Lesbók Morgunblaðsins - 22.11.2008, Blaðsíða 12
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 22. NÓVEMBER 2008
B
réf til föðurins er magnað skáldævi-
sögulegt verk úr smiðju Franz
Kafka. Um er að ræða bréf sem
Kafka skrifaði til föður síns og átti að
vera uppgjör þeirra feðga. Vissulega
er um krassandi reiknisskil að ræða
en bréfið komst hins vegar aldrei í
hendur þess sem það er stílað á.
Til allrar hamingju komst þó bréf-
ið í hendur okkar lesenda: hugs-
anlega hefur það átt að verða
eldsmatur, að ósk Kafka, en
bjargast vegna „svika“ Max
Brod sem átti að farga
dagbókum, skáldskap
og fleiru.
Bréfið er mögnuð
heimild um hinn
„veikburða“ og
„veiklundaða höf-
und“ (eða mýtuna
um hann) sem átti í
stöðugri baráttu við
sjálfan sig og aðra –
og ekki síst skrifin. Í
Bréfinu er ef til vill að
finna skýringu á meintu veik-
lyndi Kafka og þeirri afmáningu
eigin sjálfs sem kemur fram í
verkum hans.
Kafka gerir býsna góða grein fyrir sambandi
þeirra feðga en auðvitað er bréfið skrifað frá
hans sjónarhorni. Í stuttu máli þykir Kafka fað-
ir sinn vera alltof sterkur og strangur. Þeir ná
aldrei saman og Kafka segir að faðir hans átelji
hann fyrir „kaldlyndi, fáleika, vanþakklæti“.
Þeir eru að því er virðist algerar andstæður,
faðirinn sterklegur og ruddalegur mathákur
sem stærir sig af því að skófla í sig matnum og
ekkert hangs! Þú varst svo risavaxinn í öllu til-
liti, segir Kafka.
„Drottnandi skaphöfn“ föðurins hafði, að
sögn Kafka, varanleg áhrif á hann: Að eigin
sögn hættir hann að geta talað: „… þú bannaðir
mér snemma að taka til máls, hótun þín: „engin
mótmæli, ekki orð!“ og hin upplyfta hönd til
áherslu, þær fylgja mér æ síðan.“
„Þegar ég var barn var allt sem þú hrópaðir
til mín beinlínis boðorð af himnum …“ (19)
Eitt sterkasta atriðið í þessum dúr er þegar
kornungur Kafka vaknar kjökrandi í rúminu
sínu og kallar endurtekið eftir vatni. Eftir
nokkrar árangurslausar hótanir kemur faðirinn
æðandi, ber hann út á svalir og lætur hann dúsa
þar „einan í náttserknum utan við luktar dyr“.
Þarna er kannski kominn „atburðurinn“ sem
skilgreinir samband þeirra feðga. Enda þjáðist
Kafka „[á]rum saman […] af þeirri hugsun að
þessi risastóri maður, faðir minn, æðsta
vald, gæti komið að næturlagi, tekið mig úr
rúminu og borið mig svo að segja að ástæðu-
lausu úr á svalirnar, og að ég væri honum
semsagt einskis virði“. Þessi tilfinning, um að
vera einskis virði, fylgir svo Kafka alla tíð.
Ýmislegt annað kemur auðvitað fram í Bréf-
inu: sambönd Kafka við konur og tilraunir hans
til að kvænast (sem hann bendlar við föður
sinn), sambandið við „algóða“ móður, systkini,
o.fl. En er eitthvað gaman að svona væli og
ásökunum? Bréfið er í stuttu máli eins og
spennandi nóvella þar sem höfundurinn tekst á
við Föðurinn og Súper-egóið – það er að segja,
við sjálfan sig. Á einhverju plani er Kafka í
hlutverki Don Kíkóti í hamslausri baráttu við
vindmillur, enda bréfið í raun stílað á hann
sjálfan.
Í lok Bréfsins gefur Kafka föður sínum orðið
og skrifar „andsvar“ á þriðju blaðsíðu fyrir
hans hönd. En tilgangurinn er væntanlega til
að gæta „jafnræðis“ og til að fullkomna bók-
menntaverkið, nóvelluna.
Bréfið minnir óneitanlega á sjúkdómstilfelli
eða sjúkdómsskýrslur Freuds (svo sem um
Dóru og Hans litla) sem eru í sjálfu sér frábær
bókmenntaverk. Í Bréfinu liggur beint við að
skoða samband feðganna og (þeirra mæðgina),
út frá ödipusarduldinni, eins og Freud skil-
greindi hana.
