Akranes - 01.12.1945, Blaðsíða 20

Akranes - 01.12.1945, Blaðsíða 20
152 AKRANES Jakob Hafstein: ÚR MINNISBÓK MINNI I flugvél frá London til Oslóar Klukkan er sjö árdegis, þegar dyravörðurinn á gistihús- inu, sem ég bjó í Lundúnum, vekur mig, en að þrem stund- um liðnum á ég að leggja af stað fljúgandi frá Croydon-flug- vellinum í útjaðri borgarinnar til Fornebo-flugvallarins við Oslóborg. Veðrið er hið ákjósanlegasta. Nærri heiður himinn og ör- lítill suðvestan kaldi. Þetta lofar góðu um flugferðina, sem ég hafði beðið eftir og þráð í fjóra daga, og nú er heiðríkja og meðvindur. Væntanlega verðum við farþegarnir 17, ásamt þrem ungbörnum, ekki gerðir afturreka eins og dag- in áður, þegar við biðum þrjár stundir í flugskálanum, óþol- inmóðir eftir því, hvort flogið yrði. Vissulega má með sanni segja, að þennan bjarta og fagra haustmorgun hinn 27. október það herrans ár 1945, gekk allt að óskum. Engar tafir urðu á skrifstofu brezka flughersins í St. James Street númer 20, enda hafði allur farangur okkar farþeganna verið veginn og auðkenndur daginn áður, svo og tollskoðun af hendi leyst. Og klukkan 10 á mínútunni er lagt af stað með norskri tveggja hreyfla Dakotaflugvél, sem fyrst í stað flýgur dálítinn hring inn yfir Lundúnaborg, áður en stefna er tekin í norðaustur til áfangastaðar. Þegar ég var í barnaskóla og lærði mína landafræði þar fyrir 20 árum var mér kennt, að Lundúnaborg væri stærsta borg veraldarinnar, en síðan hef ég margsinnis heyrt unga og aldna skeggræða um það, hvor væri stærri New-York eða London. En um það verður ekki þrætt hér og heldur ekki neinu slegið föstu. Um hitt verður hins vegar ekki deilt, að Lundúnaborg sé ægilega risavaxin, og þó að ég hafi orðið gagntekinn og undrandi á stærð hennar og mikilleik, þegar ég kom þangað í járnbrautinni og ferðaðist um borgina, þá varð undrun mín enn meiri, þegar ég leit yfir þessa risaborg úr flugvélinni þennan þokulausa og silfurtæra októbermorg- un. Svo langt sem augað eygði teygðu sig húsaraðirnar og hurfu út í fjarskann, en Themselfur liðaðist eins og gljáandi silkiormur í gegnum borgina. Upp úr húsaþvögunni gnæfa hinar stærri og miklu byggingar, og þó að ég þekki fáar þeirra, get ég samt sem áður áttað mig á hinum frægu turn- um Pálskirkjunnar og Parlamentsins. Hinn gullni kross Pálskirkjunnar glóir fagurlega í árdegis- sólinni og þetta furðulega fagra guðshús stendur tígulegt og nærri óskemmt eftir orustuna um Lundúnaborg, þó að tund- ur- og eldsprengjur Þjóðverja hafi jafnað við jörðu bygging- um á mörgum ekrum lands, sem byggt var fögrum stórhýs- um, fast upp að hinni fögru og frægu kirkju hins heilaga Páls postula. Enda er það á orði haft að Bretar hafi tekið þetta sem tákn frá himnum um sigur í styrjöldinni, að Pálskirkj- an stóðst allar árásir hinna þýzku vítisvéla. Og fagurlega samræmist slík hugsun hinni víðkunnu kirkjurækni og trú- hneigð brezku þjóðarinnar, sem fróðir menn telja einn meg- in þáttinn í þolgæði, skapfestu og sigurvissu hennar í stjórn- málabaráttu og stríði við aðrar þjóðir, þegar slíkt hefur að henni steðjað. En nú er flugvélin komin út fyrir takmörk þessarar mikiu heimsborgar og við fljúgum í áttina til Ermarsunds, yfir gagnræktaðar ekrur Englands, þar sem skiptast á akurlönd, sáðsléttur og skógarlundir, eins og reitir á skákborði. Veg- irnir teygja sig þráðbeinir í gegnum landið og eimlestirnar senda frá sér svarta reykjarmekki og hvíta gufustróka, brun- andi eftir teinum sínum til eða frá Lundúnum. Þetta er ólíkt því, sem íslenzk augu eiga að venjast, og þó að tign og feg- urð