Lesbók Morgunblaðsins - 31.08.2002, Blaðsíða 13

Lesbók Morgunblaðsins - 31.08.2002, Blaðsíða 13
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 31. ÁGÚST 2002 13 Úti er ekki inni – inni er ekki úti er yf-irskrift sýningar sem opnuð verður ímiðrými Listasafns Reykjavíkur – Kjar-valsstaða kl. 16 í dag. Þar er að finna ljósmyndir, teikningar og líkön af byggingum arki- tektanna Arno Lederer, Jórunnar Ragnarsdóttur og Marks Oei, sem rekið hafa teiknistofu í Stutt- gart um árabil. Jórunn er komin hingað til lands til að fylgja sýningunni úr hlaði en hún hefur m.a. verið sett upp í Galerie Aedes í Berlín og Archi- tekturgalerie í München. Jórunn gekk til liðs við Arno Lederer um rekst- ur teiknistofu árið 1985, en stofunni var komið á fót árið 1979. Árið 1992 bættist Marc Oei í hópinn og starfar nú fjöldi ungra arkitekta á stofunni undir umsjón þremenninganna. Á þessum árum hefur stofan mótað sér ákveðinn stíl, hvað varðar efnivið, vinnuaðferðir og almenn viðhorf til byggingarlist- ar. Þessi viðhorf endurspeglast í titli sýningarinn- ar, „Úti er ekki inni – inni er ekki úti“. „Þungamiðja arkitektúrs er það verkefni að fást við rými,“ segir Jórunn þegar hún er beðin að út- skýra titil sýningarinnar. „Þar er mikilvægt að okkar mati að gera greinarmun á innra og ytra rými. Byggingarlist 20. aldar hefur gjarnan þurrk- að þessi skil út, en við höfnum gegnsæjum arki- tektúr sem berskjaldar innra rýmið og gerir manneskjuna varnarlausa. Hvaða tilgangi þjónar það að finnast maður vera úti við þegar maður er í raun inni? Við viljum skapa hlýlegt andrúmsloft í byggingum sem veitir manneskjunni öryggi og ákveðin gæði sem hæfa kröfum þeirrar starfsemi sem fram fer í byggingunni. Í byggingarlistasög- unni er að finna fjölmörg dæmi um aðgreiningu innra og ytra rýmis þar sem bygging hefur ákveð- ið ytra útlit, sem gefur ekki endilega upplýsingar um það rými sem er að finna inni við. Kirkjur eru gott dæmi um þetta, þær hafa oft litla glugga en ríkulega birtu og skapa manneskjunni umhverfi sem er heimur út af fyrir sig, og hrífur hugann. Okkur finnst mikilvægt að skapa innra rými sem veitir skjól og nálægð, því það verður alltaf að hafa það í huga að fyrst og fremst er verið að byggja fyrir manneskjuna. Hún er það viðmið sem við göngum út frá og hana verður að líta á sem skynj- andi veru. Hún heyrir, sér, þarf súrefni, finnur lykt og snertir og til þessara þarfa eiga byggingarnar að höfða. Við höfnum t.d. nýrri tækni í tölvu- og miðstýrðri loftræstingu sem gerir það að verkum að hvergi er hægt að opna glugga. Við teljum það fela í sér gæði fyrir manneskjuna að geta opnað glugga þegar henni sýnist svo, heyrt muninn á hljóðum vikudagsins og fundið lyktina af loftinu.“ Birta og efni Grundvöllinn að verkum þeirra Arno Lederer, Jórunnar Ragnarsdóttur og Marc Oei er m.a. að finna í óvenjulegri framsetningu hversdagslegra byggingarefna og forma og markvissri notkun náttúrulegrar birtu. Byggingarlist þeirra er þung og samanstendur af gegnheilum múrsteinsveggj- um, sívalningum, kröftugum súlum, keilulaga loft- ræstingarrörum og öllum þeim formum sem brjóta upp lögmál flatarmálsfræðinnar. „Mikil- vægur þáttur við sköpun innra rýmis er hugvits- samleg beiting ljóss og leggjum við mikla áherslu á það í okkar hönnun. Það að nýta dagsbirtuna til að auðga samspil forms og flata er forsenda fyrir því að hægt sé að búa til byggingar sem eru lokaðar utan frá séð en léttar og bjartar að innan,“ segir Jórunn. „Efnisnotkun er annað