Þýðendur Bréfsins, feðgarnir (annað hefði
ekki verið við hæði) Ástráður Eysteinsson og
Eysteinn Þorvaldsson, skrifa ágætan eftirmála
og skýringar sem þeir kalla „Hin ljósfælna
vera“. Bréf til föðurins er ómissandi bók-
menntaverk.
BÆKUR
GEIR SVANSSON
BRÉF | Bréf til föðurins
Eftir Franz Kafka. Forlagið 2008, 105 bls.
bbbbb
Bréfið er mögn-
uð heimild um
hinn „veik-
burða“ og „veiklund-
aða höfund“.
Eysteinn
Þorvaldsson
12 LesbókGAGNRÝNI
Kafka
„Drottnandi skaphöfn“ föð-
urins hafði, að sögn Kafka,
varanleg áhrif á hann.
Risavaxinn í öllu tilliti
Ástráður
Eysteinsson
Fyrir gráglettni örlaganna
flækist króatískur leigu-
morðingi til Íslands – held-
ur af stað út á flugvöll á
flótta undan bandarísku al-
ríkislögreglunni og bregður sér í búning
heittrúaðs sjónvarpsprests. Af verður mikið
uppistand. Á pappírnum var þetta fín hug-
mynd, spennandi jafnvel; gamansamur
spennutryllir fyrir hugsandi fólk. Svo gerðist
eitthvað. Útkoman er nefnilega ekki spennandi
og ekki fyndin. Farsinn bara fars. Froskafars.
BÆKUR
Farsinn
froskafars
SKÁLDSAGA | 10 ráð til að
hætta að drepa fólk og byrja
að vaska upp
Ertir Hallgrímur Helgason
bbnnn
Árni Matthíasson
Á kápu þessarar ljúfsáru
bókar segir að um „sanna
lygasögu“ sé að ræða. Höf-
undur kemur fram undir
réttu nafni þar sem fylgst
er með fyrstu árum hans og basli fjölskyld-
unnar vestur í bæ. Frásögnir af því hvernig
drengurinn upplifir heiminn; lýsingar á for-
eldrum, vinum og óvinum, drykkfeldum ná-
grönnum, krökkum í braggahverfinu og upp-
hafi skólagöngunar, eru hrífandi. Dramatískar
og einlægar. Ætíð er stutt í húmorinn og höf-
undi tekst að spegla stærri heim í nærheim-
inum, þar sem sakleysi bernskunnar lýkur
með dauða „Gluggahestsins“.
Birtast aftur þessir
horfnu dagar
SKÁLDÆVISAGA | Fluga á
vegg
Eftir Ólaf Hauk Símonarson.
Skrudda 2008. bbbbn
Einar Falur Ingólfsson
Það er eitthvað voðalega
sætt við það að tveir lang-
tíma vinir, annar bakari en
hinn með ballreynslu, ákveði að slá til og gera
plötu úr þeim lögum er þeir hafa átt á lager
eftir áralangt fikt. Eða, alveg þar til að platan
er komin í tækið og hlustandinn kemst að því
að öll lögin eru eitt af eftirfarandi; a) stuttar
skeytlur sem eru endurteknar til þess að ná
upp í hefðbundna lagalengd, b) mislukkaðar
tilraunir í textagerð við að framkalla svipaðar
tilfinningar og Hótel Jörð gerði fyrir um 30 ár-
um eða c) allt of væmnar píanóballöður um eig-
inkonur þeirra félaga er hefðu aldrei átt að yf-
irgefa hjónasængina.
PLÖTUR
Haldist sem
einkamál
POPP | Guðmundur Guðfinns-
son og Tómas Malmberg –
Trúnaðarmál bnnnn
Birgir Örn Steinarsson
Baggalútur hefur um árabil
verið einhver skemmtileg-
asti hópur manna á landinu,
en auk þess að starfrækja hljómsveit hefur
hann haldið úti óborganlegri síðu á netinu. Það
sem Baggalúti hefur tekist umfram flestar
aðrar íslenskar hljómsveitir er að höfða til
gríðarlega breiðs hóps fólks, fólks á öllum aldri
og alls staðar á landinu. Nýjasta nýtt hvikar
hvergi frá þessari stefnu, enda stórskemmtileg
plata. Tónlistin er einstaklega grípandi og mel-
ódísk, sérstaklega fyrstu tvö lögin, „Kósíkvöld
í kvöld“ og „Stúlkurnar á Internetinu“. Þá eru
textarnir sérlega frumlegir og nafnorðið „ást“
og sögnin „að elska“ koma skemmtilega sjald-
an fyrir. Þéttur hljóðfæraleikur og flottar út-
setningar með strengjum og fleiri hljóðfærum
hjálpa svo til við að gera Nýjasta nýtt að
skemmtilegustu plötu ársins.