íslenzku fjallanna og jöklanna sé miklu stórfenglegri en það landslag, sem hér blasir við manni, verður ekki hjá því komizt að þeirri ósk skjóti upp í hug mans, að okkar ást- kæra og víðáttumikla land væri ríkara að gróðri, og að ís- lenzk mold gæfi ríkari ávexti til heilla og hagsældar fyrir þjóð vora. Innan stundar blasir við okkur austurströnd Englands með útgrynni sínu, en utar gjálfra öldurnar hæglátlega á sæbláu Ermarsundinu. Örlítill þokuslæðingur liggur yfir haffletin- um í suðurátt, en hindrar á engan hátt ferð okkar. Ég skyggnist eftir skipaferðum og undrast mjög mikið yfir því að koma hvergi auga á nokkra fleytu á þessari afar fjölförnu siglingaleið. Þá var öldin önnur þegar Bretar voru að bjarga liði sínu frá Dunkirque, eftir hrakfarirnar við Þjóðverja í byrjun styrjaldarinnar. Þá var allt Ermarsund þakið skipum og bátum, sem brúuðu nærri þetta sund á milli Englands og meginlands Evrópu, eins og kvikmyndirnar hafa sýnt okk- ur, og orustuflugvélar klufu háloftin, spúandi eldi og blýi úr vígvélum sínum. Nú ríkir friður og ró í lofti og á legi og hvorki skip né flugvélar á vegi okkar svo vítt sem sér. En í austurátt er Þýzkaland nazismans sigrað og í sárum, og þjóðin geldur nú skuldir fyrir hryðjuverk foringja sinna í skorti og fátækt. En getum við, sem lifum í dag, horft tú framtíðairnnar bjartsýn og vongóð um langvarandi ár og frið, framfarir og menningarlega þróun? Og gefur ástandið í heiminum í dag ástæðu til slíkrar bjartsýni? Það er skylda vor að trúa á það, að hinn hörmulegi hildarleikur, sem ný- lega er lokið, hafi þroskað og eflt tilfinningar manna og þjóða fyrir hinu góða og fagra í heiminum. En tíminn mun úr því skera, hvort tortryggnin veldur ekki sundurþykkju og annarri enn hryllilegri styrjöld. Norsku flugmennirnir, sem stjórna þessari miklu og fallegu flugvél, eru hinir geðþekkustu menn. Einn þeirra kemur til okkar farþeganna yfir miðju Ermarsundi og útbýtir okkur nestisbögglum. Andlitin ljóma af gleði þegar við opnum bögglana, sem geyma epli, appelsínu og nokkrar lostætar brauðsneiðar. Ég spyr flugmanninn hvert stefni, en hann tjáir mér að vegna öryggis sé fyrst haldið til norðurmarka Hollands, og brosir góðlátlega til mín um leið og hann segir: „Og þess vegna verðum við dálítið lengur á leiðinni til Os- lóar,“ en mér finnst andlit hans ljóma þegar hann nefmr þetta eina nafn, „Osló“. Þeir, sem flæmdir hafa verið frá ættjörð sinni um margra ára bil, kunna vafalaust miklu bst- ur að meta og skilja ættjarðarástina en hinir, sem jafnan hafa lifað í „vellystingum praktuglega“ í sínu eigin landi. Eftir drykklanga stund kemur flugstjórinn til okkar far- þeganna og rabbar við okkur. Hann bendir út um stjórn- borðsgluggann og segir: „Þarna er Holland með öllum sínum skurðum, flóðgörðum og flatneskju, og bráðum fljúgum við yfir Helgoland, sem einu sinni var,“ og bros leikur um varir hans. Síðan snýr hann sér að litlu stúlkunum og fer að gæla við þær. Þetta er glæsimenni, hár og herðabreiður, miðmjór og kempulega vaxinn. Það er meira en að hann bjóði af sér góðan þokka. Það er hvorttveggja öryggi og ró, sem hann flytur farþegum sínum, og þannig eiga flugmenn að vera. Ég horfi nú til suðurs og sé aðeins móta fyrir hinni afarlágu Hollandsströnd. En þegar ég kem ekki auga á Helgoland, sem virðist hulið þokuslæðu, spyr ég flugstjórann, hvað hann hafi átt við, þegar hann sagði „Helgoland, sem einu sinni

x

Akranes

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Akranes
https://timarit.is/publication/865

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.