon-
etti (1763–1846) var Locatelli kontra-
bassans og jukust mjög kröfur til sin-
fóníuspilara um hans dag. Ein sagan
segir að Beethoven hafi kallað hann
til Vínar til að afsanna að bassarödd
Eroicu væri óspilandi. Andante hans
og Rondo fyrir kb. og píanó „sat“
ákaflega vel í flutningi þeirra félaga
þó að hægrihandarlína píanósins í
rondóinu væri fullsterk, og hinn litli
tregasöngur Rossinis, „Une larme
pour basse“, sömuleiðis. Hið nýlega
meistarahljóðfæri Hávarðs (1993)
kvað við þýtt og fagurlega, enda þótt
ekkert bæri á hljómmiklum „bjórt-
unnu“-ómi þeim sem einkennir mörg
forn hljóðfæri – hvort sem það nú er
kostur frekar en galli. Loks voru
fjögur tilbrigði eftir Paganini um stef
úr óperunni Móses efir Rossini
(frums. f. fiðlu og píanó), yndislegt
lítið verk og á köflum gáskafullt, þar
sem lágtíðnivirtúósinn flíkaði listavel
m.a. ljósvakatærum gerviflaututón-
um, einu bezt varðveitta leyndarmáli
kontrabassans. Var öllu dável tekið
og voru hlustendur leystir út með
aukalögunum Svaninum og Fílnum
úr Kjötkveðjuhátíð dýranna eftir
Saint-Saëns.
Leyndarmál kontrabassans
Úlfar Ingi Haraldsson
TÓNLIST
Salurinn
Verk eftir Pergolesi, Misek, Rossini,
Dragonetti, Paganini. Secret Psalms
(frumfl.) eftir Úlfar Inga Haraldsson. Há-
varður Tryggvason kontrabassi, Steinunn
Birna Ragnarsdóttir píanó. Mánudaginn
3. marz kl. 20.
TÓNLEIKAR
Ríkarður Ö. Pálsson