grunnatriði sem við höfum lagt áherslu á að þróa. Við notum gjarn- an hefðbundin efni á borð við stein, steinsteypu, múrstein og timbur, en alltaf á mjög meðvitaðan hátt. Þessi efni kjósum við í veggi umfram t.d. gler og stál vegna þess að þau varðveita vel hita og kulda og eru hagkvæmari. Meðhöndlun múr- steinsins er jafnframt orðin að nokkurs konar kennileiti hjá okkur, því steinninn gefur nýjum byggingum þyngd og sögu, tilfinningu fyrir því að hún hafi lengi verið á sínum stað og eigi heima þar. Það er nefnilega mikilvægt að nýbyggingar geti staðist tímans og ekki síst tískunnar tönn. Það get- ur verið varasamt að eltast um of við þau nýju efni sem sífellt er verið að þróa, því mörg þessara byggingarefna og einnig stílar bera svo greinilega með sér merki um ákveðið tímabil, tímabil sem örugglega verður farið úr tísku eftir nokkur ár,“ segir Jórunn. Ytra og innra rými Umræddir þættir birtast glöggt í byggingunum fjórum sem settar eru fram á myndrænan hátt á sýningunni á Kjarvalsstöðum. Endurbætur og við- bygging sem stofan annaðist á skrifstofum orku- stofnunar þýska ríkisins í Stuttgart árétta t.d. þann orkusparnað og þá umhverfisvit- und sem felst í þykkum veggjum og litlum gluggum og dyrum. Gluggar eru aðeins hafðir þar sem dagsbirtu er þörf og eru þá oftast opnanlegir. Skóli í Ost- fildern sem stofan hannaði hefur hlotið miklar viðurkenningar og var m.a. til- nefndur til Mies Van Rohe-verð- launanna. Við hönnun hans segir Jórunn að tekið hafi verið tillit til þess að um er að ræða skóla fyrir nemendur þar sem félagsleg vandamál eru tíðari en ella. „Við bjuggum til hlýjan og sérstakan skóla, þó úr hagkvæmum efnum, sem bjóða upp á mikil gæði hvað útsýni, mis- munandi birtu og annað varðar. Hug- myndin virðist hafa virkað því nemend- urnir hafa gert þennan skóla að sínum og umgangast hann af virðingu. Á þeim ár- um sem liðin eru frá því að hann var tek- inn í notkun hafa til dæmis engar skemmdir verið unnar á húsnæðinu, ekki einu sinni veggjakrot. Sú staðreynd að krakkarnir hafa samþykkt bygginguna er mér mun mikilvægari og meiri við- urkenning en það að verða tilnefnd til verðlauna.“ Ytra umhverfi bygginga er þáttur sem Jórunn segir vera mótandi í útfærslu hverrar byggingar og telur hún samspil skólahússins og íþróttasalarins sem um- lykja skólalóðina hafa ráðið úrslitum um að tillaga þeirra vann í samkepnni um hönnun skólans. Framsetning bygginna á sýningunni markast ekki síst af því að sýna hvernig þær eru skilgreindar út frá innra og ytra rými. Gestahús Kaþólsku kirkjunnar í Hohenheim, sem stofa Jórunnar hann- aði, er dæmi um þá afstöðu sem tekin er til ytra rýmis ekki síður en hins innra. „Af svæðinu sem byggingunni var ætlað er útsýni yfir fallegan lysti- garð. Þegar við hófumst handa við gerð þessarar byggingar mátum við þarfir hennar sem svo að þar myndi kirkjan hýsa gesti sína, og mikilvægt væri að sum herbergi væru ekki betri en önnur. Við vildum bjóða gestunum upp á jöfn gæði hvað út- sýni yfir garðinn varðar og komum á endanum nið- ur á þá lausn að hanna aflanga bogabyggingu, sem veitti öllum herbergjunum sinn skerf af útsýninu. En um leið eru herbergin einföld og látlaus sem kallast á við hugmyndir kirkjunnar og hreinlega það fjármagn sem hún hafði til rástöfunar við þetta verkefni. Meginþunginn í hönuninni fólst í útfærslu kapellunnar, hjarta byggingarinnar, sem var viðarklædd í hólf og gólf líkt og skartgripa- skrín. Í þessari byggingu líkt og hinum var um- hverfið nokkurs