Lesbók Morgunblaðsins - 20.09.2003, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 20.09.2003, Blaðsíða 16
16 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 20. SEPTEMBER 2003 LISTASAFN Reykjavíkur hefur haustdag- skrá sína með opnun þriggja sýninga í Hafn- arhúsinu í dag kl. 16. Í tilefni af því að tíu ár eru liðin frá stofnun byggingarlistardeildar við Listasafn Reykjavíkur verður opnuð sýning á húsateikningum og líkönum íslenskra arki- tekta á síðustu öld. Í safni deildarinnar eru varðveitt söfn teikninga eftir ýmsa af merkustu frumherjum íslenskar byggingarlistar, og er sýningunni ætlað að veita innsýn í það efni sem safnast hefur á tíu árum. Meðal þess sem þar má sjá eru húsalíkön frá ólíkum tímabilum, skólaverkefni kunnra íslenskra arkitekta og frumrit húsateikninga úr sérsöfnum í vörslu deildarinnar. Pétur H. Ármannsson, sýningarstjóri og deildarstjóri byggingarlistardeildar, segir að þegar deildin var stofnuð fyrir tíu árum, hafi það ekki verið eitt af markmiðum hennar að safna efni, en að deildinni hafi smám saman far- ið að berast gjafir. „Árið 1995 vorum við með stóra yfirlitssýningu um Einar Sveinsson, arki- tekt og húsameistara Reykjavíkur, og í tengslum við sýninguna var okkur falið að varð- veita teikningar hans og fleiri gögn, og það var upphafið að safninu. Síðan hafa fleiri komið til okkar – aðstandendur látinna arkitekta og falið okkur að varðveita þeirra gögn. Sýningin nú er bæði til þess að minnast tíu ára afmælis deild- arinnar og gera hana sýnilegri, en einnig til að sýna þann vísi að safni sem hefur orðið til. Við vonum auðvitað að sýningin glæði áhuga á safn- inu og verði til þess að efla það.“ Pétur segir sýningu sem þessa ólíka listsýn- ingu að því leyti að hér sé um að ræða heimildir og vitnisburð um ákveðið sköpunarferli, meðan listræna afurðin – mannvirkin sjálf, lifi sínu lífi úti um borg og bý. „Líkön og teikningar hafa þó alla tíð gegnt mikilvægu hlutverki í að auka skilning okkar á tilurð bygginga, sýna hvernig stílþróun á sér stað, sýna hvernig hugmyndir mótast – og það sama á við hér á Íslandi. Skólaverkefni og merk líkön Á þessari sýningu getum við til dæmis leitað svara við þeirri spurningu þinni um það hvort íslenskir arkitektar á síðustu öld hafi fylgt al- þjóðlegum straumum í byggingarlist, eða hvort þeir hafi skapað eitthvað nýtt sem gæti kallast íslenskur stíll. Við sýnum hér skólaverkefni nokkurra þekktra arkitekta frá miðbiki 20. ald- ar. Hér var ekki kenndur neinn arkitektúr, og þeir sem vildu læra fagið þurftu að fara utan. Stríðið hafði mikil áhrif á nám margra þessara manna. Sumir urðu innlyksa úti meðan á stríð- inu stóð, en aðrir komu heim, og þurftu jafnvel að bíða hér þar til því lauk til að geta haldið námi sínu áfram.“ Líkön frá ýmsum tímum eru á sýningunni, þar á meðal elsta líkan íslensks arkitekts að eigin verki, líkan Sigurðar Guðmundssonar að Barnaskóla Austurbæjar, gert í gifs árið 1926. „Sigurður var í námi, þegar honum bauðst að teikna þessa stóru byggingu. Hann ákvað að koma heim og teikna bygginguna og fylgja henni eftir í stað þess að ljúka sínu námi, þann- ig að segja má að Austurbæjarskólinn sé hans lokaverkefni, sem hann lagði mikið í.“ Finnskt líkan að þekktu húsi Högnu Sigurð- ardóttur í Garðabænum vekur sérstaka athygli fyrir einstakt handbragð, og segir Pétur líkanið hafa verið smíðað sérstaklega sem sýningar- grip, löngu eftir að húsið sjálft var byggt. Lík- anið er gjöf frá Arkitektasafninu í Finnlandi. Líkön Einars Þorsteins Ásgeirssonar vekja líka forvitni fyrir frumlega hugsun, ekki síst líkanið að íbúðum fyrir prestskanditata utan um skip Hallgrímskirkju. Byggingarlistar- deildin á nú um 25 teikningasöfn íslenskra arki- tekta, og segir Pétur teikningarnar stóran hluta ævistarfs hvers þeirra um sig. „Við höfum valið að sýna eina teikningu úr hverju safni, og höfum með teikningunum upplýsingar um arki- tektinn, æviágrip og störf, og nefnum nokkur hús sem viðkomandi hefur teiknað, þannig að fólk geti tengt hann byggingum í umhverfi okk- ar.