Frábær skemmtun
POPP | Baggalútur – Nýjasta
nýtt bbbbm
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Lesandi Steindýranna gengur inn í æv-
intýraheim sem lofar strax góðu. Slegist er í
för með þremur krökkum en einn þeirra er
sögumaðurinn, nafni höfundarins. Dýrin í
þorpi krakkanna taka að steingerast og um
leið gleymir fullorðna fólkið þeim. Söguhetj-
urnar taka til sinna ráða, halda inn í Dimma-
helli, kynnast huldufólki og leggja upp í sann-
kallaða ævintýraferð, til að sleppa skrímsli úr
prísund og um leið bjarga jörðinni.
Söguheimurinn er frumlega byggður og vís-
ar á forvitnilegan hátt í sagnaarfinn. Í senn
tengist hann þjóðlegum ævintýraheimi, með
huldufólkssögum, og drekaævintýrum. Höf-
undur spinnur frásögnina af snerpu, hún er
spennandi og tengist jafnframt á áhugaverðan
hátt mikilvægum samtímamálefnum, eins og
mengun og misnotkun á náttúrunni.
Einn helsti galli sögunnar felst í frásagn-
arhættinum. Eitt barnanna segir frá og les-
andinn sér ekki mikið meira en hann upplifir,
og er það miður, ekki síst þar sem frásögnin
verður á köflum full hröð, og trosnar þá nokk-
uð. Sagan kann að virka betur í upplestri því
sá sem les vill á stundum fá heiminn dreginn
skýrari dráttum; það hefði því mátt hægja á á
köflum og huga betur að undirstöðum frásagn-
arinnar og víðari útlínum söguheimsins.
Þótt frásögnin hafi verið heldur brokkgeng-
ari en upphafið lofaði, er þetta engu að síður
afar efnilegt fyrsta verk höfundar. Ég veit um
unga lesendur sem bíða spenntir eftir að sjá
hvað hann skrifar næst.
BÆKUR
EINAR FALUR INGÓLFSSON
BARNABÓK | Steindýrin
Eftir Gunnar Theodór Eggertsson. Vaka-Helgafell,
2008. bbbnn
Þjóðlegur
ævintýraheimur
Nú er komin út fjórða bókin um Fíusól,
„hugmyndaflugmann og flækjuhaus“ eftir
Kristínu Helgu Gunnarsdóttur. Fíasól er
frumleg, sjálfstæð og skemmtileg stelpa sem
hefur sigrað hjörtu íslenskra barna. Hún býr
í Grænalundi í Grasabæ, glímir við heima-
lærdóminn, meiðir sig í sundi og dreymir
skrýtna drauma um sjóræningja. Hún fer
líka stundum í sveitina til ömmu og afa í
Poka með systrum sínum, Biddu og Pippu.
Sögurnar í bókinni eru á léttum nótum,
fullar af húmor sem bæði börn og foreldrar
skilja. Boðskapur bókarinnar er bæði um-
hverfis- og fjölskylduvænn og ljóst að krakk-
ar geta haft á réttu að standa og vita meira
að segja sumt betur en fullorðnir. Í kafla
sem heitir Tækjalausi dagurinn ákveður Fía-
sól t.d. að nota engin tæki sem ganga fyrir
annarri orku en þeirri sem hún getur fram-
leitt sjálf. Og það er erfitt fyrir litla stýrið,
sérstaklega þegar foreldrarnir nenna helst
ekki að standa í því með henni. Vel er leyst
úr erfiðum málum eins og fráfalli heimilisvin-
arins Hansínu og spurningunni um tilvist
jólasveina. Myndskreytingar Halldórs Bald-
urssonar eru frábærar og falla að efninu eins
og flís við rass. Aðdáendur Fíusólar hafa
beðið spenntir eftir framhaldi á ævintýrum
hennar og verða ekki fyrir vonbrigðum, enda
er Fiasól bara flottust!
Langflottust
BÆKUR
STEINUNN INGA ÓTTARSDÓTTIR
BARNABÓK | Fíasól er flottust
Eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur.
Myndskreytingar eftir Halldór Baldursson.
Mál og menning 2008, 146 bls. bbbmn