konar grunnforsenda sem við unnum út frá, og mátum í samræmi við þarfir not- enda byggingarinnar það fjármagn sem fram- kvæmdaaðilar höfðu til ráðstöfunar. Þessa þætti höfum við ávallt að leiðarljósi í hönnun okkar,“ segir Jórunn að lokum. BYGGT ÚT FRÁ MANNESKJUNNI Morgunblaðið/Jim Smart „Það er mikilvægt að gera greinarmun á innra og ytra rými,“ segir Jórunn Ragnarsdóttir arkitekt. Ljósmynd/Roland Halbe og Ralph Richter Skólabygging í Ostfildern, hönnuð með það í huga að veita nemendum hlýju og umhverfisgæði. heida@mbl.is „Það er mikilvægt að gera greinarmun á innra og ytra rými,“ segir Jórunn Ragn- arsdóttir arkitekt en sýning á verkum hennar og sam- starfsmanna verður opnuð á Kjarvalsstöðum í dag. HEIÐA JÓHANNSDÓTTIR kynnti sér sýninguna. THE Globe-útileikhúsið í Lund- únum, sem hefur frá því það var opnað 1997 leitast við að bjóða áhorfendum upp á verk Shake- speares eins og samtímamenn hans hefðu upp- lifað þau, stend- ur nú fyrir sýn- ingum á verkinu Þrett- ándakvöldi. Að venju eru bún- ingar, tónlist og leikmunir í anda stjórn- arára Elísabet- ar fyrstu. Að þessu sinni hafa stjórnendur leikhússins þó geng- ið enn lengra en áður og eru öll hlutverk leikin af karlmönnum líkt og hefð var fyrir á tímum Shakespeares. Að sögn leiklist- argagnrýnanda New York Times fer því þó fjarri að Þrett- ándakvöld minni á þreytt minja- safn fyrir vikið, heldur telur hann verkið sjaldan hafa virkað ferskara. „Það virðist almennt talið í dag að ef selja eigi Shakespeare þurfi að krydda verkin með nýj- ungum, svo sem með því að láta Trójus og Kressídu gerast í Víet- namstríðinu,“ segir gagnrýn- andinn og segir slíkar uppsetn- ingar stundum varpa nýju ljósi á verkin. Oftar enn ekki ýi þær hins vegar frekar að því að hinn gamli, þreytti Shakespeare þurfi algjöra andlitslyftingu til að virka aðlaðandi. „Hér er hins vegar þessi uppsetning Globe- leikhússins og hún glansar eins og nýuppgert meistaraverk. Hinar sérstöku og flóknu dyggð- ir Þrettándakvölds fá, undir styrkri en afslappaðri stjórn Tims Carrolls, að birtast áhorf- endum án þess að hafa verið hlaðnar glansáferð eða aukaút- skýringum.“ Barcelonabúar hylla Gaudí ÁRIÐ 2002 hefur verið ár Gaudí í Barcelona og er rúmlega 30 sýningum, hátíðum og tónleikum tileinkuðum arkitektinum dreift yfir árið, auk þess sem nokkrar af byggingum Gaudís, er til þessa hafa ekki verið opnar al- menningi, hafa nú ver- ið gerðar að- gengilegar. Langt er síðan kata- lónski arkitektinn Antoni Gaudí öðlaðist heimsfrægð, en meðal hans þekktari verka er Sagrada Familia-kirkjan í Barcelona. Aldrei hefur verið lokið við gerð kirkjunnar og hafa arktitekar og fræðimenn lengi deilt um hvort slíkt skuli gert, en Gaudí lést frá verkinu árið 1926. Bygg- ingar Gaudís höfða hins vegar sterkt til almennings vegna fant- asíukenndrar línulögunar og öfgakenndrar lita- og efnisnotk- unar og hafa yfirvöld í Barce- lona verið dugleg að nota sér- stöðu arkitektsins sem kennileiti borgarinnar. Meðal þeirra bygginga sem nú hafa verið opnaðar almenningi er Casa Battlo, en húsið teiknaði Gaudí seint á ævinni, og þá hefur lítt þekkt kapella við kirkjuna í Colonia Guell norðvestur af Barcelona, er aldrei var lokið við, einnig verið opnuð. Það var einmitt við byggingu þeirrar kirkju sem Gaudí þróaði tæknina sem síðar var notuð við Sagrada Familia. Að hætti Shakespeares Er lent Karlmenn fara einnig með hlut- verk kvenna í Þrettándakvöldi. Sagrada Familia.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.