“ Meðal þessara arkitekta eru Einar Sveins- son, Þórir Baldvinsson, Þorleifur Eyjólfsson, Gunnlaugur Halldórsson, Þór Sandholt, Hann- es Kr. Davíðsson, Gísli Halldórsson og Guð- mundur Kr. Kristinsson. Á götuvegg salarins eru þrjár örsýningar. Ein þeirra lýsir hugmyndavinnu arkitekst og sýnir hvernig hugmyndin að Stykkishólms- kirkju fæddist á teikniborði Jóns Haraldsson- ar, sem leirlíkan og skissur, og við sjáum hvernig hugmyndin breyttist og þróaðist í huga hans. Önnur örsýning segir byggingasögu eins af húsum Sigvalda Thordarsonar í nótum, reikningum, leyfisbréfum og fleiri gögnum, auk líkans af húsinu. Þriðja örsýningin gefur inn- sýn í dagbók Guðjóns Samúelssonar og lýsir degi í lífi hans. Í tengslum við sýninguna verða fyrirlestrar í safninu. Sjálfur verður Pétur með sýningar- stjóraspjall 28. sept., og 19. október kl. 15 og miðvikudaginn 1. október kl. 20 fjallar Albína Thordarson um ævi og störf Sigvalda Thordar- son. Á vit bátafólks og finngálkna Það er bjart yfir sýningunni Yfir bjartsýnis- brúna sem Listasafnið hefur unnið í samvinnu við Níels Hafstein og Safnasafnið á Svalbarðs- strönd við Eyjafjörð. Þar leiða saman hesta sína tuttugu og tveir listamenn sem ýmist fást við alþýðulist eða samtímalist. Markmið sýn- ingarinnar er að kynna verk lærðra og leikra listamanna hlið við hlið sem listafólks, sem hef- ur sitthvað jákvætt og persónulegt fram að færa og að brúa það bil sem oft er haldið fram að sé á milli lærðrar og sjálfsprottinnar listar. Mannfólkið er áberandi í mörgum verkanna, sjómenn sem sigla pappírsbátum hlöðnum ýmsum varningi, bændur og búalið, prúðbúnir kirkjugestir og háleitir prestar – og hundar; en þarna eru líka fuglar og fóstur furðuveranna í hanaeggjunum, sem Ólöf Nordal hefur skapað: „Þegar hanar eru orðnir gamlir eignast þeir eitt óhrjálegt egg, – eins konar örverpi. Úr hanaeggjunum koma skoffín, finngálkn, mar- bendlar, skuggabaldrar kannski einn og einn naddi og fleiri óvættir. Það sem heillar mig við þessar verur er það að þau eru samsett úr tveimur ólíkum dýrum, tveimur ólíkum menn- ingarheimum, eða öðrum tveimur þáttum. Þetta eru bastarðar,“ segir Ólöf, og best að fara varlega, því eftir því sem þessi skapari hana- eggjanna segir, getur það sem úr þeim kemur drepið mann með augnaráðinu einu saman. Sýnir úr kaffibollum „Alþýðulistin byrjar oft sem handverk,“ seg- ir Níels Hafstein. „En svo þróast þetta gjarnan þegar fólk fer að leggja meiri rækt við formið og fær gagnrýni á verk sín. Hér eru verk sem myndu kannski flokkast sem föndur, en hafa þó listrænt yfirbragð, og síðan önnur sem segja meira, eins og söfnuðurinn hér í kirkjunni, þar sem stúlka á fremsta bekk gæti verið að gjóa augunum til piltanna á aftasta bekk. Hér eru verk eftir Hrefnu Sigurðardóttur sem fer inn í hugarheim sinn, og veit lítið af því þegar hún málar. Guðrún Vera Hjartardóttir á Þúfulinga og Bjargvætti. Valdimar Bjarnfreðsson málar sýnir upp úr kaffibollum, krossar yfir bollann þegar hann er búinn að drekka úr honum, snýr honum í hringi og biður svo Jesú Krist og guð að hjálpa sér að ná fram myndinni. Helgi Þorgils Friðjónsson sýnir málverk af íslenskum hundum og einn af þeim er líkur hundinum mínum, honum Bangsa. Eins og þú sérð blanda ég saman alþýðulist og samtímalist þar sem unnið er út frá alþýðlegum viðhorfum eða þar sem efniviðurinn er sóttur í sveitalíf og sammannlega þætti.“ Verk Halldórs Ásgríms- sonar sýnir öll táknmál og stafróf mannsins andspænis táknmáli jarðarinnar. „Fallegt en hættulegt,“ eru orð Níelsar um verk Ólafs Lárussonar, eins konar gaddavírs- rósir, festar upp á vegg. „Myndir eftir Maríu Jónsdóttur á Hvolsvelli eru klipptar út úr blöð- um og lokum af skyrdósum. Meðan verk Ólafs er ertandi og út á við leita verk Maríu inn á við, og er hver mynd í ramma öryggis, friðar og sáttar.“ Á morgun kl. 14 verður Níels Hafstein með sýningarstjóraspjall, en sunnudaginn 12. októ- ber kl. 13.30, verður efnt til myndþings, þar sem fléttað er saman myndasýningum, erind- um, gjörningum og stuttum frásögnum lista- manna sem verk eiga á sýningunni. Ferð að mörkum vitundar og svefns, langana og minninga Í innsetningunni Vögguvísum er tekið á tengslunum milli langana og minninga og þess hvað gerist á mörkum vitundar og svefns, en höfundar verksins eru Bryndís Snæbjörnsdótt- ir og Mark Wilson. Innsetningin er unnin með blandaðri tækni og saman stendur af ljósmynd- um, myndböndum og þrívíðum formum. „Sam- an eiga þessir þættir að vekja tilfinningu fyrir svolitlu ferðalagi,“ segir Mark Wilson, sem bætir því við að efniviðinn í sjálft verkið sæki þau Bryndís að nokkru leyti í eigin ferðalög um heiminn. „Þegar farið er um ókunn svæði þá tökumst við á hendur jafnt raunverulega sem andlega ferð. Til að rata í þessari ferð notum við kennileiti sem við höfum safnað saman úr fyrri reynslu af okkar eigin menningu og upp- lifunum á náttúrulegu umhverfi.“ Grasbali, hengirúm og dýr eru meðal þess sem við sjáum, auk myndbands, þar sem við leggjumst í leit að smádýrum. Við fylgjumst líka með eins konar samtali eða dagbók úr nátt- úrunni og hljóðheimur verksins styður enn frekar tengsl manns við náttúru. Bryndís segir að með því að tengja saman raunverulega nátt- úruleg fyrirbæri og manngerða list eins og myndband og ljósmyndir vilji þau fanga augna- blikið sem stendur á milli þess sem er raun- verulegt og þess sem er það ekki, raunveruleik- ans og ímyndunaraflsins. „Við viljum að áhorfandinn finni sig í verkinu; þekki þar ákveðin kennileiti sem tengjast hans eigin upp- lifunum og reynslu.“ Hvaða merkingu hafa dýrin? Refur, hrafn og rotta eru allt dýr sem eru ná- tengd alls konar symbólisma og um þau hafa verið spunnar sögur frá örófi alda. „Við erum þó ekki endilega að leggja áherslu á táknræn hlutverk þessara dýra, sem þó eru stór. Þetta eru bæði dýr sem eru kunnug og ókunnug í þessu umhverfi, en um leið gætu þau birst þar eins og einhvers konar truflun eða valdið ókyrrð. „Hvaða merkingu hafa þessi dýr fyrir okkur?“ spyr Bryndís, og Mark bætir því við að dýrin geti í hugum okkar táknað svo margt, ótta, von, hamingju, þægindi og allt mögulegt. Bryndís segir nafngift sýningarinnar tengjast hugmynd þeirra um ástandið milli svefns og vöku, þess raunverulega og óraunverulega. Á myndbandi í fordyri sýningarinnar er gömul 45 snúninga hljómplata spiluð með reglulegu millibili. Af plötunni heyrist væminn og við- kvæmnislegur söngur sem líka fjallar um þessi mörk. Staðsetning þessa verks í fordyri inn- setningarinnar segir okkur að kímnin sé ekki langt undan og minnir á mátt hennar jafnt í lífi sem list. „Söngurinn er um mann sem sem er að koma heim úr stríði,“ segir Mark. „Maðurinn þarf að komast erfiða leið úr strætó og heim til sín, í svartaþoku og myrkri, og þarf að fara yfir stíflugarð. Gamli hundurinn hans tekur á móti honum á stoppistöðinni, fylgir honum og passar að hann detti ekki út af stíflunni. Þegar heim er komið segir hann móður sinni frá fylgd hunds- ins sem hafi bjargað honum, en hún segir hon- um þá frá því að hundurinn hafi drepist fyrir þremur árum.“ Bryndís Snæbjörnsdóttir hefur búið og starfað í Skotlandi um árabil, en hefur á sama tíma leitað mikið til norðurslóða varðandi inntak verka sinna. Síðustu ár hefur hún unnið að listsköpun sinni með eiginmanni sínum Mark Wilson en saman hafa þau unnið verk þar sem byggt er á samkennd einstaklingsins við umhverfi sitt, menningu og sögu. Þau hafa meðal annars dvalið á Grænlandi, Íslandi og Ástralíu við vinnu sína. Meðal verkefna sem þau vinna að um þessar mundir er að kort- leggja alla uppstoppaða ísbirni á Bretlandseyj- um með ljósmyndum, og ítarlegum upplýsing- um. Sýningarnar þrjár í Listasafni Reykjavíkur standa til 2. nóvember. Hús, hrafnar og háleitir prestar í Listasafni Reykjavíkur Morgunblaðið/Árni Sæberg Mark Wilson og Bryndís Snæbjörnsdóttir við verk sitt, Vögguvísur. Morgunblaðið/Ómar Níels Hafstein sýningarstjóri með íslenskum fuglum. Morgunblaðið/Ómar Íslenskt alþýðufólk er viðfangsefni margra er sýna á sýningunni Yfir bjartsýnisbrúna. Morgunblaðið/Ómar Pétur Ármannsson við líkan af einu þekktasta húsi Högnu Sigurðardóttur. begga@mbl.is

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.